Sunday 30 June 2013

Ljúffeng baka með reyktum laxi og púrrulauk og svo önnur með Västerbottenosti

Þetta er nú meira svona örfærsla. Ég hef á síðastliðnu ári bloggað tvívegis um bökur þannig að þetta er eiginlega hálfpartinn svindl! En bökur eru bara svo ári góðar og ég verð alltaf jafnstoltur í hvert sinn sem að ég bý þær til; styn svo af nautnafylltri gleði yfir niðurstöðunni. Safarík og seiðandi, feit og ljúffeng. 

Hægt er nálgast hinar bökuuppskriftirnar með því að nota leitarvélina sem ég kom nýverið fyrir á síðunni minni og er að finna í síðudálkinum hérna hægra megin beint fyrir neðan hvítlaukinn!

Þessa böku gerði ég fyrir miðsumararsveisluna (Jónsmessunótt) sem var um síðustu helgi. Svíar halda upp á Midsommar - á ansi sérstakan hátt. Fyrir þá sem að hafa ekki dvalið í Svíþjóð eða þekkja ekki til þessarar hátíðar þá mun þetta vídeó upplýsa "næstum" allan sannleikann.
Við Íslendingarnir hittumst að þessu sinni heima hjá Signýju Völu og Þóri og börnum þeirra þremur í húsi númer sjö. Þau eru því miður á leiðinni heim og við eigum eftir að sakna þeirra hérna úr hverfinu!

Ljúffeng baka með reyktum laxi og púrrulauk og svo önnur með Västerbottenosti

Og það er líka einfalt að gera bökur. Fyrst er að gera deigið; 250 gr af hveiti er blandað saman við 100 gr af smjöri. Svo hálf teskeið af salti og 2 msk af vatni. Blandað saman í hrærivél. Hnoðað saman í kúlu, plastfilmu vafið utan um og sett í kæli í eina klukkustund. 

(LKL-istar geta vel gert þessa uppskrift en þá sleppir maður hveitinu og setur blöndu af möndlumjöli, kókóshveiti og huski, samtals 250 gr í staðinn).


Þá er deigið flatt út, sett í velsmurt eldfast mót og formað eftir mótinu. Allt sem er umfram er skorið af og það er best gert með því að rúlla kökukeflinu yfir mótið. Þá skerst umfram deigið af. 
Næst er að gata degið með gaffli og baka það í kortér í 180 gráðu heitum ofni. 


Þá er að gera fyllinguna. Fimm egg eru hrærð saman við 300 ml af rjóma. Saltað og piprað.Ég setti 200 gr af reyktum laxi útí mótið og svo einn niðurskorinn púrrulauk. Hellti svo eggjablöndunni ofan í mótið. Bakað í 35 mínútur í 180 gráðu heitum ofni.Seinni bakan var gerð með Västerbottenosti sem er vinsæll harðostur hérna í Svíþjóð - í stað hans mætti nota einhvern sterkan ost eða söðla alveg um og nota einhver ljúffengan hvítmygluost í staðinn! Setti fyrst eggjablönduna í mótið og svo 300 gr af rifnum osti. Bakað í 35 mínútur við 180 gráður. 

Gott er að láta bökurnar standa í nokkrar klukkustundir áður en þær eru skornar. Þannig verða þær þéttar í sér og auðveldara að skera þær í fallegar sneiðar. 

Gott er að bera bökuna fram með góðu salati og kannski hvítvínsglasi. 

Wednesday 26 June 2013

Blóðbergskryddað lambalæri með jus d'agneau og gómsætu blómkálsgratíni


Ég fékk eins og margir aðrir bloggarar sendingu frá Saltverki sem er íslenskt fyrirtæki sem framleiðir sjávarsalt með því að nota jarðhita. Ég sá þetta í verslun þegar við vorum í heimsókn á Íslandi síðastliðið haust og greip með mér einn pakka. Og þetta er ljómandi gott salt - skarpt bragð. Nú fékk ég sendingu af nýjustu vörunum þeirra; blóðbergs-, reykt birki-, lava og lakkríssalt. Í þetta skipti ákvað ég að prófa blóðbergsaltið ásamt Best á lambið og þurrkuðu blóðbergi á íslenska lambalærið sem ég fann í frystinum.

Og ég ætla að hvetja fólk að prófa saltið frá þeim - Saltverk er íslenskt frumkvöðlafyrirtæki sem er staðsett á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu fyrirtækisins mun saltgerð hafa verið stunduð á þessu svæðu 1772-1802 á vegum dönsku konungsverslunarinnar. Eftir að verksmiðjan hafði verið sett upp með aðstoð saltgerðarmanna frá Noregi mun framleiðslan hafa verið 80 tonn á ári og var að mestu notað í saltfisksverkun sem var, jú, ein helsta útflutningsvara okkar. Þessi framleiðsla hefur nú verið endurvakin eftir rúmlega tvöhundruð ára stopp!

Maður getur ekki annað en stutt við bakið á svona framleiðslu, sérstaklega þegar hún er eins góð og raun ber vitni. Ég á sannarlega eftir að kippa með mér nokkrum pökkum þegar ég kem heim.Blóðbergskryddað lambalæri með jus d'agneau og gómsætu blómkálsgratíni


Eins og fram hefur komið átti ég lambalærið í frystinum. Ég blandaði saman blóðbergi, blóðbergssalti frá Saltverki og svo Best á lambið-kryddblöndunni og svo nóg af nýmöluðum pipar. Skar niður tvær gulrætur, tvær sellerístangir, einn lauk og lagði í botninn á ofnskúffu.


Því næst nuddaði ég lambið upp úr jómfrúarolíu, síðan kryddblöndunni og lagði ofan á grænmetið. Skar heilan hvítlauk þvert og lagði með.Setti út á forhitað grill - 200 gráður - og bakaði við óbeinan hita þangað til að kjarnhiti varð 58 gráður, eða í tvær klukkustundir eða svo.


Með matnum bárum við fram blómkálsgratín. Penslaði fat með jómfrúarolíu, nuddaði hvítlauk í fatið. Skar síðan niður einn haus af blómkáli og raðaði í fatið. Hellti svo 400 ml af rjóma yfir. Sáldraði svo tveimur hvítlauksrifjum ofan á, saltaði og pipraði og lagði að lokum 150 gr af niðursneiddum brieosti yfir. Bakað við 180 gráður í þrú korter.Gullfallegt gratín í nýja Le Creuset fatinu mínu!
Þegar þrjú korter voru liðin af bökunartímanum hellti ég 600 ml af vatni í ofnskúffuna sem lagði grunninn að sósunni. Þetta soð varð ansi bragðgott. Þegar að lambið fékk að hvíla gerði ég smjörbollu úr 30 gr af smjöri og 30 gr af hveiti.

Gerðum einnig salat með blönduðu grænmeti og avócadó.Með matnum drukkum við þetta ljúffenga spánska vín, Pata Negra frá 2005 sem er gert úr Tempranillo þrúgum  Þetta er vín er dökkt og heldur þykkt í glasi, ilmar af sólberjum og jafnvel smá leðri. Á bragðið dökk ber - fyllir munninn ágætlega með góðu eftirbragði.Tími til að njóta.

Wednesday 19 June 2013

Grilluð keilusteik með graslaukshollandaise og grilluðu blönduðu grænmetiÞað hefur verið ljómandi gott veður hjá okkur Skánverjum síðastliðna daga. Og það hefur einnig verið mikið að gera bæði í vinnunni og við að leggja síðustu hönd á bókarskrifin. Ég er um þessar mundir að skrifa síðustu atriðin niður, fínpússa inngang. Allar ljósmyndir hafa verið sendar til umbrotsaðila - ég hef tekið næstum 200 GB af ljósmyndum síðastliðna átta mánuði þannig að hann ætti að hafa eitthvað til að vinna úr blessaður.

Snædís var nýlega á Íslandi með litluna að heimsækja vini og vandamenn og þá kom hún heim með margskonar fisk frá Steingrími í fiskbúðinni á Sundlaugaveginum. Hann sendi mér þó nokkuð af íslensku sjávarfangi sem Snædís smyglaði til mín. Það er frábært að vita af því að eiga fullan frysti af íslenskum dásemdarfisk.

Meðlætið, eins gómsætt og það var, varð til við að hreinsa út úr ísskápnum. Síðustu daganna hef ég verið að leggja hönd á síðustu uppskriftirnar og ýmislegt góðgæti safnast fyrir. Auðvitað verður maður að reyna að vera nýtinn. Og úr varð þetta dásamlega grillaða grænmeti.


