Showing posts with label rótargrænmeti. Show all posts
Showing posts with label rótargrænmeti. Show all posts

Monday, 22 April 2019

Svipmyndir frá páskum 2019 - Úrbeinað lambalæri troðið af villisveppaosti og bláberjasultu og með rótargrænmeti, bestustu sveppasósunni og sætum gulrótum


Það ætti ekki að koma neinum á óvart að ég eldi lambalæri á páskadag - það hefur lengi legið fyrir. Það hef ég gert eiginlega síðan að ég byrjaði að búa og erfði þá hefð í beint frá móður minni. Fyrir mér snúast páskarnir mun meira um páskamatinn en nokkru sinni sælgætisátið - enda er ég enginn sérstakur nammigrís. 

Þessi uppskrift er ekkert rosalega frábrugðin því sem ég gerði í fyrra, enda er það svona með hefðirnar. Maður er sjaldan að umbylta frá því árið áður - meira að byggja ofan á reynslubankann og kannski teygja sig í þessa eða hina áttina. Stundum fer maður auðvitað einhver skref til baka. 

Svipmyndir frá páskum 2019 - Úrbeinað lambalæri troðið af villisveppaosti og bláberjasultu og með rótargrænmeti, bestustu sveppasósunni og sætum gulrótum 

Fyrir 6

Lambið

1 lambalæri
1/2 krukka bláberjasulta
3 msk Yfir holt og heiðar krydd
4 msk jómfrúarolía
1/2 villisveppaostur (restin fer í sósuna) 
nokkrar greinar ferskt timjan
salt og pipar

Blandað rótargrænmeti

400 g kartöflur 
400 g sætar kartöflur
400 g seljurót
2 rauðlaukar
1 hvítlaukur
5 msk hvítlauksolía
nokkrar greinar ferskt rósmarín
salt og pipar

Sósan 

250 g sveppir
50 g smjör
600 ml lambasoð frá grunni (sjá uppskrift neðar)
250 ml rjómi
2 msk þurrkaðir sveppir
salt og pipar

8 marglitar gulrætur
2 msk hlynsíróp
1 msk jómfrúarolía



Þetta hefst allt á lambalærinu. Það er um að gera að láta það standa á borði í nokkrar klukkustundir til að ná herbergishita. Vanari menn segja að þetta hjálpi kjötinu við að eldast jafnara en ella.


Með beittum hníf er ekki mikið mál að skera út beinið. Bara að fara varlega og er skera meðfram beininu. 


Ég útbjó olíumauk úr kryddblöndunni minni (Yfir holt og heiðar). Bætti við smá salti. 


Ég nuddaði innra byrðið með kryddmaukinu, setti svo bláberjasultu, svo timjan og smátt skorinn hvítlauk. Svo lagði ég sneiðar af villisveppaosti ofan á. 


Að binda upp lærið var eiginlega tveggja manna verk. Ég fékk móður mína til að hjálpa mér. Nudduðum ytra byrðið vandlega með kryddblöndu. Lærið var svo sett í ofnskúffu og bakað við 180 gráður þangað til að kjarnhiti náði rétt rúmlega 60 gráðum (fólk í minni fjölskyldu vill hafa kjötið heldur vel eldað).


Mamma tók að sér að leggja grunninn að soðinu. Skera lauk, sellerí, gulrætur og nokkur hvítlauksrif og steikja í olíu. Þegar grænmetið er mjúkt er ristuðum beinum bætt saman við og steikt áfram í nokkrar mínútur. Þá er bætt við glasi af góðu rauðvíni, nóg af vatni og kryddvendi saman og látið krauma í nokkrar klukkustundir. 


Næsta stig í sósugerðinni var að brúna sveppi í smjöri. Þegar þeir voru búnir að taka á sig fallegan lit bætti ég við soðinu sem ég hafði síað, ásamt nokkrum þurrkuðum sveppum og restinni af villisveppapostinum. Þetta fékk að krauma í þrjú korter. Bætti svo við rjóma, smá krafti og soya til að skerpa á henni. Salt og pipar. Þykkt með lítilræði af maizenamjöli. 


Faðir minn sá um grænmetið. Skar niður allt rótargrænmetið í jafna bita, velti upp úr olíu. Hann laumaði heilum hvítlauksrifjum á milli - sem gáfu ótrúlega ljúffengan hvítlaukskeim.


