Tuesday 12 November 2013

Indversk grænmetiskorma með blómkáli, spergilkáli, papríkum og kúrbít ásamt þurrristuðu naanbrauði

Það er búið að vera mikil kjöthátíð hér um helgina. Við byrjuðum á fimmtudagskvöldið með svínalundir, nautalundir á föstudaginn, kjúkling á laugardaginn og svo kláruðum við helgina með svínabóg á sunnudagskvöldið. Nú varð að breyta til. Og þá er fátt betra en eitthvað hreinsandi eins og t.d. svona grænmetisrétt sem inniheldur smá "kikk" - smá chili, hvítlauk og engifer - lyftir réttinum aðeins upp þannig að maður svitnar aðeins á efri vörinni við matarborðið.

Oftast hefur það verið bróðir minn sem hefur séð um að elda indverskan mat á mínu heimili. Ekki það sé vegna skorts á áhuga - indversk matargerð er, jú, ákaflega heillandi. En síðustu árin hefur evrópsk matargerð átt hug minn allan - sérstaklega frönsk - eins og sjá má á blogginu mínu síðustu misseri. Kannski tengist þetta þroska - að maður þroski bragðlaukana hægt og rólega og þannig flakki maður ósjálfrátt á milli heimsálfa í leit að einhverju nýju til að örva bragðlaukana. En svo er líka bara gott að fara í stutta heimsókn á önnur menningarsvæði og sækja sér innblástur og fara svo til baka í það sem heillar mann mest. Það er sennilega engin rétt eða röng leið í þessum efnum.

Indversk grænmetiskorma með blómkáli, spergilkáli papríkum og kúrbít ásamt þurrristuðu naanbrauðiInnihaldslýsing

Fyrir kormað:
3 laukar
50 gr smjör
2 msk jómfrúarolía
3 tsk kóríander
3 tsk broddkúmen
8 kardimommufræ
8 negulnaglar
1/2 tsk kanil
6 hvítlauksrif
5 cm engifer
3 chili-pipar
4 msk cashew hnetur
200 ml vatn
1 gul papríka
1 rauð papríka
1 appelsínugul papríka
250 gr spergilkál
400 gr blómkál
2 kúrbítar
250 ml jógúrt
1 dós kókósmjólk
150 ml rjómi

Aðferð 


Skerið niður tvo lauka í sneiðar og steikið í smjörinu þangað til að laukurinn er mjúkur.


Séuð þið með kúmen/kóríander/kardimommufræ er gott að rista þau á þurri pönnu og merja síðan niður í mortéli. Bætið saman við laukinn.


Merjið hvítlaukinn og engiferið í mortéli og setjið saman við laukinn og kryddið.


Næst er að bæta niðurskornum chili-pipar saman við (kjarnhreinsið ef þið viljið mildari rétt), cashew hnetum og svo negulnöglum og kanel. Steikið saman í smástund. Hellið svo vatninu samanvið.


Maukið síðan með töfrasprota og setjið til hliðar.


Sneiðið grænmetið í hæfilega stóra bita. Skerið einnig niður einn lauk og steikið í nokkrar mínútur þangað til að hann fer að taka lit og bætið svo kormablöndunni aftur saman við. Hitið.


Setjið grænmetið ofan í pottinn og blandið saman.


Hellið svo jógúrtinni, rjómanum og kókósmjólkinni saman við. Hitið að suðu og látið krauma á rólegum hita í 25 mínútur þannig að allt grænmetið sé eldað í gegn.

Fyrir naanbrauðið

600 ml hveiti
1 tsk salt
2 tsk þurrger
2 msk olía
3 tsk nýmjólk
200 ml AB mjólk

Aðferð

500-600 ml af hveiti er sett í skál, smávegis af fínu salti og svo tveimur msk af olíu. Þrjár tsk af sykri eru leystar upp í volgri mjólk og svo er gerið sett saman við og vakið í mjólkinni. Mjólkurgerblöndunni er svo blandað saman við hveitið og hrært saman. Um 200 ml af Ab mjólk (eða jógúrt, eða mjólk og Ab mjólk til helminga) hrært saman við og smávegis mjólk. Deigið er hnoðað þar til það verður mjúkt og meðfærilegt og hætt að klístrast við hendurnar á manni. Látið hefast í 30 mínútur (lengur ef það er hægt).


Fletjið deigið út og skerið í hæfilega stóra bita.


Ristið síðan á þurri pönnu þangað til að brauðið fer að taka lit.


Penslið síðan brauðið þegar það er tilbúið með heimagerðri hvítlauksolíu og saltið með góðu salti.Með matnum drukkum við smá hvítvínstár. Two Oceans Fresh and Fruity sem er vín frá Suður Afríku og samanstendur af blöndu af nokkrum þrúgutegundum - mest Chenin Blanc. Þetta er fínn sopi. Fallega skarpt á litinn. Bragðið með ávexti - skarpt með frískandi eftirbragði.


Berið fram með soðnum hrísgrjónum.

Tími til að njóta!No comments:

Post a Comment