Thursday 28 February 2013

Nýtni er dygð: Einfalt kjúklingapasta með furuhnetum, basil og steinselju

Það kemur fyrir oftar en ekki að ég er með kjúkling á sunnudagskvöldum, eins og kom fram í þessari færslu hérna eða þessari þar sem ég elda hann á teini, sjá hérna. Og oftar en ekki verður til afgangur af þessari veislumáltíð og það leiðist mér aldrei þar sem alltaf er hægt að nýta afgangana í eitthvað gott, eins og t.d. þennan ljúffenga og ofureinfalda pastarétt.

Mágkona mín, Kolbrún Eva, biður alla jafna um þennan rétt þegar hún kemur í heimsókn! Mér finnst það nokkuð skemmtilegt þar sem hann er sjaldnast eins en hún alltaf jafnánægð. Kjúklingurinn er auðvitað aðalatriðið en ég nýti líka sósuna og meðlætið hvert sem það kann nú að vera! Stundum fá kartöflurnar að fara með, nokkrir sveppir, eða eitthvað annað! Og það verður alltaf jafngott.

Svo væri það líka synd að henda þessu ljúffenga hráefni - og við hendum nú nógu mat fyrir og þá er ég ekki bara að tala um sjálfan mig heldur samfélagið í heild sinni. Í sumum löndum í Evrópu er upp til 40 prósent af allri fæðu sem keypt er inn eða framleitt hent út á ruslahauga. Þetta er auðvitað skammarlegt, sér í lagi þegar maður hugsar um alla þá sem eru án matar á degi hverjum og hvaða umhverfisáhrif eru af þessari sóun!

Nýtni er dygð: Einfalt kjúklingapasta með furuhnetum og steinselju

Til að undirbúa þessa máltíð, þarf maður raunverulega að byrja hérna - með því að elda þennan kjúkling! Það væri hægt að koma við í verslun og kaupa svona grillaðan kjúkling, en auðvitað er best að nota afganga af veislumáltíð frá því deginum áður, það er náttúrulega augljóst!




Einn hvítur laukur og tvö til þrjú hvítlauksrif eru skorin niður og steikt í jómfrúarolíu. Saltað og piprað. Smá skvettu af hvítvíni (kannski 100 ml) er hellt á pönnuna og soðið niður.






Kjúklingurinn er rifinn af grindinni og skorinn niður í munnbitastóra bita. Sett útá pönnuna.





Steikt í eina til tvær mínútur rétt til að taka smá lit með lauknum áður en haldið er áfram. 


Smá skvettu af hvítvíni (kannski 100 ml) er hellt á pönnuna og soðið niður. Sósunni er bætt saman við, 100 ml af vatni, einum kjúklingakraftstengingi og 50 ml af matreiðslurjóma.


Pasta, hvaða tegund sem er, er soðið í bullsjóðandi ríkulega söltuðu vatni þangað til al dente.


Skreytt með ferskri steinselju og basil og svo ristuðum furuhnetum.









Með matnum opnuðum við flösku af Peter Lehmann Chardonnay - það er nokkuð langt síðan að við drukkum þetta vín síðast. Eins og oft áður á ferðum okkar um Evrópu höfðum við stoppað í Bordershop í Þýskalandi (áfengisverslun) og keypt smáræði af bjór og léttvíni. Vínin frá Peter Lehmann eru alltaf góð kaup. Peter Lehmann Chardonnay 2010 er alveg ljómandi gott hvítvín. Er klassískt Chardonnay og hefur alla þá kosti sem slíkt vín á að að bera. Ilmar af ávöxtum, sömuleiðis ávextir á tungu, smjörkennt og eikað. Ljómandi gott.



Svo er bara að raspa smáræði af parmaosti yfir setjast niður og njóta matarins.

Bon appetit

1 comment: