Friday 30 September 2011

Ljómandi grilluð túnfiskssteik með piparrótarsósu, aspas oggrænbaunamauki

afmælisbarniðogdóttirinn

Snædís, mín heittelskaða eiginkona, átti nýverið afmæli og í tilefni eldaði ég þessa prýðisgóðu máltíð. Það var nú þannig að afmælið hennar lenti á mánudegi og þá stóð nú til að gera grænmetismáltið en þar sem var nú tækifæri til að lyfta sér upp ákvað hún að túnfiskssteikur væru góð málamiðlun. Við keyptum þessar túnfisksteikur af einum af fiskbílunum sem kemur hérna í vitjun á tveggja mánaða fresti. Allur fiskur frá þeim er auðvitað fokdýr en þessar túnfisksteikur voru á tilboðsverði. Undrist einhver þá var þetta ekki "blue fin tuna" heldur frændi þeirra sem ku ekki vera í neinslags útrýmingarhættu.

Það er langt síðan að ég eldaði túnfisksteik seinast - sveimérþá - held bara að það hafi verið áður en ég byrjaði að blogga. Einhvern tíma hef ég pantað mér túnfisk á veitingastað og svo hefur maður auðvitað fengið túnfisk þegar maður hefur pantað sushi á veitingastöðum. En það hefur verið einhver tregða að kaupa þetta út í búð. Þegar maður sér túnfisksteikur hjá fisksölum eru þær alltaf eitthvað svo brúnleitar og þunglyndislegar - það eru skorður á því hér að selja "blue fin" túnfisk sem er miklu fallegri (og sennilega þess vegna að hann sé í útrýmingarhættu). Fróðari aðilar verða að segja mér hvernig það er með bragðið þar sem það er svo langt síðan að ég fékk mér túnfisk að ég er búinn að gleyma bragðinu og get því ekki gert samanburð.

Annars bið ég lesendur að taka eftir því að á síðuna er komið efnisyfirlit. Þeir sem eru að lesa á moggablogginu geta séð ofarlega í vinstri síðueiningunni er hlekkur yfir á efnisyfirlit sem er vistað hjá Eyjunni. Þeir sem eru að skoða á Eyjunni geta litið upp yfir síðuhausinn, við hliðina á flipanum sem stendur forsíða. Það vantar bara herslumuninn að klára þessa vinnu og geri ég fastlega ráð fyrir því að allt verði klárt núna um helgina! Þá má einnig sjá hlekk á matreiðslubókasafn mitt hafi einhver áhuga á því að skoða hvaða bækur hafa hafnað á mínum hillum og veita mér daglegan innblástur. Núna seinast var ég að eignast nýjustu bók Hugh Fearnley Whittingstall - Veg, einnig fékk ég bækurnar Whispers from a Lebanese Kitchen, A month in Marrakesh og svo Cooking by the Fireside - Food from the Alps.

Það var áhugavert að gera þessa lista - sjá hversu miklu maður hefur áorkað í eldhúsinu og það er tvennt sem mér finnst standa upp úr. Það fyrsta er hversu ljósmyndunin hefur batnað og svo í öðru lagi skrúðmælgi hafa engin takmörk þegar ég vel titla á færslurnar - svona er það bara! Hvar endar þetta?

MEGA TÚRBÓ SVAKA ... Ljómandi grilluð túnfiskssteik með piparrótarsósu, aspas og grænbaunamauki

Sósa

2 dl creme fraiche
2 hvítlauksrif
4-5 cm piparrót
1 msk síróp
Salt og pipar

Túnfiskur
Salt og pipar
1 msk jómfrúarolía
Búnt aspas

Grænbaunamauk

500 gr frosnar grænar baunir
1 msk rjómaostur
Smjörklípa
Salti og pipar


Fyrst var að huga að því að gera sósuna. Þetta var köld sósa gerð út léttu creme fraiche, notaði eina litla dós sem ég held að sé um 2 dl. Við þetta blandaði ég 2 maukuðum hvítlauksrifjum, 4-5 cm af hakkaðri ferskri piparrót, 1 msk af sírópi og svo auðvitað salt og pipar. Blandað vel saman og látið standa inn í ísskáp þangað til að maturinn er borinn fram.

