Friday 27 June 2008

Stórgóð grilluð nautalund með kúrbítssneiðum, papríkum, sætum kartöflumog grænbaunpuré





Ég sit á nokkrum færslum. Það má eiginlega segja að ég sé nokkrum máltíðum eftir áætlun. En núna verður tekið til hendinni, brett upp ermar og allt það. Núna þegar ég er nýkominn heim að utan þá er maður fullur af innblæstri. Ég prófaði ýmsa veitingastaði í San Francisco; steikhús, fusion asískt, indverskt, franskt og einnig sjávarréttarstaði. Besti maturinn sem ég fékk var í hádeginu á föstudaginn þegar ég fékk mér Mahi mahi eldaða á cajunvísu með þistilhjörturavioli. Hljómar furðulega en þegar ég sat á verönd með útsýni yfir Monteray flóa, kristaltært hafið, selir flatmagandi á næsta skeri í glampandi sólskini með Bargetto hvítvín í hönd var vart annað hægt en að verða glaður. Skál!


Eins og ég nefndi þá er ég nokkrum færslum á eftir. Þetta er máltíð sem ég gerði fyrir nokkrum vikum síðan og hef dregið lappirnar með að birta. Þannig var mál með vexti að ég datt óvart inn á opnunarhátíð Linda verslananna þegar ég var að koma úr heimsókn frá tengdamóður minni. Ætli þetta hafi ekki verið fyrir rúmum þremur vikum. Ég legg ekki í vana minn að taka þátt í svona hópsamkomum fyrirtækja en þetta var í leiðinni og blöðrurnar sjarmeruðu börnin. Og svo tilboðin mig.

Þar sá ég á tilboði þessa nautalund - og ég gat hreinlega ekki staðist það að kaupa þetta og elda. Það er nánast óþarfi að vera með uppskrift af svona máltíð. Það sem skiptir máli með nautakjöt er bara að leyfa því að njóta sín. Þessi matur var að sjálfsögðu grillaður...eins og tíðkast á fallegum íslenskum sumarkvöldum.


 


Þó verður að segja að kvöldið í kvöld varð heitara en oft áður. Grillið mitt - Charbroil Big Easy - gaf upp öndina. Ég hef áður nefnt í færslu hvurslags drasl þetta var hvað endingu snerti en núna má segja að fyrr má rota en dauðrota. Í kvöld varð grillið alelda. Þrátt fyrir að skrúfað hafi verið fyrir gasið og þá skíðlogaði í grillinu og hitinn á svölunum varð sem aldrei fyrr. Það endaði með því - þó eftir að ég bjargaði matnum af grillinu (í þetta sinn ljúffeng bleikja) - að ég varð að beita slökkvitæki á grillið. Kannski var þetta mér að kenna - ég hefði kannski átt að þrífa það oftar. En loginn var bjartur.

Stórgóð grilluð nautalund með kúrbítssneiðum, paprikum, sætum kartöflum og grænbaunpuré
Nautalundin var eins einföld í matseld og hugsast gat. Lögð á bretti, pensluð með góðri jómfrúarolíu, söltuð og pipruð. Grilluð þannig að stærsti endinn var rare, svo medium rare og svo well done - þannig fá allir eitthvað fyrir sinn smekk. Sumir segja þó að það sér einingis hægt að elda steik á þrennan hátt - rare, medium rare and ruined. Ég held að það sé eitthvað til í þessu.


Meðlætið var líka einfalt, kúrbítur skorin í langar grannar sneiðar, sætar kartöflur sömuleiðis í þunnum sneiðum, og rauðar paprikur í strimlum. Grænmetið var penslað varlega með hvítlauksolíu, saltað og piprað og svo grillað þar til tilbúið.

Grænbaunapuré-ið hef ég verið með áður á síðunni. Í þessari uppskrift er ekki notað ora grænar baunir í dós þó að þær séu nú ágætar til síns brúks. Ég kaupi frosnar sweet peas í poka. Nóg af vatni er hitað að suðu, saltað og baunirnar soðnar í nokkrar mínútur - ef búið er að þíða þær ca 4 mín en aðeins lengur ef þær koma beint úr pokanum. Því næst er vatninu hellt frá og baunirnar maukaðar töfrasprota. Því næst er steinselju, eða kóríander - bara vel af einhverjum ferskum kryddjurtum sett ofan í, handfylli af steinselju, og basil. Næst er sett smá smjörklípa (10-20 gr), smá rjómaost (1 msk) og svo er þetta allt maukað saman. Saltað og piprað að smekk.

Með matnum drukkum við Masi Brolo di Campofiorin. Þetta er bragðmikið ítalskt rauðvín. Eftir því sem ég hef lesið á netinu þá er það unnið á ákveðin hátt - tvígerjað - "Ripasso" svo geymt í tunnu í 36 mánuði og svo á flösku í 6 mánuði. Þetta var berjaríkt vín sem ilmaði af miklum ávexti, með tanníní í eftirbragði. Þetta rauðvín fær almennt prýðis góða dóma, Wine Spectator gefur 2004 árgangnum 88 púnta sem er fremur hátt.

Monday 23 June 2008

Næst besta lasagna allra tíma með góðu salati, brauði og góðu rauðvíni!

lasagnaíofni Ég kalla þetta næstbesta lasagna allra tíma vegna þess að konan mín, hún Snædís, gerir besta lasagna sem ég hef smakkað. Og eins og íslenskir pólitíkusar þá er ekki rétt að skipta um skoðun. En hennar lasagna er talsvert frábrugðið þessu. Þetta var mín útgáfa af lasagna - villibráðarútgáfa. Ég er búinn að vera að horfa í frystinn og stari þar reglulega á þessa nokkru bita sem ég á eftir af hreindýrakjöti sem ég var með í að veiða hér um árið. Það fer að verða aðkallandi að borða þetta og loka þannig hringum að dýrið sem ég veiddi verði aftur hluti af fæðukeðjunni en ekki bara íbúi í frystiskápnum mínum. Þetta er ekki mikil sumaruppskrift...en ég er eiginlega í kappi við tímann að klára úr frystinum!

Þegar svona miklu er tjaldað til þá reynir maður aðeins að vera frumlegur. En þegar maður hefur til viðmiðunnar besta lasagna allra tíma þá er þetta allt fremur illa viðhreyfanlegt - þannig að "the devil is in the detail" - eða hið góða - hvað sem því líður voru salatgerð1 breytingar fyrst og fremst fólgnar hráefninu; nautakjöt verður að hreindýrakjöti, smávægar breytingar á okkar bechamelsósunni, litlar áherslubreytingar. Meira vín í sósuna og svoleiðis. Þannig verður breytingin á endanum talsverð þrátt fyrir að ennþá heitir rétturinn lasagna - bara formsins vegna.

Andstætt því sem margir halda þá tekur ekki svo langan tíma að gera lasagna - það fer kannski hvað maður kallar langan tíma - í asi nútímans er kannski stuttur tími aðeins of stuttur fyrir svona matargerð. Þetta tekur í heild sinni svona fimm korter - með öllu - "from prep to plate" eins og sagt er í atvinnueldhúsum. 

lasagna tilbúið Næst besta lasagna allra tíma!.

Fyrst er að gera kjötsósuna. Ein og hálf gulrót, 2 sellerísstangir, ein rauðlaukur, 6 stór hvítlauksrif steiktar í olíu í smá stund þar til fer að mýkjast. Saltað og piprað til þess að kreista fram bragðið. Kjötinu er því næst bætt á pönnuna og brúnað. Þegar kjötið er eldað þá er tveimur ríflegum glösum af rauðvíni bætt saman við. Ég notaði Wolf Blass Eaglehawk úr kassa. Mér finnst ágætt að nota vín sem ég gæti vel hugsað mér að drekka í mat. Það er alger vitleysa að nota vín sem er skemmt - slíkt hefur mér alltaf þótt vera fráleitt, að nota eitthvað í mat sem þú myndir ekki ella leggja þér til munns. Þá er einu glasi af vatni, 2 msk af villibráðarkraft, 1 dós af niðursoðnum tómötum, 1 dós af tómatapaste, 2 tsk oregano, 2 tsk af paprikudufti, 30 steinhreinsuðum kalamataolívum, salti og pipar, handfylli af fersku basil og ferskri steinselju. Suðunni er leyft að koma upp og eldað í 30 mínútur á meðan restin af matnum er undirbúinn.

lasagnanærmynd1 Við hjónin erum eiginlega hætt að gera Bechamel sósu, manni blöskraði hálfpartinn við smjörmagninu og því byggði ég þessa uppskrift á hugmynd sem ég fékk frá Jamie Oliver. 1 stór dós af kotasælu, 3 dósir af 10% sýrðum rjóma, 1 dós af ansjósum í olíu, salt og pipar og svo einn niðurskorinn kamenbertostur (alla jafna myndi ég ekki gera þetta en þar sem ég var að vinna með svo virðulegt hráefni fannst mér ekki annað hægt en að djassa þetta vel upp - munið að þetta dreifst í tvö stór eldföst mót - þannig að þetta hlýtur að vera skárra en að nota smjörsósuna).

Eldfasta mótið er smurt léttlega með hvítlauksolíu, smávegis af hvítu sósunni er sett í botninn og svo er lasagnaplötum sett á það, þá aftur hvítri sósu, kjötsósu og svo plötur aftur og þetta endurtekið þar til að allt er uppurið. Endað á þunnu lagi af kjöt-/hvítri sósu og svo er smávegis af osti sáldrað yfir. Bakað í ofni við 180 gráðu hita í um 30 mínútur eða þar til að osturinn er bráðinn og orðinn fallega gullinn.

salat Með matnum var prýðisgott salat, lagt flatt á disk, fyrst þunnt skornar rauðar papríkur, svo þunnt skornir fallegir tómatar, þá þunnt skorin eggaldin - pensluð með hvítlauksolíu og grilluð í stutta stund, þá mozzarellaostur og svo nokkur basillauf. 

Með matnum nutum við Rosemount Show Reserve Cabernet Sauvignon Coonawarra frá 2002. Átti til flösku sem ég keypti um daginn á meðan vínið var undirverðlagt (á þessum síðustu og verstu tímum er sjaldgæft að maður sé að græða nokkuð. Þegar ég keypti það var það á 1450 krónur en er núna verðlagt á tæpan 2500 kall. Ekki að það sé ekki þess virði - það er bara ekkert slæmt að fá þessi gæði á útsöluverði. Þetta er vín með mikið berja og ávaxtarbragð samt á djúpu nótunum - eik í bakgrunni með löngu eftirbragði - tannín. Þetta vín ætti örugglega að geymast...en fjandinn þessi vín smakkast alltaf best í kvöld!

lasagna klárað


Friday 20 June 2008

Ofnbakaður kjúklingur með 40 hvítlauksrifjum, salato tricolore, góðubrauði og auðvitað ljúfu rauðvíni




Þetta er klassísk uppskrift. Það er varla til klassísk matreiðslubók þar sem þessi uppskrift er ekki látinn fljóta með. Í öllum matreiðslu bókum þar sem hvítlauki er hampað er spilar þessi uppskrift stóra rullu. Sennilega er það einfaldleikinn við þennan mat sem gerir hann svona stórkostlegan. ég hafði ekki eldað þessa uppskrift í langan tíma, þar til fyrir tveimur mánuðum síðan þegar ég var að horfa á gamlan þátt með Nigel Slater þar sem vinur hans, Alistair Little, gerði þennan rétt. Síðan þá hef ég eldað þennan rétt þrisvar sinnum. Ástæðan fyrir því að hann var ekki kominn á netið var sú að ég var alltaf hreinlega búinn að borða matinn áður en til myndatöku kom. Maturinn var bara svona góður. Reyni að vanda mig núna.


Ég gæti eins bætt við einu hvítlauksrifi og kallað þetta mína eigin en það myndu allir sjá í gegnum það. Í það minnsta allir sem lesa matreiðslubækur. Varðandi hvítlaukinn, þeas magnið, þá munu sumir segja að þetta sé alveg fráleitt magn. Þvert á móti...er þetta alveg ljúffengt og oft þannig að maður myndi óska að rifinn væru fleiri (þarna er kominn hugmynd að eigin uppskrift!?!). Þegar hvítlaukurinn er bakaður í pappírnum í jómfrúarolíu í tæpa klukkustund þá verður dramatísk breyting á bragði hvítlauksins...allt sterkt og hast bragð hverfur og í staðinn verður dásamlegt bragð af sætum hvítlauk með djúpu eftirbragði sem minnir á stund á karamellu. Ég er næstum því farinn að froðufella við að skrifa um þetta.

Svona máltíðir eru líka svo einfaldar í eldamennsku. Undirbúningurinn tekur ekki nema nokkrar mínútur. Bökunin rúman klukkutíma, sem er nógur tími til að njóta hvítvínsglas í sólinni, spila góða tónlist og spjalla við fjölskylduna.


Ofnbakaður kjúklingur með 40 hvítlauksrifjum, salato tricolore, góðu brauði og auðvitað ljúfu rauðvíni
Þó að um einfalda uppskrift sé að ræða er mikilvægt að elda réttinn eins og lög mæla fyrir um. Kjúklingurinn þarf um 30 mínútur lengri tíma heldur en hvítlaukurinn. Kjúklingurinn er hreinsaður og svo þurrkaður. Þá er smávegis af jómfrúarolíu sett í grindarholdið, salt, pipar, hálfur laukur, hálfsítróna, smávegis af rósmaríni og svo timian. Kjúklingurinn er þvínæst nuddaður upp úr jómfrúarolíu og svo er hann saltaður rækilega og pipraður vel. Handfylli af fersku timian er svo sáldrað yfir fuglinn og hann svo settur inn í 180 gráðu heitan ofn. Þegar 20-30 mínútur eru liðnar þá er hvítlauknum settur í eldfasta mótinu með fuglinum og bakaður áfram í um klukkustund eða þar til að hann er tilbúinn.

Þá er fuglinn tekinn úr ofninum og hann lagður til hliðar á meðan sósan er undirbúin - sem er afar einfalt. Rétt áður en kjúklingurinn er tekinn úr ofninum er hálfur líter af kjúklingasoði útbúið í potti. Kjúklingurinn er færður á disk og ofnskúffan sem kjúklingurinn var í er settur á hlóðir. Soðinu er varlega bætt saman við og bakkinn skafinn upp þannig að allt góða bragðið sem hefur festist við bakkann losnar úr læðingi. Sósan er smökkuð og söltuð og pipruð eftir smekk. Hún er svo soðinn niður í um 10 mínútur á meðan kjúklingurinn jafnar sig.


Salato tricolore er klassískt ítalskt salat. Bakki er smurður með smá jómfrúarolíu, saltaður og pipraður og svo er mozzarella sneiðum, basil og niðurskornir vel þroskaðir tómatar raðað saman. Balsamik edik er svo sáldrað yfir ásamt jómfrúarolíu.

Með matnum drukkum við Ruffino Ducale Riserva Chianti Classico Riserva 2004. Þetta var prýðisgott ítalskt rauðvín. Þetta er vín með ljúfum ávexti, dökkt á litin með langt eftirbragð. Þetta er vín sem hefur verið að fá á bilinu 87-90 punkta á Wine Spectator. Þar er því haldið fram að þetta vín myndi batna með smá geymslu - bara að maður hefði þessa þolinmæði - það getur bara fengið að batna í búðinni. Þetta endist ekkert í minni hillu.


Tuesday 17 June 2008

Vika í San Francisco - heimasíðan í stuttu leyfi

Ég skrapp í vikuferð til San Francisco. Er að sækja stutt upprifjunar og "update" námskeið í almennum lyflækningum. Námskeiðið byrjaði núna í dag og hefur verið áhugavert. Það er haldið á lóð University of California - San Francisco - Medical Center - sem er stór spítali. Þarna eru margir virtir fyrirlesarar að lesa yfir okkur nýjungar í lyflækningum. Ekki leiðinlegt að sameina það ferð til San Francisco sem er mjög svo áhugaverð borg. Alger bræðingur menningarlega! Nám á daginn og út að borða á kvöldin. Súper. Reyni svo að fríska upp á síðuna þegar heim er komið.


Thursday 12 June 2008

Grillaður lax með teriyaki, chillisósu og sesam með hrísgrjónasalati ognýju salati


Ég var ásamt mörgum kollegum á lyflæknaþingi á Selfossi um helgina. Þar var mikil og góð stemming. Ráðstefnan var skipulögð var fyrirtæki Birnu Þórðardóttur - Menningarfylgd og heppnaðist afar vel. Þar voru góðir fyrirlestrar, mikið kynnt af nýlegum rannsóknarverkefnum og svo var félagslífið vel heppnað. Það er geysimikil vægt fyrir stétt á landi norður í ballarhafi að rútta sér saman af og til og ræða um gang mála. Kollegar voru á einu máli að þingið hafi verið success.

Maður var ansi lúinn eftir þingið. Sinnti bæði fræðastarfi og félagsstarfi af miklu kappi og var því að gera eitthvað til að lyfta mér upp. Í flóði fregna um slæmt gengi í hagkerfinu, lánamarkaði, verði á bensíni og allri þessari bölsýni þá lék veðrið samt við okkur í gærkvöldi. Hlýtt, glampandi sól, grænt á trjánum, hitinn frá grillinu á svölunum. Fátt er betra. Eftir þétta ráðstefnu með tilheyrandi matarræði bæði á föstu og fljótandi var rétt að vera með fæðu sem hreinsaði mann aðeins að innan. Lax gerir slíkt, sömuleiðis hrísgrjónasalat og þá hreinsar kannski mest salat með ávöxtum og gulum baunum.


Grillaður lax með teriyaki, chillisósu og sesam með hrísgrjónasalati og nýju salati

800 gr stykki af lax var settur á álþynnu, botninn fyrst penslaður með smá olíu, salti og pipar og svo var flakið lagt yfir. 4 msk af góðri teriyaki sósu var smurt yfir ásamt 2 msk af heitri chillisósu. Þá var sesamfræjum sáldrað yfir. Þetta var svo bakað á funheitu grilli í um 20 mínútur þar til fiskurinn var eldaður í gegn. Af og til á meðan eldun stóð yfir var sósunni sem rann af fisknum skóflað upp með skeið og dreift yfir laxinn á nýjan leik. Þá var handfylli af ferskum kóríander sáldrað yfir og maturinn borin fram.


Hrísgrjónasalatið var ekkert ólíkt því sem ég hef gert áður. Þessi hluti er eiginlega klón af færslu sem ég var með fyrir nokkrum vikum síðan;

Hrísgrjónasalatið var eins einfalt of hugsast getur (ég er alltaf með svona frasa en þetta er satt). Ég með algera dellu fyrir hrísgrjónasalötum. Þau eru bragðgóð, létt, ljúffeng og mjög fyllandi meðlæti sem passaði vel núna þar sem ég var að metta marga munna en ekki með svo mikið af kjöti. Fyrst voru tveir bollar af jasmín hrísgrjónum soðin skv leiðbeiningum. Það fékk svo að kólna aðeins á meðan grænmetið var undirbúið. Þá var gulrót, sellerístöng, laukur og hvítlaukur skorinn smátt niður ásamt nokkrum sveppum sem ég átti afgangs og steikt á pönnu þar til mjúkt í smávegis af grænmetisolíu. Þá var chilli, nokkrum niðurskornum sveppum, hálfum niðurskornum kúrbít bætt við á pönnuna. Þetta er svo steikt í nokkrar mínútur. Þá er hrísgrjónunum bætt saman við og þeim velt saman við grænmetið. Steikt í smá stund þar til þetta hefur blandast vel og þá er tveimur eggjum bætt við salatið. Blandað vel saman - eggin kekkjast fljótlega. Þá er einhverjum góðum bragðefnum bætt við - t.d soya sósu, teriyaki, 
kannski smá chillisósu, saltað og piprað og jafnvel smá sykri.

