Friday 7 September 2007

Georgísk matarveisla - heimsótt aftur - með smá breytingum þó!


Við vorum að koma heim úr sumarfríi. Það má segja að raunveruleikinn hafi tekið á móti manni af fullu afli. Eitthundrað og þrjátíu skeyti óopnuð, póstkassinn fullur af reikningum, launatékkinn með þynnsta móti eftir fríið ... og í ofanálag - þegar ég var að drösla töskunum upp tröppurnar er hringt í mig og ég spurður af hverju ég væri ekki mættur á vaktina - man ó man! Reykvíkingar voru hins vegar með besta móti þessa nóttina og vaktin var því með rólegra móti. 

Fríið var meiriháttar - fórum um Svíþjóð og skoðuðum mögulega staði til að flytja til á næsta ári. Fórum til Gautaborgar og Lundar. Það verður að segja að Lundur hafði vinninginn. Nálægðin við sveitina, allt samt innan seilingar, háskólabær og Kaupinhöfn við þröskuldinn. Fór í viðtal við háskólasjúkrahúsið í Lundi og það var tekið vel á móti manni. Eiginlega það vel að við erum farin að leita okkur að húsnæði á því svæði.

Lundur virðist frábær staður, staðsettur á Skáni í Suður-Svíþjóð í miðju landbúnaðarhéraðinu. Ég gat ekki betur séð en það væri grænmetismarkaður á hverjum degi í bænum - a.m.k. sumri til. Matvöruverð er að minnsta kosti helmingi ódýrara en hérna heima. Ég held því að áhugamáli mínu verði vel borgið á sænsku Fróni. Kannski að maður fari bara að blogga á sænsku.

Þetta verður svona revisited færsla (gerði þessa uppskrift seinast í maí, en hún var svo góð að það tók vel að gera hana aftur) - þar sem ég er ekki almennilega kominn af stað í eldhúsinu vegna vakta. Enduðum fríið hjá vinafólki í Kaupinhöfn - þau búa í glæsilegu húsi í Ordrup og eru höfðingjar heim að sækja. Ég fékk að borga með mér með því að sinna eldhúsverkum og eldaði Georgíska matarveislu byggða á uppskriftum Nigellu Lawson úr nýjustu bók hennar - Feast. Breytti lítillega út af fyrri færslu. Helst þó í meðlætinu - gerði bakaðar gulrætur sem voru splunkunýjar og urðu sérlega ljúfengar.

Georgísk matarveisla elduð í Kaupinhöfn með nýjum áherslum



Tveir kjúklingar eru þvegnir og þurrkaðir og lagðir í eldfast mót. 30 gr af smjöri og smávegis af jómfrúarolíu er hitað á pönnu og 4 smátt skorin hvítlauksrif og 2 smátt skornir rauðlaukar eru steiktir í olíunni þar til hann er farinn að fá gljáa. Svo er 350 gr af Basmati hrísgrjónum bætt á pönnuna ásamt 100 gr af niðurskornum döðlum. Steikt um stund og hrísgrjónin böðuð upp lauksmjörinu. Þá er 700 ml af vatni hellt á pönnuna hrært aðeins og lokið sett á og soðið við lágan hita í 10-15 mínútur. Þegar hrísgrjónin eru soðin er 1/2 búnti af smátt saxaðri steinselju hrært saman við. Hrísgrjónunum er svo troðið inn í kjúklinginn þannig að hann standi nánast á blístri. Bakað í ofni í við 180 gráðu hita í fimm korter.

Grænar belgbaunir og kúrbítur með jógúrtsósu

 

Þessi réttur var eiginlega sigurvegari kvöldsins - kom verulega á óvart og verður án efa eldaður aftur. Þegar 20 mínútur eru eftir af eldunartímanum er rétt að undirbúa meðlætið. 500 gr af grænum belgbaunum (soðnar í 5 mínútur í söltuðu vatni). Tveir litlir rauðlaukar (eða einn stór) eru skornir niður mjög smátt og steiktir í 30 gr af af smjöri og smávegis af olíu er hitað á pönnu Svo er 1/2 tsk af kanill og hnífsoddi af muldum negul bætt saman við. Þá er belgbaununum bætt á pönnuna og blandað vel við laukinn og steikt við lágan hita í 10-15 mínútur. Baunirnar eru þvínæst færðar yfir á disk og jógúrtsósu hellt yfir. Jógúrtsósan er gerð þannig að 300 ml af grískri (eða hreinni jógúrt) eru settar í skál og 4 kramin hvítlauksrif blandað saman við. Saltað og piprað vandlega. Í lokin er 2 msk af smátt skorinni ferski myntu sáldrað yfir.

Bakaðar gulrætur

Átta stórar gulrætur eru flysjaðar (keypti alveg splunkunýjar gulrætur með græna laufinu á) og skornar í ca 4 cm langa bita. 2 msk af jómfrúarolíu er smurt í eldfast mót og saltað og piprað. Gulrótunum er svo raðað upp og 4 smátt skornum hvítlauk sáldrað yfir. Svo er örlitlu smjöri dreift yfir gulræturnar og saltað og piprað aftur. Bakað í 20 mínútur við 200 gráðu hita. Þegar bökunartímanum var lokið var smávegis af gulrótarlaufinu sáldrað yfir.

Maturinn heppnaðist afar vel. Gulræturnar voru alveg ljúffengar og urðu eiginlega sætar á bragðið.


No comments:

Post a Comment