Sunday 30 June 2013

Ljúffeng baka með reyktum laxi og púrrulauk og svo önnur með Västerbottenosti

Þetta er nú meira svona örfærsla. Ég hef á síðastliðnu ári bloggað tvívegis um bökur þannig að þetta er eiginlega hálfpartinn svindl! En bökur eru bara svo ári góðar og ég verð alltaf jafnstoltur í hvert sinn sem að ég bý þær til; styn svo af nautnafylltri gleði yfir niðurstöðunni. Safarík og seiðandi, feit og ljúffeng. 

Hægt er nálgast hinar bökuuppskriftirnar með því að nota leitarvélina sem ég kom nýverið fyrir á síðunni minni og er að finna í síðudálkinum hérna hægra megin beint fyrir neðan hvítlaukinn!

Þessa böku gerði ég fyrir miðsumararsveisluna (Jónsmessunótt) sem var um síðustu helgi. Svíar halda upp á Midsommar - á ansi sérstakan hátt. Fyrir þá sem að hafa ekki dvalið í Svíþjóð eða þekkja ekki til þessarar hátíðar þá mun þetta vídeó upplýsa "næstum" allan sannleikann.
Við Íslendingarnir hittumst að þessu sinni heima hjá Signýju Völu og Þóri og börnum þeirra þremur í húsi númer sjö. Þau eru því miður á leiðinni heim og við eigum eftir að sakna þeirra hérna úr hverfinu!

Ljúffeng baka með reyktum laxi og púrrulauk og svo önnur með Västerbottenosti

Og það er líka einfalt að gera bökur. Fyrst er að gera deigið; 250 gr af hveiti er blandað saman við 100 gr af smjöri. Svo hálf teskeið af salti og 2 msk af vatni. Blandað saman í hrærivél. Hnoðað saman í kúlu, plastfilmu vafið utan um og sett í kæli í eina klukkustund. 

(LKL-istar geta vel gert þessa uppskrift en þá sleppir maður hveitinu og setur blöndu af möndlumjöli, kókóshveiti og huski, samtals 250 gr í staðinn).


Þá er deigið flatt út, sett í velsmurt eldfast mót og formað eftir mótinu. Allt sem er umfram er skorið af og það er best gert með því að rúlla kökukeflinu yfir mótið. Þá skerst umfram deigið af. 
Næst er að gata degið með gaffli og baka það í kortér í 180 gráðu heitum ofni. 


Þá er að gera fyllinguna. Fimm egg eru hrærð saman við 300 ml af rjóma. Saltað og piprað.Ég setti 200 gr af reyktum laxi útí mótið og svo einn niðurskorinn púrrulauk. Hellti svo eggjablöndunni ofan í mótið. Bakað í 35 mínútur í 180 gráðu heitum ofni.Seinni bakan var gerð með Västerbottenosti sem er vinsæll harðostur hérna í Svíþjóð - í stað hans mætti nota einhvern sterkan ost eða söðla alveg um og nota einhver ljúffengan hvítmygluost í staðinn! Setti fyrst eggjablönduna í mótið og svo 300 gr af rifnum osti. Bakað í 35 mínútur við 180 gráður. 

Gott er að láta bökurnar standa í nokkrar klukkustundir áður en þær eru skornar. Þannig verða þær þéttar í sér og auðveldara að skera þær í fallegar sneiðar. 

Gott er að bera bökuna fram með góðu salati og kannski hvítvínsglasi. 

No comments:

Post a Comment