Sunday 10 February 2013

Rústik kraftmikil grænmetissúpa með baunum og kartöflum og heimagerðu brauði

Það er aftur kominn vetur, eftir smá hlákutímabil hjá okkur á Skáni. Síðastliðna daga hefur snjóað og verið heldur kalt í veðri. Og þegar svoleiðis veður er úti þá er gott að kynda upp í arninum inn í stofunni og ylja sér! Og á svona vetrardögum er líka gott að ylja sér að innan með góðri og kraftmikilli súpu og fátt betra en að hafa með því nýtt heimagert brauð. 

Þessa súpu gerðum við í vikunni sem leið! Ég sá um súpugerðina en mín íðilfagra eiginkona, Snædís, sem er heima í mæðraorlofi með Ragnhildi Láru, sá um brauðgerðina. Og ekki að sjá annað en að henni hafi tekist vel upp. Snædís hefur verið dugleg að baka upp á síðkastið, fjölskyldunni til mikillar ánægju. 

Rústik kraftmikil grænmetissúpa með baunum og kartöflum og heimagerðu brauði

Hráefnalisti

Brauð:

25 gr þurrger
0.5 l volgt vatn
1 msk hunang
400 gr spelt
200 gr af rúgmjöli
100 gr af hveitiklíð
1 kúfuð teskeið af salti
2-3 msk af jómfrúarolíu

Súpa:

4-5 stórar kartöflur
3 stórar gulrætur
2-3 sellerístangir
1 hvítur laukur
hálfur kúrbítur
3-4 hvítlauksrif 
1 matskeið jómfríarolía 
2 lítrar kjúklingasoð saman við grænmetið
Handfylli af steinselju
1 dós hvítar baunir 
1 dós canneloni baunir
Salt og pipar


Þetta var heldur einföld brauðuppskrift. Fyrst var að vekja ger í ylvolgu vatni. Snædís setti 25 gr af þurrgeri í hálfan líter af volgu vatni ásamt einni matskeið af lífrænu hunangi. Látið standa í 10-15 mínútur þangað til að gerið er farið að freyða almennilega. 

Næsta skref var að setja 400 gr af spelti, 200 gr af rúgmjöli, 100 gr af hveitiklíð, 1 kúfaða teskeið af salti og blanda saman ásamt 2-3 msk af jómfrúarolíu. 

Næst er að blanda gervökvanum saman við þurrefnin og hnoða í höndunum eða í hrærivél. Stundum þarf að bæta meiri vökva saman við ef deigið er of þurrt eða hveiti, ef það er of blautt! 

Síðan leggur maður viskastykki yfir skálina og lætur hefast í 1-2 klukkustundir. Deigið ætti að tvöfaldast í stærð. Þá var deiginu skipt í tvo helminga og brauðin formuð. Annað brauðið var látið vera plain og hitt skreytt ríkulega með fræjum. Bakað í 180 gráðu heitum ofni í 35-40 mínútur. 



Súpan var einföld. Skar niður 4-5 stórar kartöflur, þrjár stórar gulrætur, nokkrar sellerístangir, einn hvítan lauk, hálfan kúrbít og nokkur hvítlauksrif og steikti í matskeið af jómfríarolíu þangað til að grænmetið var mjúkt. Setti því næst tvo lítra af kröftugu kjúklingasoði saman við grænmetið, en það hafði ég gert nokkru áður og átti til í frystinum. Saltaði vel og pipraði. 



Opnaði næst eina dós af stórum hvítum baunum og aðra af canneloni baunum, skolaði allar baunirnar upp úr köldu vatni fyrst, og bætti svo saman við súpuna. 

Að lokum setti ég handfylli af smátt saxaðri flatlaufssteinselju saman við. Soðið við lágan hita í klukkustund (eða 30 mínútur í þrýstipotti).


 Bárum brauðið fram með smjöri og brieosti. Dásamlegt!

Bon appetit!


3 comments:

  1. Braudid er ad lyfta sér - tek súpuna seinna :-)

    ReplyDelete
  2. Eru braudin penslud med mjólk ? Sýnist thad, mitt lýtur annars ágætlega út, átti bara enga mjólk og klappadi thví med vatni í stadinn

    ReplyDelete
  3. Sæl Regína

    Brauðin voru sennilega pensluð með eggjavatni - eitt egg og skvetta af vatni, hrært saman og penslað á!

    Bon appetit, Ragnar

    ReplyDelete