Salatið var hins vegar aðeins nýtt á nálinni. Ég átti afgang af plómum frá því á fimmtudaginn var þegar ég var með kollega minn í mat og fannst gráupplagt að nota það í salat. Fátt sumarlegra enda glampandi sólskin á svölunum þegar þetta var eldað.
Græn blönduð lauf, ein gul paprika skorinn í grófa bita, ein plóma skorinn í bita var dreift yfir laufin. Þá voru þrjár radísur skornar niður og sáldrað yfir. Ég tók 2 maísstöngla og grillaði í 20 mínútur í álpappír. Þá var kornið skorið af og dreift yfir salatið. Skreytt með smá smátt skornum graslauk. Salatið var skerpt með smá skvettu af olíu og sítrónusafa.

Með matnum var borið fram smávegis hvítvínstár. Castillo di Molina Chardonnay frá því 2006. Þetta er prýðisgott létt hvítvín með talsverðum ávexti. Ég hafði keypt tvær flsökur fyrir helgi af þessu víni og átti eina í afgang - svo það má náttla ekki skemmast! Vínið fær ágæta einkunn í Wine spectator - um 86%. Mér fannst vínið sóma sér betur með þessari máltíð - hvaða skýring veit ég ekki - kannski var einhver þorsti eftir krappa helgi. 

Bon appetit!

Monday 9 June 2008

Tælenskt sjávarréttarseyði, grilluð lúðusteik með salsa og blómkálspuréog bakaðir ávextir í desert




Blaðamenn 24 stunda höfðu samband við mig í vikunni og báðu mig um að vera með innskot í laugardagsblaðinu, það passaði ágætlega því að ég var með kollega minn frá Englandi í heimsókn. Roger Wellesley Duckitt er læknir frá Suður Afríku sem starfar í Englandi. Ég kynntist þessum góða manni í Lissabon þar sem ég var á námskeiði síðastliðið haust. Þar kynntist ég hópi af góðum kollegum og átta úr þessum hópi hafa haldið sambandi síðan að námskeiðinu lauk. Núna um helgina var vísindaþing lyflækna haldið á Selfossi og þar kom hann og hélt erindi um uppbyggingu sérnáms í Englandi. Á fimmtudagskvöldið eldaði ég fyrir hann þessa máltíð.


Ég hafði samband við fiskbúðina mína nokkrum dögum áður og bað þá um að verða mér útum stórlúðsteik - það var ekkert mál. Þjónustan hjá þessu fyrirtæki var með miklum sóma og mér finnst rétt að segja aðeins frá því. Ég hef nokkrum sinnum skipt við þetta fyrirtæki áður og finnst þeir veita afbragðs góða þjónustu og ráðleggingar. Við vorum svo sannarlega ekki sviknir af lúðusteikinni. Hún var stórkostleg.

Tælenskt sjávarréttarseyði, grilluð lúðusteik með salsa og blómkálspuré og bakaðir ávextir í desert
Bregð aðeins út af vananum að vera með hráefnalista. Þetta er sama og ég sendi inn í 24 stundir.

1,5 L af kjúklinga eða fiskisoði, 
300 gr af ósoðnum rækjum, 
300 gr af smárri hörpuskel, 
500 gr af krækling í skelinni
250 gr af Vermicelli núðlum, 
1 rauður chilli pipar, 
1 grænn chilli pipar, 
5 cm af engifer, 
3 hvítlauksrif, 
1/3 búnt af basil, 
1/3 búnt steinselju, 
1/3 af kóríander.