aspas

Þetta er í raun afar snör eldamennska. Það þurfti lítið annað að gera en að hita grillið. Á meðan að það hitnaði, penslaði ég túnfisksteikurnar með olíu, saltaði og pipraði.

túnfiskur

Þegar grillið var orðið funheitt var lítið annað að gera en að snara aspasnum á grillið, hann hafði auðvitað hlotið sömu meðferð og túnfiskurinn, olía, salt og pipar. Túnfiskurinn og aspasinn tók nærri því jafnlangan tíma - Þó setti ég aspasinn á 2 mínútum fyrr. Túnfiskurinn þarf ekki nema 1-2 mínútur á hvorri hlið. Hann á ekki að elda alveg í gegn - hann á að halda lit sínum í miðjunni.

grilluð túnfiskssteik-1

montes alpha

Ég hef oft bloggað um græn baunapurée. Þetta er eitt af uppáhalds meðlætum Snædísar þannig að auðvitað var þetta á borðum. Það er líka ánægjulegt hvað þetta er einfalt. Maður sýður vatn í potti, saltar vel vatnið, og skellir síðan skálarfylli af frosnum grænum baunum og sýður í 4-5 mínútur. Þegar baunirnar eru tilbúnar er vatninu hellt frá og baunirnar síðan maukaðar með matskeið af rjómaosti, smjörklípu og svo salti og pipar. Smakkað til - þetta er alltaf stórgott.

Þar sem um hátíðarkvöldverð var um að ræða var auðvitað togaður tappi úr hvítvínsflösku. Að þessu sinni völdum við Montes Alpha Chardonnay sem er líka eitt af okkar uppáhalds hvítvínum. Þessi flaska hefur oft áður verið á okkar borðum og ekki að ástæðulausu. Þetta er kraftmikið hvítvín. Ilmar af ávöxtum, sítrónu. Smjörkennt á bragðið með eikuðu eftirbragði.

Engin varð svikinn.

matur

Bon appetit.

Wednesday 21 September 2011

Meiri hollusta: Dúndur heilhveiti Bruchetta með marglitum tómötum

tómatar-1

Ég var á næturvöktum í síðast liðinni viku, í fyrsta skipti í tæp þrjú ár, og það verður að segjast að það var ánægjuleg tilbreyting. Það er auðvitað allt önnur stemming að vinna á kvöldin og nóttinni. Það er samt nóg að gera á svona stóru sjúkrahúsi og verkefnin eru vissulega krefjandi. Maður verður pínulítið lúinn við að snúa sólarhringnum við - aldurinn færist auðvitað yfir. Ég man þegar ég var læknanemi og var að vinna í Keflavík, þá vann maður vandræðalaust í gegnum heila helgi - slíkt myndi ég ekki vilja endurtaka í dag.

Þessa brauðsneið fékk ég mér í seinustu viku, þegar ég var á leiðinni á vaktina, sannkölluð orkubomba. Þetta er auðvitað bara spin-off á venjulegri bruchettu - sem er venjulega snitta sem maður ristar á þurri pönnu, raspar síðan með hvítlauksrifi og maður setur síðan blöndu af tómötum, basil ofan á. Þetta er svo bara afbrigði af þessu - nema hvað til að gera þetta að meiri máltíð, þá skar ég stóra sneið af heilhveitibrauðinu sem ég bloggaði um í síðustu færslu og notaði sem "stór" snittuna mína.

Undanfarnar vikur hefur mikið borið á fjölbreytilegum og smáum, mislitum tómötum í verslnum og hjá grænmetissölunum niðri á torgi. Rauðir kirsuberja, plómu, gulir, appelsínugulir og þessir frábæru dökk grænu zebra tómatar - nóg úrval. Í þetta sinn keypti ég handfylli af rauðum kirsuberja og gulum tómötum.

heilhveitibrauð

Meiri hollusta: Dúndur heilhveiti Bruchetta með blönduðum tómötum


Hráefnalisti

Gott brauð
Handfylli kirsuberjatómatar
1/2 rauðlaukur
Basillauf
1-2 msk jómfrúarolía
1 msk balsamikedik
1 msk hvítlauksolía
Salt og pipar

