Showing posts with label jómfrúarolía. Show all posts
Showing posts with label jómfrúarolía. Show all posts

Sunday, 15 March 2020

Lífið í sóttkví: Dásamleg nautarifjakássa með rauðvíni, tómat og cassislíkjör og penne pasta


Þetta er ótrúlegir tímar sem við lifum á í dag. Það er óhætt að segja að heimurinn sé að breytast dag frá degi. Sjálfur hef ég verið í sóttkví ásamt fjölskyldu minni, fyrst heima hjá mér og svo nú í sumarhúsi foreldra minna í Kjósinni. Það var gott að skipta um umhverfi. Það er erfitt að vera í sóttkví. Og ég veit líka hvað það er erfitt að vera í veikur í einangrun. Það veit ég frá fyrstu hendi þar sem ég hef tekið þátt í því verkefni að vitja Covid-19 veikra sjúklinga í heimahúsi auk þess að sinna gigtarsjúklingum mínum með fjarlækningum. Þetta er krefjandi en á sama tíma mjög gefandi verkefni. Ég er einkar þakklátur að fá að taka þátt í þessu og fá að sinna öllu þessu fólki. Þetta er tími til að standa saman og styðja hvert annað. 

Ég hef líka notað tímann til að dunda mér í eldhúsinu. Það er gott að vinna heima vitandi að það bíður ljúffeng máltíð í lok dags. Þessi nautarif fann ég frystinum. Þau eru beint frá bónda.

Þessa máltíð eldaði ég á miðvikudagskvöldið - sem var þá þriðji dagur í sóttkví. 

Lífið í sóttkví: Dásamleg nautarifjakássa með rauðvíni, tómat og cassislíkjör og penne pasta

Hráefnalisti (fyrir sex - en þetta dugar vafalaust fyrir fleiri)

2 kg nautarif
3 sellerísstangir
5 gulrætur
2 gulir laukar
5 hvítlauksrif
2 msk Edmond Fallot rauðvínsedik
4 msk hveiti (bragðbætt með salti, pipar og hvítlauksdufti)
4 msk jómfrúarolía
1/2 flaska gott rauðvín
3 dósir niðursoðnir tómatar
4 msk ítölsk kryddblanda (hefði notað kryddvöndul en var í sóttkví)
600 ml nautasoð
salt og pipar

500 g Rustichella d'Abruzzo Penne


Það er ekki leiðinlegt að elda úr svona hráefni. Þetta nautakjöt var beint frá býli.

Fyrst er að velta kjötinu upp úr bragðbættu hveiti.


Svo er kjötið brúnað að utan í nokkrar mínútur þangað til að það hefur tekið á sig fallegan lit.


Næst er að skera grænmetið; gulræturnar gróflega, laukinn, selleríið, hvítlaukinn heldur fínt og mýkja í pottinum. Þá er að bæta kjötinu aftur í pottinn og hella edikinu saman við og láta það sjóða niður og nudda botninn á pottinum til að ná upp kraftinum sem er fastur á botninum.


Næst er að bæta rauðvíninu saman við - ég setti hálfa flösku eða svo. Sauð upp áfengið og bætti svo niðursoðnum tómötum saman við ásamt nautasoðinu.


Villi Bjarki hefur verið afar áhugasamur um að hjálpa mér við mér við matargerðina. Hann sá um að krydda matinn.


Bætti smá skvettu af Cassis Noir De Bourgogne - þetta er ljúffengur sólberjalíkjör frá Búrgúndarhéraði í Frakklandi. Hann er einkar ljúfur á bragðið með djúpt sólberjabragð.


Svo er bara að láta suðuna koma upp og setja svo pottinn inn í 150 gráðu heitan ofn og leyfa honum og dvelja þar í fjórar til fimm klukkustundir.


Það er mikilvægt að sjóða pastað í ríkulega söltuðu vatni.


Kássan er tilbúin þegar beinin renna auðveldlega frá kjötinu. Svo er bara að bera veisluna á borð.

Eins og ég nefndi hér að ofan þá var þessi réttur eldaður fyrir fjölskylduna en hún dugar fyrir fjöldann allan af fólki - ég hefði boðið vinum og vandamönnum en þar sem við erum í sóttkví þá urðum við lögum samkvæmt að draga línurnar.


Með matnum nutum við Masi Nectar Campofiorin sem er frá sveitunum skammt fyrir utan Verónaborg á norðanverðri Ítalíu. Þetta er sérstaklega ljúffent vín. Hugur minn leitar oft til Ítalíu - ekki bara vegna þess að ég hef heimsótt þennan framleiðenda, og ekki bara vegna hve vænt mér þykir um Ítalíu - og hef farið þangað í ferðalög reglulega liðna áratugi, og ekki bara vegna þess hversu dásamlegur maturinn þeirra er, vínið og menningin - en þá sérstaklega núna - í ljósi þeirrar eldraunar sem þeir eru að ganga í gegnum. 


Þetta var dásamleg máltíð.

Og gerði sóttkvínna léttari!

Verði ykkur að góðu.

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 7 October 2018

Snöggsteiktar nautasteikur ala Marco Pierre White í grænpiparsósu með ofnbökuðum kartöflum og fersku salati


Ég hef verið að horfa á Michelin- og sjónvarpskokkinn Marco Pierre White á Youtube upp á síðkastið. Fyrir þá sem ekki vita þá var hann líklega einn af fyrstu stjörnukokkum Bretlands. Hann rak nokkra veitingastaði, af þeim var Harvey's í London þekktastur og hann þjálfaði aðrar verðandi stjörnur eins og Gordon Ramsey. Hann var þekktur skapofsamaður og tók Gordon upp eftir honum þegar hann fór að reka eigin eldhús með öskrum, blóti og ragni eins og frægt er orðið. Á miðjum áttunda áratugnum var hann yngsti kokkurinn til að fá þrjár Michelin stjörnur, þá aeðins 33 ára gamall (met hans var þó slegið nokkrum árum síðar). Árið 1999 - öllum að óvörum - hengdi hann upp svuntuna sína og hætti að starfa í eldhúsi. 

Eitthvað þurfti hann þó að gera til að draga fram lífið og rekur í dag veitingastaði, hefur gefið út fjölda matreiðslubóka og komið fram í sjónvarpi - og er forríkur.  Það orkaði þó tvímælis þegar hann gerðist talsmaður Knorr fyrirtækisins, sem flestir þekkja, og sagði þá vera leynivopn sitt í eldhúsinu og hafa verið það um langt árabil. Hneykslunaralda gekk yfir fylkingu matreiðslumanna sem margir gera allt frá grunni! 

Eins og flestir þá nota ég kraft (bæði teninga, duft og vökva) - það er auðvitað fljótlegt. En maður verður ekkert sérlega innblásinn þegar maður les innihaldslýsinguna - þarna er auðvitað salt og fita auk bragðaukandi efna eins og gerextract og mónósódíum glútamat og svo smá kjöt. Ekki að það sé eitthvað slæmt - en kannski ekki eitthvað sem þriggja stjörnu kokkur myndi státa sig af. Þannig að ég varð að prófa. 

Snöggsteiktar nautasteikur að hætti Marco Pierre White í grænpiparsósu með ofnbökuðum kartöflum og fersku salati

Þetta telst seint vera merkileg eldamennska - en þar sem þetta heppnaðist vel þá fannst mér skemmtilegt að greina frá því. 

Svo má jafnframt benda á að ég er ekki talsmaður Knorr - maður má nota hvaða kraft sem er, frá hvaða merki sem er! Þetta var bara það sem ég átti til í skúffunni. 

Hráefnalisti fyrir 6 

6 steikur (200-250g)
3 msk jómfrúarolía
2 kjötkraftsteningar 
pipar
smjör til steikingar

Fyrir sósuna

4 msk Worchestershire sósa
400 ml rjómi
3 msk þurrkuð græn piparkorn
salt og pipar eftir smekk

kartöflur
4 msk hvítlauksolía
ferskt timjan
salt og pipar

blanda af íslensku grænmeti


Ég notaði sumsé venjulegan nautatening.


Og maukaði hann vel niður í jómfrúarolíu með fingrunum.


Svo var nautakraftsmaukinu bara nuddað vandlega inn í kjötið. 


Næst var að steikja kjötið að utan í nógu af smjöri þangað til að það var fallega karmelliserað á hvorri hlið. Ég steikti í tæpar 2 mínútur á hvorri hlið og setti svo steikurnar til hliðar á meðan ég útbjó sósuna.


Og þetta er með aleinföldustu sósum sem ég hef gert! Hellti Worchestershiresósunni á pönnuna og sauð upp og svo niður um helming. 


Næst, nóg af rjóma - sem var líka látin krauma og sjóða niður um þriðjung. 


Svo var bara að bæta grænum piparkornum saman við og láta krauma í tvær til þrjár mínútur í viðbót.


Svo var lítið annað að gera en að koma steikunum fyrir og bera á borð fyrir svanga gesti.

Við höfðum auðvitað byrjað á kartöflunum. Fyrst skornar niður í helminga, velt upp úr hvítlaukolíu og svo bragðbættar með salti, pipar og fersku timjan. Bakað í forhituðum 180 gráðu heitum ofni í 45 mínútur.

