Wednesday 6 November 2013

Pizza bianca með heimagerðri hvítlauksolíu, klettasalati og parmaskinku

Þessi færsla birtist nýverið á blogginu - Gulur, rauður, grænn og salt - sem matarbloggarinn snjalli Berglind Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur stýrir - Ég fékk að vera gestabloggari hjá henni! Til að halda öllu til haga þá set ég þetta inn á bloggið mitt líka.

Svo nálgast fimmhundruðusta færslan óðfluga. Hvað ætli það verði?

Eins og flestir á mínum aldri þá höfum við verið svo gott sem alin upp á pizzum. Mamma eldaði gjarnan flatböku á föstudagskvöldum þegar ég var lítill. Hún hafði smakkað pizzu sjálf á fullorðinsaldri þegar hún starfaði sem flugfreyja fór út á pizzeríur þegar hún var í stoppi í New York. Hún tók þessa kunnáttu með sér heim og gladdi okkur heima með sínum eigin útgáfum. Bolognesesósan hennar endaði gjarnan sem pitsuálegg daginn eftir, okkur bræðrunum til mikillar ánægju. Það er merkilegt hvað flatbökur eru verðlaunandi og það er eiginlega erfitt að þykja nokkur flatbaka vond.

Ég var 14 ára þegar Pizzahúsið fór að keyra heim flatbökur og við það stórmagnaðist flatbökuneyslan. Við vinirnir lögðum gjarnan í púk fyrir 18 tommu margarítu. Eldsmiðjan hafði þá verið til í nokkur ár en var bara keypt við sérsök tilefni - eldsmiðjupizzur voru auðvitað betri og því miður dýrari! Ég hef meira að segja starfað sem pizzasendill - en það var hjá Dominos, sem selja pizzur sem ég dag mér finnst ekkert merkilegar - alltof mikið brauð!

Svo þegar ég fór að búa sjálfur og áhuginn á matargerð jókst ennfrekar fór þetta að verða vikulegur viðburður. Síðan þá hef ég gert hundruðir ólíkra flatbaka. Sumar frábærar, sumar góðar og aðrar bara venjulegar - en alltaf getur maður borðað pizzu!

Pizza bianca með heimagerðri hvítlauksolíu, klettasalati og parmaskinku



Ég fékk flatböku nýverið hjá vinum mínum og fannst hún alveg dásamlega góð. Hún er frábrugðin minni hefðbundnu uppskrift að því leyti að notað er gróft spelt og enginn sykur er notaður til þess að vekja gerið. Deigið er blandað og látið hefast í nokkra tíma. Munið að spelt þarf að hnoða vel. Síðan er deigið flatt út mjög þunnt og forbakað í eina til tvær mínútur.


Auðvelt er að kaupa parmaskinku út í búð - en fyrir þá sem vilja prófa að gera sína eigin, sjá hérna og svo er framhaldið sex mánuðum síðar, hérna!



Fyrir speltpizzabotninn

Hráefnalisti

500 g gróft spelt
300 ml vatn
15 g ferskt pressuger
4 msk jómfrúarolía
4 tsk sjávarsalt

1. Blandið saman öllum hráefnunum í hrærivél og hnoðið deigið 10-15 mínútur.

2. Látið deigið hefast í tvær til þrjár klukkustundir.

3. Fletjið það svo út mjög þunnt.

4. Forbakið í eina til tvær mínútur í ofninum eða á grillinu.

5. Raðið svo álegginu á botnana og bakið aftur í fjórar til fimm mínútur



Pizza Bianca

1 speltbotn – sjá ofan.
Handfylli mozzarellaostur
2 msk hvítlauksolía
5-6 sneiðar parmaskinka
2 handfyllir klettasalat
2 msk þurrsteiktar furuhnetur



1. Penslið hvítlauksolíu á botninn og dreifið ostinum ofan á.
2. Bakið í fjórar til fimm mínútur þangað til osturinn er bráðinn.
3. Raðið síðan álegginu ofan, fyrst klettasalatinu og svo þunnt skorinni parmaskinku.


Dreifið smáræði af jómfrúarolíu yfir og berið fram með hvítvínsglasi.



Núna er kominn tími til að njóta!


2 comments:

  1. Verður þetta ekkert þurrt? Finnst þetta girnilegt en svo finnst mér þetta líta svo þunnt út og verði eins og kex og þori því varla að prófa

    ReplyDelete
  2. Botninn er stökkur en ljómandi góđur - strax undir yfirborđinu mjúkur undir tönn og alls ekki þurr!

    ReplyDelete