Thursday 28 November 2013

Ljúffengur lax soðinn í kókósmjólk, thai chilli sósu með papriku, rækjum og kóríander

Ég var á Íslandi um helgina og mikið ósköp var þetta skemmtileg heimsókn. Ég fór af stofugangi á fimmtudagsmorgun á gigtardeildinni á Háskólasjúkrahúsinu í Lundi út á lestarstöð, rápaði þar á milli bilaðra lesta áður en ég komst á Kastrup. Þaðan lá leiðin til Íslands þar sem ég skaust út í Fiskbúðina við Sundlaugaveginn og sótti ýmis konar góðgæti til að taka með mér til Lundar og þaðan fór ég beint í útgáfuteiti hjá Berglindi Guðmundssdóttur sem var að gefa út matreiðslubókina - Gulur, Rauður, grænn og Salt. 

Ekki bara er þessi dama hjúkrunarfræðingur, eiginkona og fjögurra barna móðir þá er hún líka þrælöflugur matarbloggari, auk þess sem hún er núna matreiðslubókahöfundur. Þetta er ljómandi góð matreiðslubók með skýra og einfalda framsetningu á fjöldanum öllum af fljótlegum réttum. Hún bauð upp á ljúffenga kjötsúpu í útgáfuteitinu (uppskriftina er að finna í bókinni), og svo fékk ég að smakka hið ljúffenga kúlugott - sem er afar ljúffengt sælgæti sem hún á heiðurinn af að hafa skapað. Kíkið á þessa girnilegu matreiðslubók! 

Úr boðinu hennar fór ég heim til foreldra minna og átti náðugt kvöld. Daginn eftir voru upptökur með Rikku fyrir sjónvarpsþátt sem hún er að fara með í loftið þann 5. desember. Ég eldaði smjörsprautaðan kalkún, ljúffenga fyllingu, rósakál með beikoni og fullkomnar ofnsteiktar kartöflur fyrir hana og tökuliðið hennar. 



Um helgina var svo fjör í Ráðhúsinu í Reykjavík en var Bókamessa í Bókmenntaborg. Þar fékk ég heiðurinn af því að hitta fjöldann allan af fólki sem margir hverjir voru áhugasamir um bókina mína. Ég bauð upp á snittur sem ég smurði "live" og svo þegar að líða tók að kveldi, smá rauðvínsdreitil. Ég var með nokkrar flöskur af Spönsku rauðvíni - Coto Vintage frá því 2009 sem er einkar ljúfur sopi. Og líka á góðu verði - flaskan á ekki nema 2000 kr. Það verður að segjast að það er ansi gott verð. Vínið var dökkt í glasi - kirsuberjatónar, aðeins eikað og ávaxtakennt. 

Á laugardagskvöldið náði ég meira að segja að skjótast upp í bústað með föður mínum þar sem við áttum ljúfa kvöldstund með ljúffengum mat og drykk og skutumst í pottinn undir stjörnubjörtum himni og síðan í gufu áður en við lognuðust útaf - vel fyrir klukkan ellefu! Daginn eftir var svo aftur allt á fullu í Ráðhúsinu! 

Ég náði meira að segja að skjótast í sund áður en við ókum aftur á flugvöllinn. Þvílík helgi! Takk fyrir mig. 

Ljúffengur lax soðinn í kókósmjólk, thai chilli sósu með papriku, rækjum og kóríander

Þessi réttur er svona eldaður út úr frystinum og ísskápnum. Ég sótti það sem til var í frystinum - laxaflak og handfylli af rækjum ásamt smáræði af grænmeti og úr varð þessi ótrúlega einfaldi en ljúffengi réttur. 

Innihaldslýsing

600 gr laxaflak
150 gr rækjur
1 gul papríka
1 rauð papríka
1 stór gulrót
3 hvítlauksrif
5 cm engiferrót
1 lítil rauðlaukur
1 dós kókósmjólk
1 lítil dós sýrður rjómi
1 msk tómatpúré
olía til steikingar
salt og pipar


Skar fyrst lauk, engifer og hvítlauk niður smátt. 


Steikti þetta í einni matskeið af jómfrúarolíu þangað til mjúkt. 


Skar svo niður papríkurnar og steikti með lauknum.


Næst flysjaði ég stóra gulrót - sem ég síðan skar niður með flysjaranum í þunnar sneiðar og steikti síðan með grænmetinu. 


Svo hellti ég saman við kókosmjólkinni, sýrða rjómanum og tómatpúréinu. Hitaði að suðu og lét svo krauma í 20 mínútur til að sjóða aðeins niður. Saltaði og pipraði. 


Roðfletti síðan laxinn og skar í fjóra bita. 


Tyllti svo laxabitunum ofan í sósuna og lét sjóða í nokkrar mínútur. 


Bætti síðan rækjunum saman við. Saltaði vel og pipraði. 


Skreytti loks með fersku kóríander.


Með matnum nutum við þessa ágæta hvítvíns sem ég sótti á Kastrup. Þetta er vörumerki sem flestir Íslendingar kannast við og ekki af ástæðulausu. Þetta er ljómandi gott Chardonnay frá Ástralíu frá 2012. Þetta er fallega gullið í glasi, ungt í nefi með miklum ávexti á tungu, melónu og smjörkennt eins og öll Chardonnay eiga að vera! 



Rækjurnar voru bara settar í síðustu mínúturnar áður en að rétturinn fór á borðið - þær voru heldur smáar og þurftu bara 3-5 mínútur til að eldast í gegn í varmanum frá sósunni!


Einföld en ótrúlega ljúffeng máltíð. Borið fram með Basmati hrísgrjónum og einföldu salati! 

Núna er tími til að njóta! 



Bókin mín fæst núna í öllum verslunum!

No comments:

Post a Comment