Wednesday 5 October 2011

Þrjár Súper Súpur - Mexíkósk svartbaunasúpa, ristuð rauðrófusúpa og marókósk tómatsúpa með hleyptum eggjum




Haustið er komið þó að ótrúlega vel hafi viðrað síðastliðna viku. Við fengum eiginlega sumarið sem aldrei kom núna seinustu helgi. Við vorum dugleg í garðinum og náðum að mála grindverkið sem umlykur pallinn okkar. Eitt kvöldið var meiri segja pínu napurt þannig að kveikt var upp í kamínunni. En haustið er komið - miskunarlaust - með öllum sínum verkefnum, nýjum og gömlum. Villi minn var að byrja í skóla og gengur vel og Valdís heldur ótrauð áfram. Við hjónin höfum bæði hafið nýtt nám; Snædís var að byrja að læra coaching og ég var að hefja stjórnunarnám sem mun taka 16 mánuði samhliða fullu starfi. Allt þetta hefur haft sín áhrif á virknina hérna á blogginu.

En við höfum ekki slegið slöku við í eldhúsinu. Við höfum, eins og ég nefndi í fyrri færslu verið dugleg að auka breiddina í grænmetisréttum og höfum sótt innblástur víða. Síðustu viðbætur við matreiðslubókasafnið hafa vakið lukku, þá sérstaklega bók Hugh Fearnley Whittingstall - River Cottage Veg, sem ég hvet flesta til áhugasama til að kynna sér!

Tvær af þeim þremur súpum sem ég blogga um í dag eru frá innblásnar af nýjustu bók hans og mér fannst heppnast alveg ótrúlega vel. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega gefinn fyrir súpur - ólikt spúsu minni sem veit fátt betra - nema hvað ég er á mörkum þess að vera frelsaður í þessum efnum. Þar sem ég er að sigrast á fordómum mínum með þessari matargerð ætla ég að reyna að vera duglegur að skrifa um það reglulega pistla.

Þrjár Súper Súpur - Mexíkósk svartbaunasúpa, ristuð rauðrófusúpa og marókósk tómatsúpa með hleyptum eggjum
Jæja - best að byrja. Allar þessar súpu eru einfaldar - rauðrófusúpan þurfti aðeins meiri tíma, kem að því síðar.

Mexikósk svartbaunasúpa 

Hráefnalisti

2 rauðlaukar
Jómfrúarolía
2-3 hvítlauksrif
1 rauður chilli
1 tsk broddkúmen
Salt og pipar
600 ml grænmetissoð
300 ml passata tómatsafi
1 dós niðursoðnir tómatar
1 dós svartar baunir
Fersk bergmynta

Sú mexikóska hófst með því að skera niður 2 rauðlauka smátt niður og steikja í smá skvettu af jómfrúarolíu, þegar þeir eru mjúkir og fínir - passa að brúna þá ekki - þá bætir maður við 2-3 smátt skornum hvítlauksrifjum, einum kjarnhreinsuðum og smátt niðurskornum rauðum chilli og 1 tsk af spiskumin (cumin - ekki rugla saman við ísl. kúmen sem er caraway fræ), salt og pipar og steikt í smá stund til að vekja kryddið. Þá er bætt samanvið 600 ml af grænmetissoði, 300 ml af passata tómatsafa, ein dós af niðursoðnum tómötum, 1 dós af hreinsuðum svörtum niðursoðnum baunum, smávegis af ferskri bergmyntu og soðið upp. Saltað og piprað eftir smekk. Stundum þarf að bæta við smávegis af sykri séu tómatarnir í súrari kantinum (þurfti ekki við gerð þessarar súpu). Soðið upp og leyft að sjóða í 15 mínútur.

Borið fram með tostitas (tortillur með osti og chillisósu - steiktar). Súpan fær smávegis af sýrðum rjóma, nokkur kóríanderlauf og skreytt með nokkrum gulum baunum.



