Wednesday 19 October 2011

Meiriháttar Melanzane alla parmigiana með hvítlauksbrauði ograuðvínsglasi



Þessi réttur er sígíldur í ítölskum eldhúsum. Hann er vitskuld þekktur um alla Ítalíu en í breytilegri mynd eftir landsvæðum. Eftir því sem ég kemst næst var Marcella Hazan efins um hvort að hún ætti að hafa þessa uppskrift í bíblíu sinni um ítalska matargerð - því allir kynnu þetta. En auðvitað endaði hún í bókinni. Ég hef nokkrum sinnum rekist á þessa uppskrift í matreiðslubókum mínum en aldrei verið spenntur fyrir því að prófa. Svona getur maður verið vitlaus!

Það byggði auðtvitað á fáfræði - ég hafði einhvern tíma bitið það í mig að mér þætti eggaldin ekki gott grænmeti - en núna veit ég að það var bara vegna þess að ég kunni ekki að matreiða það! Það má því segja að eggaldin (melanzane) sé ný uppgötvun í eldhúsi mínu. Ég bloggaði í lok ágúst um penne með eggaldin og tómatsósu sem var alveg stórgott. Réttinn höfum við endurtekið síðan þá með smá breytingum.

Ferskt eggaldin finnst mér ennþá ekki gott á bragðið - það er heldur biturt - en við að matreiða það á ákveðinn hátt er hægt að lokka fram dásamlegt, djúpt, arómatískt og örlítið heitt bragð af þessum fallega ávexti. Það þarf að salta það áður - láta það svitna, þannig fer hluti beyskjunnar. Svo elskar eggaldin að fara í olíubað - upp úr heitri olíu. Það sýgur auðvitað heilmikið í sig og því er líka hægt að pensla það með olíu og baka inn í ofni - sennilega hollara. Þannig er hægt að ná fram þessu eftirsóknarverða bragði!



Meiriháttar Melanzane alla parmigiana með hvítlauksbrauði og rauðvínsglasi

Hráefnalisti

3-4 eggaldin
Salt og pipar
1 laukur
2-3 hvítlauksrif
2 dósir niðursoðnir tómatar
2 msk tómatpuré
2-3 msk steinselja
150 gr mozzarella
5-6 lauf ferskur basil

Þetta er auðveldur réttur sem byggir allt sitt á því að verið sé að nota gott hráefni. Við reyndum að gera þetta eins einfalt og mögulegt er. Þó að rétturinn heiti - alla parmigiana - notuðum við líka mozzarella. Það er auðvitað ekki bara vegna bragðisins heldur líka til að spara peninga - mozzarella er auðvitað miklu ódýrari ostur heldur en parmaostur.



Fyrst er að byrja á því að undirbúa eggaldinið - 3-4 stykki eru skorin niður í sneiðar. Sneiðarnar eru saltaðar og svo lagðar á pappír til að soga í sig vökvann. Maður sér strax hvernig eggaldinið byrjar að svitna. Að þessu sinni ákváðum við að elda eggaldinið í ofni. Það var penslað með jómfrúarolíu og síðan bakað í 200 gráðu forhituðum ofni þangað það byrjaði að taka lit og verða gullið. Þá er það tekið úr ofninum og lagt til hliðar.



Næst er að gera einfalda tómatsósu. Einn laukur, 2-3 hvítlauksrif eru skorin smátt niður og steikt í nokkrar mínútur í heitri olíu þangað til laukurinn er fallega gljáandi. Þá er tveimur dósum af góðum niðursoðnum ítölskum tómötum bætt saman við, saltað, piprað eftir smekk. Tveimur matskeiðum af tómatpuré er bætt saman við ásamt 2-3 msk af niðurskorinni steinselju. Stundum þarf að bæta við smá sykri/tómatsósu - séu tómatarnir örlítið súrir. Suðunni er leyft að koma upp rólega.



Því næst eru tvær mozzarellakúlur skornar niður eins þunnt og unnt er. Svo raspar maður niður eins mikið af parmaosti eins og fjárhagur leyfir - kannski 100-150 gröm. Þá er lítið annað að gera en að raða réttinum saman í eldfast mót. Fyrst er að setja tómatsósu í botninn, svo eggaldinsneiðar, þá mozzarellaost/parmaost, síðan raðar maður nokkrum laufum af ferskri basiliku. Þá er ekkert annað að gera en að endurtaka leikinn þangað til að allt hráefnið er uppurið.



Í lokin settum við ostblandaða brauðmylsnu yfir. Handfylli af brauðmylsnu og handfylli af parmaosti er sett í skál og vætt með 2-3 matskeiðum af góðri jómfrúarolíu.



Mylsnunni er síðan stráð yfir réttinn sem er síðan færður inn í forhitaðan ofn og bakaður í 30-40 mínútur - þangað til tómatsósan er farin að sjóða í mótinu.



Borið fram með hvítlauksbrauði - keyptum bara baguettu út í búð sem við skárum í helminga og pensluðum með hvítlauksolíu og bökuðum inn í ofninum í 10-15 mínútur þangað til fallega gullið á litinn. Við erum ennþá svo heppinn að það vex kál í matjurtagarðinum mínum - þannig að við söfnuðum nokkrum tegundum af káli sem við veltum upp úr einfaldri sítrónuvinagrettu.



Með matnum drukkum við ágætisvín, sem við höfum haft nokkrum sinnum á borðum áður - seinast í sumar. Ég hefði kannski átt að vera með ítalskt vín með matnum en þetta vín passaði líka mjög vel með matnum. Þetta er vín frá Argentínu - nálægt Andesfjöllum eins og nafnið gefur til kynna: Terrazas de los Andes Malbec Reserva, sem er frá árinu 2008. Þetta vín er dökkt í glasi. Talsverður ávöxtur og krydd í nefið sem kemur líka fram í bragðinu. Gott eftirbragð - jarðbundið og langt.



Bon appetit!

7 comments:

  1. Kristín Hjörleifsdóttir21 October 2011 at 03:32

    Hrein snilld þessi réttur - búin að bara hann undir ítalska mágkonu mína sem skilur ekkert í því að þú skulið ekki hafa slitið barnsskónum Í ÍTALÍU . Þetta verður prófað í mínu eldhúsi um helgina. TAKK FYRir að deila þessu með þér.

    ReplyDelete
  2. Mjög girnilegt! Þarf að prufa þennan um helgina. :)

    Ég er að fara til Parísar eftir áramót í fyrsta skipti.
    Gætir þú etv. mælt með nokkrum veitingastöðum handa mér að prufa?

    Takk
    Frikki

    ReplyDelete
  3. En girnilegt! Ég var einmitt mjög lengi að taka eggaldinið í sátt sjálf en er núna alveg yfir mig hrifin. Þetta er réttur sem ég hef lengi viljað búa til og mun örugglega að drífa í því áður en eggaldinið hverfur algjörlega af markaðinum. Ég er sérstaklega hrifin af ferska mozzarellaostinum í réttinum. Takk fyrir að deila þessu!

    ReplyDelete
  4. Ragnar Freyr Ingvarsson22 October 2011 at 13:05

    Sæll Frikki

    París er meiriháttar! Við röltum bara um París og duttum inn á veitingastaði sem okkur fannst girnilegir. Við fórum ekki á neina Michelinstaði! Eitt kvöldið fórum við á Les Editors í St. Germain des Pres sem var ágætur svo fórum við á frábæran stað í Montmartre sem er undir laufkrónu - Chez Plaumeau sem er hliðina á Salvador Dali safninu. Svo borðuðum við eitt kvöldið á elsta veitingastað Parísar - Procope sem var líka skemmtilegt!

    Góða ferð, Ragnar

    ReplyDelete
  5. Ögmundur Sverrisson26 October 2011 at 10:27

    Sæll Ragnar. Ég hef lesið bloggið þitt núna í nokkur ár, vildi bara þakka þér fyrir góðar uppskriftir og hugmyndir. Vonandi heldur þú áfram að blogga sem lengst!

    ReplyDelete