Thursday 25 April 2024

Ótrúlega ljúffengt ragú með ristuðu eggaldin og bökuðum hvítlauk

 

Ég hef ekki bloggað síðan í febrúar 2022, ekki fyrr en núna. Er það nógu langur tími til að kallast "comeback"? Varla, ég hef þó haft nóg fyrir stafni síðustu misserinn - gaf út bók fyrir jólin '21, smá sjónvarp og nóg af instragramfærslum. Ég var ekkert viss um að ég myndi byrja að blogga aftur. En ég hef fengið send skilaboð nokkrum sinnum, þar sem lýst var yfir vonbrigðum að ég hefði ekki látið uppskrift fylgja færslunni. 

Þetta er eitt af þeim instagram færslum þar sem nokkrir sendu mér skilaboð og óskuðu eftir því að nákvæm uppskrift myndi fylgja. Og því ekki að reyna að verða við því. 



Ótrúlega ljúffengt ragú með ristuðu eggaldin og bökuðum hvítlauk

Fyrir 8

3 eggaldin
1 hvítur laukur
1 hvítlaukur
2 gulrætur
2 sellerísstangir
1 dós tómatpúre
2 dósir niðursoðnir tómatar
1-2 lárviðarlauf
1 hvítvínsglas
handfylli ferskt basil
jómfrúarolía
salt og pipar
800 g gott pasta - ég nota alltaf Rustichella d'Abruzzo



Byrjið á því að sneiða eggaldin í tvennt, pensla með jómfrúarolíu, salti og pipar og baka í 180 gráðum heitum ofni í 45 mínútur eða svo - aðalatriðið er að þau brúnist aðeins.


Sósan sjálf er einföld. Skerið hvítlauk, lauk, gulrætur og sellerí niður smátt og steikið í jómfrúarolíu þangað til að grænmetið er mjúkt. Ekki gleyma að salta og pipra. Mér finnst gott að ýta grænmetinu til hliðar og setja tómatmaukið í pottinn og steikja það í smástund áður en ég blanda því saman við grænmetið. Ég ímynda mér að með því lyfti ég náttúrulega Umami bragðinu sem er að finna í tómatmaukinu. 

Á þessu stigi er líka ljómandi að bæta einhverri kryddblöndu sem maður á við hendina eða setja saman sína eigin (oregani, timian, majoram, nokkrar chiliflögur, hvítlauksduft) - Setjið gjarnan kryddjurtirnar og/eða lárviðarlaufin með. 

Þegar grænmetið er mjúkt og ilmar dásamlega, hellið víninu saman við og sjóðið það upp og sjóðið svo niður um helming. Þá er að setja niðurstoðnu tómatana saman við og sjóðið upp. 

Næst er að skafa eggaldinið upp úr hýði sínu og hakka niður með hnífi og bæta saman við tómatsósuna. Látið krauma við lágan hita í hálftíma - jafnvel lengur. 

Smakkið til með salti og pipar. Skreytið með fersku basil. 



Sjóðið upp vatn í potti - reglan er að hafa 1 líter af vatni fyrir hver 100 g af pasta. Mikilvægt er að salta vatnið ríkulega, um 2 g af salti fyrir hvern lítra að vatni. Ekki, og ég meina ekki, setja olíu í vatnið. Það binst við pastað og hindrar að sósan sogist inn í pastað þegar því er blandað saman. 


Þegar pastað er klárt er það fært yfir í skál og nokkrum skeiðum af sósunni blandað saman við til að hjúpa pastað. 

Setjið á disk, setjið meiri sósu ofan á, nóg af parmaosti og núna er rétti tíminn til að bragðbæta með einhverri bragðgóðri jómrúarolíur. Skreytið með ferskum kryddjurtum - basil og/eða steinselju. 

Verði ykkur að góðu!