Móðir mín skreytti borðið í sveitinni og var þemað, líkt og maturinn, á nokkuð hefðbundnum nótum.  


Gleymdi næstum því gulrótunum. Þær voru flysjaðar, forsoðnar í sex mínútur, velt upp úr hlynsírópi og jómfrúarolíu og bakaðar í þrjú korter í 180 gráðu heitum ofni. 


Páskavínið að þessu sinni var Baron de Ley Gran Reserva frá því 2011. Þetta er þrusugott vín - mikið bragð - súkkulaði í bland við mikinn ávöxt. Sömu tónar á tungu nema kannski aðeins kryddaðra. Passaði vel með matnum sem einnig var ansi pakkaður af bragði.


Þetta var alveg meiriháttar páskamáltið!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Thursday, 22 October 2015

Brúðkaupsveisla - seinni kapítuli - Lambalæri "sousvide" með konfiteruðum skalottulauk, þrennskonar rótargrænmeti og rjómalagaðri villisveppasósu


Þá er komið að framhaldinu!

Í síðustu færslu greindi ég frá forréttunum sem ég eldaði í brúðkaupi Magnúsar og Hafdísar, vinum okkar hjóna, hægt er að lesa allt um það hérna! Nú er komið að því að greina frá aðalréttinum. 

Eftir mörg samtöl við brúðhjónin komumst við að niðurstöðu með aðalréttinn. Við vorum nokkuð samstíga frá upphafi en matseðillinn þroskaðist aðeins á vegferðinni. Ég reyndi að undirbúa mig eins vel og unnt var - ég er náttúrulega ekki alvöru matreiðslumaður - ekki fyrir fimmaur - ég er læknir! 

Af þessu leiðir að ég hef ekki lært rétt verklag, iðnina, já, og jafnvel listina sem það er að elda fyrir fjölda fólks. Það er alvöru nám og alvöru vinna! Það krefst mikillar kunnáttu að geta eldað vel, góðan og ljúffengan mat - aftur og aftur - þannig að vel sé! Og mín reynsla er öll bundin við eldhúsið heima - þar sem ég elda fyrir mitt fólk - fólkið sem ég elska (og ég vona auðvitað að það sé gagnkvæmt!) - og það er allt annað! Það gerir aðrar kröfur en viðskiptavinir eða veislugestir ef því er að skipta - eða það ímynda ég mér!

Ég hef þó eldað fyrir stóra hópa fólks nokkrum sinnum. Fyrir nokkrum árum sá ég um eftirréttinn fyrir brúðkaup Gríms og Daggar, en þar gerði ég Pavlovur, sjá hérna! Ári síðar bakaði ég eftirrétti fyrir brúðkaup Addýjar og Gumma - en þar gerði ég nærri 20 franskar súkkulaðikökur, sjá hérna! Svo tók ég líka að mér fyrir nokkrum árum síðan að elda fyrir nærri 300 íslenska fótboltakappa sem voru á Old boys fótboltamóti á Skáni


Ég prófaði þessa rétti tveimur vikum áður til að sjá hvort að allt myndi passa, að hráefnin pössuðu saman, að tímasetningar myndu ganga upp. Við vorum tólf í mat þannig að þetta var smá framleiðsla. En það er allt annað að elda fyrir eitt hundrað manns - allt annað! 

Brúðkaupsveisla - seinni kapítuli - Lambalæri "sousvide" með konfiteruðum skalottulauk, þrennskonar rótargrænmeti og rjómalagaðri villisveppasósu

Við byrjuðum undirbúninginn á föstudeginum. Fórum í Kjöthöllina þar sem tekið var vel á móti mér! Ég hafði pantað 15 lambalæri og þegar mig bar að garði var búið að úrbeina þau öll eins og ég hafði óskað eftir. Ég fékk lánaða bakka og útbjó kryddblöndu úr rósmaríni, timían, svörtum pipar, hvítlauksdufti, bergmyntu og salvíu. Fyrst nuddaði ég öll lærin með jómfrúarolíu og svo var kryddblöndunni sáldrað inn í og utan á lærin. Þau voru þvínæst sett í poka og vakúmpakkað.


Ég hafði fengið alvöru eldhús lánað til afnota á laugardeginum. Ég mætti snemma og setti lömbin yfir! Ég var með fjögur Sansaire tæki, tvö sem ég á sjálfur og svo fékk tvö að láni hjá vinkonu minni, henni Auði í Salt Eldhúsi, en þar var ég með námskeið nú í vor - í sousvide eldamennsku! 


Ég hitaði því fjögur 24 lítra vatnsböð og kom lambalærunum fyrir þannig að vatnið gæti auðveldlega umlukið þau öll!

Fyrir þá sem hafa áhuga á því að nálgast þessi tæki þá ráðlegg ég ykkur að líta við í Kokku á laugarveginum!



Upp úr tíu um morguninn mættu svo bróðurparturinn af saumaklúbbi brúðgumans - Flottræflarnir - og hjálpuðu við að skræla hátt í 20 kg af rótargrænmeti ásamt því sem þeir voru notaðir til að taka utan af 180 skalottulaukum. Takk fyrir aðstoðina, kæru herrar! 


Ég byrjaði á því að setja skalottulaukinn yfir! 180 skalottulaukar í um fjóra lítrum af jómfrúarolíu og nokkrar handfyllir af fersku timjan. Þetta fékk að eldast í 110 gráðu heitum ofni í um fjóra tíma. Svo var olíunni hellt frá, smakkað til með balsamediki, salti og pipar. 


Seinna um daginn voru svo settar yfir kartöflur með rósmaríni og hvítlauksgeirum, gulrætur með balsamediki og rósmaríni og svo næpur með sítrónum og timjan. Allt var að sjálfssögðu vætt upp olíu, salti og pipar. 


Svo var það sósan. Fyrst var að gera soðið. Byrjaði á hefðbundinn hátt með mirepoix - lauk, sellerí og gulrætur (og hvítlauk auðvitað) steikt í olíu þangað til að það fer að mýkjast að utan. Svo brúnuð lambabein. Þá 20 lítrar af vatni, lárviðarlauf, timjan. Froðunni fleytt af. Soðið niður um helming. 


Síðan brúnaði ég um 5 kg af sveppum og svo 1 kg villtum sveppum í smjöri, salti og pipar (myndin er þó tekin á æfingunni tveimur vikum áður). Þegar þeir voru fallegar brúnaðir, var hvítvínsflösku bætt saman við, áfengið soðið upp, svo soðið og rjómi og svo fékk þetta að krauma allan daginn á lágum hita. Smakkað til með salti, pipar og smá sultu. 


Þegar að allt var tilbúið var öllu pakkað inn í hitakassa og flutt yfir í veislusalinn. Það tók okkur um klukkustund að raða forréttunum upp á diska, sjá hérna, og svo var bara að vinda sér yfir í aðalréttinn. 

Ég grillaði öll lambalærin að utan yfir blússheitu grilli - rétt þannig að þau tæku aðeins lit. Þau þurftu ekki nema tvær til þrjár mínútur á grillinu þar sem að þau voru þegar elduð í gegn! 


Svo var bara að setja sig í stellingar og byrja að skera niður ofan í mannskapinn. Kokkastarfið (meira segja þegar maður er að þykjast) er alvöru vinna! 


Kjötið verður dásamlega bleikt alla leiðina í gegn. Fyrir þá sem finnst þetta of lítið eldað má alltaf elda kjötið við hærra hitastig - en þetta er dásamlegt svona eins og það er - dásamlega meyrt og safaríkt, sem og að kjötið hefur sogað í sig allt bragðið!


Og nokkur orð um veigarnar. Það var sko nóg af þeim! Með matnum var boðið upp á þetta ítalska rauðvín - Piccini Rosso frá Toscana. Ég hef drukkið Piccini Memoro nokkrum sinnum og verið afar ánægður með það. Þetta vín er gert úr Sangiovese þrúgum. Fallega rautt í glasi, djúpur litur. Ilmar af ávexti, kirsuberjum og kannski plómum. Ágætt jafnvægi með léttum eikarkeim í lokin. Og það passaði svona ljómandi vel með matnum!

Þetta vín eru frábær kaup!


Svo var líka nóg af bjór - auk þess að bjóða upp á klassíkera eins og Gull og Tuborg Classic þá var þessi gersemi í boði - Úlfrún nr. 34 - Session IPA.

Okei, fyrst þarf kannski að nefna eitthvað dugnaðarforkana í Borg Brugghúsi sem ráða þar ríkjum. Árni og Valgeir hafa síðastliðin ár kynnt fyrir Íslendingum fjöldann allan af ljúffengum bjórum. Nún eru þeir meira að segja í samvinnu við næstum því alnafna minn, Ragnar Freyr Rúnarsson - betur þekktan sem Freysa - bjórstjóra á Skúla fógeta

Lengi vel voru Úlfur og Snorri í uppáhaldi hjá mér en ég held að með þessum leik - Úlfrúnu -  hafi komið sterk samkeppni. Ég smakkaði nokkra slíka til að verðlauna mig fyrir vel unnin störf bakvið eldavélina! 

Eftir því sem ég kemst næst þá sækja bruggmeistarar Borgar innblástur í bandarísku IPA-nýbylgjuna svonefndu. Bjórinn sem hefur visst ávaxtabragð á tungu sem þeir ná með því að blanda saman nokkrum tegundum af humlum við nokkrar tegundir af korni - meira um það hérna

Og af hverju kallast bjórinn Session IPA. Fyrri hlutinn, session, tengist því að hann hefur minna alkóhólinnihald en klassískir IPA 4,5%. Þessi tegund af bjór mun hafa orðið til þegar verkamenn fengu að drekka í vinnutímanum - svokallaður drekkutími (drinking session). Af augljósum ástæðum var það betra að hafa bjórinn léttari svo eitthvað yrði unnið eftir hádegið. IPA - Indian Pale Ale er ákveðin tegund af bjór, einkennist af umtalsverðu humlaðu bragði og varð til þegar verið var að flytja bjór til breskra hermanna á Indlandi á árum áður!



Bon appetit! 

Og til hamingju Magnús og Hafdís með frábæran brúðkaupsdag. Megi hjónaband þessa sómafólks verða farsælt og hamingjuríkt og endast þeim alla ævi! 

Sunday, 13 October 2013

Gómsæt baka með villisvínalæri, haustlegu rótargrænmeti og ensku öli


Nágrannar mínir, Gustav og Ulrika Brogren, eiga veiðiland í Smálöndunum og þar er Gustav duglegur að stunda skotveiðar. Hann veiðir elg, dádýr og villisvín. Og það sem er best við þetta allt er að þau eru alltaf svo dugleg að gauka að mér villibráð sem hefur gert það að verkum að ég er með heila skúffu í frystinum fulla af elg, villisvína- og hjartarhakki, dádýrslæri, elgsinnanlæri og svo þessu villisvínalæri sem ég ákvað að nota að þessu sinni.

Villisvín hafa orðið að talsverðu vandamáli í Svíþjóð. Þau villisvín sem finnast í Svíþjóð í dag eru komin frá rússneskum villisvínum. Eftir því sem vinur minn sagði mér voru sænsku svínin ofveidd og hurfu um aldamótin. Á sjötta ártugnum fór að bera á rússneskum villisvínum sem döfnuðu vel í sænskum skógum og núna reiknast stofninn vera í kringum 175.000 þúsund dýr. Þau eru farin að leita út fyrir skógana, trufla bændur og valda mörgum umferðarslysum árlega. Svíum er mikið í mun að halda stofninum í skefjum sem er hægara sagt en gert. Í mildu veðurfari geta gylturnar eignast 6-8 grísi í hverju goti og tekst stundum að gjóta tvisvar á ári. Mér skilst að 55.000 svín séru skotin árlega - og nokkrir kjötbitar hafna í frystinum mínum.

Mér verður alltaf hugsað til æsku minnar þegar ég hugsa um villisvín - og ekki vegna þess að ég hafi nokkra reynslu að því að borða villisvín - wild boar - en ég var mikill aðdáandi Ástríks og Steinríks í Gaulverjalandi og þeir kunnu, sko, að meta villisvín. Og það er skiljanlegt - þetta er herramannsmatur.

Gómsæt baka með villisvínalæri, haustlegu rótargrænmeti og ensku öli



Við notuðum Hobgoblin enskt öl sem er ansi mjúkur sopi og mér datt hug að gæti passað vel með villisvínalæri. Við vorum einnig með rótargrænmeti - gulrætur, nýpur (parsnip) og seljurót auk þess að ég var að sjálfsögðu með lauk, sellerí og hvítlauk.


Fyrst var að hluta niður lærið. Lykilbeinið var þegar farið þannig að úrbeina kjötið var auðvelt. Bara skera meðfram beininu.