Það tekur því varla að tala um uppskrift í þessu sambandi - þar sem þetta er auðvitað lítið annað en bara brauð með áleggi! Mjög góðu og frískandi áleggi!

steikt brauð-1

Fyrst var að skera smátt niður handfylli af rauðum kirsuberjatómötum og gulum tómötum í 2-4 bita eftir stærð, hálfan rauðlauk og blanda saman í skál. Bæta við handfylli af rifnum eða skornum basillaufum (sumir segja að maður varðveiti bragðið betur við að rífa basil heldur en að skera - mér finnst það ári gott sama hvernig farið er með það) og svo nokkrum steinseljulaufum. Síðan hellti ég saman við 1-2 msk af góðri jómfrúarolíu og síðan 1 msk af balsamikediki, saltað og piprað og svo blandað vel saman. Látið standa í nokkrar mínútur til að tómatarnir nái að marinerast aðeins í olíunni og edikinu.

brúshetta

Skar niður eina brauðsneið af fína heilhveitibrauðinu mínu og steikti í jómfrúarolíu og smátt skornum hvítlauk þangað til að það tók á sig smávegis lit þó án þess að hvítlaukurinn færi að brenna.

Svo var ekkert annað að gera en að taka til við að hrúga tómötum yfir brauðið og borða með bestu lyst!

closeup

Bon appetit!

Thursday 15 September 2011

Hreinasta hollusta: Petits Pois súpa með heimagerðu heilhveitibrauði

Það eru augljós teikn um að það sé komið haust. Og mun fyrr en oft áður - hér blæs kröftuglega og rignir hressilega. Og það er í sjálfu sér í fínu lagi! Mér finnst haustin vera frábær tími, nema á morgnanna og ég er að hjóla í vinnuna og það er mótvindur og það rignir - þá er maður enginn sérstakur aðdáandi. En á haustin fær maður alla þessa meiriháttar uppskeru - allt dásamlega grænmetið og auðvitað sveppina. Þeir sem lesa bloggið mitt ættu að vera ljóst hversu mikil aðdáandi ég er.

Á haustin er líka tækifæri til að snúa aðeins við blaðinu og prófa nýja hluti. Á næstu mánuðum verður mun meira af grænmetisréttum á mínum borðum en oft áður. Ekki að ég sé að gefa kjöt upp á bátinn, því fer fjarri. Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. En það er ekki bara nýjungagirni sem knýr mig áfram. Það eru tvær ástæður fyrir þessu - sú fyrsta er fengin frá Michael Pollan sem hefur skrifað fjölda frábærra bóka um matarmenningu okkar á Vesturlöndum (eða matarÓmenningu öllu heldur) og hans niðurstaða er þessi; Eat food, not too much. Mostly plants - fyrir þessu hefur hann óteljandi rök og í stað þess að rekja þau hér get ég bent á bækur hans: t.d. Omnivore's dilemma auk fleiri bóka. Síðan benti Jón Þorkell, kollegi minn og nágranni, á grein eftir Hugh Fearnley Whittingstall (einn af mínum uppáhaldssjónvarpskokkum og matreiðslubókahöfundur) sem birtist nýlega í The Guardian þar sem hann skrifar um umhverfisáhrif þeirrar matarmenningar sem við búum við og hvernig við förum með dýrin sem við leggjum okkur til munns.

Niðurstaða mín eftir allan þennan lestur var að borða meira grænmeti og borða síðan vandað, vel upp alið, jafnvel líffrænt ræktað kjöt. Þetta kjöt er auðvitað aðeins dýrara en það vegur á móti að á Suður Skáni er grænmeti heldur ódýrt. Þetta er nú landbúnaðarhérað! En grunnhugmyndin er eitthvað á þessa leið; kjötlausir mánudagar, fiskréttur á þriðjudögum, grænmetissúpa einu sinni í viku með heimagerðu brauði - svo fá kjötréttir að njóta sín þegar nær dregur helginni. Sjáum hversu vel okkur gengur að halda kúrsinn. Það er allaveganna ekkert að því að reyna, eða hvað?

Hreinasta Hollusta: Petits Pois súpa með heimagerðu heilhveitibrauðiHráefnalisti

1 laukur
3-4 gulrætur 
2-3 sellerístangir 
2-3 hvítlauksrif 
1 púrrulaukur 
2 L vatn 
600 gr frosnar grænar baunir
knippi af steinselju og
myntulaufum
50 ml af matreiðslurjóma

Súpa eins og þessi er bragðgóð, frískandi og holl. Svo er hún líka ákaflega einföld (segi ég þetta ekki alltaf?). Alltént byrjaði ég á því að skera niður heilan, hvítan lauk, nokkrar gulrætur, 2-3 sellerísstangir, nokkur hvítlauksrif og svo einn púrrulauk. Hitaði jómfrúarolíu í potti og steikti síðan grænmetið við heldur lágan hita í 10 mínútur, muna að salta og pipra. Síðan setti ég 2 lítra af vatni, hækkaði undir pottinum, setti lokið á og sauð af krafti í 45 mínútur (á meðan var ég að sinna brauði - meira af því síðar). Þarna er maður kominn með ágætis grænmetissoð. Smakkað til.Þá setti ég saman við 600 gr af frosnum grænum baunum (Petits Pois), knippi af steinselju og svo nokkur myntulauf og sauð í 20 mínútur í viðbót. Síðan sótti ég töfrasprota og hakkaði allt niður í fallega grænsúpu. Núna þarf að smakka til, salta, pipra - ég bætti við 50 ml af matreiðslurjóma til að jafna aðeins út bragðið af púrrulauknum sem var aðeins rammt. En annars þurfti ekki að gera mikið.Þá er ekkert annað að gera en að vinda sér í brauðgerðina.

Fyrst vakti ég 25 gr af geri í 600 ml af ylvolgu vatni sykruðu vatni (30 gr af sykri) og lét standa í 10 mínútur eða þar til það var farið að freyða vel.


Næst var að huga að brauðinu (ég lýg því nú - ég gerði það að hálfu leyti á undan). Blandaði saman 500 gr af grahamsmjöli, 250 gr af heilhveitimjöli og svo 250 gr af hvítu hveiti í skál. Bætti saman við kannski 30 gr af grófu salti, 3 msk af jómfrúarolíu.Þá var vökvanum blandað varlega saman við á meðan deigið hnoðaðist í hrærivélinni. Stundum þarf maður að bæta við meira mjöli/vatni eftir því hvernig deigið er. Þegar það er orðið fallegt og mjúkt og dúar undan fingri þarf maður ekki að bæta neinu meira við, bara hnoða það vel og rækilega í 10 mínútur. Klútur breiddur yfir og deigið látið hefast þangað til að það hefur að minnsta kosti tvöfaldast í stærð.Þegar það er lokið þá er deigið lamið niður og brauðhleifurinn formaður á plötu. Skar smá mynstur í deigið - en það hefur líka praktíska þýðingu þar sem deigið á eftir að hefast aftur og jafnvel rísa en meir í ofninum - þá heldur það lögun sinni betur og rifnar síður. Deigið látið hefast aftur í tæpan hálftíma og síðan bakað í 180 gráðu heitum ofni í 40 mínútur.
Borið fram með smjöri, ostum og einföldu tómata-, mozzarella- og basilsalati. Sælgæti!

Bon appetit

Thursday 8 September 2011

Að elska kantarellur; Tagliatelle með kantarellum og truflum meðsúrdeigsbaguettu - og nokkrar fleiri uppskriftir!

sveppir

Eins og ég nefndi í nýlegri færslu þá höfum við farið á sveppaveiðar nokkrum sinnum síðastliðna tvo mánuði. Fyrst fór ég einn af stað - ók bara út í sveit og stoppaði í skógunum utan við Dalby, sem er smábær skammt frá Lundi, og gekk þar einn hring án þess að verða nokkurs var. Síðan ók ég bara út í bláinn þangað til að ég sá svepp við vegkantinn og hljóp þar út. Þar fann ég fjóra stóra boletus badiussveppi sem eru góðir matsveppir.

