Monday 24 October 2011

Norður Afrískt Mesa hlaðborð; linsuréttur, hummus, lauksalat,haloumi og ólífubrauðÞetta var sannkölluð veisla á virkum degi. Og það tók bara 50 mínútur að elda þetta allt saman. Ég er ekki að segja ósatt. Þetta var bara spurning um verklag. Svona matur er sérstaklega skemmtilegur - raða saman nokkrum einföldum réttum. Þetta var líka í anda þess að reyna að borða meira af grænmetisfæði. Eins og ég hef nefnt áður á blogginu mínu höfum við í Púkagranda eitt haft þetta á stefnuskránni síðustu mánuði og lagt metnað í að búa til hollan og góðan grænmetismat og þannig borða aðeins minna af kjöti - og þá, þegar við borðum kjöt, splæsum við í aðeins vandaðra og vel meðfarið hráefni!

Ég er afar hrifinn af Norður-Afrískum mat. Ég er auðvitað hrifinn af mat almennt en uppá síðkastið hef ég æ meira leitað í matreiðslubækur með uppskriftum frá þessu heimshluta. Ég bætti nýlega við tveimur matreiðslubókum í safnið mitt, A Month in Marrakesh eftir Andy Harris og síðan Whispers from a Lebanese Kitchen Kitchen - A family's treasured recipies eftir Nouha Taouk. Báðar þessar bækur eru vandaðar og fallegar að skoða.
Það sem mér finnst líka vera svo heillandi við matargerð frá þessu svæði eru kryddin sem notuð eru. Það eru þau sem gera matinn svo frábrugðin því sem maður á að venjast úr evrópskri matargerð. Það eitt að mala smávegis kumin í mortéli og steikja svo stutta stund á pönnu og draga djúpt inn andann færir mann á ógnarhraða í huganum til Miðausturlanda (já... þetta var bara kúmen!).

Norður Afrískt Mesa "style" hlaðborð; linsuréttur, hummus, lauksalat, haloumi og ólífubrauð 

Eins og ég nefndi í upphafi þá varð þetta nokkuð snögg matargerð - það tókst að elda alla þessa fimm rétti á tæpum fimmtíu mínútum. Ég byrjaði á því að undirbúa brauðið. Ég notaði bara mína hefðbundnu uppskrift, tja... ef uppskrift á að kalla - þetta er svona meira tilfinning fyrir hlutföllum. Ég byrja núna alltaf að vekja ger í 5-10 mínútur í 300 ml af ylvolgu vatni, bæti kúfaðri matskeið af sykri, þannig að gerið fái eitthvað að vinna úr. Set síðan 500-600 gr af hveiti í skál, salta og set 2-3 matskeiðar af olíu. Þegar gerið er vaknað þá er vökvanum blandað varlega saman við á meðan hrært er. Deigið er hnoðað vel í 10 mínútur og svo fær það að hefast í 20 mínútur. Þá er það flatt út á ofnskúffu sem hefur verið pensluð með olíu. Brauðið er síðan penslað með meiri olíu, saltað og piprað og svo skreytt með kalamata ólífum og nokkrum kúmenfræjum og síðan bakað í 15 mínútur í forhituðum ofni.
Á meðan brauðið hnoðast og hefast er hægt að sinna næstu verkum. Sneiddi tvo tómata og einn stóran rauðlauk örþunnt með mandólíni (sérstakur hnífur) og lagði á stóran disk. Sáldraði smá jómfrúarolíu og kreisti ferskan sítrónusafa yfir, saltaði og pipraði og skreytti með nokkrum rifnum myntulaufum.
Gerði síðan hummus. Ég hafði keypt kjúklingabaunir í dós sem ég skolaði í vatni og lét renna vel af. Sett í matvinnsluvél ásamt 1-2 hökkuðum hvítlauksrifjum og blandað saman. Þá smávegis salt, pipar, ein matskeið af tahini, safi úr hálfri sítrónu og 2-4 matskeiðar af jómfrúarolíu (eftir smekk). Sáldraði smáræði af papríkudufti yfir hummusinn.

