Sunday 8 December 2019

Safaríkar fylltar kalkúnabringurúllur með hvítlauksbættu graskersmauki og karmellisseruðum nípum


Þessi uppskrift er smá snúningur á kalkúnauppskrift sem ég geri gjarnan á jóladag. Ég hef sagt frá þessari uppskrift nokkrum sinnum áður á blogginu mína, t.d. hérna. Þetta er hefð sem er komin úr móðurfjölskyldunni. Eiginlega frá því að ég man eftir mér var eldaður kalkúnn á jóladag. Mín vegna mætti hafa kalkún oftar - mér þykir hann einstaklega ljúffengur. Og þessi uppskift heppnaðist einkar vel. Og hún var eiginlega heldur fljótleg - svona miðað við margan veislumat.

Safaríkar fylltar kalkúnabringurúllur með graskersmauk og karmellisseruðum nýpum

Fyrir fjóra til fimm 

1 kalkúnabringa (þessi var rúmlega 1,1 kg) 
300 g svínahakk
1 laukur
2 hvítlauksrif
10 þurrkaðar apríkósur
10 pekanhnetur
handfylli steinselja og timjan
2 msk hlynsíróp
50 g smjör

1/2 butternut grasker
4 msk hvítlauksolía
50 g smjör 
50 ml rjómi
salt og pipar

4 stórar nípur
2 msk jómfrúarolía
2 msk hlynsíróp 
salt og pipar

Sósan

2 msk smjör
2 gulrætur
2 sellerístangir
1 laukur
3 hvítlauksrif
salt og pipar
lárviðarlauf
600 ml kalkúnasoð
2 msk worchestershire sósa
vökvi af kalkúninum
25 g smjörbolla (25 g smjör/25 g hveiti)
rjómi
sulta

Jæja, vindum okkur í þetta.Fyrst er auðvitað að hreinsa og þerra bringuna.


Næsta skref er svo að skera í bringuna og fletja hana út. Það er gert með því að skera í gegnum neðri hlutann af bringunni, bara ekki skera alveg í gegn og fletta henni upp. Svo sker maður í gegnum miðju hlutann og flettir þeim hluta upp eins og bók. Þannig er komin bringa sem er orðin rúmlega tvisvar sinnum stærri en byrjað var með.


Svo er að huga að fyllingunni. Byrjaði á því að steikja laukinn og hvítlaukinn upp úr smjöri og bætti honuð svo saman við grísahakkið, hakkaðar pekanhnetur, apríkósur og niðurrifnar kryddjurtir. Bleytti upp í kjötinu með hlynsírópi, saltaði og pipraði. 


Svo dreifði ég fyllingunni í þunnu lagi yfir tvo þriðju hluta kalkúnabringunnar og rúllaði henni upp.


Batt svo rúlluna vandlega upp með þræði, nuddaði að utan með jómfrúarolíu og kryddaði aðeins með blöndu af þurrkuðu oregano, sítrónupipar, majoram, timjan og salti og lagði ofan á beð af lauk, sellerí, gulrótum. Smá hvítvín og svo inn í 180 gráðu heitan ofan og bakað þangað til að kjarnhiti var kominn í 70 gráður.


Skar graskerið niður í sneiðar, penslaði með hvítlauksolíu og ristaði í ofni í nokkrar mínútur þangað til að það var mjúkt í gegn. Setti það svo í skál með rjóma og smjöri og maukaði vel og vandlega. 


Nípurnar voru eins einfaldar og hugsast getur. Flysjaðar og sneiddar niður í fjórðunga og svo velt upp úr olíu og sírópi og svo bakaðar inn í 180 gráðu heitum ofni í rúmlega 30 mínútur. 

Svo er það sósan. 

Flysjið og skerið grænmetið smátt og steikið í smjörinu þangað til að það er mjúkt og ilmandi. Bætið lárviðarlaufinu saman við. Þegar grænmetið er mjúkt hellið þið kalkúnasoði ásamt worchestershiresósu saman við og látið krauma við lágan hita í 30-45 mínútur. Síið síðan soðið og setjið í skál. Útbúið smjörbollu og hellið síðan soðinu saman við og blandið vel saman. Smakkið nú til með rjóma, sultu, salti og pipar. Bragðbætið með vökvanum sem fellur til við eldun kalkúnabringunar. Smakkið áfram til þangað til að sósan er orðin ljúffeng. Sósu þarf alltaf að deddúa aðeins við!


Bætið vökvanum sem fellur til af kalkúnabringunni saman við sósuna.


Ég veit ekki um ykkur - en mér fannst þetta kalkúna "rúlla" heppnast ansi vel.


Með matnum drukkum við þetta ljúffenga spænska rauðvín - Alexander vs. the ham factory. Þetta vín er framleitt í Ribera del Duero dalnum. Vínið er framleitt úr Tinto Fino þrúgum og er einstaklega ljúffengt. Ilmar af ljúffengum dökkum berjum - bragðið með miklum ávexti, eik og súkkulaði. Mjög gott vín.


Þessi máltíð heppnaðist einkar vel og rann ljúflega niður.

Bon appetit!

------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment