Thursday 30 April 2009

Grilluð entrecotenautasteik með hestaradísusósu, haricotes vertes með parmaosti, einföldu salati og náttla rauðvínsdreitli.

útieldhúsið Hef verið óduglegur hérna á blogginu undanfarið. Ekki það að ég hef verið að eitthvað latur. Síður en svo. Ég byrjaði um páskana að vinna í því að leggja pall og það hefur haldið mér uppteknum eiginlega allar helgar síðan. Ég kann ekkert að smíða - það má eiginlega segja að ég hafi smíðað þennan pall með hjálp Youtube.com og svo fékk ég góð ráð frá Jóni Þorkeli kollega mínum sem er með sterk smiðsgen í sér og handlaginn fram í fingurgóma. Tengdapabbi var mér innan handar að leggja grindina. Grófum tólf holur fyrir steinstólpa og lögðum svo dragara út frá veggnum. Díses...ég svitna bara næstum því við að skrifa þetta. Það tók næstum þrjá daga að leggja grindina. Svo var byrjað að klæða. Þegar það var búið var tekist handa við að byggja grindverkið, bekk, blómapott. Mikið rosalega er þetta búið að vera gaman.

blóðið rennur Ég er búinn að vera dáldið duglegur að elda nautasteikur síðustu mánuði. Ekki vegna þess að það sé svo mikið veldi á manni heldur höfum við verið að elta tilboðin í búðunum. Það er ekki amalegt að fá kílóið af góðu sænsku nautaentrecote á 99 krónur sænskar. Uppáhaldið mitt er náttúrulega að gera ekta bernaise með því en það er ekki hægt endalaust - Ekta bernaise sósa er algerlega fáránlega óholl - því miður. Það takmarkar því hversu oft maður leyfir sér þetta. En hvað um það.

allt búið Í þetta sinn gerði ég létta sósu úr hestaradísum - venjulega kallað piparrót - horseradish er skyld meðal annars wasabi sem er jú langtum kröftugari. Bragðið sem kemur af matnum er heitt - þó ekki þannig að það brenni - þetta meira yljar, langt og mikið piprað eftirbragð. Alveg ljúffengt. Þetta var í fyrsta sinn sem ég eldaði þessa tegund af sósu. Við vorum með nágranna okkar í mat um kvöldið og við vorum sammála að þetta hefði heppnast bara ansi vel.  

Grillað entrecote með hestaradísusósu, haricotes vertes með parmesan, einföldu salati og náttla rauðvínsdreitli.

verði manni að góðu

Það er í raun ekki mikið að segja um eldamennskuna. Ég tók kjötið úr frysti nokkrum dögum áður og leyfði því að afþiðna í ró og næði inn í ísskáp. Þannig varðveitir maður vökvajafnvægið betur segja gárungarnir. Ég skar kjötið í 2,5 cm þykkar sneiðar, penslaði með jómfrúarolíu, saltaði og pipraði. Kjötið fékk að hvíla um stund. Sumir segja að maður eigi ekki að salta kjöt fyrir steikingu. Ég held að það sé rangt. Saltið dregur vökva að yfirborðinu - sá vökvi ásamt sykrum og próteinum á yfirborðinu er það sem mun brúnast/karmelliserast og gefa kjötinu þessa frábæru áferð sem við erum að sækjast eftir. Ég grillaði kjötið á rjúkandi heitri pönnu í 2 mínútur á hvorri hlið þangað til að það varð medium rare. Mér finnst mikilvægt að elda það ekki lengur en það - Matgæðingar segja oft að það sé hægt að steikja kjöt á þrenna vegu; rare, medium rare og svo ruined (well done).

Sósan var einföld - ekki er hægt að segja annað. Keypti rót af hestaradísum (horseradish) - þetta er líka hægt að fá í pökkum á fróni - en smakkast náttúrulega betur þegar maður raspar þetta sjálfur.  Það er ekkert eins gott og heimagert. Alveg eins og Snow kokkur segir þá er þetta kraftmikið - röspuð jurtin gefur frá sér skarpa lykt sem minnir mikið á wasabi án þess þó að vera eins hvöss. Þetta er trefjarík jurt þegar skyld engifer. Setti eina dós af góðum creme fraiche í skál, 1 msk rúmlega af röspuðum umræddri hestarót, salt, pipar, safa úr hálfri sítrónu, 1 tsk af góðu Djion sinnepi og svo smá skvettu af hvítvínsediki. Stundum þarf að sykra aðeins til að ná jafnvæginu góðu. Í myndbandinu gerir Keith Snow sósu sem er næstum eins og mín (sennilega meira mín meira eins og hans)

