Wednesday 19 June 2013

Grilluð keilusteik með graslaukshollandaise og grilluðu blönduðu grænmeti



Það hefur verið ljómandi gott veður hjá okkur Skánverjum síðastliðna daga. Og það hefur einnig verið mikið að gera bæði í vinnunni og við að leggja síðustu hönd á bókarskrifin. Ég er um þessar mundir að skrifa síðustu atriðin niður, fínpússa inngang. Allar ljósmyndir hafa verið sendar til umbrotsaðila - ég hef tekið næstum 200 GB af ljósmyndum síðastliðna átta mánuði þannig að hann ætti að hafa eitthvað til að vinna úr blessaður.

Snædís var nýlega á Íslandi með litluna að heimsækja vini og vandamenn og þá kom hún heim með margskonar fisk frá Steingrími í fiskbúðinni á Sundlaugaveginum. Hann sendi mér þó nokkuð af íslensku sjávarfangi sem Snædís smyglaði til mín. Það er frábært að vita af því að eiga fullan frysti af íslenskum dásemdarfisk.

Meðlætið, eins gómsætt og það var, varð til við að hreinsa út úr ísskápnum. Síðustu daganna hef ég verið að leggja hönd á síðustu uppskriftirnar og ýmislegt góðgæti safnast fyrir. Auðvitað verður maður að reyna að vera nýtinn. Og úr varð þetta dásamlega grillaða grænmeti.


Yngsta dóttir mín, Ragnhildur Lára, unni sér vel við leik í garðinum í sólarblíðunni!

Grilluð keilusteik með graslaukshollandaise og grilluðu blönduðu grænmeti



Hráefnalisti

1 kg keilusteik
Salt og pipar
2 msk jómfrúarolía

Meðlæti - Grillað grænmeti

1/2 kúrbítur
1 rauðlaukur
1gul, rauð og græn papríka
500 gr kirsuberja tómatar 
4-5 msk hvítlauksolíua
Salt og pipar

Sósa - hollandaise

4 eggjarauður
Safi úr 1/2 sítrónu
1 msk hvítvínsedik
200 gr smjör
Salt og pipar
1 msk graslaukur

Ekki með nokkru móti er hægt að kalla þessa matargerð flókna. Sumir myndu kannski vera hræddir við að gera sína eigin Hollandiase sósu en það er ekket að hræðast. Fylgið bara leiðbeiningunum mínum og þá mun þetta heppnast vel hjá ykkur. 

Og það var ekki mikið gert við fiskinn, eins og sjá má á myndunum. En það er bara svona þegar maður er með framúrskarandi hráefni í höndunum - þá er bara málið að leyfa því að njóta sín eins og kostur er. Og skvetta af jómfrúarolíu, salt og nýlmalaður pipar gerir nákvæmlega það. Styður við undirstöðurnar. 



Og grænmetið var fallegt og lítríkt. Hálfur kúrbítur, einn rauðlaukur, gul, rauð og græn papríka og svo nokkrir marglitir kirsuberja tómatar. 

Og svo það mikilvægasta, fjórar til fmnn msk af heimagerðri hvítlauksolíu. Salt og pipar. Og svo á funheitt grillið í 15-20 mínútur. 

Hollandaisesósan, sem er ein af móðursósunum í franskri matargerð, er gerð á eftirfarandi hátt;



Setjið fjórar eggjarauður í stálskál ásamt safa úr hálfri sítrónu, einni msk af hvítvínsediki og hrærið vel saman. Setjið síðan ofan á vatnsbað og gætið þess að skálarbotninn snerti ekki vatnið beint. Það þarf því að halda í skálina til að finna hversu heit hún er - hræra stöðugt - taka skálina af hitanum þegar maður finnur að hún er að ofhitna - og tempra hitann með því að bæta við smjöri. Þegar eggin fara að hitna þá er köldu smjörinu bætt saman við - smám saman og hrært saman við að krafti. Samtals fara 200 gr af smjöri í sósuna. Saltið og piprið eftir smekk. Blandið síðan einni msk af hökkuðum graslauk saman við sósuna. Og skreytið með nokkrum í viðbót.



Bæði fallegt, seiðandi og bragðgott! 



Með matnum drukkum við þetta rósavín sem ég hafði aldrei bragðað áður en keypti þegar við vorum síðast í Kaupmannahöfn - þó að vín sé á ágætu verði í Svíþjóð þá er verðið enn hagstæðara í Köben! Ég hef drukkið rauðvínið frá sama framleiðanda og það er mjög ljúffengt! Og rósavínið sveik ekki. Þetta er léttur en þó berjaríkur og sumarlegur sopi. Fallega bleikt í glasi.



Ljúffeng sumarmáltið!

Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment