Wednesday 18 December 2019

Gjafalisti - þetta eru gjafirnar sem ég gaf sjálfum mér á árinu - og ein frá Snædísi!

Ég hefði auðvitað átt að setja þennan lista saman fyrr í mánuðinum en ég ber fyrir mig sígilda afsökun - það er bara alltaf svo mikið að gera. Er það eiginlega ekki þannig hjá okkur öllum? 

Hér eru bestu og skemmtilegustu græjurnar sem ég eignaðist á árinu - og einhverjar sem ég á án efa eftir að verða mér út um. 

Gjafalisti - þetta eru gjafirnar sem ég gaf sjálfum mér á árinu - og ein frá Snædísi!

Það segja flestir að það sé óþolandi að gefa mér gjafir. Oftast vegna þess að ef mig langar í eitthvað, og hef ráð á því, þá læt ég bara vaða og kaupi það sjálfur. Það er svona að vera óþolinmóður og vera forfallinn dótakall í eldhúsinu. 


Það var eiginlega vandræðalegt hvað mig langaði mikið í þessar vörur þegar þær komu á markað. Og þegar ég var á ferðalagi um Frakkland í nóvember við tökur á Ferðalagi bragðlaukanna rakst ég á þessar vörur í einni fallegri leikfangabúð í bænum Beaune. Og mér tókst að plata Snædísi til að gefa mér þessa í snemmkomna jólagjöf. 


Þetta er ferköntuð steikarpanna með loki með afsteypu af Han Solo. Barnið í mér þoldi ekki við og ég burðaðist með þessa með mér til Íslands. 


Svo er það þessi. Ég á eftir (kannski) að fá mér þennan - það er eiginlega erfitt að réttlæta að kaupa þennan - enda er hún á um 900 dollara. Þannig að það er ólíklegt að ég láti verða af því. En þessi pottur er flottur. Mjög flottur! 


Ég lét þó verða af að skipta um eldavél á árinu þar sem gamla mín var komin til ára sinna og var farin að þurfa reglulegt viðhald. Þessi kallast Ilve professional Plus II og er frá Ítalíu. Ég hreinlega elska steikarpönnuna og hún er í mjög reglulegri notkun. Ofninn er líka þræl öflugur og kemst í 300 gráður sem er mjög fínt hitastig til að gera flatbökur. Þessar vélar fást í Kokku!


Ég fékk aðstoð til að smíða þetta grill í sumar. Ég elska að halda stórar veislur og það er fátt betra en að elda heilan skrokk fyrir gestina. Ekki bara er það ljúffengt - það er líka skemmtilegt.


Á ferðalagi mínu um Frakkland heimsótti ég Edmond Fallot sinnepsgerðina í Beaune. Ég tók auðvitað með mér nokkrar krukkur heim. Þetta sinnep fæst í Hagkaup, Melabúðinni og Fjarðarkaupum. 


Þessi íslenska pönnukökupanna sló í gegn á árinu enda alger vinnuhestur. Ég notaði mína þegar ég var í Las Vegas að elda fyrir veislu á vegum Kerecis. Hún fæst einnig í Kokku, sjá hérna


Svo verð ég eiginlega að benda á þessar tvær pönnur. Þær eru báðar frá Lodge - þessi hérna fyrir ofan er 34 cm í þvermál. Mér finnst hún frábær en hún er ansi þung. 

Þessi er líka frá Lodge en kallast Blacklock og er mun léttari og auðveldari að eiga við hana í eldhúsinu. Þær fást báðar í Kokku.


Þetta áhald, pastagerðargræja - chittarra, fékk ég að gjöf í sumar þegar ég heimsótti Abruzzo og fór á kvöldnámskeið í pastagerð. Með þessu áhaldi er unnt að gera pasta frá því héraði sem heitir sama nafni.



Ég á nokkur Microplane rifjárn - en þetta nota ég einna mest. Algert þarfþing til að rífa ost og sítrónubörk. Það fæst í Kokku, sjá hérna

Svo skemmdist hvítlaukspressan mín á árinu og ég er að vona að þessi endi í einhverjum af pökkunum sem bera mitt nafn. 

Þetta voru gjafirnar sem ég naut mest á árinu. 

Gleðileg jól!



No comments:

Post a Comment