Svo var kjötið bara skorið niður í munnbitastóra bita. Saltað og piprað. 


Skar niður einn gulan lauk, tvær sellerísstangir og einn sóló-hvítlauk (4-5 hvítlauksrif) sem ég steikti í olíu. Saltað og piprað. Þegar það fór að mýkjast bætti ég tveimur gróft skornum gulrótum, þremur nýpum og svo einum heldur smáum seljurótarhaus. Þegar grænmetið fór að taka lit setti ég það til hliðar til að brúna kjötið að utan. 


Kjötið var steikt að utan bara í stutta stund - til að fá lit að utan og til að loka því!


Þá hellti ég úr tveimur flöskum af hobgoblin öli og setti svo allt grænmetið ofan í pottinn og blandaði saman ásamt tveimur kúfuðum matskeiðum af tómatapúré.


Setti síðan einn lítra af heimagerðu kjötsoði, saltaði vel og pipraði og tróð niður vænum kryddvendi - með steinselju, lárviðarlaufum, timian og rósmaríni. Suðan fékk að koma upp og svo var potturinn færður inn í ofn við 170 gráður í þrjár klukkustundir.


Ilmurinn í húsinu var dásamlegur. Færði kjötið og grænmetið yfir í eldfast mót. Smakkaði til sósuna - með salti og pipar og sauð hana upp og þykkti með maizenamjöli og hellti því svo yfir kjötið og grænmetið.


Rúllaði síðan út fimm plötur af smjördeigi - þannig að það myndi duga til að hjúpa eldfasta mótið. Gerði nokkur loftgöt, penslaði með eggi og bakaði síðan í 180 gráðu heitum ofni þangað til að smjördeigið var fallega gullinbrúnt.



Með matnum drukkum alveg fyrirtaks vín sem ég fékk að gjöf nýverið. Ég er mjög hrifinn af vínum frá þessum ítalska framleiðenda. Bæði eru gæðin góð og þau eru líka á góðu verði. Þessi flaska er með þeirra betri vínum. Masi Amarone Costasera frá því 2007. Þetta er dúndur gott vín - dökkrautt í glasi, þykkt á tungu með miklum krydduðum, nærri því sultuðum ávexti. Eftirbragðið með vott af ljúfri eik. Það er svo gaman að drekka góð vín!


Borið fram með einföldu salati og heimagerðum frönskum!

Tími til að njóta!

Lesendum er boðið í útgáfupartí matreiðslubókarinnar sem ég er að fara að gefa út, Læknirinn í Eldhúsinu - tími til að njóta, sem verður haldin 1. nóvember næstkomandi.

Veislan verður haldin í Eymundsson - Skólavörðustíg og byrjar kl 17.00.

Verið öll velkomin!

Fylgist með uppákomum á Facebook: The Doctor in the Kitchen!


Sunday, 13 January 2013

Gestakokkur í Malmö: Fyllt lambasíða á marókóska vísu með döðlusósu, kúskús og rótargrænmeti


Þetta var sannarlega spennandi dagur í gær. Ég hafði fengið það hlutverk hjá nágrönnum mínum og vinum að vera gestakokkur á nýjum veitingastað þeirra í Malmö. Latifa er frá Marókkó og hefur hún búið í Svíþjóð í mörg herrans ár. Hún hefur lengi unnið innan veitingabransans og ákvað nýverið að slá til og stofna fyrsta marókóska veitingastaðinn í Malmö. Johnsson's kök er í Norra Skolgatan og er í sama húsnæði og íbúðahótel. Hægt er að kíkja á síðuna þeirra hérna.

Ég lagði grunninn að matseðlinum með Latifu fyrir nokkrum vikum síðan. Mig hefur lengi langað til að elda lambasíðu aftur - en það er ansi langt síðan ég gerði þetta seinast. Það var í október 2010 að ég fyllti lambasíðu með couscous og apríkósum. Ansi ljúffengt fannst mér - hægt er að lesa meira um það hérna. En að þessu sinni breyttum við uppskriftinni talsvert. Fyllingin var ansi frábrugðin - núna fyllt með kjötfarsi og kryddað með ljúffengum marókóskum kryddum. 

