Thursday 28 November 2013

Ljúffengur lax soðinn í kókósmjólk, thai chilli sósu með papriku, rækjum og kóríander

Ég var á Íslandi um helgina og mikið ósköp var þetta skemmtileg heimsókn. Ég fór af stofugangi á fimmtudagsmorgun á gigtardeildinni á Háskólasjúkrahúsinu í Lundi út á lestarstöð, rápaði þar á milli bilaðra lesta áður en ég komst á Kastrup. Þaðan lá leiðin til Íslands þar sem ég skaust út í Fiskbúðina við Sundlaugaveginn og sótti ýmis konar góðgæti til að taka með mér til Lundar og þaðan fór ég beint í útgáfuteiti hjá Berglindi Guðmundssdóttur sem var að gefa út matreiðslubókina - Gulur, Rauður, grænn og Salt. 

Ekki bara er þessi dama hjúkrunarfræðingur, eiginkona og fjögurra barna móðir þá er hún líka þrælöflugur matarbloggari, auk þess sem hún er núna matreiðslubókahöfundur. Þetta er ljómandi góð matreiðslubók með skýra og einfalda framsetningu á fjöldanum öllum af fljótlegum réttum. Hún bauð upp á ljúffenga kjötsúpu í útgáfuteitinu (uppskriftina er að finna í bókinni), og svo fékk ég að smakka hið ljúffenga kúlugott - sem er afar ljúffengt sælgæti sem hún á heiðurinn af að hafa skapað. Kíkið á þessa girnilegu matreiðslubók! 

Úr boðinu hennar fór ég heim til foreldra minna og átti náðugt kvöld. Daginn eftir voru upptökur með Rikku fyrir sjónvarpsþátt sem hún er að fara með í loftið þann 5. desember. Ég eldaði smjörsprautaðan kalkún, ljúffenga fyllingu, rósakál með beikoni og fullkomnar ofnsteiktar kartöflur fyrir hana og tökuliðið hennar. 



Um helgina var svo fjör í Ráðhúsinu í Reykjavík en var Bókamessa í Bókmenntaborg. Þar fékk ég heiðurinn af því að hitta fjöldann allan af fólki sem margir hverjir voru áhugasamir um bókina mína. Ég bauð upp á snittur sem ég smurði "live" og svo þegar að líða tók að kveldi, smá rauðvínsdreitil. Ég var með nokkrar flöskur af Spönsku rauðvíni - Coto Vintage frá því 2009 sem er einkar ljúfur sopi. Og líka á góðu verði - flaskan á ekki nema 2000 kr. Það verður að segjast að það er ansi gott verð. Vínið var dökkt í glasi - kirsuberjatónar, aðeins eikað og ávaxtakennt. 

Á laugardagskvöldið náði ég meira að segja að skjótast upp í bústað með föður mínum þar sem við áttum ljúfa kvöldstund með ljúffengum mat og drykk og skutumst í pottinn undir stjörnubjörtum himni og síðan í gufu áður en við lognuðust útaf - vel fyrir klukkan ellefu! Daginn eftir var svo aftur allt á fullu í Ráðhúsinu! 

Ég náði meira að segja að skjótast í sund áður en við ókum aftur á flugvöllinn. Þvílík helgi! Takk fyrir mig. 

Ljúffengur lax soðinn í kókósmjólk, thai chilli sósu með papriku, rækjum og kóríander

Þessi réttur er svona eldaður út úr frystinum og ísskápnum. Ég sótti það sem til var í frystinum - laxaflak og handfylli af rækjum ásamt smáræði af grænmeti og úr varð þessi ótrúlega einfaldi en ljúffengi réttur. 

Innihaldslýsing

600 gr laxaflak
150 gr rækjur
1 gul papríka
1 rauð papríka
1 stór gulrót
3 hvítlauksrif
5 cm engiferrót
1 lítil rauðlaukur
1 dós kókósmjólk
1 lítil dós sýrður rjómi
1 msk tómatpúré
olía til steikingar
salt og pipar


Skar fyrst lauk, engifer og hvítlauk niður smátt. 


Steikti þetta í einni matskeið af jómfrúarolíu þangað til mjúkt. 


Skar svo niður papríkurnar og steikti með lauknum.


Næst flysjaði ég stóra gulrót - sem ég síðan skar niður með flysjaranum í þunnar sneiðar og steikti síðan með grænmetinu. 


Svo hellti ég saman við kókosmjólkinni, sýrða rjómanum og tómatpúréinu. Hitaði að suðu og lét svo krauma í 20 mínútur til að sjóða aðeins niður. Saltaði og pipraði. 


Roðfletti síðan laxinn og skar í fjóra bita. 


Tyllti svo laxabitunum ofan í sósuna og lét sjóða í nokkrar mínútur. 


Bætti síðan rækjunum saman við. Saltaði vel og pipraði. 


Skreytti loks með fersku kóríander.


Með matnum nutum við þessa ágæta hvítvíns sem ég sótti á Kastrup. Þetta er vörumerki sem flestir Íslendingar kannast við og ekki af ástæðulausu. Þetta er ljómandi gott Chardonnay frá Ástralíu frá 2012. Þetta er fallega gullið í glasi, ungt í nefi með miklum ávexti á tungu, melónu og smjörkennt eins og öll Chardonnay eiga að vera! 



Rækjurnar voru bara settar í síðustu mínúturnar áður en að rétturinn fór á borðið - þær voru heldur smáar og þurftu bara 3-5 mínútur til að eldast í gegn í varmanum frá sósunni!


Einföld en ótrúlega ljúffeng máltíð. Borið fram með Basmati hrísgrjónum og einföldu salati! 

Núna er tími til að njóta! 



Bókin mín fæst núna í öllum verslunum!

Thursday 21 November 2013

Lúxus kjötbollur með beikoni, marsala bættri lauksmjörsósu og steiktum eggjum


Ég setti um daginn athugasemd á Facebook síðuna mína - The Doctor in the Kitchen - eitthvað um hvað steiktar "hakkebuff" bollur með lauk og steiktu eggi væru ljúffengar og það var ekkert lítið sem það innlegg fékk góðar athugasemdir. Mér finnst þetta einmitt herramannsmatur - og það gladdi mig hversu margir voru sama sinnis. Frábær matur þarf ekkert að vera flókinn. Hafandi sagt það þá langaði mig til að prófa að þróa uppskriftina aðeins. Lengi getur gott bestnað. 

Mér varð nefnilega hugsað til þeirra skotveiðimanna sem sóttu sér hreindýr á hérað núna í haust og eru kannski að velta fyrir sér hvernig væri hægt að nýta hakkið á skemmtilegan og bragðgóðan hátt - og þá er þessi færsla kannski innlegg í þá umræðu! 

Annars er ég á leiðinni til Íslands á morgun. Hlakka virkilega að koma heim aftur á skerið og heimsækja vini og ættingja. En tilgangur heimsóknarinnar er líka auðvitað að halda áfram að kynna bókina mína sem kom út núna á dögunum og hefur fengið sérlega góðar móttökur. Hún er meira að segja kominn í endurprentun! Það gleður virkilega mitt heimska hjarta.  

Verð á bókamessu um helgina í Ráðhúsinu - ég ætla að eyða bróðurparti laugardagsins og sunnudagsins að bjóða upp á heimagerðar snittur og léttvín! Vonast eftir því að sjá sem flesta. Það væri gaman að ræða um mat og málefni við áhugasama. Hægt er að lesa meira um þetta hérna - Bókamessa í Ráðhúsinu! 

Lúxus kjötbollur með beikoni, marsala bættri lauksmjörsósu og steiktum eggjum

Innihaldslýsing

Kjötbollur og meðlæti

500 gr svínahakk
500 gr hreindýrahakk
1 tsk rósmarín
1 tsk timian
salt og pipar

Egg eftir þörfum
300 gr beikon

Sósan 

4 meðalstórir laukar
50 gr smjör
3 msk jómfrúarolía
salt og pipar
50 ml Marsala vín
250 ml kjötsoð
Sósuþykkjari/smjörbolla
1 tsk soya sósa


Ég keypti grísahakk og svo hreindýrahakk - grísahakkið er fyrst og fremst hugsað til að bæta fitu við annars nokkuð fituskert villidýrahakkið. 


Vilhjálmur Bjarki (Villi) sá um að hnoða þetta allt saman enda áhugasamur í eldhúsinu! 

Það er gaman þegar börnin hafa áhuga á því að vera með í eldhúsinu. Hann er meira að segja farinn að hafa skoðanir á því hvernig bragðbæta á matinn og ennþá mikilvægara hvað honum finnst smakkast best!


Næst var að bæta smátt söxuðum kryddjurtum saman við. Og svo salta vel og pipra. 


Við gerðum þrennskonar bollur - allt eftir hvers manns höfði. Ostlausar fyrir Villa. Briefylltar bollur fyrir Snædísi og Valdísi. 


Og svo fyrir mig - fylltar með ljúffengum blámygluosti.


Bollunum var síðan velt upp úr smá grófri brauðmylsnu. 


Þær fengu síðan að standa í smá stund - þangað til að smjörið bráðnaði á pönnunni. 


Þær voru síðan steiktar upp úr smjöri þangað til að þær voru fallegar brúnaðar að utan og svo bakaðar í 180 gráðu heitum ofni í 25 mínútur. 


Skar svo laukinn í sneiðar. 


Og steikti upp úr smjöri og olíu. Saltaði vel og pipraði! 


Bætti svo við Marsala víninu og sauð upp áfengið. Hellti síðan kjötsoðinu á pönnuna og sauð upp. Þykkti með sósujafnara og smakkaði til með salti, pipar og soya sósu! Perfekt! 


Með matnum gæddum við okkur á smá rauðvínstári. Að þessu sinni búkollu sem mér hafði áskotnast. Þetta er ítalskt vín frá Sikiley. Gert úr Sangiovese þrúgunni. Fallega rúbinrautt í glasi. Örlítil sýra og kryddaður keimur. Ljúffengur sopi! 



Með fylltu bollunum bárum við fram knassandi steikt beikon, steikt egg og svo létt salat sem Villi hafði hent saman. 

Algerlega ljúffengt! 

Núna er tími til að njóta! 


Hlakka til að sjá sem flesta á bókamessunni núna um helgina! 

Mun að sjálfsögðu árita bókina fyrir þá sem vilja - skárra væri það nú! 



Sunday 17 November 2013

Roast beef sous vide með steiktum lauk, hvítlaukssteiktum gulrótum og kaldri bernaise sósu



Ég hef ekki eldað klassískt roast beef lengi - ég hef nokkrum sinnum eldað steikur með sömu aðferð en afar langt síðan að ég gerði nautainnralæri. Að þessu sinni ætla ég að nota sous-vide aðferðina við að elda kjötið. Sous-vide er fólgið í því að loka kjötið inn í plastpoka, helst vakúmpakkað og leggja svo kjötið í heitt vatn, þó ekki heitara en hiti kjötsins á að vera. Td. ætla ég að láta kjötið liggja í 55 gráðu heitu vatni í 3-4 tíma og þannig mun allur kjötbitinn verða fullkomlega eldaður - fallega rauðbleikur. Kjötið er svo steikt í lokin til að brúna það.

Ég ætlaði að hafa remúlaði-sósu með kjötinu en Snædís minnti mig á köldu bernaise-sósuna sem við fengum nýverið hjá Önnu Margréti og Tomma, útgefendum bókarinnar minnar, en hún var afar ljúffeng. Og ekki deili ég við dómarann. Köld bernaise skal það vera. 

Ég vil síðan þakka ykkur öllum, sem hafið verið senda mér skilaboð á netinu, fyrir einstaklega hlý orð um bókina mína - fátt gleður mann meira en að heyra að fólk kann að meta það sem maður er að gera. Takk fyrir mig! 

Roast beef sous vide með steiktum lauk, hvítlaukssteiktum gulrótum og kaldri bernaise sósu

Innihaldslýsing

1 kg nauta innralæri
pipar
plastpoki
3 laukar
2 stjörnuanís
50 gr smjör
salt og pipar

Kalda bernaise sósan

4 egg
200 gr smjör
75 ml hvítvínsedik
2 greinar fáfnisgras
1 skarlottulaukur
10 svört piparkorn




Skolið kjötið og þerrið. Piprið rækilega og setjið síðan inn í plastpoka eða vacúmpakkið - ef þið eigið slíkan búnað! 



Setjið í pott, með 55 gráðu heitu vatni og látið liggja í vatninu í þrjár klukkustundir. 



Takið svo kjötið upp úr vatninu í pokanum. Saltið núna yfirborðið rækilega.



Bræðið smjör á pönnu og brúnið kjötið að utan. Látið standa í nokkar mínútur. 


Skerið svo niður í sneiðar!


Það er ekki hægt að segja annað en að þær séu fallega rauðbleikar í gegn!


Það þarf líka að huga að sósunni - Kalda bernaise-sósan!



Þeytið fjórar eggjarauður í hrærivél.



Þeytið vel!



Þegar nóg loft er komið í þær hellið þá 200 gr af bræddu smjöri saman við. Hrærið í 20 mínútur og látið svo standa á borði þangað til að sósan kólnar að herbergishita!


Útbúið bernaise-essens. Setjið hvítvínsedikið, fáfnisgrasið, saxaðan skarlottulaukinn og piparkornin saman í pott. Hitið og sjóðið niður í 1-2 matskeiðar.


Blandið þessu síðan saman við smjörið og eggin. 



Skerið lauk í sneiðar og steikið í smjöri og steikið 2 stjörnuanísa með (þeir eru fyrst og fremst með til að lyfta umamibragði lauksins).



Steikið laukinn þangað til að hann er fallega gullinbrúnn.


Við bárum einnig hvítlaukssteiktar gulrætur með matnum og smjörsteiktar sykurbaunir. Gulræturnar voru fyrst forsoðnar í 10 mínútur í söltuðu vatni og svo steiktar í hvítlauksolíu - auðvitað heimagerðri!


Við drukkum þetta ljúffenga rauðvín með matnum. Og þetta vín hefur lengi átt sess í mínu hjarta - Montes Alpha Cabernet Sauvignion frá því 2010 - og það er vegna þess að þetta var fyrsta vínið sem ég raunverulega lærði að meta, svona um það leiti þegar maður var að uppgötva vín hérna fyrir einhverjum árum (áratugum) síðan. Alltaf þegar ég toga tappann úr þessari flösku þá fæ ég smá nostalgíu tilbaka til íbúðarinnar okkar í Eskihlíðinni! Og vínið er líka gott. Þétt og þykkt. Ilmar af kröftugum ávexti og eik, með góðri fyllingu. Gott eftirbragð!



Núna er loksins kominn tími til að njóta!



Talandi um að njóta þá fæst þessi bók núna í öllum betri bókabúðum og stórmörkuðum!