Showing posts with label Andabringur. Show all posts
Showing posts with label Andabringur. Show all posts

Sunday, 25 November 2018

Seiðandi andabringuragú frá grunni með bucatini og parmaosti - heimsótt aftur - með breytingum þó!


Þessi uppskrift er í raun upprifjun á rétti sem ég eldaði fyrir meira en ári þegar ég var á ferðalagi um Ítalíu við tökur á fyrstu þáttunum í sjónvarpsþáttunum sem nú hafa fengið nafnið Læknirinn í Eldhúsinu, ferðalag bragðlaukanna. Ég tók samt smá snúning á hana þar sem ég var eiginlega að elda hana í fyrsta sinn heima, eftir að hafa fengið kennslu frá Raffaele Boscaini, syni Sandro Boscaini víngerðamanni og eiganda Masi í Valpolicella á Ítalíu. 

Ég var að taka til í frystinum mínum og fann þar nokkrar andabringur frá því fyrr á árinu sem höfðu grafist undir öðru hráefni. Það var því kjörið að heimsækja þessa uppskrift á nýjan leik. 

Seiðandi andabringuragú frá grunni með bucatini og parmaosti - heimsótt aftur
Snúningurinn var kannski ekki allan hringinn, kannski bara nokkrar gráður. En þessi uppskrift er það ljúffeng að það er þess virði að gefa henni gaum aftur. Nokkrun atriðum var breytt; annað pasta, annað vín, annað soð, gleymdi kartöflumjölinu og svo útbjó ég andafitu, aðeins nánar um það hér að neðan. 

Fyrir fjóra

500 g andakjöt (af bringu eða legg)
1 gulrót
1 sellerístöng
1 lítill rauður laukur
2 hvítlauksrif
2 msk tómatpúré
2 dósir niðursoðnir tómatar
2 lárviðarlauf
1 rósmaríngrein
1 glas rauðvín
250 ml kjúklingasoð
heimagerð andarfita til steikingar
salt og pipar


Andabringur eru auðvitað algert sælgæti og einhver myndi kannski dæsa yfir meðferðinni sem hún fær í þessari uppskrift. En efasemdamenn hvet ég til að prófa. 

Það er mikil fita í húðinni á bringunni. Hana skar ég frá og sneiddi í litla bita. 


Ég hellti einni eða tveimur msk af jómfrúarolíu í pott og hitaði rólega upp. Lagði síðan húðina í pottinn og eldaði í um 45 mínútur við lágan hita þannig að fitan rann úr húðinni. 


Fékk um 150 ml af fitu úr þessum þremur andabringum, hluta notaði ég í uppskriftina og afganginn á ég til betri tíma, til dæmis til að gera bestu kartöflur í heiminum


Næst var að skera gulræturnar, rauðlaukinn og selleríið í litla bita.


Svo var ekkert annað að gera en að nota fínu andafituna mína. 


Grænmetið var steikt þangað til að það var mjúkt og ilmandi. Saltað og piprað. 


Hakkaði andabringurnar vandlega niður.


Og brúnaði kjötið svo í andafitunni, ekki allt í einu - handfylli í senn. Ef það er of mikið kjöt í pottinum þá sýður þaðð frekar en að brúnast.

Bætti svo grænmetinu saman við.


Ég átti afgang af þessu ljúffenga rauðvíni og notaði það í sósuna. 


Setti svo tómatana saman við auk tómatmauks.


Svo setti ég nokkrar greinar af fersku timian og rósmaríni og það fékk að krauma með í um klukkustund. Svo voru greinarnar veiddar frá áður en að maturinn var borinn fram.


Sjóðið pasta skv. leiðbeiningum. Auðvitað má nota hvaða pasta sem er en þetta finnst mér vera ljómandi gott. Bucatini er frábrugið spaghetti að því leytinu til að það er aðeins þykkara og holt að innan. Þannig hefur það sérstaka burði til að láta hjúpast af sósunni. 


Svo er bara að tylla sér við matarborðið og bjóða öðrum með. Sonur minn, Vilhjálmur vill alltaf mikinn parmaost, eiginlega þannig að það sést varla í pastað undir. Hann verður sælkeri!


Þetta vín er alltaf í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég tel mig bera einhverja ábyrgð á því að það hafi verið flutt inn í fyrra. Við vorum í ferð um Ítalíu við tökur á fyrstu þáttunum af Ferðalagi bragðlaukanna. Ég fékk að gæða mér á þessu víni þegar við vorum í heimsókn hjá Masi (að sjálfsögðu) í Veróna. Þetta vín er framleitt í Argentínu og er blanda úr Corvina þrúgunni (sem er í öllum Valpollicella vínum) og svo Malbec (sem er vinsælasta þrúgan í Argentínskum vínum). Blandan er einkar góð. Þetta er kraftmikið vín sem fer vel með bragðmiklum mat eins og þessum. Það er bragðmikið, kryddað, eikað - í góðu jafnvægi og með löngu hreinu eftirbragði.


Bon appetit!

 -------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 19 April 2015

Kræklingur að hætti Villa og Sous vide andabringur l'orange með appelsínusósu

Það var efnt til veislu nú um helgina hérna á heimilinu - ekkert stórt, bara við heimilisfólkið - í tilefni þess að konan mín, Snædís, var að hætta í vinnunni sinni og stefnir á frekara nám í haust. Hún er á leiðinni í næstu viku  í viðtal í Brighton, þar sem hún er að sækja um framhaldsnám í sálfræði. Ef allt gengur eftir (geri ráð fyrir því þar sem að hún er frábær!) þá flytjum við okkur um set á meðan á náminu stendur. Ég er búinn að fá leyfi frá gigtardeildinni, við erum að leita að húsnæði og skóla fyrir börnin. Allt á fullu og allir fullir eftirvæntingar. 

Það var því ljóst að þessu bæri að fagna. Villi vildi ólmur hafa krækling í matinn og úr varð að hann fékk að elda hann í forrétt. Ekki að mér finnist kræklingur og andabringur passa neitt sérstaklega vel saman - bara strákurinn var svo á því að fá krækling að það var ekki hægt að neita honum. 

Ætli andabringur séu ekki uppáhalds á þessu heimili. Alltént er það alltaf ofarlega á blaði þegar ég vil gera Snædísi glaða. Og það er einfalt að elda andabringu á þennan hátt - sous vide. Hægt er að lesa talsvert um sögu sous vide á þessari síðu hjá mér. Í örstuttu máli byggir þetta á því að elda hráefnið í vakúmpoka við nákvæmt hitastig til að niðurstaðan verði "fullkomin"! 

Kræklingur að hætti Villa og Sous vide andabringur l'orange með appelsínusósu 

Fyrir kræklingin

1 kg fersk bláskel
2 skarlottulaukar
3 hvítlauksrif
1 hvítvínsglas
50 g smjör
Salt og pipar
Baguetta (val)

Fyrir andabringurnar

2 andabringur (700 gr)
1 appelsína
Góð jómfrúarolía
Ferskt rósmarín
Pipar

Appelsínusósa

2 skarlottulaukar
3 hvítlauksrif
Börkur af hálfri appelsínu
4-5 bitar fersk appelsína
500 ml anda/kjúklingasoð
1/2 glas hvítvín
30 gr smjör
Smjörbolla eða maizenamjöl til þykkingar
Allur vökvi af öndinni
Salt og pipar


Skerið laukinn, hvítlaukinn og chilipiparinn niður smátt. 


Skolið kræklinginn undir köldu vatni og hreinsið skeljarnar, hendið brotnum eða opnum skeljum. Ef skeljarnar eru örlítið opnar - bankið þeim aðeins í borðið. Ef þær lokast aftur eru þær ætar - annars hendið þeim líka. 


Hitið pönnuna vel, bræðið smjörið og steikið laukinn, hvítlaukinn og chilið þangað til að það er mjúkt og ilmar vel. Hellið þá kræklingum á pönnuna og blandið honum vel saman við. 


Hellið hvítvíninu á pönnuna og sjóðið upp áfengið. 


Setjið í skál og skreytið með ferskri steinselju! Einbeitingin var alger hjá Villa! Og niðurstaðan ljúffeng! 


Að mínu mati þarf ekki mikið af önd á mann þar sem hún er gjarnan feit og fólk verður fljótt mett. Ég miða við 200 grömm á manninn. Skar sætar appelsínurnar niður í sneiðar. 


Annars keypti ég þennan pipar um daginn. Þetta er kampot-pipar frá Kambódíu sem margir matgæðingar kalla besta pipar í heimi! Hann er einstaklega ljúffengur en ekkert sérstaklega vinsamlegur við budduna. En ég varð að prófa þar sem ég er algjör piparfíkill! Og þetta var alveg þess virði. Hérna er hlekkur á skemmtilega umfjöllun um þetta ljúffenga krydd! 

Ég keypti piparinn á amazon og fékk hann heimsendan. Það er hægt að finna allt á netinu. Hér er hlekkurinn - Genuine Kampot Black Pepper Gourmet Pepper whole Peppercorns


Rósmarínið mitt virðist hafa lifað af veturinn hér á Skáni. Eigi maður ekki ferskt þá er í góðu lagi að nota þurrkað. 


Svo var þessu bara raðað saman í poka, vel piprað með nýmuldum kampot-pipar, rósmaríni, jómfrúarolíu og appelsínusneiðum. Vakúmpakkað og sett í vatnsbaðið. 


Þó að það standi 52 gráður á myndinni þá var tækið stillt á 56 gráður - myndin var tekin þegar tækið var að hita vatnsbaðið. Það sýnir alltaf raunhitastigið á vatninu. Núna er sansaire til sölu á Íslandi og fæst í Kokku á Laugaveginum. 


Þessi dásamlega kona leit við í eldhúsinu og skálaði við mig í kampavíni! 


Skóf börkinn af appelsínunni og skar laukinn og hvítlaukinn smátt niður. 


Steikti laukana og appelsínubörkinn í smjöri þangað til mjúkt og fallegt. 


Næst bætti ég appelsínum saman við og steikti í nokkrar mínútur. Bætti síðan hvítivíni saman við - sauð upp áfengið. Bætti svo soðinu saman við og sauð það niður um helming. Síaði soðið og þykkti með smjörbollu. Bætti svo öllum vökvanum af öndinni saman við og sauð upp. Smakkaði til með salti og pipar. Bætti smá smjöri við sósuna til að fá fallegan gljáa á hana. 


Skar í fituna til þess að opna hana og nuddaði salti inn í fituna.


Steikti í tvær til þrjár mínútur til að fá öndina vel stökka. 


Svo bara þrjátíu sekúndur á hinni hliðinni. 


Með matnum gæddum við okkur á þessu ljúffenga víni frá Búrgúndí í Frakklandi. Bouchard Aine & Fils Mercurey Premier Cru "Clos L'Eveque" frá því 2012. Þetta er vín unnið úr Pinot Noir þrúgunni. Fallega rúbinrautt í glasi, hálfgegnsætt eins og oft með Pinot vín. Fíngerður og ljúfur ilmur af ávexti með kröftugu bragði, létt eikað jafnvel! Frábært! 


Veislan heldur áfram!

Monday, 9 December 2013

Læknirinn í Eldhúsinu SJÖ ára - sjö uppáhaldsfærslurnar síðustu ára!



Ó, hvað tíminn líður hratt. Ég man þegar ég sat við borðstofuborðið í Skaftahlíðinni fyrir framan tölvuna og ákvað að prófa að byrja að blogga! Ástæða þess að ég byrjaði að blogga var til þess að hvetja sjálfan mig áfram í eldhúsinu. Mér hefur alltaf þótt gaman að elda - alveg frá því að ég var krakki að ég fór að baka skúffuköku í eldhúsinu heima.

En þetta haust - haustið 2006 fannst mér eitthvað vanta á innblásturinn í eldhúsið og upplifði að ég væri að endurtaka mig í sífellu. Var alltaf að elda Spaghetti Carbonara - ekki bara vegna þess hversu ótrúlega gott það er - heldur líka vegna þess að mér datt sá réttur bara oftast í hug! Þannig að - um þetta leyti var bloggið að ryðja sér til rúms á Íslandi og mér fannst bara þjóðráð að prófa mig áfram að þeim vettvangi. 

Og síðan 9. desember 2006 hef ég bloggað að minnsta kosti 498 færslur um uppáhalds áhugamál mitt sem síðan þá hefur orðið ennþá ríkari þáttur af mínu lífi og fjölskyldu minnar. Og áhugamálið hefur vaxið. Ég hef haldið úti bloggi á Moggablogginu frá upphafi, var um tíma á Miðjunni sem síðar lagði upp laupana, seinna á Eyjunni og síðustu tvö árin hef ég lagt allt púður í "nýju" heimasíðuna - Lækninn í Eldhúsinu. Svo hef ég verið nokkuð virkur á Fésbókinni og meira segja gælt við enska útgáfu bloggins sem ennþá er í vinnslu - svona beta útgáfa. 

Nú hef ég eins og lesendur vita margir - gefið út veglega matreiðslubók. Hver veit hvert vegurinn liggur? Það verður allavega spennandi að hefja nýtt ár og takast á við þau verkefni sem þar þarf að vinna.

Læknirinn í Eldhúsinu SJÖ ára - sjö uppáhaldsfærslurnar síðustu ára! 

Ég ákvað að velja nokkrar færslur til að hafa á svona lista - eitthvað sem ég gæti kallað uppáhaldið mitt - en þær eru margar fleiri. Þessir réttir hafa verið með mér síðustu ár - nokkrir frá því ég var barn - sumir nýrri en allir eru þeir ljúffengir.

1. Spaghetti Bolognese innblásin úr mörgum áttum! 


Þessi uppskrift hefur verið með mér frá blautu barnsbeini. Mamma gerði alltaf ljúffenga kjötsósu sem var í miklu uppáhaldi. Seinna fór ég að elda þetta sjálfur og var lengi mjög stoltur af niðurstöðunni. En uppskriftin tók breytingum. Snædís sagði að ég notaði of mikið oregano í uppskriftina og ég sem hélt að ég hefði unnið hjarta hennar með einmitt þessari uppskrift. Niðurbrotinn maðurinn hóf þá leit að betri uppskrift og með hjálp bróður míns rötuðum við á aðferð Marcelu Hazan - sem er afar ljúffeng. Eftir að ég fór að gera hana með mínu eigin beikoni varð hún "instant" klassík. Bróðir minn heldur því þó fram að hægt sé að elda hana á skemmri tíma en ég gef upp í uppskriftinni. Hver og einn þarf auðvitað að eiga það við sig!

2. Grillaðir hvítlaukspenslaðir humarhalar


Það þarf eiginlega ekkert að segja um þennan rétt. Ég hef eldað oftar en ég get talið - ég hef bloggað um hann nokkrum sinnum og eldaði hann meira að segja tvisvar fyrir bókina. Fannst myndirnar eitthvað "slappar" og notaði það sem afsökun að gera réttinn aftur. 

Þetta er oft í forrétt hjá mér - en þegar veskið leyfir þá er þessi réttur einnig fullkominn aðalréttur. Ég er meira að segja sannfærður að ef vel liggur á manni þá væri vandræðalaust að borða þennan þennan gómsæta humar sem eftirrétt!

3. Pavlova - eftirréttur guðanna, fyrir 130 manns


Eins og þeir sem lesa bloggið mitt verða eflaust varir við - þá fer ekki mikið fyrir kökum og eftirréttum á síðunni minni. Og útskýriningin á því er einföld - Ég er einfaldlega hrifnari af for-, aðal og brauðréttum en eftirréttum og sætmeti. 

En þetta á auðvitað sínar undantekningar. Pavlova er terta sem einhvern veginn nær að fanga alla breiddina - allt frá sætunni í tyggjókenndum botninum út í þéttleika rjómans og svo ferskleikann sem kemur frá ávöxtunum. 

Ég bakaði þessa köku fyrir brúðkaup kollega míns - Daggar Hauksdóttur þegar hún gekk að eiga manninn sinn, Grím. Ég gerði einar tuttugu kökur. Náunginn sem var mér innan handar í eldhúsinu til að klára að setja þetta upp á disk - át rúmlega hálfa tertu. Ætli hann hafi ekki verið að borða hana í fyrsta sinn - og því verða þetta að teljast nokkuð eðlileg viðbrögð!

4. Seiðandi andabringur "sous-vide"með steiktum kirsuberjum og pommes fondant fyrir ástina mína!


Þennan rétt gerði ég fyrir Snædísi, ástina mína, kvöldið þegar hún kom heim með þriðja barnið okkar, Ragnhildi Láru. Fæðingin gekk vel og við höfðum farið á sérstakt námskeið um hvernig má styðja maka sinn í gegnum fæðingarferlið. Það var einstaklega lærdómsríkt námskeið og mér hefur aldrei fundist ég vera eins mikill þátttakandi eins og einmitt í þessari fæðingu - oftast hefur mér fundist ég vera óskaplega bjargarlaus í þessu ferli sem konan mín hefur gengið í gegnum - en í þetta skiptið gat ég verið henni meira innan handar! Það var sérstök reynsla.

Ég kom heim og eldaði uppáhaldsmat Snædísar, andabringu - nema að þessu sinni gerði ég hana með þeim hætti sem ég hef nokkrum sinnum bloggað um síðar. Sous-vide - eldað undir þrýstingi við lágan hita. Þannig verður kjötið einkar meyrt og bráðnar í munni. Kjötið er svo steikt í lokin til að fá þessa karmelliseringu sem er svo góð!

5. Ofnbakaður kjúklingur að hætti mömmu með rjómalagaðri sveppasósu og afrísku grænmeti


Ég gæti sett svo margar kjúklinga uppskriftir inn á þennan lista - því ég er svo heppinn að luma á mörgum góðum leiðum til að elda kjúkling. En mér þykir sérstaklega vænt um þessa uppskrift og þegar ég sest niður við matarborðið með fjölskyldunni minni er næstum eins og ég flytjist til í tíma og sitji með foreldrum mínum og litla bróður við matarborðið. Og þetta voru hátíðlegar stundir sem ég á seint eftir að gleyma!

6. Confit du Canard með Puy linsum


Þetta er alveg mögnuð uppskrift. Linsurnar eru jarðbundnar og seiðandi og vega svo vel á móti næstum því sætu og feitu bragðinu af öndinni. 

Í þessari uppskrift notast ég við andaleggi sem hafa verið undirbúnir og lítið þarf að gera annað en að hita þá í ofni. En það er ekkert mál að gera þetta frá grunni. Eina sem þarf er smá tími og tvö kíló af andafitu! Uppskriftina er að finna í bókinni minni!



Þegar síðan mín varð fimm ára - nefndi ég þessa færslu sem mína uppáhalds. Og það verður að segjast að hún er það auðvitað ennþá. Þó þróast bragðlaukarnir og ætli ég myndi í dag ekki nefna porchetta italiana sem er í algeru uppáhaldi í dag - en uppskriftina af henni er að finna í bókinni minni. 

Þessi stendur þó alltaf fyrir sínu og þegar það fer að hausta býð í svona kjötsósuveislu. Þessi réttur kenndi mér að það þarf ekki flókin hráefni til að elda dásamlega ljúffengan mat - í þessari uppskrift er auðvitað íslenskt lambakjöt en aðalhráefnið er tími. Að gefa sósunni tíma til að malla á lágum hita, sjóða niður svo bragðið nái að þróast - að draga það besta úr þeim fáu hráefnum sem sett voru í sósuna. Og ætli það skemmtilegasta sé ekki að njóta hennar með góðum vinum og vandamönnum. Sjá hvað allir verða glaðir og mettir - hlægja og lyfta glösum!


*

Ég von að þið haldið áfram að líta við á síðunni minni - ég mun án efa halda ótrauður áfram að skrifa um mitt helsta hugðarefni; eldamennsku, mat og drykk. Fátt gleður mann nefnilega meira en að heyra að fólk kunni að meta það sem maður er að gera - það er hreint út sagt ótrúlega verðlaunandi. 

Hlakka til að halda þessu áfram. 

Núna er kominn tími til að njóta!




Friday, 31 August 2012

Seiðandi andabringur "sous-vide" með steiktum kirsuberjum og pomme fondant kartöflum fyrir ástina mína





Við hjónin urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að verða foreldrar í þriðja sinn þann 24. ágúst síðastliðinn. Um klukkan fjögur aðfaranótt föstudagsins fékk konan mín samdráttarverki og tólf klukkustundum síðar héldum við á litlu dóttur okkar í fanginu! Allt gekk vel og öllum heilsast eftir því. Við gistum eina nótt á sjúkrahúsinu - nánar tiltekið á sjúklingahótelinu sem liggur inni á sjúkrahúslóðinni og svo snemma heim morguninn eftir, á sólríkum laugardagsmorgni, ókum við varlega heim með nýju dóttur okkar. Þar tóku börnin okkar og frændi á móti okkur með opnum örmum. Valdís og Villi voru mjög spennt að fá að halda á nýjasta fjölskyldumeðliminum, sem var ekki eins kát með uppátækið.

Á laugardagskvöldið eldaði ég þessa máltið handa ástinni minni, Snædísi. Uppáhaldsmatur hennar er andabringur og var það því augljóst val. Hún átti það svo sannarlega skilið. Einhvern veginn finnst mér við karlar ekki gera konum nógu hátt undir höfði hvað þungun og fæðingu snertir, kannski er það vegna þess að maður er svo lifandi feginn að maður þurfi ekki að gera þetta sjálfur. Kollegi minn, sem er kvennsjúkdómalæknir, sagði í gríni að ef karlar ættu að fæða börn, þá yrðu þeir allir svæfðir og síðan sæmdir fálkaorðunni samstundis þegar þeir vöknuðu! Það er kannski eitthvað til í þessu!

Jæja, víkjum að matnum - núna er ég að elda í annað sinn "sous-vide" sem þýðir að maður er að elda matinn í vatnsbaði. Þarna er hráefnið innsiglað í lofttæmdum pokum og svo eldað við stöðugan hita í mislangan tíma, háð hráefni. Kosturinn við þessa tegund eldamennsku er að bragðið á að varðveitast betur og að eldunin verður alveg jöfn, þannig að bitinn nær jöfnum hita frá yfirborði að miðju! Þetta hljómar auðvitað eins og bölvað vesen - en niðurstaðan er ótrúlega góð, og á eftir að verða endurtekin reglulega á blogginu mínu.

Seiðandi andabringur "sous-vide" með steiktum kirsuberjum og pomme fondant kartöflum fyrir ástina mína



Hráefnalisti

1 kg andabringur
Ferskt rósmarín
Ferskt timían
Salt og pipar

Meðlæti - pomme fondant kartöflur

1 kg kartöflur
2-3 msk smjör
Salt og pipar
Sítrínutimían

Meðlæti - steikt kirsuber og andasósa

Smjörsklípa
20 kirsuber
500 ml kjúklingasoð
Vökvi af önd
2 msk kirsuberjasulta
2 dl rjómi
Salt og pipar
2 msk soya sósa
Nautakraftur

Fyrir þá sem ekki eiga lofttæmingarvél, er auðvitað hægt að lofttæma með öðrum aðferðum, t.d. undir vatnsþrýstingi, pressa út loft með handafli og svo er hægt að nota rör og sjúga loftið úr. Youtube býður upp á endalausar aðferðir sem hægt er að tileinka sér.



Ég hafði keypt andabringur frosnar og leyfði þeim að þiðna í rólegheitum. Síðan lagði ég þær á disk og þurrkaði rækilega með pappírsþurrkum sem eru raunar kallaðar húsbréf á mínu heimili.



Ég ákvað að nota rósmarín og timian sem ég átti ferskt útí garði. Reif kryddið niður og dreifði yfir bringurnar og pipraði rækilega. Almennt er ekki ráðlagt að salta áður en maður eldar "sous-vide" til að draga ekki vökva úr kjötinu - þannig að þessu sinni saltaði ég bara eftir að baðinu loknu.



Bringurnar voru settar í pott með forhituðu vatni sem var við 63-65 gráður. Ég passaði mig að líta reglulega á hitamælinn (á fimm mínútna fresti), í eitt sinn fór hitinn að nálgast 70 gráður - og þá fjarlægði ég bara smávegis af heitu vatni og setti kalt vatn í stað þess. Með þessari aðferð er mjög erfitt að ofelda matinn. Hann verður ekkert meira eldaður en hiti vatnsbaðsins - og þó að það tæki einungs eina klukkustund að elda bringurnar í gegn hefði alveg mátt hafa þær í lengur þar sem það hefur ekki áhrif á "the done-ness" kjötsins.



Á meðan bringurnar voru í ofninum var hlúið að meðlætinu. Að þessu sinni gerði ég Pommes Fondant sem er gómsætur kartöfluréttur og eins og nafnið gefur til kynna þá eru kartöflurnar eldaðar í soði. Ég sótti nýjar kartöflur út í garði, þvoði þær og flysjaði. Svo eru þær skornar á ákveðinn hátt þannig að þær mynda flatan botn. Fyrst eru þær steiktar upp úr smjöri, bragðbættu með fersku sítrónutimian úr garðinum.



Vilhjálmur Bjarki, sonur minn, hefur síðustu vikurnar sýnt mikinn áhuga á að hjálpa mér í eldhúsinu. Hann er alltaf boðinn og búinn! Núna er svo komið að hann er farinn að skera niður í salöt alveg sjálfur og er duglegur við að vera "handlangari" í eldhúsinu. Hann færði alltént kartöflurnar yfir í eldfast mót. Síðan hellti ég heimagerðu kjúklingasoði í mótið þannig að kartöflurnar stóðu aðeins upp úr. Sett í forhitaðan 180 gráðu heitan ofn í þrjú korter til klukkutíma!

Kirsuberin og sósan voru gerð samhliða. Fyrst setti ég smjörsklípu í pott og raðaði svo tuttugu kirsuberjum þannig að stilkurinn stóð upp. Steikti við lágan hita í nokkrar mínútur. Bætti síðan við kjúklingasoði þannig að berin voru hulin að mestu. Sauð í nokkrar mínútur. Tók síðan berin upp úr áður en þau töpuðu lögun sinni og setti til hliðar. Bætti meira kjúklingasoði saman við og öllum vökva sem rann af öndinni þegar pokinn var opnaður. Þá bætti ég við tveimur msk af kirsuberjasultu, tveimur dl af rjóma, salti og pipar, tveimur msk af soya sósu og skvettu af fljótandi nautakrafti. Sauð upp og lét malla á meðan næstu skref voru stigin.



Eftir rétt rúma klukkustund tók ég bringurnar úr pottinum. Eins og ég nefndi hér að ofan, setti ég allan vökva sem rann af saman við sósuna. Setti bringurnar síðan á disk og þerraði með eldhúspappír.



Næst var að plokka kryddjurtirnar af og salta fituröndina á bringunum rækilega.



Bræddi síðan smjör á pönnu og steikti bringurnar í nokkrar mínútur með fituna niður, rétt þangað til að þær urðu stökkar, og svo í eitt augnablik á kjöthliðinni. Passa sig að steikja þær ekki of mikið þar sem að ekki þarf að elda þær að innan - þar eru bringurnar fulleldaðar ... tja, og næstum fullkomnar.



Ef maður slefar ekki yfir þessari mynd, þá ætti maður að efast upp að geta kallað sig matgæðing?!!



Með matnum smakkaði ég á Castillo De Molina Reserva Pinot Noir frá því 2010. Þetta er vín sem er framleitt í Chile í bænum Molina. Vina San Pedro hefur verið starfrækt frá 1865 og er einn af stærstu framleiðendum landsins. Þetta er ljómandi vín til að hafa með andarsteik. Fallega rúbínrautt í glasi, ilmar af berjum og með léttum kirsuberjakeim og létt eikuðu eftirbragði. Ljúfur sopi!



Bon appetit!

P.s. Minni svo á síðuna mína á Facebook - The Doctor in the Kitchen - þar er ég með hlekkjasafn og mun vanda til verka á næstunni að bæta við spennandi hlekkjum frá öðrum áhugakokkum - íslenskum sem erlendum!