Salatið var heldur ekki flókið, enda þarf það ekkert að vera það. Bara að raða fersku íslensku grænmeti ofan á fersk salatblöð sem búið er að skola. Smá fetaostur til að lyfta því upp og gefa aðra áferð.




Ég greip þessa flösku með mér þegar ég var á leið í gegnum tollinn síðast. Þetta vín hef ég smakkað einu sinni áður fyrir tæpum tveimur árum. Ég hef lengi verið hrifinn af Malbec vínum frá Argentínu - sér í lagi eftir að ég heimsótti landið vegna ráðstefnu fyrir fimm árum. Þetta vín er frá 2015 - dökkrautt, næstum blekað, í blasi - ljúfir tónar af berjum, jafnvel bláberjum, eik. Flauelsmjúkt á tungu með ljúft og breitt eftirbragð. 


Svo var bara að raða á diska og setjast niður og njóta.

Og það er óhætt að hvetja ykkur til að prófa - þetta varð einstaklega bragðgóð og bragðmikil steik!

Bon appetit! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Thursday, 14 September 2017

Ljómandi Klausturbleikja á fjölskrúðugu grænmetisbeði með hvítvínslagaðri rjómasósu


Þessi réttur er ljómandi - hann er fljótlegur, einfaldur og að auki er lítill frágangur þar sem hann er allur eldaður í einni pönnu. Ég hef verið frekar duglegur við að elda fisk síðastliðnar vikur og reynt að elda hann oftar í viku en ég hef vanið mig á áður. Ástæða þess er ekki bara vegna þess að hann er fljótlegur, ferskur og ljúffengur heldur að ég hef verið að prófa mig áfram að fylgja matarræði kenndu við bók sem ég hef verið að lesa undanfarið - The Pioppi Diet.

Í fyrra kynntist ég Aseem Malhotra, breskum hjartalækni, sem kom og hélt erindi á ráðstefnu sem vinur minn og kollegi, Guðmundur Freyr, stóð fyrir - Foodloose. Ég var með matreiðslunámskeið í tengslum við þessa ráðstefnu og kollegar mínir tóku báðir þátt. Dr. Malhotra hefur fengið síaukna umfjöllun í breskum dagblöðum vegna afstöðu sinnar til matarræðis og sjúkdóma. Hann gaf út bók nú fyrir skemmstu þar sem hann færir nokkuð sannfærandi rök fyrir máli sínu - The Pioppi Diet (Pioppi matarræðið) sem hann skrifar ásamt félaga sínum Donal O'Niell.

Og þó að ég kaupi ekki alveg að ítalskt matarræði sé eins og þeir eru að lýsa því (ekkert pasta og ekkert brauð) þá er boðskapur bókarinnar að mestu afar góður. Að borða alvöru mat, mikið grænmeti, meiri fisk og nóg af jómfrúarolíu. Hljómar vel í mínu eyru, og eiginkonu minnar - Snædísar sem er mikið fyrir sjávarfang. Og að verða sér út um ljúffengt sjávarfang er einfalt á Íslandi - Ég fer alltaf í Fiskbúðina á Sundlaugaveginum!

Ljómandi Klausturbleikja á fjölskrúðugu grænmetisbeði með hvítvínslagaðri rjómasósu

Ég keypti þennan "spirulizer" þegar ég var í USA fyrir ári á námskeiði í lyflækningum. Þetta er hentugt til að gera fallega borða úr grænmetinu. Fyrir þá sem langar að skipta pasta út fyrir eitthvað annað má nota þetta apparat til að skera út kúrbít eða sætar kartöflur og nota í staðinn fyrir spaghetti.

En mig langaði aðallega í fallegt beð af grænmeti og því ekki að nota nokkuð nýlegt leikfang sem ég hafði ekki verið nógu duglegur að leika mér með!

Hráefnalisti

Fyrir fimm

1 kg klausturbleikja.
2 kúrbítar
2 hnúðkál
2 stórar gulrætur
1 glas hvítvín
2 hvítlauksrif
100 ml fiskisoð
75 ml rjómi
1 tsk Worchestershiresósa
salt og pipar
3-4 msk jómfrúarolía
1 sítróna
1 msk fersk steinselja


Byrjið á því að skera grænmetið niður í borða (auðvitað má skera það niður á hvaða hátt sem er). Hitið olíuna á pönnu og þegar hún er heit steikið þá grænmetið í nokkrar mínútur. Saltið og piprið. 


Þegar grænmetið er mjúkt og eldhúsið ilmar dásamlega, hellið þið hvítvíninu á pönnuna og sjóðið upp áfengið. Bætið svo soðinu og rjómanum saman við og sjóðið niður um þriðjung. 


Skolið og þerrið bleikjuna og saltið hana og piprið.


Leggið bleikjuna ofan á grænmetið þannig að hún mari upp úr kafinu.


Setjið lok á pönnuna - eða hyljið hana með álpappír í nokkrar mínútur svo fiskurinn fái að eldast í gegn. 


Takið svo lokið af og stingið nokkrum sítrónubátum með inn á milli bleikjuflakanna.


Með matnum drukkum við Castillo di Molina Chardonnay Riserva frá því 2016. Ég man eftir að hafa smakkað þetta vín nokkrum sinnum á árum áður. Og ég man nú af hverju - þetta er ljómandi góður hvítvínssopi. Ilmar af ávexti, sýru - frísklegt og smjörkennt á bragðið - fellur afar vel að fiskrétti sem þessum.


Svo er bara að raða matnum á disk. Og njóta.

Fullkominn réttur þegar líða fer á vikuna.

Bon appetit!


Wednesday, 21 September 2011

Meiri hollusta: Dúndur heilhveiti Bruchetta með marglitum tómötum

tómatar-1

Ég var á næturvöktum í síðast liðinni viku, í fyrsta skipti í tæp þrjú ár, og það verður að segjast að það var ánægjuleg tilbreyting. Það er auðvitað allt önnur stemming að vinna á kvöldin og nóttinni. Það er samt nóg að gera á svona stóru sjúkrahúsi og verkefnin eru vissulega krefjandi. Maður verður pínulítið lúinn við að snúa sólarhringnum við - aldurinn færist auðvitað yfir. Ég man þegar ég var læknanemi og var að vinna í Keflavík, þá vann maður vandræðalaust í gegnum heila helgi - slíkt myndi ég ekki vilja endurtaka í dag.

Þessa brauðsneið fékk ég mér í seinustu viku, þegar ég var á leiðinni á vaktina, sannkölluð orkubomba. Þetta er auðvitað bara spin-off á venjulegri bruchettu - sem er venjulega snitta sem maður ristar á þurri pönnu, raspar síðan með hvítlauksrifi og maður setur síðan blöndu af tómötum, basil ofan á. Þetta er svo bara afbrigði af þessu - nema hvað til að gera þetta að meiri máltíð, þá skar ég stóra sneið af heilhveitibrauðinu sem ég bloggaði um í síðustu færslu og notaði sem "stór" snittuna mína.

Undanfarnar vikur hefur mikið borið á fjölbreytilegum og smáum, mislitum tómötum í verslnum og hjá grænmetissölunum niðri á torgi. Rauðir kirsuberja, plómu, gulir, appelsínugulir og þessir frábæru dökk grænu zebra tómatar - nóg úrval. Í þetta sinn keypti ég handfylli af rauðum kirsuberja og gulum tómötum.

heilhveitibrauð

Meiri hollusta: Dúndur heilhveiti Bruchetta með blönduðum tómötum


Hráefnalisti

Gott brauð
Handfylli kirsuberjatómatar
1/2 rauðlaukur
Basillauf
1-2 msk jómfrúarolía
1 msk balsamikedik
1 msk hvítlauksolía
Salt og pipar

Það tekur því varla að tala um uppskrift í þessu sambandi - þar sem þetta er auðvitað lítið annað en bara brauð með áleggi! Mjög góðu og frískandi áleggi!

steikt brauð-1

Fyrst var að skera smátt niður handfylli af rauðum kirsuberjatómötum og gulum tómötum í 2-4 bita eftir stærð, hálfan rauðlauk og blanda saman í skál. Bæta við handfylli af rifnum eða skornum basillaufum (sumir segja að maður varðveiti bragðið betur við að rífa basil heldur en að skera - mér finnst það ári gott sama hvernig farið er með það) og svo nokkrum steinseljulaufum. Síðan hellti ég saman við 1-2 msk af góðri jómfrúarolíu og síðan 1 msk af balsamikediki, saltað og piprað og svo blandað vel saman. Látið standa í nokkrar mínútur til að tómatarnir nái að marinerast aðeins í olíunni og edikinu.

brúshetta

Skar niður eina brauðsneið af fína heilhveitibrauðinu mínu og steikti í jómfrúarolíu og smátt skornum hvítlauk þangað til að það tók á sig smávegis lit þó án þess að hvítlaukurinn færi að brenna.

Svo var ekkert annað að gera en að taka til við að hrúga tómötum yfir brauðið og borða með bestu lyst!

closeup

Bon appetit!