Grillaði haloumi ost á rjúkandi pönnu og skreytti síðan með nokkrum steinseljulaufum.Sauð 400 gr af Puy linsum í söltuðu vatni í 20 mínútur. Skar niður tvær gulrætur, einn hvítan lauk, tvær sellerístangir og 3-4 hvítlauksrif og steikti við miðlungshita í 5 mínútur þar til mjúkt og glansandi. Setti síðan heila teskeið af spiskúmeni, túrmeriki, koriander og paprikudufti og steikti í smástund með grænmetinu. Skar niður hálft butternut grasker í ferninga og steikti síðan með hinu grænmetinu. Setti síðan smá vatn á pönnuna ásamt einum grænmetisteningi og sauð upp. Bætti síðan við linsubaununum, saltaði vel og pipraði og leyfði vökvanum að sjóða niður. Smakkað til, kreisti smá sítrónusafa yfir og skreytti með niðurskorinni steinselju.Tími til að njóta!

Wednesday 19 October 2011

Meiriháttar Melanzane alla parmigiana með hvítlauksbrauði ograuðvínsglasiÞessi réttur er sígíldur í ítölskum eldhúsum. Hann er vitskuld þekktur um alla Ítalíu en í breytilegri mynd eftir landsvæðum. Eftir því sem ég kemst næst var Marcella Hazan efins um hvort að hún ætti að hafa þessa uppskrift í bíblíu sinni um ítalska matargerð - því allir kynnu þetta. En auðvitað endaði hún í bókinni. Ég hef nokkrum sinnum rekist á þessa uppskrift í matreiðslubókum mínum en aldrei verið spenntur fyrir því að prófa. Svona getur maður verið vitlaus!

Það byggði auðtvitað á fáfræði - ég hafði einhvern tíma bitið það í mig að mér þætti eggaldin ekki gott grænmeti - en núna veit ég að það var bara vegna þess að ég kunni ekki að matreiða það! Það má því segja að eggaldin (melanzane) sé ný uppgötvun í eldhúsi mínu. Ég bloggaði í lok ágúst um penne með eggaldin og tómatsósu sem var alveg stórgott. Réttinn höfum við endurtekið síðan þá með smá breytingum.

Ferskt eggaldin finnst mér ennþá ekki gott á bragðið - það er heldur biturt - en við að matreiða það á ákveðinn hátt er hægt að lokka fram dásamlegt, djúpt, arómatískt og örlítið heitt bragð af þessum fallega ávexti. Það þarf að salta það áður - láta það svitna, þannig fer hluti beyskjunnar. Svo elskar eggaldin að fara í olíubað - upp úr heitri olíu. Það sýgur auðvitað heilmikið í sig og því er líka hægt að pensla það með olíu og baka inn í ofni - sennilega hollara. Þannig er hægt að ná fram þessu eftirsóknarverða bragði!Meiriháttar Melanzane alla parmigiana með hvítlauksbrauði og rauðvínsglasi

Hráefnalisti

3-4 eggaldin
Salt og pipar
1 laukur
2-3 hvítlauksrif
2 dósir niðursoðnir tómatar
2 msk tómatpuré
2-3 msk steinselja
150 gr mozzarella
5-6 lauf ferskur basil

Þetta er auðveldur réttur sem byggir allt sitt á því að verið sé að nota gott hráefni. Við reyndum að gera þetta eins einfalt og mögulegt er. Þó að rétturinn heiti - alla parmigiana - notuðum við líka mozzarella. Það er auðvitað ekki bara vegna bragðisins heldur líka til að spara peninga - mozzarella er auðvitað miklu ódýrari ostur heldur en parmaostur.Fyrst er að byrja á því að undirbúa eggaldinið - 3-4 stykki eru skorin niður í sneiðar. Sneiðarnar eru saltaðar og svo lagðar á pappír til að soga í sig vökvann. Maður sér strax hvernig eggaldinið byrjar að svitna. Að þessu sinni ákváðum við að elda eggaldinið í ofni. Það var penslað með jómfrúarolíu og síðan bakað í 200 gráðu forhituðum ofni þangað það byrjaði að taka lit og verða gullið. Þá er það tekið úr ofninum og lagt til hliðar.Næst er að gera einfalda tómatsósu. Einn laukur, 2-3 hvítlauksrif eru skorin smátt niður og steikt í nokkrar mínútur í heitri olíu þangað til laukurinn er fallega gljáandi. Þá er tveimur dósum af góðum niðursoðnum ítölskum tómötum bætt saman við, saltað, piprað eftir smekk. Tveimur matskeiðum af tómatpuré er bætt saman við ásamt 2-3 msk af niðurskorinni steinselju. Stundum þarf að bæta við smá sykri/tómatsósu - séu tómatarnir örlítið súrir. Suðunni er leyft að koma upp rólega.Því næst eru tvær mozzarellakúlur skornar niður eins þunnt og unnt er. Svo raspar maður niður eins mikið af parmaosti eins og fjárhagur leyfir - kannski 100-150 gröm. Þá er lítið annað að gera en að raða réttinum saman í eldfast mót. Fyrst er að setja tómatsósu í botninn, svo eggaldinsneiðar, þá mozzarellaost/parmaost, síðan raðar maður nokkrum laufum af ferskri basiliku. Þá er ekkert annað að gera en að endurtaka leikinn þangað til að allt hráefnið er uppurið.Í lokin settum við ostblandaða brauðmylsnu yfir. Handfylli af brauðmylsnu og handfylli af parmaosti er sett í skál og vætt með 2-3 matskeiðum af góðri jómfrúarolíu.Mylsnunni er síðan stráð yfir réttinn sem er síðan færður inn í forhitaðan ofn og bakaður í 30-40 mínútur - þangað til tómatsósan er farin að sjóða í mótinu.Borið fram með hvítlauksbrauði - keyptum bara baguettu út í búð sem við skárum í helminga og pensluðum með hvítlauksolíu og bökuðum inn í ofninum í 10-15 mínútur þangað til fallega gullið á litinn. Við erum ennþá svo heppinn að það vex kál í matjurtagarðinum mínum - þannig að við söfnuðum nokkrum tegundum af káli sem við veltum upp úr einfaldri sítrónuvinagrettu.Með matnum drukkum við ágætisvín, sem við höfum haft nokkrum sinnum á borðum áður - seinast í sumar. Ég hefði kannski átt að vera með ítalskt vín með matnum en þetta vín passaði líka mjög vel með matnum. Þetta er vín frá Argentínu - nálægt Andesfjöllum eins og nafnið gefur til kynna: Terrazas de los Andes Malbec Reserva, sem er frá árinu 2008. Þetta vín er dökkt í glasi. Talsverður ávöxtur og krydd í nefið sem kemur líka fram í bragðinu. Gott eftirbragð - jarðbundið og langt.Bon appetit!

Sunday 9 October 2011

Kínversk veisla; Peking önd með hoi sin sósu, djúpsteiktar rækjur oggrænmetisvorúllur með súrsætri sósuSeinustu helgi vorum við með veislu á laugardagskvöldinu til að verðlauna okkur fyrir vel unnin verk í garðinum. Við unnum hörðum höndum að því að mála grindverkið sem umlykur pallinn okkar. Ég var eitthvað að róta í frystinum um morguninn og fann tvær andabringur, won ton pappír og rækjur - þannig að þetta var allt tekið út til undirbúnings fyrir kvöldið.

Fyrir nokkrum árum síðan fórum við í sumarleyfi til Calpe á Spáni. Þetta er ósköp venjulegur spænskur strandbær með sínum hvítu sandströndum, sundlaugarbökkum og veitingastöðum. Þessi ferð hefur verið mér eftirminnileg fyrir nokkrar sakir. Við fórum þarna með góðum vinum okkar og skemmtum okkur vel saman. Við fórum á ágætan Teppanyaki veitingastað sem var ansi skemmtilegur - kokkurinn leikur listir sínar fyrir framan mann og það var fín skemmtun. Við fórum líka á þennan fyrirtaks kínverska veitingastað sem var staðsettur á fyrstu hæðinni á hótelinu sem við gistum á. Á þeim veitingastað var hægt að panta þessa fyrirtaks pekingönd sem smakkaðist alveg frábærlega.

Ég hef ekki verið duglegur að elda austurlenskan mat þrátt fyrir að finnast þessi matargerð mjög spennandi. Ég horfði nýverið á nýjustu þætti Rick Stein, Far Eastern Oddissey, sem voru ansi góðir. Það voru uppi stór áform um að vera duglegri að elda mat frá þessum stóra heimshluta - en allt kom fyrir ekki. Bækur voru skoðaðar en stundum er það bara svona - maður gerir það sem maður er vanur. En núna var annað upp á teningnum. Kínversk veisla átti það að vera - það var síðan stórgaman að byrja að elda - við settum á kínverska tónlist. Hugurinn reikaði ótrúlegt en satt heim til Íslands og heim í eldhús foreldra minna og það tímabil þegar þau voru afar upptekin af því að elda kínverskan mat; vorrúllur, djúpsteiktar rækjur, núðlu- og hrísgrjónarétti og margt margt fleira!Kínversk veisla; Peking önd með hoi sin sósu, djúpsteiktar rækjur og grænmetisvorúllur með súrsætri sósu
Þegar andabringurnar voru þiðnar voru þær þurrkaðar vel og rækilega og settar inn í ísskáp þannig að fitan hefði möguleika að þorna en frekar. Slík meðferð á að gera það að verkum að húðin verði stökk og fín þegar hún er steikt. Rétt áður en öndin var steikt var hún söltuð og pipruð. Sólrósarolía var hituð á pönnu og öndin var steikt, húðin niður, og þrýst niður á pönnuna - annars er hætta á því að dragi sig saman. Þegar húðin er orðin gullin er henni snúið en maður verður að halda áfram að hella heitri fitunni yfir húðina - þá heldur hún áfram að steikjast og verður stökk og knassandi. Bjó síðan til einfaldan sykurhjúp; sykur og vatn pott með smá soya og sauð upp. Penslaði síðan öndina áður en hún fór inn í ofn til að bakast þangað til að kjarnhiti náði um 70 gráðum.Pönnukökurnar, Mandarin pancakes, getur maður búið til frá grunni eða maður getur heimsótt nágranna sinn, Signýju Völu sem er mikill listakokkur og sníkt af henni. Hún hafði verið nógu skynsöm að kaupa þessar pönnukökur í sérvöruverslun þegar hún var nýverið í Danmörku. Maður vefur öndinni inn í pönnsuna með hoi sin sósu og grænmetinu; gúrku og vorlauk. Sælgæti.Við gerðum hoi sin sósu. Hana er auðvitað hægt að kaupa - en af hverju ætti maður ekki að reyna að gera svona sjálfur. Við skoðuðum margar uppskriftir á netinu og í lokin varð niðurstaðan blanda af nokkrum uppskriftum og svo bara smakka sig áfram þangað til að sósan er orðin bragðgóð. Settum 5-6 matskeiðar af soya sósu, 3-4 matskeiðar af hnetusmjöri, 2 matskeiðar af hunangi, 1 tsk af tabaskó sósu, salt, pipar, 1/2 tsk af hvítlauksdufti, skvettu af hvítvínsediki og svo auðvitað 2 tsk af sesamolíu sem hefur mjög yfirgnæfandi bragð (kannski hefði maður átt að setja aðeins minna í upphafi og svo auka eftir smekk - en mér fannst sósan heppnast afar vel).Þá var að vinda sér í næsta rétt. Til að gera vorrúllurnar þarf maður auðvitað að byrja á því að gera fyllinguna; Fyrst skar ég niður 5 cm af engifer, 3-4 hvítlauksrif, 3-4 vorlauka, 1 gula papríku, 1 rauðlauk. Þetta var svo steikt í funheitum wok ásamt 2-3 handfyllum af baunaspírum. Bragðbætt með salti og pipar, vænni skvettu af soyasósu, 2 tsk sykri og svo skvettu af sætu sherríi.Steikt þangað til að grænmetið af mjúkt og eldað - og allur vökvinn soðin burt. Þá er að fylla vorrúllurnar.Ein msk af grænmeti er sett á won ton pappírinn. Rúllað upp og lokað með því að strjúka smá vatni yfir endann. Olía er hituð í potti og vorrúllurnar djúpsteiktar þangað til að þær eru fallega gullinbrúnar.Þá er að undirbúa rækjurnar. Bjó til einfalt deig; 3 dl af hveiti, 1 tsk salt, hálfan dl af af brauðmylsnu (til að gera þetta extra crunch), 2 msk af kartöflumjöl (eða cornstarch) og svo sódavatn þangað til að maður er komin með þykkt deig - svona eins og vöffludeig á að vera. Rækjunum er velt upp úr deiginu og svo djúpsteikt þangað til rækjurnar eru orðnar fallega gullinbrúnar.Bjuggum síðan til súrsæta sósu með því að hálfum bolla af hvítvínsediki, 5 msk púðursykri, 1-2 msk af tómatsósu, 1-2 msk soyasósu, 2-3 tsk af kartöflumjöli (blönduðu í 5-6 tsk af vatni). Þessu er öllu blandað saman. Þá hituðum við hálfa dós af niðursoðnum tómötum og helltum blöndunni saman við. 2-3 msk af smátt skornum ananas er þá bætt saman við. Smakkað til.Með matnum drukkuð við Villa Antinori rauðvín frá því árið 2006 sem er ítalskt - nánar tiltekið Toscana. Þetta er klassískt Chianti sem er blanda af nokkrum þrúgutegundum, að stærstum hluta Sangiovese 55%, Cabernet Sauvigion, Merlot og Syrah. Liturinn er fallega rauður í glasinu. Ilmar af ávexti og eik. Kraftmikið á bragðið, fyllti munninn af berjabragði með mildri eik í eftirbragði.

Tími til að njóta!

Wednesday 5 October 2011

Þrjár Súper Súpur - Mexíkósk svartbaunasúpa, ristuð rauðrófusúpa og marókósk tómatsúpa með hleyptum eggjum
Haustið er komið þó að ótrúlega vel hafi viðrað síðastliðna viku. Við fengum eiginlega sumarið sem aldrei kom núna seinustu helgi. Við vorum dugleg í garðinum og náðum að mála grindverkið sem umlykur pallinn okkar. Eitt kvöldið var meiri segja pínu napurt þannig að kveikt var upp í kamínunni. En haustið er komið - miskunarlaust - með öllum sínum verkefnum, nýjum og gömlum. Villi minn var að byrja í skóla og gengur vel og Valdís heldur ótrauð áfram. Við hjónin höfum bæði hafið nýtt nám; Snædís var að byrja að læra coaching og ég var að hefja stjórnunarnám sem mun taka 16 mánuði samhliða fullu starfi. Allt þetta hefur haft sín áhrif á virknina hérna á blogginu.

En við höfum ekki slegið slöku við í eldhúsinu. Við höfum, eins og ég nefndi í fyrri færslu verið dugleg að auka breiddina í grænmetisréttum og höfum sótt innblástur víða. Síðustu viðbætur við matreiðslubókasafnið hafa vakið lukku, þá sérstaklega bók Hugh Fearnley Whittingstall - River Cottage Veg, sem ég hvet flesta til áhugasama til að kynna sér!

Tvær af þeim þremur súpum sem ég blogga um í dag eru frá innblásnar af nýjustu bók hans og mér fannst heppnast alveg ótrúlega vel. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega gefinn fyrir súpur - ólikt spúsu minni sem veit fátt betra - nema hvað ég er á mörkum þess að vera frelsaður í þessum efnum. Þar sem ég er að sigrast á fordómum mínum með þessari matargerð ætla ég að reyna að vera duglegur að skrifa um það reglulega pistla.

Þrjár Súper Súpur - Mexíkósk svartbaunasúpa, ristuð rauðrófusúpa og marókósk tómatsúpa með hleyptum eggjum
Jæja - best að byrja. Allar þessar súpu eru einfaldar - rauðrófusúpan þurfti aðeins meiri tíma, kem að því síðar.

Mexikósk svartbaunasúpa 

Hráefnalisti

2 rauðlaukar
Jómfrúarolía
2-3 hvítlauksrif
1 rauður chilli
1 tsk broddkúmen
Salt og pipar
600 ml grænmetissoð
300 ml passata tómatsafi
1 dós niðursoðnir tómatar
1 dós svartar baunir
Fersk bergmynta

Sú mexikóska hófst með því að skera niður 2 rauðlauka smátt niður og steikja í smá skvettu af jómfrúarolíu, þegar þeir eru mjúkir og fínir - passa að brúna þá ekki - þá bætir maður við 2-3 smátt skornum hvítlauksrifjum, einum kjarnhreinsuðum og smátt niðurskornum rauðum chilli og 1 tsk af spiskumin (cumin - ekki rugla saman við ísl. kúmen sem er caraway fræ), salt og pipar og steikt í smá stund til að vekja kryddið. Þá er bætt samanvið 600 ml af grænmetissoði, 300 ml af passata tómatsafa, ein dós af niðursoðnum tómötum, 1 dós af hreinsuðum svörtum niðursoðnum baunum, smávegis af ferskri bergmyntu og soðið upp. Saltað og piprað eftir smekk. Stundum þarf að bæta við smávegis af sykri séu tómatarnir í súrari kantinum (þurfti ekki við gerð þessarar súpu). Soðið upp og leyft að sjóða í 15 mínútur.

Borið fram með tostitas (tortillur með osti og chillisósu - steiktar). Súpan fær smávegis af sýrðum rjóma, nokkur kóríanderlauf og skreytt með nokkrum gulum baunum.Ristuð rauðrófusúpa með piparrótar-sýrðum rjóma

Hráefnalisti

1 kg rauðrófur
5-6 hvítlauksrif
3-4 greinar ferskt timían
Jómfrúarolía
Salt og pipar
1 glas hvítvín
1 l vatn
1  laukur
1 stór gulrót
1 sellerístöng
2 hvítlauksrif
2 grænmetisteningar
1 dós sýrður rjómi
5 cm piparrót

Fyrst var að skrúbba rækilega 1 kg af nújum rauðrófum. Síðan var þeim raðað í eldfast mót ásamt 5-6 hvítlauksrifjum í hýðinu og nokkrum greinum af fersku timian. Síðan sáldraði ég jómfrúarolíu yfir, saltaði og pipraði og hellti síðan einu glasi af hvítvíni í botninn á mótinu.Lokaði með álpappír og bakaði í 200 gráðu heitum ofni í eina klukkustund. Á meðan útbjuggum við grænmetissoð; skárum einn lauk, 1 stóra gulrót, 1 sellerístöng, 2 hvítlauksrif og steiktum í potti í nokkrar mínútur. Settum síðan einn lítra af vatni út í og leyfðum suðunni að koma upp. Bragðbætt með salti og pipar og 2 grænmetisteningum. Eftir klukkustund eru rauðrófurnar sóttar úr ofninum og leyft að kólna í nokkrar mínútur þannig að hægt var að flysja þær, hvítlaukurinn var líka kreistur úr hýði sínu. Sett í pott og maukað saman með grænmetissoðinu með töfrasprota, saltað og piprað eftir smekk.Til að jafna sætuna í rauðrófunum, útbjó ég piparrótarbættan sýrðan rjóma. Tók eina dós af léttum sýrðum rjóma og hrærði saman við 5 cm af rifinni piparrót. Þetta var algert lykilatriði og tók súpuna upp á alveg nýtt plan.Súpan er auðvitað eins rauð og hugsast verður og það verður að hafa gát á - allt sem þessi súpa snertir verður rautt!

Marókósk tómatsúpa með hleyptum eggjum

Hráefnalisti

1 laukur
2-3 gulrætur
2 sellerístangir
1 solo hvítlaukur
2-3 msk jómfrúarolía
1 msk papríkuduft
1 tsk broddkúmen
1 tsk túrmerik
3 dósir niðursoðnir tómatar
Vatn
1 msk chillitómatsósa
Handfylli fersk steinselja

Þessi súpa er innblásin af þekktri marókóskri lambabollukássu sem ég hef bloggað um hérna á síðunni. Steikti einn gróft skorinn, hvítan lauk, 2-3 niðursneiddar gulrætur, 2 sellerístangir og einn niðurskorin solo hvítlauk í 2-3 matskeiðum af jómfrúarolíu við heldur lágan hita í 10 mínútur þangað til að grænmetið var mjúkt, næstum karmelliserað og ilmandi. Þá bætti ég saman við einni kúfaðri matskeið af miðlungssterku papríkudufti, 1 tsk af spiskumin, 1 tsk af túrmeriki og steikti í 2 mínútur til þess að vekja kryddið. Ilmurinn verður dásamlegur. Síðan setti ég þrjár dósir af góðum niðursoðnum tómötum - og álíka mikið af vatni af vatni. Síðan setti ég væna skvettu af chillitómatsósu. Handfylli af ferskri steinselju. Súpan var soðin upp og leyft að sjóða í hálfa klukkustund og þá var hún maukuð saman með töfrasprota.

Lækkaði hitann þannig að það laumast upp einstaka "bubbla" upp á yfirborðið og braut útí 4 egg á ólíka staði í pottinum og lét sitja þar í 5 mínútur - og þá bar ég fram súpuna. Maður sér hvar eggið liggur á eggjahvítutaumunum sem eru á yfirborðinu. Veiddi upp eggin með ausu og lagði í skálar og bætti svo súpu varlega í kring. Skreytt með nokkrum steinseljulaufum. Borið fram með lebneh brauði.

Algert sælgæti! Því miður gleymdi ég að taka mynd af þessari frábæru súpu - þið verður bara að treysta mér að hún var alveg dásamleg - besta af þessum þremur, þó allar hafi verið ljúffengar!

Tími til að njóta!