Monday 24 October 2011

Norður Afrískt Mesa hlaðborð; linsuréttur, hummus, lauksalat,haloumi og ólífubrauð



Þetta var sannkölluð veisla á virkum degi. Og það tók bara 50 mínútur að elda þetta allt saman. Ég er ekki að segja ósatt. Þetta var bara spurning um verklag. Svona matur er sérstaklega skemmtilegur - raða saman nokkrum einföldum réttum. Þetta var líka í anda þess að reyna að borða meira af grænmetisfæði. Eins og ég hef nefnt áður á blogginu mínu höfum við í Púkagranda eitt haft þetta á stefnuskránni síðustu mánuði og lagt metnað í að búa til hollan og góðan grænmetismat og þannig borða aðeins minna af kjöti - og þá, þegar við borðum kjöt, splæsum við í aðeins vandaðra og vel meðfarið hráefni!

Ég er afar hrifinn af Norður-Afrískum mat. Ég er auðvitað hrifinn af mat almennt en uppá síðkastið hef ég æ meira leitað í matreiðslubækur með uppskriftum frá þessu heimshluta. Ég bætti nýlega við tveimur matreiðslubókum í safnið mitt, A Month in Marrakesh eftir Andy Harris og síðan Whispers from a Lebanese Kitchen Kitchen - A family's treasured recipies eftir Nouha Taouk. Báðar þessar bækur eru vandaðar og fallegar að skoða.
Það sem mér finnst líka vera svo heillandi við matargerð frá þessu svæði eru kryddin sem notuð eru. Það eru þau sem gera matinn svo frábrugðin því sem maður á að venjast úr evrópskri matargerð. Það eitt að mala smávegis kumin í mortéli og steikja svo stutta stund á pönnu og draga djúpt inn andann færir mann á ógnarhraða í huganum til Miðausturlanda (já... þetta var bara kúmen!).

Norður Afrískt Mesa "style" hlaðborð; linsuréttur, hummus, lauksalat, haloumi og ólífubrauð 

Eins og ég nefndi í upphafi þá varð þetta nokkuð snögg matargerð - það tókst að elda alla þessa fimm rétti á tæpum fimmtíu mínútum. Ég byrjaði á því að undirbúa brauðið. Ég notaði bara mína hefðbundnu uppskrift, tja... ef uppskrift á að kalla - þetta er svona meira tilfinning fyrir hlutföllum. Ég byrja núna alltaf að vekja ger í 5-10 mínútur í 300 ml af ylvolgu vatni, bæti kúfaðri matskeið af sykri, þannig að gerið fái eitthvað að vinna úr. Set síðan 500-600 gr af hveiti í skál, salta og set 2-3 matskeiðar af olíu. Þegar gerið er vaknað þá er vökvanum blandað varlega saman við á meðan hrært er. Deigið er hnoðað vel í 10 mínútur og svo fær það að hefast í 20 mínútur. Þá er það flatt út á ofnskúffu sem hefur verið pensluð með olíu. Brauðið er síðan penslað með meiri olíu, saltað og piprað og svo skreytt með kalamata ólífum og nokkrum kúmenfræjum og síðan bakað í 15 mínútur í forhituðum ofni.
Á meðan brauðið hnoðast og hefast er hægt að sinna næstu verkum. Sneiddi tvo tómata og einn stóran rauðlauk örþunnt með mandólíni (sérstakur hnífur) og lagði á stóran disk. Sáldraði smá jómfrúarolíu og kreisti ferskan sítrónusafa yfir, saltaði og pipraði og skreytti með nokkrum rifnum myntulaufum.




Gerði síðan hummus. Ég hafði keypt kjúklingabaunir í dós sem ég skolaði í vatni og lét renna vel af. Sett í matvinnsluvél ásamt 1-2 hökkuðum hvítlauksrifjum og blandað saman. Þá smávegis salt, pipar, ein matskeið af tahini, safi úr hálfri sítrónu og 2-4 matskeiðar af jómfrúarolíu (eftir smekk). Sáldraði smáræði af papríkudufti yfir hummusinn.

Grillaði haloumi ost á rjúkandi pönnu og skreytti síðan með nokkrum steinseljulaufum.



Sauð 400 gr af Puy linsum í söltuðu vatni í 20 mínútur. Skar niður tvær gulrætur, einn hvítan lauk, tvær sellerístangir og 3-4 hvítlauksrif og steikti við miðlungshita í 5 mínútur þar til mjúkt og glansandi. Setti síðan heila teskeið af spiskúmeni, túrmeriki, koriander og paprikudufti og steikti í smástund með grænmetinu. Skar niður hálft butternut grasker í ferninga og steikti síðan með hinu grænmetinu. Setti síðan smá vatn á pönnuna ásamt einum grænmetisteningi og sauð upp. Bætti síðan við linsubaununum, saltaði vel og pipraði og leyfði vökvanum að sjóða niður. Smakkað til, kreisti smá sítrónusafa yfir og skreytti með niðurskorinni steinselju.



Tími til að njóta!

1 comment:

  1. Ég er mjög hrifin af svona máltíðum: ýmis grænmetssalöld (hrá og/eða elduð), baunasúpur eða baunaréttir, framandlegt brauðmeti og umfram allt skemmtileg kryddnotkun. Þar sem kjöt er oft bara lítill hluti máltíðarinnar.

    Ég prófaði að þýða þessa færslu á ensku og hún kom alveg viðunandi út. Og fyrst þú tekur myndir fyrir þetta ágæta blogg þitt þá hvet ég þig til að leggja inn uppskrift öðru hvoru í foodgawker.com sem er matarbloggasafnsíða.

    Þú skráir þig bara inn og þá er einfalt mál að "submitta". Þá kemur mynd af réttinum upp á foodgawker plús linkur inn á þína síðu.

    ReplyDelete