Sjávarfangið er steikt í smjöri með smávegis hvítlauk, ásamt skvettu af hvítvíni þartil eldað. Lagt til hliðar. Núðlurnar eru eldaðar samkvæmt leiðbeiningum og skammtaðar í skál. Þá er steiktu sjávarfanginu dreift yfir, svo er kryddinu; engifer, chilli og hvítlauk, sáldrað yfir, kryddjurtunum og svo í lokin er kjúklinga eða fiskisoðinu hellt yfir. Saltað og piprað.

Borið fram með góðu hvítvíni og sítrónum og límónum til að kreista yfir súpuna til ögra fram bragðið. Við drukkum Castillo di Molina Chardonnay frá því 2006. Þetta er prýðisgott létt hvítvín með talsverðum ávexti. Ekki svo mikið eftirbragð en dvaldi í dálitla stund á tungu. Þetta vín bar vel bragðsterkan mat án þess að fölna í samanburði né hverfa í bakgrunninn. Wine Spectator hefur gefið víni í þessum flokki um 86% í einkunn.


Ofnbökuð lúðusteik með blómkálspure, salsa og hvítvínssteiktum fennel
2,5 kg af þverskorinni lúðusteik var pensluð með góðri jómfrúarolíu og saltað og piprað. Fyrst var það grillað í stutta stund á heitu grilli en svo bakað í ofni í um 20 mínútur við 180 gráðu hita.

Með matnum var borið fram blómkálspúrée sem var afar einfalt. Tveir blómkálshausar voru soðnir eins og lög gera ráð fyrir, vatninu hellt frá, blómkálið sett í matvinnsluvél, 2 msk af rjómaosti, 2 msk af smjöri, 100 ml af rjóma, salti og pipar sett saman við og blandað saman þar til orðið að flauelsmjúkri blöndu.

Salsað var gert úr 5 þroskuðum tómötum, 1 stórum rauðlauk, 4 smátt skornum hvítlauksrifjum, einum kjarnhreinsuðum ch
illipipar, hálfri smátt skorinni papriku, 1/2 búnti af steinselju, 1/2 búnti af kóríander, 5 msk af jómfrúarolíu, salt og pipar og safi úr einni sítrónu. Blandað vel saman og látið standa í ísskáp í um klukkustund.

Einnig var steikt fennel með matnum. 4 fennelhausar voru hreinsaðir og skornir í sneiðar. Þeir voru svo steiktir upp úr smjöri og olíu í um 10 mínútur og svo var 2 glösum af ágætu hvítvíni hellt yfir, ég notaði Montalto frá Sikiley úr kassa, og sauð niður í um 20 mínútur.

Maturinn var svo borinn fram með léttu salati og Masi Masianco hvítvíni frá Ítalíu árgerð 2007 sem er létt og fremur lítið krefjandi hvítvín sem passaði vel með matnum. Þar var mikið af brögðum á ferðinni og mikilvægt að vínið stæli ekki senunni. Það rann ljúflega niður með matnum og nóg var skálað.

Bakaðir ávextir með ís og muldu Nóa kroppi

Í dessert var svo einfaldur eftirréttur. Bakaðir ávextir með ís og muldu Nóa kroppi. Einn ferskur ananas, 3 ferskjur, 4 plómur, nokkur jarðarber voru skorinn í bita og sett í eldfast mót. Vanillusykri (eða bara venjulegum sykri) er sáldrað yfir og ávextirnir eru bakaðir við 180 gráður í 15 mínútur þar til þeir fara að karmelliserast. Þá er þeim dreift í skálar, ís dreift yfir og svo muldu Nóa kroppi dreift yfir.

Notið með góðu kaffi og smávegis af Wolf Blass af Chardonnay Pinot Noir freyðivíni sem hefðbundið ætti að fá sér fyrir forréttinn en við svindluðum og fengum okkur með eftirréttinum. Vorum ekki svikinn af því .Talsverð kampavínsstemming en samt langt frá því að vera á kampavínsverði.