Thursday 28 February 2013

Nýtni er dygð: Einfalt kjúklingapasta með furuhnetum, basil og steinselju

Það kemur fyrir oftar en ekki að ég er með kjúkling á sunnudagskvöldum, eins og kom fram í þessari færslu hérna eða þessari þar sem ég elda hann á teini, sjá hérna. Og oftar en ekki verður til afgangur af þessari veislumáltíð og það leiðist mér aldrei þar sem alltaf er hægt að nýta afgangana í eitthvað gott, eins og t.d. þennan ljúffenga og ofureinfalda pastarétt.

Mágkona mín, Kolbrún Eva, biður alla jafna um þennan rétt þegar hún kemur í heimsókn! Mér finnst það nokkuð skemmtilegt þar sem hann er sjaldnast eins en hún alltaf jafnánægð. Kjúklingurinn er auðvitað aðalatriðið en ég nýti líka sósuna og meðlætið hvert sem það kann nú að vera! Stundum fá kartöflurnar að fara með, nokkrir sveppir, eða eitthvað annað! Og það verður alltaf jafngott.

Svo væri það líka synd að henda þessu ljúffenga hráefni - og við hendum nú nógu mat fyrir og þá er ég ekki bara að tala um sjálfan mig heldur samfélagið í heild sinni. Í sumum löndum í Evrópu er upp til 40 prósent af allri fæðu sem keypt er inn eða framleitt hent út á ruslahauga. Þetta er auðvitað skammarlegt, sér í lagi þegar maður hugsar um alla þá sem eru án matar á degi hverjum og hvaða umhverfisáhrif eru af þessari sóun!

Nýtni er dygð: Einfalt kjúklingapasta með furuhnetum og steinselju

Til að undirbúa þessa máltíð, þarf maður raunverulega að byrja hérna - með því að elda þennan kjúkling! Það væri hægt að koma við í verslun og kaupa svona grillaðan kjúkling, en auðvitað er best að nota afganga af veislumáltíð frá því deginum áður, það er náttúrulega augljóst!
Einn hvítur laukur og tvö til þrjú hvítlauksrif eru skorin niður og steikt í jómfrúarolíu. Saltað og piprað. Smá skvettu af hvítvíni (kannski 100 ml) er hellt á pönnuna og soðið niður.


Kjúklingurinn er rifinn af grindinni og skorinn niður í munnbitastóra bita. Sett útá pönnuna.

Steikt í eina til tvær mínútur rétt til að taka smá lit með lauknum áður en haldið er áfram. 


Smá skvettu af hvítvíni (kannski 100 ml) er hellt á pönnuna og soðið niður. Sósunni er bætt saman við, 100 ml af vatni, einum kjúklingakraftstengingi og 50 ml af matreiðslurjóma.


Pasta, hvaða tegund sem er, er soðið í bullsjóðandi ríkulega söltuðu vatni þangað til al dente.


Skreytt með ferskri steinselju og basil og svo ristuðum furuhnetum.

Með matnum opnuðum við flösku af Peter Lehmann Chardonnay - það er nokkuð langt síðan að við drukkum þetta vín síðast. Eins og oft áður á ferðum okkar um Evrópu höfðum við stoppað í Bordershop í Þýskalandi (áfengisverslun) og keypt smáræði af bjór og léttvíni. Vínin frá Peter Lehmann eru alltaf góð kaup. Peter Lehmann Chardonnay 2010 er alveg ljómandi gott hvítvín. Er klassískt Chardonnay og hefur alla þá kosti sem slíkt vín á að að bera. Ilmar af ávöxtum, sömuleiðis ávextir á tungu, smjörkennt og eikað. Ljómandi gott.Svo er bara að raspa smáræði af parmaosti yfir setjast niður og njóta matarins.

Bon appetit

Tuesday 19 February 2013

Ljúffengir ostborgarar með truffluaoli og tartiflette kartöflum


Það hefur verið ládeyða á blogginu mínu og á Facebook síðunni minni síðastliðna vikuna og á því eru fullkomlega löglegar skýringar. Við fórum núna fyrir helgina suður til Austurríkis í okkar árlegu Alpaferð. Þetta er í sjötta sinn þar sem við tökum hús hjá Dodda og Þurý á Skihotel Speiereck í St. Michael í Lungau héraði rétt sunnan við Salzburg. Við fórum hingað í fyrsta sinn á því herrans ári 2007 - þá þegar við Íslendingar trúðum ennþá að við værum snillingar og ættum nóg af peningum! Ég man að evran kostaði um 80 krónur og mikið djöfull fannst manni við vera efnuð, þó að ég hafi bara verið aðstoðarlæknir á þeim tíma! Þetta var dásamleg ferð - við hjónin lærðum að skíða eftir áralangt hlé - ferðin var svo góð að við höfum komið hingað aftur og aftur, á sama staðinn og í sama herbergið. Hérna höfum við alltaf verið sérstaklega ánægð og notið gestrisninnar sem hérna er veitt!

Maturinn sem er í blogginu tengist þó Ölpunum ekkert - ekki nema að maturinn var orkuríkur með eindæmum eins og tíðkast í Ölpunum. Maður þarf að vera duglegur í brekkunum til að geta þolað viku af tírólamat og alpabjór. Þetta er full vinna - frábær vinna.

Bróðir minn fékk gefins trufflur frá Umbriu héraði í Ítalíu nýverið og við höfum upp á síðkastið verið að skipuleggja hvernig best væri að nota þær. Þessi réttur var einn af niðurstöðunum. Við gerðum líka risotto með villisveppum og trufflum, spaghetti með trufflueggjum og svo Tornados Rossini, sem er sennilega mest "decadent" matur sem ég hef eldað síðastliðin misseri - hvítlaukssteikt brauð, smjörsteikur biti af nautalund, steikt foie gras, sneiddar trufflur og svo madeira sósa... geðveikt!

Ljúffengir ostborgarar með truffluaoli og tartiflette kartöflum

Sumir myndu kannski segja að það að nota trufflur á hamborgara sé eins og að setja varalit á svín en hamborgarar eru auðvitað herramanns matur sé gott hráefni valið. Skyndibitastaðir hafa margir dregið hamborgarann niður í svaðið!En meðlætið var svo eiginlega líka aðalréttur. Hugmyndin að þessum er fengin frá Rachel Khoo sem var nýverið með sjónvarpsþætti á RÚV sem voru alveg ljómandi góðir. Hún mælir með því að nota Rauchoblon ost sem er frá frönsku ölpunum en hann fékkst ekki í ostabúðinni sem ég fór í (og þar með fóru tengslin við Alpana fyrir róða) en ég fékk þennan ljómandi ost frá Alsace - Altesse sem var svona ljúffengur á bragðið.Tartiflette er réttur þar sem maður rífur niður kartöflur og blandar beikoni, lauk, hvítlauk og svo þessum ljúffenga osti. Ég átti til þetta heimagerða beikon - hunangslegið og kaldreykt - alveg sérdælisljúffengt! Hægt er að lesa meira um beikongerð hérna


150 gr af beikoni var skorið niður í bita og steikt á pönnu ásamt heilum stórum niðurskornum rauðlauk, þremur hvítlauksrifjum og tveimur lárviðarlaufum.


Þegar laukurinn er farinn að glansa er 800 gr af rifnum kartöflum bætt á pönnuna og steikt í nokkrar mínútur og um leið reynt að blanda vel saman við laukinn og beikonið. 

Því næst er ostinum bætt saman við, niðurskornum. Hrært vel saman - og fært yfir í muffinsofnskúffu. 


Hvert mót er barmafyllt og síðan sett inn í forhitaðan ofn - 180 gráður - og bakað þangað til gullinbrúnt.


Lyktin af þessum rétt er hreinlega tryllingslega góð! 


Nærmynd af þessari dásemd! Oft er einfaldleikinn það besta - beikon, laukur, kartöflur og ostur!!!Bjuggum til 160 gramma hamborgara og steiktum á grillpönnum þangað til medium rare. Settum líka cheddarost, sem hafði fengið að þroskast í 12 mánuði, á borgarana.

Truffluaoli er auðvelt að gera. Auðvitað er hægt að gera aoli frá grunni - og slíkt er afar létt, djion, hvítlaukur, eggjarauða og svo olía! En við létum okkur 6 kúfaðar msk af Hellmans mayonaise og við það blandaði ég einni teskeið af kröftugri truffluolíu, salti & pipar og að lokum raspaði ég heila svarta trufflu saman við.Síðan var ekkert annað en að raða hamborgaranum saman. Truffluaoli, salat, tómatur, hamborgari, smá sinnep, tómatsósa og svo meira aoili.


Með maturm drukkum við þetta rauðvin. Pata Negrasem  er Spánskt Tempranillo vín - dökkt og þykkt í glasi. Ilmar af dökkum berjum - smávegis tannín. Passaði ágætlega með öllum þessum heita mat. Gott eftirbragð.Þessi hamborgari hefði getað unnið til verðlauna - og tartiflette kartöflurnar voru alveg frábærar. Þær hefðu alveg getað verið aðalréttur með góðu salati og góðri baguette!

Bon appetit!Sunday 10 February 2013

Rústik kraftmikil grænmetissúpa með baunum og kartöflum og heimagerðu brauði

Það er aftur kominn vetur, eftir smá hlákutímabil hjá okkur á Skáni. Síðastliðna daga hefur snjóað og verið heldur kalt í veðri. Og þegar svoleiðis veður er úti þá er gott að kynda upp í arninum inn í stofunni og ylja sér! Og á svona vetrardögum er líka gott að ylja sér að innan með góðri og kraftmikilli súpu og fátt betra en að hafa með því nýtt heimagert brauð. 

Þessa súpu gerðum við í vikunni sem leið! Ég sá um súpugerðina en mín íðilfagra eiginkona, Snædís, sem er heima í mæðraorlofi með Ragnhildi Láru, sá um brauðgerðina. Og ekki að sjá annað en að henni hafi tekist vel upp. Snædís hefur verið dugleg að baka upp á síðkastið, fjölskyldunni til mikillar ánægju. 

Rústik kraftmikil grænmetissúpa með baunum og kartöflum og heimagerðu brauði

Hráefnalisti

Brauð:

25 gr þurrger
0.5 l volgt vatn
1 msk hunang
400 gr spelt
200 gr af rúgmjöli
100 gr af hveitiklíð
1 kúfuð teskeið af salti
2-3 msk af jómfrúarolíu

Súpa:

4-5 stórar kartöflur
3 stórar gulrætur
2-3 sellerístangir
1 hvítur laukur
hálfur kúrbítur
3-4 hvítlauksrif 
1 matskeið jómfríarolía 
2 lítrar kjúklingasoð saman við grænmetið
Handfylli af steinselju
1 dós hvítar baunir 
1 dós canneloni baunir
Salt og pipar


Þetta var heldur einföld brauðuppskrift. Fyrst var að vekja ger í ylvolgu vatni. Snædís setti 25 gr af þurrgeri í hálfan líter af volgu vatni ásamt einni matskeið af lífrænu hunangi. Látið standa í 10-15 mínútur þangað til að gerið er farið að freyða almennilega. 

Næsta skref var að setja 400 gr af spelti, 200 gr af rúgmjöli, 100 gr af hveitiklíð, 1 kúfaða teskeið af salti og blanda saman ásamt 2-3 msk af jómfrúarolíu. 

Næst er að blanda gervökvanum saman við þurrefnin og hnoða í höndunum eða í hrærivél. Stundum þarf að bæta meiri vökva saman við ef deigið er of þurrt eða hveiti, ef það er of blautt! 

