Sunday 9 October 2011

Kínversk veisla; Peking önd með hoi sin sósu, djúpsteiktar rækjur oggrænmetisvorúllur með súrsætri sósu



Seinustu helgi vorum við með veislu á laugardagskvöldinu til að verðlauna okkur fyrir vel unnin verk í garðinum. Við unnum hörðum höndum að því að mála grindverkið sem umlykur pallinn okkar. Ég var eitthvað að róta í frystinum um morguninn og fann tvær andabringur, won ton pappír og rækjur - þannig að þetta var allt tekið út til undirbúnings fyrir kvöldið.

Fyrir nokkrum árum síðan fórum við í sumarleyfi til Calpe á Spáni. Þetta er ósköp venjulegur spænskur strandbær með sínum hvítu sandströndum, sundlaugarbökkum og veitingastöðum. Þessi ferð hefur verið mér eftirminnileg fyrir nokkrar sakir. Við fórum þarna með góðum vinum okkar og skemmtum okkur vel saman. Við fórum á ágætan Teppanyaki veitingastað sem var ansi skemmtilegur - kokkurinn leikur listir sínar fyrir framan mann og það var fín skemmtun. Við fórum líka á þennan fyrirtaks kínverska veitingastað sem var staðsettur á fyrstu hæðinni á hótelinu sem við gistum á. Á þeim veitingastað var hægt að panta þessa fyrirtaks pekingönd sem smakkaðist alveg frábærlega.

Ég hef ekki verið duglegur að elda austurlenskan mat þrátt fyrir að finnast þessi matargerð mjög spennandi. Ég horfði nýverið á nýjustu þætti Rick Stein, Far Eastern Oddissey, sem voru ansi góðir. Það voru uppi stór áform um að vera duglegri að elda mat frá þessum stóra heimshluta - en allt kom fyrir ekki. Bækur voru skoðaðar en stundum er það bara svona - maður gerir það sem maður er vanur. En núna var annað upp á teningnum. Kínversk veisla átti það að vera - það var síðan stórgaman að byrja að elda - við settum á kínverska tónlist. Hugurinn reikaði ótrúlegt en satt heim til Íslands og heim í eldhús foreldra minna og það tímabil þegar þau voru afar upptekin af því að elda kínverskan mat; vorrúllur, djúpsteiktar rækjur, núðlu- og hrísgrjónarétti og margt margt fleira!



Kínversk veisla; Peking önd með hoi sin sósu, djúpsteiktar rækjur og grænmetisvorúllur með súrsætri sósu
Þegar andabringurnar voru þiðnar voru þær þurrkaðar vel og rækilega og settar inn í ísskáp þannig að fitan hefði möguleika að þorna en frekar. Slík meðferð á að gera það að verkum að húðin verði stökk og fín þegar hún er steikt. Rétt áður en öndin var steikt var hún söltuð og pipruð. Sólrósarolía var hituð á pönnu og öndin var steikt, húðin niður, og þrýst niður á pönnuna - annars er hætta á því að dragi sig saman. Þegar húðin er orðin gullin er henni snúið en maður verður að halda áfram að hella heitri fitunni yfir húðina - þá heldur hún áfram að steikjast og verður stökk og knassandi. Bjó síðan til einfaldan sykurhjúp; sykur og vatn pott með smá soya og sauð upp. Penslaði síðan öndina áður en hún fór inn í ofn til að bakast þangað til að kjarnhiti náði um 70 gráðum.



Pönnukökurnar, Mandarin pancakes, getur maður búið til frá grunni eða maður getur heimsótt nágranna sinn, Signýju Völu sem er mikill listakokkur og sníkt af henni. Hún hafði verið nógu skynsöm að kaupa þessar pönnukökur í sérvöruverslun þegar hún var nýverið í Danmörku. Maður vefur öndinni inn í pönnsuna með hoi sin sósu og grænmetinu; gúrku og vorlauk. Sælgæti.



Við gerðum hoi sin sósu. Hana er auðvitað hægt að kaupa - en af hverju ætti maður ekki að reyna að gera svona sjálfur. Við skoðuðum margar uppskriftir á netinu og í lokin varð niðurstaðan blanda af nokkrum uppskriftum og svo bara smakka sig áfram þangað til að sósan er orðin bragðgóð. Settum 5-6 matskeiðar af soya sósu, 3-4 matskeiðar af hnetusmjöri, 2 matskeiðar af hunangi, 1 tsk af tabaskó sósu, salt, pipar, 1/2 tsk af hvítlauksdufti, skvettu af hvítvínsediki og svo auðvitað 2 tsk af sesamolíu sem hefur mjög yfirgnæfandi bragð (kannski hefði maður átt að setja aðeins minna í upphafi og svo auka eftir smekk - en mér fannst sósan heppnast afar vel).



Þá var að vinda sér í næsta rétt. Til að gera vorrúllurnar þarf maður auðvitað að byrja á því að gera fyllinguna; Fyrst skar ég niður 5 cm af engifer, 3-4 hvítlauksrif, 3-4 vorlauka, 1 gula papríku, 1 rauðlauk. Þetta var svo steikt í funheitum wok ásamt 2-3 handfyllum af baunaspírum. Bragðbætt með salti og pipar, vænni skvettu af soyasósu, 2 tsk sykri og svo skvettu af sætu sherríi.



Steikt þangað til að grænmetið af mjúkt og eldað - og allur vökvinn soðin burt. Þá er að fylla vorrúllurnar.



Ein msk af grænmeti er sett á won ton pappírinn. Rúllað upp og lokað með því að strjúka smá vatni yfir endann. Olía er hituð í potti og vorrúllurnar djúpsteiktar þangað til að þær eru fallega gullinbrúnar.



Þá er að undirbúa rækjurnar. Bjó til einfalt deig; 3 dl af hveiti, 1 tsk salt, hálfan dl af af brauðmylsnu (til að gera þetta extra crunch), 2 msk af kartöflumjöl (eða cornstarch) og svo sódavatn þangað til að maður er komin með þykkt deig - svona eins og vöffludeig á að vera. Rækjunum er velt upp úr deiginu og svo djúpsteikt þangað til rækjurnar eru orðnar fallega gullinbrúnar.



Bjuggum síðan til súrsæta sósu með því að hálfum bolla af hvítvínsediki, 5 msk púðursykri, 1-2 msk af tómatsósu, 1-2 msk soyasósu, 2-3 tsk af kartöflumjöli (blönduðu í 5-6 tsk af vatni). Þessu er öllu blandað saman. Þá hituðum við hálfa dós af niðursoðnum tómötum og helltum blöndunni saman við. 2-3 msk af smátt skornum ananas er þá bætt saman við. Smakkað til.



Með matnum drukkuð við Villa Antinori rauðvín frá því árið 2006 sem er ítalskt - nánar tiltekið Toscana. Þetta er klassískt Chianti sem er blanda af nokkrum þrúgutegundum, að stærstum hluta Sangiovese 55%, Cabernet Sauvigion, Merlot og Syrah. Liturinn er fallega rauður í glasinu. Ilmar af ávexti og eik. Kraftmikið á bragðið, fyllti munninn af berjabragði með mildri eik í eftirbragði.

Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment