Thursday 21 November 2013

Lúxus kjötbollur með beikoni, marsala bættri lauksmjörsósu og steiktum eggjum


Ég setti um daginn athugasemd á Facebook síðuna mína - The Doctor in the Kitchen - eitthvað um hvað steiktar "hakkebuff" bollur með lauk og steiktu eggi væru ljúffengar og það var ekkert lítið sem það innlegg fékk góðar athugasemdir. Mér finnst þetta einmitt herramannsmatur - og það gladdi mig hversu margir voru sama sinnis. Frábær matur þarf ekkert að vera flókinn. Hafandi sagt það þá langaði mig til að prófa að þróa uppskriftina aðeins. Lengi getur gott bestnað. 

Mér varð nefnilega hugsað til þeirra skotveiðimanna sem sóttu sér hreindýr á hérað núna í haust og eru kannski að velta fyrir sér hvernig væri hægt að nýta hakkið á skemmtilegan og bragðgóðan hátt - og þá er þessi færsla kannski innlegg í þá umræðu! 

Annars er ég á leiðinni til Íslands á morgun. Hlakka virkilega að koma heim aftur á skerið og heimsækja vini og ættingja. En tilgangur heimsóknarinnar er líka auðvitað að halda áfram að kynna bókina mína sem kom út núna á dögunum og hefur fengið sérlega góðar móttökur. Hún er meira að segja kominn í endurprentun! Það gleður virkilega mitt heimska hjarta.  

Verð á bókamessu um helgina í Ráðhúsinu - ég ætla að eyða bróðurparti laugardagsins og sunnudagsins að bjóða upp á heimagerðar snittur og léttvín! Vonast eftir því að sjá sem flesta. Það væri gaman að ræða um mat og málefni við áhugasama. Hægt er að lesa meira um þetta hérna - Bókamessa í Ráðhúsinu! 

Lúxus kjötbollur með beikoni, marsala bættri lauksmjörsósu og steiktum eggjum

Innihaldslýsing

Kjötbollur og meðlæti

500 gr svínahakk
500 gr hreindýrahakk
1 tsk rósmarín
1 tsk timian
salt og pipar

Egg eftir þörfum
300 gr beikon

Sósan 

4 meðalstórir laukar
50 gr smjör
3 msk jómfrúarolía
salt og pipar
50 ml Marsala vín
250 ml kjötsoð
Sósuþykkjari/smjörbolla
1 tsk soya sósa


Ég keypti grísahakk og svo hreindýrahakk - grísahakkið er fyrst og fremst hugsað til að bæta fitu við annars nokkuð fituskert villidýrahakkið. 


Vilhjálmur Bjarki (Villi) sá um að hnoða þetta allt saman enda áhugasamur í eldhúsinu! 

Það er gaman þegar börnin hafa áhuga á því að vera með í eldhúsinu. Hann er meira að segja farinn að hafa skoðanir á því hvernig bragðbæta á matinn og ennþá mikilvægara hvað honum finnst smakkast best!


Næst var að bæta smátt söxuðum kryddjurtum saman við. Og svo salta vel og pipra. 


Við gerðum þrennskonar bollur - allt eftir hvers manns höfði. Ostlausar fyrir Villa. Briefylltar bollur fyrir Snædísi og Valdísi. 


Og svo fyrir mig - fylltar með ljúffengum blámygluosti.


Bollunum var síðan velt upp úr smá grófri brauðmylsnu. 


Þær fengu síðan að standa í smá stund - þangað til að smjörið bráðnaði á pönnunni. 


Þær voru síðan steiktar upp úr smjöri þangað til að þær voru fallegar brúnaðar að utan og svo bakaðar í 180 gráðu heitum ofni í 25 mínútur. 


Skar svo laukinn í sneiðar. 


Og steikti upp úr smjöri og olíu. Saltaði vel og pipraði! 


Bætti svo við Marsala víninu og sauð upp áfengið. Hellti síðan kjötsoðinu á pönnuna og sauð upp. Þykkti með sósujafnara og smakkaði til með salti, pipar og soya sósu! Perfekt! 


Með matnum gæddum við okkur á smá rauðvínstári. Að þessu sinni búkollu sem mér hafði áskotnast. Þetta er ítalskt vín frá Sikiley. Gert úr Sangiovese þrúgunni. Fallega rúbinrautt í glasi. Örlítil sýra og kryddaður keimur. Ljúffengur sopi! Með fylltu bollunum bárum við fram knassandi steikt beikon, steikt egg og svo létt salat sem Villi hafði hent saman. 

Algerlega ljúffengt! 

Núna er tími til að njóta! 


Hlakka til að sjá sem flesta á bókamessunni núna um helgina! 

Mun að sjálfsögðu árita bókina fyrir þá sem vilja - skárra væri það nú! 2 comments:

  1. Innilegar hamingjuóskir með þessu flottu bók, er klárlega efst á mínum óskalista.
    Mér líst alveg hreint vel á þessar kjötbollur hjá þér. :-)

    ReplyDelete
  2. Wonderful article. Fascinating to read. I love to read such an excellent article. Thanks! It has made my task more and extra easy. Keep rocking. best pizza in tempe az

    ReplyDelete