Oft getur maður ferðast um heiminn í gegnum eldhúsið. Maður hefur ekki endalaus tækifæri til ferðalaga og stundum er hægt að stytta sér leið með því að lesa um, skoða myndir, hlusta á tónlist og svo auðvitað elda mat þeirra staða sem mann langar til að heimsækja. Maður kemst ansi langt á þessari aðferð. En auðvitað ætla ég einhverntíma að ganga um markaðina í Marrakesh, fara á veitingastaði, kaupa krydd og fallegan marókóskan borðbúnað! 


Gestakokkur í Malmö: Fyllt lambasíða á marókóska vísu með döðlusósu, kúskús og rótargrænmeti 

Latifa sótti mig um tíuleytið. Við brunuðum beint til Malmö og brettum upp ermarnar.


Latifa var aðstoðarkokkur minn þennan dag. Ekki amalegt að hafa atvinnumann innan seilingar! Hún sá um að undirbúa rótargrænmetið; gulrætur, kartöflur, nýpur, sellerírót, rófur, lauk, hvítlauk og rauðbeður. Grænmetinu var öllu velt upp úr olíu, saltað og piprað og síðan stráði ég kúmenfræjum yfir. Bakað í ofni við 180 gráður í fimm kortér!


Ég undirbjó síðan rækjurnar. Fullt af risarækjum, nóg af harissa - sem er chilliblanda gerð úr piripiri chili, olíu - oft er hvítlaukur og kóríander haft með. Harissa er upprunalega frá Túnis en er líka mikið notað í marókóskri matargerð.



Setti síðan ég heilmikið af hakkaðri ferskri myntu, sneiddi niður fjórar sítrónur og kreisti safann úr. Þá slatta af olíu. Þetta fékk síðan að marinerast í ísskápnum allan daginn.


Rækjurnar voru þræddar upp á spjót, penslaðar með smjöri og grillaðar. Bornar fram á salatbeði með jógúrtsósu; tyrknesk jógúrt, hvítlaukur, salt, pipar, fullt af myntu og svo fljótandi hunang.


Latifa gerði gómsætt brauð til að bera fram með matnum. Hún blandar anísfræjum saman við brauðdeigið sem gefur því sérstaklega ljúffengt bragð!


Latifa bar einnig ábyrgð á eftirréttinum - sem ég valdi þó! Mille Fuille er maróskósk lagkaka gerð úr smjördeigi sem er raðað saman með vanillukremi. Síðan er appelsínubragðbætt sykurbráð sett ofan á og smá súkkulaðikrem.


Ég útbjó fyllinguna fyrir lambasíðuna á eftirfarandi hátt: Nautakjöt, gnægð af smátt söxuðum lauk og hvítlauk, jómfrúarolía, nóg af papríkudufti, engiferi, broddkúmeni, salti og pipar og svartar marókóskar olífur auk, handfyllis af ferskri steinselju.


Lambasíðurnar voru hreinsaðar og lagðar á bretti. Fylling sett inní og svo var síðunni rúllað upp. Setti fyrst spjót í gegnum rúllurnar og batt síðan snæri til að tryggja að þær myndu ekki opnast.


Smá yfirlit úr eldhúsinu.


Ætli ég hafi ekki gert einar fimmtán rúllur!


Hérna eru svo nokkrir af gestunum. Bróðir og systir Latifu og svo vinkona þeirra. Þau virtust afar ánægð með matinn.


Þessi ljósmynd var tekin seint um kvöldið þegar allir gestirnir voru búnir að borða. Fyllingin var orðin pínu þurr á þessum tímapunkti en hafði ekki tapað neinu af gómsætu bragðinu. 


Döðlusósan gat ekki verið einfaldari. Við gerðum grænmetissoð frá grunni. Fyrir hverja 250 ml af soði setti ég 5 döðlur. Döðlurnar, sem voru ferskar, voru kjarnhreinsaðar og svo bakaðar í ofni í 15 mínútur til að lokka enn frekar fram sætuna í þeim. Notaði síðan töfrasprota til að blanda þessu saman. Til að ná jafnvægi, setti ég smáræði af smjöri (ein teskeið fyrir 250 ml af sósu) og svo auðvitað salt og pipar.

Síðan var bara að raða þessu upp á fallegan disk - auðvitað frá Marókkó. Nóg af grænmeti bæði fersku og ofnbökuðu rótargrænmeti, beð af eimsoðnu kúskús - tvær þykkar sneiðar af lambasíðu, sósa og svo kóríanderlauf.

Þetta var ótrúlega gott - þó að ég segi sjálfur frá!

Bon appetit!