Nokkru síðar fórum ég og Valdís í smá gönguferð við vegkant hérna á miðjum Skáni - nákvæmar verður ekki greint frá þessu þar sem enginn sveppaveiðimaður gefur upp sínar sveppalendur! Við urðum ansi heppinn, fundum talsvert af kantarellum og svo ýmsa pípusveppi. Við snérum síðan aftur á sömu slóðir - og duttum aldeilis í lukkupottinn. Í bæði skiptin fengum við heilmikið af kantarellum og fleiri pípusveppi (sem allir eru óeitraðir); karljóhan, brunsopp, sandsopp, tegelsopp og síðan nokkra bitra gallsoppa (sem allir fóru síðan í ruslið). Þetta var frábært. Við vorum svo hálfan daginn að gera að þessari veiði og höfum síðustu daga verið að njóta aðfanganna.

Ég hef legið yfir nokkrum bókum um sveppi síðustu daganna - bætti einni í safnið núna um helgina - Nya Svampboken sem virðist vera ansi yfirgripsmikill. Stefni á aðra gönguferð á næstu dögum einhversstaðar á miðjum Skáni - sjáum hvernig gengur - það væri gaman að fanga fleiri kantarellur og ekki myndi ég segja nei við karljohan á þessum síðustu og verstu tímum.

sveppir2

Við urðum hinsvegar fórnarlömb blóðmaura - ég fékk þrjú bit og faðir minn að minnsta kosti tíu. Það var nú hálfógnvekjandi að plokka af sér þessa maura spriklandi af kroppnum af sér. Svo þarf maður líka að passa að fylgjast með bitstöðunum dagana á eftir. Komi útbrot sem fara vaxandi eins og skotskífa þarf maður að leita læknis. Þetta er þó ekkert hættulegt - nái maður þeim af sér í tæka tíð. Ekki láta svona smáatriði letja ykkur í að leita sveppa. Þetta er vel þess virði.

Að elska kantarellur! Tagliatelle með kantarellum og truflum með súrdeigsbagettu - og nokkrar fleiri uppskriftir!

kantarellurundirbúningur

Hráefnalisti

1/2 laukur
3 hvítlauksrif
1 msk jómfrúarolía
500 gr kantarellur
1/2 trufla
300 ml af kjúklingasoð
Salt og pipar
70 ml rjómi
50 gr parmaostur
500 gr tagliatelle


Uppskriftirnar eru af einfaldari taginu - en þær verða ekkert verri fyrir það. Oftast er einfaldur matur betri en þá er hráefnið veigameira. Það þarf að vera nýtt, ferskt og bragðgott - þá er í rauninni ómögulegt að misheppnast.

kantarellur á pönnu

Fyrst skar ég niður smátt hálfan hvítan lauk ásamt 3 hvítlauksrifjum. Setti olíu í pönnu og hitaði rólega upp og steikti síðan laukinn við heldur lágan hita þangað til að hann verður mjúkur og jafnvel í sætari kantinn (tekur um 15 mínútur við lágan hita). Síðan skar ég niður sveppina og steikti þá í nokkrar mínútur þangað til að þeir urðu mjúkir og glansandi. Bætti síðan við hálfri truflu sem hafði verið skorin afar smátt niður.

kjúklingasoð

Því næst hellti 300 ml af kjúklingasoði (bara úr tening), saltað og piprað, bætti síðan við 70 ml af matreiðslurjóma og sauð niður um tæpan helming. Reif niður 50 gr af parmaosti og blandaði saman síðan sósuna, bæði til að þykkja sósuna og svo auðvitað fyrir bragðið!

pasta

soave monte ceriani
Sauð síðan Tagliatelle skv. leiðbeiningum á kassanum í ríkulega söltuðu vatni og þegar pastað var "al dente" þá var vatninu hellt frá og pastanu síðan blandað saman við sósuna. Skreytt með steinseljulaufi og borið fram með súrdeigsbaguettu. Þegar ég horfi á myndirnar núna sé ég að ég hefði auðvitað átt að raspa smávegis af truflu yfir rétt í lokin. Geri bara betur næst - sem verður þó erfitt. Þetta var hreint út sagt ótrúlega bragðgóður réttur - kantarellur eru hreinasta gómsæti, djúpt bragð, örlítil sæta samt jarðbundið - betri sveppur er vandfundinn!