Ristuð rauðrófusúpa með piparrótar-sýrðum rjóma

Hráefnalisti

1 kg rauðrófur
5-6 hvítlauksrif
3-4 greinar ferskt timían
Jómfrúarolía
Salt og pipar
1 glas hvítvín
1 l vatn
1  laukur
1 stór gulrót
1 sellerístöng
2 hvítlauksrif
2 grænmetisteningar
1 dós sýrður rjómi
5 cm piparrót

Fyrst var að skrúbba rækilega 1 kg af nújum rauðrófum. Síðan var þeim raðað í eldfast mót ásamt 5-6 hvítlauksrifjum í hýðinu og nokkrum greinum af fersku timian. Síðan sáldraði ég jómfrúarolíu yfir, saltaði og pipraði og hellti síðan einu glasi af hvítvíni í botninn á mótinu.



Lokaði með álpappír og bakaði í 200 gráðu heitum ofni í eina klukkustund. Á meðan útbjuggum við grænmetissoð; skárum einn lauk, 1 stóra gulrót, 1 sellerístöng, 2 hvítlauksrif og steiktum í potti í nokkrar mínútur. Settum síðan einn lítra af vatni út í og leyfðum suðunni að koma upp. Bragðbætt með salti og pipar og 2 grænmetisteningum. Eftir klukkustund eru rauðrófurnar sóttar úr ofninum og leyft að kólna í nokkrar mínútur þannig að hægt var að flysja þær, hvítlaukurinn var líka kreistur úr hýði sínu. Sett í pott og maukað saman með grænmetissoðinu með töfrasprota, saltað og piprað eftir smekk.



Til að jafna sætuna í rauðrófunum, útbjó ég piparrótarbættan sýrðan rjóma. Tók eina dós af léttum sýrðum rjóma og hrærði saman við 5 cm af rifinni piparrót. Þetta var algert lykilatriði og tók súpuna upp á alveg nýtt plan.



Súpan er auðvitað eins rauð og hugsast verður og það verður að hafa gát á - allt sem þessi súpa snertir verður rautt!

Marókósk tómatsúpa með hleyptum eggjum

Hráefnalisti

1 laukur
2-3 gulrætur
2 sellerístangir
1 solo hvítlaukur
2-3 msk jómfrúarolía
1 msk papríkuduft
1 tsk broddkúmen
1 tsk túrmerik
3 dósir niðursoðnir tómatar
Vatn
1 msk chillitómatsósa
Handfylli fersk steinselja

Þessi súpa er innblásin af þekktri marókóskri lambabollukássu sem ég hef bloggað um hérna á síðunni. Steikti einn gróft skorinn, hvítan lauk, 2-3 niðursneiddar gulrætur, 2 sellerístangir og einn niðurskorin solo hvítlauk í 2-3 matskeiðum af jómfrúarolíu við heldur lágan hita í 10 mínútur þangað til að grænmetið var mjúkt, næstum karmelliserað og ilmandi. Þá bætti ég saman við einni kúfaðri matskeið af miðlungssterku papríkudufti, 1 tsk af spiskumin, 1 tsk af túrmeriki og steikti í 2 mínútur til þess að vekja kryddið. Ilmurinn verður dásamlegur. Síðan setti ég þrjár dósir af góðum niðursoðnum tómötum - og álíka mikið af vatni af vatni. Síðan setti ég væna skvettu af chillitómatsósu. Handfylli af ferskri steinselju. Súpan var soðin upp og leyft að sjóða í hálfa klukkustund og þá var hún maukuð saman með töfrasprota.

Lækkaði hitann þannig að það laumast upp einstaka "bubbla" upp á yfirborðið og braut útí 4 egg á ólíka staði í pottinum og lét sitja þar í 5 mínútur - og þá bar ég fram súpuna. Maður sér hvar eggið liggur á eggjahvítutaumunum sem eru á yfirborðinu. Veiddi upp eggin með ausu og lagði í skálar og bætti svo súpu varlega í kring. Skreytt með nokkrum steinseljulaufum. Borið fram með lebneh brauði.

Algert sælgæti! Því miður gleymdi ég að taka mynd af þessari frábæru súpu - þið verður bara að treysta mér að hún var alveg dásamleg - besta af þessum þremur, þó allar hafi verið ljúffengar!

Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment