Mikið geta jólin verið yndislegur tími! Það er fátt ljúfara en að gera vel við sig og sína í mat og drykk. Og jólin eru fyrirtaksafsökun fyrir að ganga skrefinu lengra en ég geri dags daglega og njóta sín alveg í botn. Að þessu sinni vorum við með rjúpur. Það er ansi langt síðan að ég eldaði rjúpur. Held að það sé kominn heill áratugur - alltént er svo langt síðan að ég birti færslu þess efnis.
Ég var því aðeins ryðgaður í rjúpueldamennskunni. Ég var þó alveg ákveðinn í því að eyðileggja ekki matinn eins og er löng hefð fyrir því að gera. Margir sjóða nefnilega rjúpuna í margar klukkustundir - vissulega fæst út úr því magnað soð - og jafnvel mögnuð sósa - en rjúpan verður skraufaþurr. Auðvitað snöggsteikir maður bringuna! Annað er bara hringavitleysa.
Konan mín, Snædís Eva, var þessu algerlega mótfallin. Forfeður hennar hafa soðið líftóruna úr rjúpunni í margar kynslóðir og hún ætlaði svo sannarlega að halda í hefðina. Rjúpan hennar yrði, sko, soðin. Og ekkert múður. Það var því farin leið beggja.
Og ekki bara leið beggja - börnin tóku ekki í mál annað en að svínahamborgarahryggur væri á boðstólunum. Við fórum því leið allra! En ég er ekki að kvarta - ég fékk að elda þetta allt saman. Ég fékk líka góða hjálp. Mamma og pabbi voru mætt hér á Þorláksmessu og svo bættist bróðir minn í hópinn á aðfangadag.
Læt fylgja með uppáhaldsjólalagið mitt - Walking in the air - nú í upprunalegu útgáfunni þar sem Peter Auty syngur.
Svipmyndir frá aðfangadegi - dásamlegar rjúpur með þéttri villibráðarsósu, besti svínahamborgarahryggurinn - sykurbrúnaðar kartöflur, rauðkál, waldorf salati og tvennskonar sósur
Rjúpnasoðið var heldur einfalt. Beinagrindur af nokkrum rjúpum voru saltaðar og pipraðar og svo brúnaðar í smjöri. Þá var tveimur eða þremur gulrótum, sellerístöngum og einum rauðlauk bætt saman við. Steikt saman um stund.
Bætti við nokkrum einiberjum og lárviðarlaufum. Svo var fleytt yfir með vatni og þetta látið krauma varlega í nokkra klukkutíma - þangað til að það hafði soðið niður um þrjá fjórðu.
Forrétturinn var líka með hefðbundnu sniði - nema í ár hafði Snædís veitt laxinn sjálf. Það fannst mér gera máltíðina ennþá meira verðlaunandi. Þessi lax var líka nýttur alveg í topp, kannski muna einhverjir eftir því hvernig fór fyrir hrognunum, en hægt er að lesa um það hérna.
Við létum reykja fiskinn.
Og svo var hann líka grafinn. Það er einfalt að gera slíkt sjálfur - og hef gert það reglulega fyrir jólin. Hér prófaði ég að nota Tanqueray í marineringuna - Sjá hérna - en auðvitað má sleppa því.
Ég keypti hrygginn að þessu sinni í Hagkaupum - ég hafði prófað hann í fyrra og var mjög ánægður með hann. Í ár var hann eldaður með hefðbundnu sniði eins og börnin mín óskuðu eftir, sjá hérna.
Ég gerði mitt besta að para vínið vel með matnum. Með svínahamborgarahryggnum hafði ég hugsað mér að prófa Moillard Vosne-Romanée frá Búrgúnd - en þetta er mjög ljúffengt Pinot Noir frá 2014. Ég heimsótti einmitt þessa vínekru nú seint í haust og fékk að smakka vínið úti á miðri ekrunni. Þetta er ljúffengt vín - gegnsætt eins og frönsk Pinot vilja vera, með mildum ávexti - keim af dökkum berjum - sólberjum og þroskuðum jarðarberjum. Með rjúpunum valdi ég bragðmikið vín - Penfolds Max's frá Ástralíu - sem er blanda af Shiraz og Cabernet þrúgum. Þetta er vín er dökkfjólublátt í glasi - kraftmikið berjabragð - tannínríkt með löngu eftirbragði. Dúndurvín.
Þó að maður haldi í hefðirnar verður maður að mjaka þeim áleiðis - lítil skref í senn. Að þessu sinni gerði ég gljáan á svínahamborgarahrygginn með því að nota þetta ljúffenga sinnep sem er líka frá Búrúndarhéraði. Við heimsóttum Edmont Fallot verksmiðjuna í sömu heimsókn. Þetta sinnep er bragðbætt með sólberjum og er algert sælgæti. Ég blandaði því saman við smáræði af hlynsírópi og makaði því svo á hrygginn.
Þetta heppnaðist sérstaklega vel.
Og déskoti heppnaðist svínahamborgarahryggurinn vel í ár. Hann var eldaður við 180 gráður þangað til að hitinn náði 70 gráðum. Og hann var svo mjúkur og safaríkur.
Ætli vandasamasta verkið sé ekki að brúna kartöflurnar - okkur tekst eiginlega alltaf að klúðra þessu á hverju ári. En samt verða þær alltaf ljúffengar. Við vorum í þessu saman ég og mamma - og að þessu sinni heppnaðist þetta bara nokkuð vel. Við erum að ná þessu.
Svo var það rjúpusósan. Það fór engin smáræðisvinna í hana. Fyrst auðvitað soðið. Svo fannst Snædísi það ekki nógu bragðmikið - þannig að það var soðið niður enn frekar. Öllum brögðum var beitt til að ná henni góðri. Smá sulta - smá villibráðarkraftur og þar fram eftir götunum. Og á lokametrunum hafðist þetta. Snædís brosti út af eyrum. Sósan varð auðvitað að vera góð til að þræla niður skráfaþurri soðinni rjúpunni.
Þar sem bróðurpartur fjölskyldunnar vildi ekki eyðileggja jólamatinn - var rjúpubringunum velt upp úr hveiti og steiktar í skamma stund upp úr smjöri. Svo sett inn í ofn þar til kjarnhiti náði 52 gráðum.
Rjúpan varð sérlega ljúffeng. Ragnhildur Lára - sem var að smakka rjúpu í fyrsta skipti var himinlifandi með steiktu rjúpuna og hámaði hana í sig.
Þessi máltíð var svo sannarlega eftirminnileg!
Gleðileg jól!
------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa