Jón Þorkell, vinur minn og kollegi, skipulagði hópeflisdag fyrir okkur unglæknana á lyflækningadeild. Dagurinn tókst með eindæmum vel og á Jón hrós skilið fyrir þetta framtak. Jón Þorkell er mikill dugnaðarforkur. Við kynntumst í læknadeild þegar við vorum að ganga í gengum samkeppnisprófin alræmdu - klausus. Það var ljóst strax frá upphafi hvurslags mann hann hefur að geyma. Nóg um Jón Þorkel. Tölum um mat.
Það var ljóst frá upphafi að ég og Jón myndum sjá um matinn. Jón Þorkell er einnig mikill nautaseggur, erum við það ekki öll?, og hefur áhuga á matargerð. Hans áhugi liggur fyrst og fremst í austurlenskum mat og er hann duglegur í tilraunum í þá áttina - ég er meiri evrópusinni í matargerð - allavega núna, þó svo að ég sé alltaf að gera tilraunir með aðra matarmenningu snýr hugurinn alltaf tilbaka.
Maturinn sem við elduðum bar keim af Evrópu og að sjálfsögðu frá Íslandi. Hvað er meira viðeigandi en að elda lamb, þetta er einmitt tíminn fyrir slíkt. Sláturtíðinn á fullu og búðirnar fullar af tilboðum um nýslátrað lambakjöt. Ég fæ bara vatn í munninn. Þetta endaði sem samvinnuverkefni. Við ákváðum að hafa marineraðar lambalærissneiðar frekar en lambalæri þar sem þær eru fljótlegar að elda á grilli - og fyrir svanga lækna dugði ekkert annað.
Marineraðar lambalærissneiðar og ofnbakað rótargrænmeti
Um morguninn voru lambalærisneiðarnar lagðar í marineringuna. Ríflegur magni af góðri jómfrúarolíu, handfylli af fersku timian, fersku garðablómbergi, heilum smátt skornum hvítlauk og fersku rósmaríni var blandað saman í skál. Lambalærisneiðarnar voru svo nuddaðar upp úr þessari blöndu og leyft að liggja í marineringunni þangað til að það kemur að því að elda þær. Þær voru svo grillaðar eins og lög gera ráð fyrir, lítið fyrir þá sem vilja rare, meira fyrir þá sem vilja medium rare og þar fram eftir götunum. Það er svo um að gera að pensla sneiðarnar upp úr kryddblöndunni á meðan þær eru að grillast. Miðað við hvernig veðrið er að láta fer hver að verða síðastur við grillið eftir heljarinnar vertíð.
Nokkrar bökunarkartöflur, sætar kartöflur og lífrænt ræktaðar gulrætur voru flysjaðar og skornar gróft niður, hver biti svona eins og tveir munnbitar. Grænmetinu var svo raðað í ofnskúffu og góðri jómfrúarolíu var dreift yfir ásamt gróft skornum hvítlauk. Svo var þetta saltað ríkulega og piprað. Í lokin var svo mörðum rósmarínlaufum dreift með. Þessu var svo öllu blandað vel saman og bakað í 180 gráðu heitum ofni þar til stærstu bitarnir voru orðnir mjúkir og girnilegir.
Með matnum var svo ferskt salat; blönduð græn lauf; klettasalat, aragula, babyleaf, niðurskornir tómatar, helminguð vínber, paprika, ristaðar furuhnetur og niðurskorin hrókur. Saltið var svo klætt smá balsamik ediki og jómfrúarolíu, saltað og piprað.
Með matnum var svo einföld sósa, bland af þeyttum rjóma og bræddum gráðaosti. Sósan var ekki alveg að gera það með matnum en það breytti engu...lambið var svo meyrt að það þurfti enga sósu.
Með matnum var svo að sjálfsögðu teygað rauðvín - ég fékk mér Oyster bay Pinot noir. Ljúffengt.