Meðlætið var gott. Steikti strengjabaunir upp úr olíu, hvítlauk í nokkrar mínútur, saltaði og pipraði lagði á disk og skar vænar sneiðar af góðum parmaosti (pabbi - taktu eftir - skrifaði parmaosti í stað parmesanosti - vísa í umræðu/einræðu - hér). Svo var ég einnig með gott salat með blönduðum grænum laufum, smáum kirsuberjatómötum, niðurskornum radísum, mozzarellaosti og smátt skornum rauðlauk.

salatið

Með matnum drukkum við ljúffengt argentínskt rauðvín - Trivento Reservea Cabernet Malbec frá 2007. Þetta er kraftmikið rauðvín - blanda af Cabernet þrúgum og Malbec þrúgum. Þetta er ávaxtaríkt vín - arómatískt - dálítið þungt jafnvel, smávegis kryddað - með tanníni í eftirbragðinu. Okkur þótti þetta ljúffengt vín og ekki var það dýrt. Passaði matnum ljómandi vel.


Monday 20 April 2009

Ljómandi lasagna - frá grunni með ekta bechamel sósu, ljúffengri kjötsósu og auðvitað gott rauðvín.

laukur með negul Okei. Þetta er kannski dálítið svindl...hversu oft má maður blogga um sama hlutinn. Þetta blogg átti í upphafi að vera dagbók mín í eldhúsinu og sama tíma aðhald um að ég myndi sífellt reyna að prófa eða þróa nýjar uppskriftir í eldhúsinu. Þegar maður breytir aðeins útaf vananum - prófar nýjan útgáfu af sama rétt hlýtur að mega kalla á það að maður setji færslu um það. Sér í lagi þegar það heppnast vel. Þó að ég reyni stöðugt að vera með eitthvað nýtt í matinn þá er það auðvitað þannig að það verða alltaf til klassíkerar sem bara verða reglulega á borðum hjá manni. Réttir eins og Spaghetti Carbonara, Bolognaise, Steik og bernaise, Ofnbakaður kjúklingur með fullt af hvítlauk, Lax með teriyaki...þetta bara er svo góður matur!

Það má alltaf gera betur. Eins og ég nefndi í seinustu færslu þá hef ég verið að skoða http://www.svangur.is/ nokkuð oft. Ein af fyrstu færslunum sem hann setti á síðuna sína var hvernig á að gera hvíta sósu. Hann er helvíti sniðugur hann Árni svangi. Þar fer hann í gegnum hvernig maður gerir einfalda hvítasósu - Það þarf ekki að teygja sig langt til að gera þetta að Bechamel sósu, með því að bæta hálfum hvítum lauk stungnum negulnöglum og láta malla í nokkrar mínútur. Sumir vilja þó setja múskat í staðinn en ég held að upprunalega bechamel sósan hafi verið með lauk og negulnöglum. Hvít sósa er ein af nokkrum grunnsósum sem skilgreindar voru í franskri matargerð fyrir nokkrum árhundruðum.

Hinar sósurnar, oft kallaðar Móður-sósurnar sem hægt að spinna þúsundir afbrigða frá, voru; Aioli - gerð með hvítlauksrifi, eggjarauðu, og olíu þannig að úr varð þykk ljósgul sósa sem gat af sér mayonaise. Hollandaise sósa - í grunninn eggjarauða og smjör þeytt saman yfir vatnsbaði - síðan bragðbætt í ýmsar áttir - sítróna/edik fyrir hollandaise eða fáfnisgras/edik/lauk extract til að gera bernaise. Velúte sósa sem er kjúklingasoð þykkt með ljósum roux (smjörbollu). Espagnól sósa - sem er gerð þannig að maður býr til mjög dökkan roux - tekur tíma - og við það er bætt kröftugu kjötsoði, bragðbætt á ýmsa vegu og svo soðið niður þangað til maður er kominn með dökkt þykkni. Síðasta móður sósan er svo auðvitað tómatsósa gerð úr nýjum tómötum. Fyrir matgæðinga/matnörda þá er að finna á þessari síðu er sagnfræðilegt yfirlit um tilurð hinna ýmsu sósa sem við notum.

Eins og ég sagði þá er þetta ekki fyrsta sinn sem ég blogga um lasagna. Einhvern tíma í frumbernsku þessarar bloggsíðu þá sagði ég frá frábæru lasagna sem Snædís gerði, sjá hér. Svo gerði ég einhvern tíma þetta hérnalasagna með hreindýrahakki. Mexíkóskt lasagna var svo gert einhvern tíma í febrúar 2007 og mér þótti ansi sniðugt.

Ljómandi lasagna - frá grunni með ekta bechamel sósu, ljúffengri kjötsósu og auðvitað gott rauðvín.

lasagna Fyrst var að gera kjötsósuna. Hún þarf að fá að malla aðeins. Eitt sniðugt bragð til að flýta fyrir sem ég lærði af kanadískum kokki sem heitir Michael Smith og var með þætti á BBC food - Chef at home, var að taka hvítlaukinn, laukinn, gulræturnar og setja þær í matvinnsluvél í eitt augnablik og ýta á pulse - þá verður þetta ákaflega smátt skorið og fljótt að leggja til kraft. Fyrir þá sem vilja þjálfa hnífahæfnina er bara að taka það á þann veginn. Nokkrar sneiðar af smátt skornu beikoni er steikt í olíu, þá er grænmetinu bætt saman við, saltað og piprað og látið svitna. Þá er nautahakkinu (má nota blöndu af svínahakki með - eða í raun hvaða hakk sem er) og það steikt þar til dökkt. Þá bætti ég við tveimur dósum af góðum niðursoðnum tómötum, smá tómatpure, oregano þurrkað, ferskri steinselju og basil. Ekki er verra að setja smá rauðvínsskvettu eigi maður hana til og svo hef ég vanið mig á að bæta smá nautakrafti með.

Bechamel sósan er í raun afar einföld - hægt er að byrja á því að gera eins og Árni á www.svangur.is gerir hérna. Svo gerir þessi herramaður, Keith Snow, líka ansi girnilega Bechamel sósu eins og má sjá á þessu vídeói á youtube.com. Hann er annars með heimasíðu sem ég er áskrifandi af og fjallar um hvernig maður getur borðað eftir árstíðunum.

Ég gerði mína sósu eftir þeirra forskrift. Búinn er til smjörbolla, mjólk hrært saman við. Ég notaði 90 gr af smjöri, 90 gr af hveiti og svo 1,5 líter af nýmjólk. Fyrst bræði ég smjörið svo er hveitið hrært saman við og síðan mjólkinni hellt rólega saman við - muna að hræra án afláts. Leyfa svo sósunni að sjóða með hálfum hvítum lauk stungnum negulnöglum í 10 mínútur - hræra áfram - þannig eldast allt hveitibragð í burtu og skilur eftir sig mildan laukeim og undirtón af negul.

Þessu er svo raðað upp - lag fyrir lag. Fyrst hvítasósan, lasagna plötur, svo hvítsósa, kjötsósa, plötur þar til allt er klárað - síðasta lagið er svo eins og það fyrsta, lasagnaplötur, hvítsósa og svo auðvitað ostur - ég notaði blöndu af grana padano og rifnum mozzarellaosti. Ég notaði reyndar fullkorn lasagna plötur. Svíum er mjög umhugað að bjóða allar vörur með fullkorn útgáfu - það mun vera hollt. Ekki veitir af til að vega á móti Bechamel sósunni - sem er ekki kannski það hollasta undir sólinni.

Með matnum bar ég fram einfalt salat, heit brauð svo þetta prýðisgóða Kaiken Cabernet Sauvignion 2007. Þetta vín á rætur sínar að rekja til róta Andes fjallanna. Framleiðandinn mun einnig vera tengdur Montes, sem er eitt af mínum uppáhalds framleiðeindum. Ég hef kannski einu sinni áður drukkið Kaiken og þetta sveik ekki
frekar en áður. Kraftmikið Cabernet með munnfylli af dökkum ávexti - kirsuberjum og ljúfu eftirbragði. Þetta er tannínríkt vín og því gott að umhella því - man það næst.

komið á diskinn


Saturday 11 April 2009

Besti glaðningurinn að heiman. Íslenskt lambalæri, troðið plómum,kvíabilla, hvítlauk með rótarávöxtum og rjómasoðsósu.



Tengdafaðir minn kom á fimmtudaginn var og í föggum hans var íslenskt lambalæri. Það hefur verið sjaldséður gestur á mínum borðum síðan að við fluttum út - eðlilega. Í stað þess höfum við einstaka sinnum eldað nýsjálenskt lambakjöt - bæði hakk og læri. Sem er alveg ágætt, bragðgott og mjúkt undir tönn. En það er einn galli við það. Það bara er ekki íslenskt! Íslenskt lambakjöt er einfaldlega eitt besta hráefni sem maður getur óskað sér. Mýktin í kjötinu, fitan verður nánast sæt og svo er alltaf þessi villibráðarkeimur af íslensku lambi - eitthvað sem kannski minnir á fjallið, jurtirnar sem það nærðist á þegar það var á beit.


Ég hef nokkrum sinnum áður bloggað um lambakjöt. Sjá hér lambalæri þakið herbes de provance - Það hef ég bæði gert með nýsjálensku og svo líka frönsku lambakjöti sem var alveg meiriháttar. Einhvern tíma bauð faðir minn ásamt blakliði sem hann keppti með hér áður, heim mótherjum sínum frá Færeyjum - í þetta skipti fyllti ég nokkur lambalæri fyrir söngelska Færeyinga, hér. Svo gerði ég einhvern tíma hvítlauksspekkað læri og með bláberjum sem við týndum sjálf í Flekkudalnum, sjá hér. Íslenskt lambalæri - þetta er í raun þjóðarréttur íslendinga.


Ég hef verið að fylgjast með íslenskum kokk, Árna Birni Helgasyni, sem er ásamt aðstoðarfólki að setja upp ansi girnilega heimasíðu; Svangur.is. Hann er líka með síðu á Facebook - ég er búinn að fá leyfi hjá honum að linka á hana. Þetta er ansi sniðugt hjá honum. Hann er með nokkur frumbrot úr þáttunum sínum þar sem hann fer meðal annars í gegnum gerð hvítrar sósu, niðurskurðar á sveppum, eldun á kjúkling og nú síðast hvernig á að úrbeina lambalæri. Ég er ekki alveg sammála honum með að úrbeina lambalæri fyrir eldun, stundum á það við, en það verður að gefa því gaum að beinið er ekki bara fyrir!, það jafnar hitann, ver fyrir þornun, leggur til kraft og svo er það líka bara cool þegar maður er búinn að úrbeina það á borðinu að eldun lokinni.

Glaðningur að heiman. Íslenskt lambalæri, troðið plómum, kvíabilla, hvítlauk með rótarávöxtum og rjómasoðsósu og uppáhalds rauðvíni

Ég ákvað að setja plómur í lærið - ég var í þannig stuði vegna þess að ég var að velja tré í garðinn, ég er búinn að ákveða að hafa eitt plómutré, eitt epla og eitt perutré. Þetta lamb var því líka smávegis framtíðaróður. Kannski verða mínar plómur einhvertíma svona góðar. Ég notaði sænskan blámygluost sem kallast Kviebille - sem er mildur ostur sem minnir á bláan kastala.

Nóg var þetta nú einfalt. Hvítlaukur, plómur voru skornar í smábita ásamt steinselju. Stungið var göt á lærið eins og myndirnar sína og svo götin troðin með hráefninu. Lærið var síðan nuddað með olíu, salti og pipar, smávegis af rósmaríni, timian og svo fært inn í 120 gráðu heitan ofn þar til kjarnhiti var um 65 gráður. Þá var það látið hvíla á meðan sósan var kláruð. 



Sósan var í raun einföld; Hvítlaukur, laukur, gulrætur, sellerí var látið svitna í olíu á pönnu með salti og pipar. Smá krafti og vatni var bætt saman við. Soðið af krafti í dálítinn tíma og svo lokið tekið af og soðið niður í hálftíma. Öllum krafti af lærinu var safnað í sósuna á meðan lambið fékk að hvíla. Blandað saman með smá matreiðslurjóma - saltað og piprað eftir þörfum.

Meðlætið var einfalt. Rótargrænmeti; kartöflur, venjulegar og sætar, gulrætur, parsnípur og seljurót. 


Velt upp úr olíu, saltað og piprað ásamt smá þurrkuðu rósmaríni. Einnig vorum við með létt salat með grænum blöðum, tómötum og fetaosti.


Með matnum bárum við fram gott rauðvín. Að þessu sinni var það Montes Alpha Cabernet Sauvignion frá 2006. Þetta er í annað sinn sem ég blogga um þetta vín enda hefur það verið í uppáhaldi hjá mér í lengri tíð - frá því að ég ákvað að ætla að verða víngormur - þá varð ég upprifinn af því að þetta vín var áður flutt inn í trékössum. Hérna er vínflaskan afhent - þéttvafinn í hálfgegnsæjan pappír. Þetta var eins og áður frábært. Kraftmikill ilmur, með sterkum keim af sólberjum, vínberjum undirtónum af, hvað á ég að segja, leðri, og svo góðu eftirbragði mildum ávexti.


Daginn eftir átti ég dálítinn afgang af kjöti og grænmeti. Bjó til böku með smjördegi. Blanda af niðurskornu kjöti, rótargrænmeti og sósu sett í eldfast mót og svo smjördeig yfir. Penslað með eggjaþvotti (egg og vatn hrært saman) og svo bakað í 30-40 mínútur. Borið fram með brauði og ágætu rauðvíni - má vera úr kassa.

Verði öllum að góðu!




Sunday 5 April 2009

Besta skúffukakan; Súkkulaðikaka í þriðja ættlið - Valdís bakar!




Mamma kenndi mér að gera þessa skúffuköku þegar ég var á aldri við Valdísi dóttur mína. Það er þannig að ég kann þessa uppskrift utanbókar - Ég hef bakað þessa köku mörg hundruð sinnum - gæti ég best trúað. Frá því að ég lærði að gera hana, þá 8 ára gamall og þangað til núna. Mest bakaði ég hana fyrir vini mína á táningsárunum. ég held meira að segja að ég hafi sett hraðamet í að setja í þessa köku - 12 mínútur - frá því að smjörið er tekið úr ísskápnum þangað til að kakan fer í ofninn.


Hún er líka einföld - bragðgóð og einhvern veginn hef ég aldrei fengið leið á henni. Fátt er betra en að gæða sér á heitri skúffuköku, með súkkulaðikremi og stóru glasi af ískaldri mjólk.

Besta skúffukakan; Súkkulaðikaka í þriðja ættlið - Valdís bakar!

Hráefnalisti

375 gr hveiti, 450 gr sykur, 1,5 tsk salt, 1,5 tsk lyftiduft, 3/4 tsk matarsódi, 6 msk gott kakóduft. Hið vota; 3 3/4 dl nýmjólk, 3 egg, 190 gr smjöri.

Fyrst er að blanda þurrefnunum saman; Sigta hveitið, lyftiduftið, matarsóda, kakóið. Bæta svo við sykrinum og saltinu.


Það þarf alltaf að ýta á eftir þessu með sleikju. Hún er líka nauðsynleg til þess að gæða sér á deigafgöngum sem sitja innan á skálinni á meðan kakan bakast (syndsamlega gott)


Blanda þurrefninum saman í hrærivélinni. Svo setja 2/3 af mjólkinni og svo mjúkt smjörið (ég mýki það í örbylgjunni). Blanda þessu saman í nokkrar sekúndur þar til þetta er farið að líkjast þykku súkkulaði sementi. Þá er að bæta eggjunum saman við og restinni af mjólkinni. Blanda vel saman við þangað til að þetta verður að fallegu hægt rennandi deigi.

Smyrja ofnskúffuna með smjöri. Hella deiginu í mótið - gæta þess að skilja nóg af deigi eftir til þess að gæða sér á á meðan kakan bakast ... þetta er mikilvægt og vanrækt skref finnst dóttur minni! Bakað í 180 gráðu heitum ofni í 30 mínútur - gætið að tímanum. Ofnar eru ólíkir. Ég sting alltaf hnífi í kökuna og ef ekkert festist á hnífnum - þá er hún til. Einnig sér maður hvernig hún togar sig frá köntunum.

Ég gerði kremið að þessu sinni eftir ganasuppskrift (held að þetta sé rétt skrifað). Súkkulaði 1,2 hlutur á móti 1 hlut rjóma, smá smjörklípu má einnig setja útí til að fá fallegan gljáa á kremið. Auðvitað á svo að sáldra kókós yfir en ég átti hann bara því miður ekki til.

Önnur útgáfa af kremi; Sigta 100 gr flórsykur, 1 msk kakóduft í skál. Hita svo 50 ml vatni með 1 msk af smjörklípu útí og blanda varlega saman við þurrefnin. Dreifa á kökuna, sleikja upp rest og svo sáldra með kókós.



Bon appetit!

Saturday 4 April 2009

Magnaður hægeldaður marókóskur kjúklingur með saffran, cous cous, fallegu salati.

saffran Vorið er komið í Lundi. Síðustu daga hefur veðrið leikið við okkur, glampandi sól, heiðskýrt, vorfuglar syngja og dagurinn í dag var frábær. Heiðskýrt og tæplega 18 stiga hiti. Tengdafaðir minn, Sigurður Eggert - kallaður Eddi kom í heimsókn á fimmtudaginn og vill eigna sér heiðurinn af veðráttunni. Við fórum í langan göngutúr í dag niður í bæ og keyptum í matinn. Eddi tók að sér að sjá um matinn fyrir kvöldið í kvöld - en það verður efni í færslu á næstunni.

Ég hef lengi verið að undirbúa að gera rétt sem þennan. Ég var búinn að vera að horfa á krukku í kryddskúffunni minni með saffran og langaði til að gera eitthvað sem innihélt saffran. Saffran er krydd sem maðurinn hefur ræktað í meira en 3000 ár. Lengi vel trúðu menn á læknandi mátt jurtarinnar en hún hefur verið notuð í meðferð við rúmlega 90 mismunandi sjúkdómum frægast í meðferð við svarta dauða sem reið yfir Evrópu á 14 öld. Saffran var notað í Evrópu fyrst á tímum Rómverja en mun hafa horfið með fallandi veldi þeirra. Það átti svo innreið sína aftur með kryddið vakið innrás araba í sunnanverða Evrópu. Það verður ekki tekið út með sældinni að rækta þessa jurt. Hvert blóm gefur af sér nokkra þræði. Það skýrir líka verðið. Kílóið kostar fleiri hundruð þúsund. 

Þessi réttur er ekki gerður eftir neinni einni uppskrift heldur samsuða úr mörgum uppskriftum sem ég hef lesið í gegnum tíðina. Ég kenni réttinn við Marókkó því einhvern veginn finnst mér þessi krydd einhvern veginn eiga rætur að rekja til suðurhluta Mi maturinn á leið í ofninn ðjarðahafsins - kanil, sítrónur, kúmen, túrmerik og saffran. Hvort þetta sé síðan rétt má rökræða. Nýleg umfjöllun í Sydsvenskan - sem er morgunblað sem við erum áskrifendur af - var með umfjöllun um hvað verður matur framtíðarinnar - nú þegar tími hins ítalska, franska, kínverska eldhús væri senn að líða - matur frá miðausturlöndum. Ekki að ég sé sammála því að sólin sé sest á franska eldhúsið en matur sem ég kenni við Miðausturlönd er góður - Seiðandi, flókin djúp brögð sem æsir bragðlaukana.

Magnaður hægeldaður marókóskur kjúklingur með saffran, cous cous, fallegu salati.

tilbúinn á borðinu Fyrst var að vekja kryddið á pönnunni. Ég setti smá smjör/olíu á pönnu og þegar smjörið var farið að freyða þá setti ég kúfaða teskeið af papriku- dufti, engiferidufti, túrmeriki, hálf teskeið af kúmeni, ein teskeið af nýmuldu allspice. Lyktin verður megn - kraftmikill og dásamleg á sama tíma. Þá eru kjúklingaleggir og upplæri - næstum tvö kíló alls. Ástæðan fyrir því að ég nota leggi og upplæri er sú að það kemur svo mikill kraftur frá bitum með beinum. Bringur henta síður í langa eldamennsku - eiga það til með að þorna.  Þegar ég var búinn að steikja kjúklinginn að utan og hann orðið fallega gulrauður og gullinn var hann lagður til hliðar í eldfast mót á meðan sósan var útbúinn.

salatið-1 Þá var einn grófskorinn rauðlaukur, einn skarlottu- laukur, fjórar flysjaðar gulrætur skornar í stóra bita og svo fimm niðursneiddir plómutómatar steiktar í smá stund. Því næst um það bil 600 ml af heimagerðu kjúklingasoði, 1 glas af hvítvíni, safi úr hálfri sítrónu og svo setti ég nokkrar sneiðar af sítrónum úti sem fékk að malla með. Einnig setti ég þrjú lárviðarlauf, 1 kanilstöng, mikið af salti og pipar. Þetta fékk svo að sjóða í klukkustund. Sósan var svo sett yfir kjúklinginn, papríkudufti og einni klípu af saffran þráðum dreift yfir og svo var þetta ofnbakað í 30-40 mínútur. 

 Með matnum var ég með cous cous og svo fallegt flatt salat. Þunnskornar paprikur, rauðlaukur, agúrkur, radísur og ólífur. Við drukkum Montecillo Crianza 2006 rioja rauðvín. Þetta vín passaði vel bragðmiklum matnum. Þetta er létt rauðvín, fremur ljóst á litin. Lyktin minnir á sætan ávöxt og bragðið er á sömu tónum.

Lokaútgáfan