Síðan leggur maður viskastykki yfir skálina og lætur hefast í 1-2 klukkustundir. Deigið ætti að tvöfaldast í stærð. Þá var deiginu skipt í tvo helminga og brauðin formuð. Annað brauðið var látið vera plain og hitt skreytt ríkulega með fræjum. Bakað í 180 gráðu heitum ofni í 35-40 mínútur. Súpan var einföld. Skar niður 4-5 stórar kartöflur, þrjár stórar gulrætur, nokkrar sellerístangir, einn hvítan lauk, hálfan kúrbít og nokkur hvítlauksrif og steikti í matskeið af jómfríarolíu þangað til að grænmetið var mjúkt. Setti því næst tvo lítra af kröftugu kjúklingasoði saman við grænmetið, en það hafði ég gert nokkru áður og átti til í frystinum. Saltaði vel og pipraði. Opnaði næst eina dós af stórum hvítum baunum og aðra af canneloni baunum, skolaði allar baunirnar upp úr köldu vatni fyrst, og bætti svo saman við súpuna. 

Að lokum setti ég handfylli af smátt saxaðri flatlaufssteinselju saman við. Soðið við lágan hita í klukkustund (eða 30 mínútur í þrýstipotti).


 Bárum brauðið fram með smjöri og brieosti. Dásamlegt!

Bon appetit!


Friday 1 February 2013

Gómsæt gulrótarkaka Valdísar


Valdís dóttir mín hefur verið mér oft innan handar í eldhúsinu. Hún byrjaði að aðstoða mig í eldhúsinu um leið og hún hafði vit á því hvað fór fram þar. Strax fimm ára var hún farin að hræra í pottum og blanda í salöt. Núna á seinni árum hefur hún einna mest haft áhuga á því að baka kökur og svoleiðis. Ég var líka nokkuð flinkur að baka skúffuköku á hennar aldri. Valdís hefur þó haft mikið dálæti á gulrótarkökum - alveg síðan hún var barn. Og fyrir kannski tveimur árum síðan fór hún að gera sína eigin gulrótarköku eftir uppskrift sem hún fann á netinu. Hún hefur gert þessa uppskrift nokkrum sinnum og alltaf heppnast hún jafnvel.

Ég hef aldrei sjálfur prófað að baka eftir þessa uppskrift og það er ósennilegt að af því verði nokkurn tíma, alltént á meðan dóttir mín býr ennþá í foreldrahúsum. Hún er það viljug til bakstursins. 

Gómsæt gulrótarkaka Valdísar dóttur minnar


Hráefnalisti

2 dl hveiti
2 dl sykur
1-2 tsk kanill
1 tsk vanillusykur
1 tsk natron
1 tsk lyftiduft
3 dl gulrætur
1 dl matarolía
2 egg
200 gr hreinn rjómaostur
2 dl flórsykur
1 matskeið smjör
1 tsk vanillusykur


Auðvitað verður að fylgja mynd af bakaranum! Valdísi Eik! Jæja en þá að bakstrinum; 

Fyrst er auðvitað að gera botninn í kökuna. 


Þurrefnunum er fyrst blandað saman; 2 dl hveiti, 2 dl sykur, 1-2 tsk kanill, 1 tsk vanillusykur, 1 tsk natron og ein teskeið lyftiduft. Svo er að rífa niður 3 dl af gulrótum, sem maður blandar svo saman við þurrefnin ásamt 1 dl af matarolíu og 2 eggjum. 


Það er gaman að sjá hversu mikið af gulrótum fara í þessa köku og þannig fá mann til að halda að hún sem raunverulega holl!


Deigið er síðan sett í smurt eldfast mót og sett í 180 gráðu heitan forhituðam ofn og bakað í 40-50 mínútur.

Kakan er síðan tekin út og leyft að kólna um stund áður en kremið er smurt á.

Kremið er gert á þann hátt að Valdís blandar saman 200 gr af hreinum rjómaosti saman við 2 dl af flórsykri, 1 matskeið af smjöri og 1 tsk af vanillusykri. Hrært saman og smurt á kökuna.Kakan er svo skreytt með tálgaðri gulrót. 

Bon appetit!