Með matnum fengum við okkur hvítvínstár. Monte Ceriani Soave frá því árið 2006 sem er ítalsk hvítvín frá Venetó héraði, skammt frá Fenejyum. Vínið er alfarið gert úr Garganega þrúgum, sem ég held að ég hafi verið að smakka í fyrsta skipti. Þetta er ljósgult í glasi. Þéttur ilmur, ávöxtur. Á bragðið tært, heldur þurrt en ávaxtaríkt og örlítið smjörkennt. Vínið passaði vel með matnum - gott par!

Bon appetit!

pastanærmynd

P.S.

Svo hef ég upp á síðkastið verið að gera fleiri rétti þar sem kantarellan er í aðalhlutverki. Ég hefði svo gjarnan vilja sýna myndir af því - en sökum tölvuvandamála mun það ekki ganga (tapaði 2,5 viku af ljósmyndum sumarsins sökum þess að harður diskur brann yfir). En það verður þá bara að reyna að lýsa þessu með orðum í staðinn.

Chantarelle au pain levain

Um það bil matskeið af smátt skornum rauðlauk og eitt saxað hvítlauksrif steikt á pönnu í smáræði af jómfrúarolíu þar til mjúkt og glansandi. Þá er kantarellunum bætt saman við og steiktar í um 5-7 mínútur þangað til að þær eru eldaðar. Ilmurinn í eldhúsinu verður alveg stórkostlegur. Ein brauðsneið af frönsku levain brauði, sem er fræg tegund af súrdeigsbrauði, er pensluð með jómfrúarolíu og síðan grilluð á blússheitri grillpönnu þangað til að sneiðinn hefur fengið fallegar svartar rendur á báðar hliðar. Þá er lítið annað að gera en að setja brauðið á disk og hella sveppunum yfir.  Bon appetit!

Flammekuche au chantarelle

Svo gerðum við líka þýska eldköku (flammekuche). Þessi réttur er auðvitað afbrigði af flatböku sem er vel þekkt við landamæri Þýskalands og Frakklands. Maður býr til hefðbundið flatbökudeig, fletur það svo örþunnt út, smyr lagi af góðum creme fraiche, nokkrar ræmur af karmelliseruðum lauk og svo auðvitað - stjörnu kvöldsins - kantarelluna. Bakað við 350 gráðu hita á steini á grilli í fimm mínútur þar til botninn varð stökkur! Bon appetit!

P.S.S

Ég hef tekið eftir því að þó nokkrir setji "like" við færsluna eftir lestur - merkilegt hvað það gleður manns heimska og hégómlega hjarta. Guðs bænum ekki hætta því!

Thursday 1 September 2011

Fantagóðar "franskar" lambarifjur með bökuðu tómatsalati og sætumkartöflum að hætti Bryndísar

Eins og fram hefur komið á heimsíðunni minni þá fórum við fjölskyldan í heimsókn til Íslands núna í júlí síðastliðinn. Við vorum í langþráðu frí og okkur gafst auðvitað tækifæri að hitta vini og vandamenn. Ísland er best á sumrin. Er ekki íslenska sumarið að lengjast? Svo virðist sem hlýnun jarðar hafi þessar jákvæðu aukaverkanir! Og kannski veitir ekki af, fyrir Frónbúa - sólin lyftir manni upp og lætur manni líða betur. Þegar heim var komið til Svíþjóðar vorum síðan heldur óheppin með veður, skýjað og rigning samfleytt í þrjár vikur með einstaka undantekningum. En maður lætur svoleiðis ekkert svekkja sig.

Við náðum að hitta bestu vini okkar í heimsókninni og þar á meðal æskuvin minn, Sverri Norðfjörð, og eiginkonu hans Bryndísi og strákana þeirra, Hákon og Pétur. Þetta var einkar ljúft kvöld. Bryndís sá um matargerðina og Sverrir sá um að fylla á glösin. Ég hef oft nefnt það hversu góður kokkur Bryndís er - og við vorum alls ekki svikin í þetta skiptið - aldeilis ekki! Þetta var svo góður réttur að ég reyndi að leika hann eftir eins vel og ég gat fyrir mömmu og pabba þegar þau komu síðan í heimsókn til okkar til Lundar í byrjun ágúst.

Þessi meðferð á rifjunum er almennt kölluð frönsk aðferð til að meðhöndla lambahrygg. Þá varðveitir maður meira af sjálfum rifjunum. Maður sker burtu hluta af síðunni af og hreinsar síðan kjötleifar af rifjunum þannig að beinin standi út.

Þetta hefur ekki mikil áhrif á lokaniðurstöðuna - kannski verður hryggurinn safaríkari? Eitt er nokkuð víst að rétturinn verður ansi tignarlegur fyrir vikið. Myndbandið hérna fyrir neðan, í boði www.cooking.com, sýnir ágætlega hvernig maður ber sig að - nema það myndi aldrei hvarfla að mér að skera svona mikið af fitunni frá - enda hefur fitan mikil áhrif á bragðið. Að mínu mati væri það skynsamlegra að hreinsa fituna frá eftir að maður hefur eldað lambið, þá hefur hún að minnsta kosti þjónað tilgangi sínum ... maður á svo við samvisku sína hvort maður ákveður að gæða sér á henni. Það þyrfti allavegana ekki að spyrja móður mína tvisvar sinnum hvort maður ætti að kasta fitunni eða borða hana!

[embed]http://www.youtube.com/watch?v=D3H3hbqYcEk[/embed]

Fantagóðar "franskar" lambarifjur með bökuðu tómatsalati og sætum kartöflum að hætti Bryndísar
Eins og kom fram í innganginum þá var það Bryndís sem eldaði þennan rétt - og ég kom hvergi nærri. Ég stóð hliðina á Sverri þegar hann skar niður kjötið og horfði á með aðdáunaraugum þegar maturinn var undirbúinn. Ég passaði einna helst upp á að verða ekki þurrbrjósta á meðan aðrir unnu hörðum höndum í eldhúsinu.Fyrst voru rifjurnar þrifnar og þurrkaðar. Þá voru þær saltaðar og pipraðar og síðan brúnaðar að utan á heitri pönnu, rétt til þess að loka kjötinu. Þá voru þær settar til hliðar á meðan næstu skref voru undirbúin.Kryddblandan var búin til úr handfylli af nýrifnum parmaosti, hvítlauksrifi, handfylli af brauðmylsnu, handfylli af steinselju, basil og fersku timian og svo salti og pipar sem var allt hakkað saman í matvinnsluvél þangað til að það varð að fallegri heiðgrænni mylsnu sem ilmaði dásamlega.Næst var síðan að smyrja lambarifjurnar með sinnepi.Og síðan velta þeim upp úr mylsnunni.Þá var þeim raðað í eldfast mót og þær bakaðar við 200 gráðu hita þangað til að kjarnhitinn náði um 65 gráðum.Með matnum bar Bryndís fram þetta ljómandi góða bakaða tómatsalat, sem var heit útgáfa af ítalska tricolore, þykkar sneiðar af tómat, lauk, mozzarellaosti, salt, pipar, basillauf og nokkrar greinar af timian. Þá var hún einnig með ofnbakaðar sætar kartöflur sem hafði verið velt upp úr jómfrúaroliu, saltaðar og pipraðar og svo bakaðar í ofni þangað til mjúkar.Svo gerði hún einfalda hvíta sósu úr sýrðum rjóma, muldu hvítlauksrifi, skvettu af sírópi, niðurskornum gúrkubitum, salti og pipar. Ljúffengt.Með matnum drukkum við meðal annars þetta prýðisgóða Trivento Tribu Pinot Noir frá því 2010. Ég varð nánast heilaþveginn af myndinni Sideways sem var vinsæl hér um árið - en aðalpersóna þeirrar myndar, Miles, hélt mikið upp á Pinot vín en fyrirleit Merlot, af einhverri einkennilegri ástæðu. Þetta vín er dökk rúbinrautt í glasi. Léttur ilmur af plómum og berjum. Ágætt fylling og aðeins eikað í lokin. Þetta er ágætis vín og mér fannst það passa ljómandi vel með matnum.Tími til að njóta!