Yngsta dóttir mín, Ragnhildur Lára, unni sér vel við leik í garðinum í sólarblíðunni!

Grilluð keilusteik með graslaukshollandaise og grilluðu blönduðu grænmetiHráefnalisti

1 kg keilusteik
Salt og pipar
2 msk jómfrúarolía

Meðlæti - Grillað grænmeti

1/2 kúrbítur
1 rauðlaukur
1gul, rauð og græn papríka
500 gr kirsuberja tómatar 
4-5 msk hvítlauksolíua
Salt og pipar

Sósa - hollandaise

4 eggjarauður
Safi úr 1/2 sítrónu
1 msk hvítvínsedik
200 gr smjör
Salt og pipar
1 msk graslaukur

Ekki með nokkru móti er hægt að kalla þessa matargerð flókna. Sumir myndu kannski vera hræddir við að gera sína eigin Hollandiase sósu en það er ekket að hræðast. Fylgið bara leiðbeiningunum mínum og þá mun þetta heppnast vel hjá ykkur. 

Og það var ekki mikið gert við fiskinn, eins og sjá má á myndunum. En það er bara svona þegar maður er með framúrskarandi hráefni í höndunum - þá er bara málið að leyfa því að njóta sín eins og kostur er. Og skvetta af jómfrúarolíu, salt og nýlmalaður pipar gerir nákvæmlega það. Styður við undirstöðurnar. Og grænmetið var fallegt og lítríkt. Hálfur kúrbítur, einn rauðlaukur, gul, rauð og græn papríka og svo nokkrir marglitir kirsuberja tómatar. 

Og svo það mikilvægasta, fjórar til fmnn msk af heimagerðri hvítlauksolíu. Salt og pipar. Og svo á funheitt grillið í 15-20 mínútur. 

Hollandaisesósan, sem er ein af móðursósunum í franskri matargerð, er gerð á eftirfarandi hátt;Setjið fjórar eggjarauður í stálskál ásamt safa úr hálfri sítrónu, einni msk af hvítvínsediki og hrærið vel saman. Setjið síðan ofan á vatnsbað og gætið þess að skálarbotninn snerti ekki vatnið beint. Það þarf því að halda í skálina til að finna hversu heit hún er - hræra stöðugt - taka skálina af hitanum þegar maður finnur að hún er að ofhitna - og tempra hitann með því að bæta við smjöri. Þegar eggin fara að hitna þá er köldu smjörinu bætt saman við - smám saman og hrært saman við að krafti. Samtals fara 200 gr af smjöri í sósuna. Saltið og piprið eftir smekk. Blandið síðan einni msk af hökkuðum graslauk saman við sósuna. Og skreytið með nokkrum í viðbót.Bæði fallegt, seiðandi og bragðgott! Með matnum drukkum við þetta rósavín sem ég hafði aldrei bragðað áður en keypti þegar við vorum síðast í Kaupmannahöfn - þó að vín sé á ágætu verði í Svíþjóð þá er verðið enn hagstæðara í Köben! Ég hef drukkið rauðvínið frá sama framleiðanda og það er mjög ljúffengt! Og rósavínið sveik ekki. Þetta er léttur en þó berjaríkur og sumarlegur sopi. Fallega bleikt í glasi.Ljúffeng sumarmáltið!

Tími til að njóta!

Sunday 9 June 2013

Brúðkaup í Bretlandi; Dansdansdans - Heimagert steikarsalat og svo linsoðin egg með brauðköllum í ferð til Somerset í Englandi


Fyrir tveimur vikum var okkur boðið í brúðkaup til vinafólks okkar í Englandi. Það voru kollegar mínir Hannah Skene og Loiut Thakuria sem giftu sig. Þessu frábæra fólki kynntist ég þegar ég, ásamt Jónasi Geir Einarsyni, fórum á námskeið í lyflækningum - European School of Internal Medicine. Þetta var vikunámskeið í byrjun september árið 2007 (á því blómlega ári) og snemma í vikunni kynntumst við Hannah Skene frá Skotlandi, Roger Duckitt frá Englandi, Monique Valentin frá Hollandi, Esa Joutsinemi frá Finnlandi, Lenka Bosanka frá Slóvakíu og svo Harold Köndgen frá Sviss. Okkur varð mjög vel til vina og höfum síðan þá hisst að minnta kosti árlega og stundum oftar.

Brúðkaupið var haldið í Somerset í Suðvestur Englandi rétt sunnan við Bristol og var haldið á fallegu sveitasetri sem verðandi hjónin höfðu tekið á leigu - Pennard House. Þetta er glæsilegt hús - um 200 ára gamalt með fallegum vel viðhöldnum görðum í kringum húsið. Við lentum í Bristol daginn áður og áttum bókaða næturgistingu skammt frá húsinu.

P.s. Ég bið að sjálfsögðu lesendur velvirðingar á því hvað það hefur verið lítið um að vera á síðunni minni síðastliðnar þrjár vikur. Og ég lofa að það er ekki vegna leti! Ég hef verið með uppbrettar ermar við eldamennsku, ljósmyndun og setið við skriftir á bókinni minni sem á að koma út fyrir jólin.


Hópurinn - The Fabs; Monique, Esa, Roger, Hannah, Loiut, Snædís, undirritaður, Lenka og Harold.


Brúðkaupið heppnaðist stórvel! Maturinn var ljúffengur - gómsætur geitaostur í forrétt, maískjúklingur í aðalrétt og svo ávaxtacompote í eftirrétt. Og vel var veitt og fólk var glatt og það var mikið hlegið!


Hannah er eins og áður sagði af skoskum ættum og tilheyrir Skene clan of the Halyards - gömul skosk ætt. Faðir brúðarinnar, Danus George Moncrieff Skene, er höfðingi ættarinnar, clan chief, og í ræðu sinni bauð hann öllum veislugestum að verða meðlimir The Skene Clan. Og það var ekki lítið sem það gladdi mig - ég var svo snortinn að ég steig í pontu og þakkaði innilega fyrir mig.


Og svo var dansað. Skotar kunna að skemmta sér. Einvala lið skoskra tónlistarmanna stýrði fjörinu og það voru dansaðir skemmtilegir þjóðdansar. 


Og svo var dansað en meira - að þessu sinni réði poppið ríkjum!


Daginn eftir var boðið upp á hádegisverð í einum garðinum í kringum húsið og svo eftir leiki og kveðjur var ekið til Brighton þar sem við gistum hjá Roger, vini okkar, sem er bráðalæknir á nærliggjandi sjúkrahúsi.


Daginn eftir var þörf á einhverju léttara og því var útbúið ótrúlega einfalt steikarsalat með blönduðu grænmeti og aspas.

Fyrst var steikin skorin í sneiðar og marineruð í soyasósu, engifer, hvítlauk og hunangi. Steikt snögga stund á pönnu. Salatið samanstóð af blönduðum grænum laufum, smátt söxuðum vorlauk, rauðri parpríku, basil, steinselju, steiktum sykurertum og grilluðum aspas.

Borið fram með hvítvínsglasi. Delish!Daginn eftir bakaði Roger handa okkur brauð - en hann er mikill áhugabakari og heldur utan um skemmtilegt verkefni á sjúkrahúsinu þar sem hann starfar; Bake yourself to a happy hospital. Hugmyndin, sem er hans eigin, byggir á því að vikulega bakar hann köku og færir einhverri deildinni með uppskrift og hvetur svo starfsfólkið á þeirri deild að "pay it forward" og baka fyrir starfsfólks annarrar deildar og stuðla þannig að gleði á vinnustaðnum.

Brauðið var ljúffengt;

3 bollar af hveiti, 1 tsk salt, 1 msk sykur, 2 msk rúsínur, 11/2 bolli af blönduðum fræjum (flax, sólblóma, graskers ...), 25 gr þurrger, 2 bollar vatn, 1 msk olía.

Öllu blandað saman - engin þörf á því að hnoða deigið (þó að það verði ábyggilega ekki verra við það). Sett í form og látið hefast í klukkustund. Bakað í 190 gráðu heitum forhituðum ofni í þrjú korter.Brauðið var skorið niður í lengjur - svokallaða brauðkalla svo hægt sé að dýfa þeim í linsoðin eggin! 

Borið fram með linsoðnum eggjum - stór egg soðin í ekki meira en 6 mínútur, tómötum og auðvitað smjöri. 

Tími til að njóta.