Saturday 26 December 2020

Fjölbreytt íhaldssemi fram í fingurgóma - Rjúpur og svínahamborgarahryggur á tvo vegu með hefðbundnu meðlæti og dásamlegu léttvíni

Ég er mikill íhaldsmaður þegar það kemur að jólamatarhefðum og breyti frekar lítið út af vananum - allir heimilismenn vilja halda í sínar hefðir og mér þykur sérstaklega gaman að reyna að gera öllum til geðs.  Snædís er til að mynda alin upp við að fá rjúpur soðnar upp á gamla mátann. Mér finnst betra að steikja bringuna í skamma stund. Siggi afi og amma Dedda voru alltaf með svínahamborgarahrygg sem mér hefur alltaf þótt alveg einstaklega ljúffengur. Afi sá alltaf um að elda hrygginn - og ég hef í gegnum árin haldið mig við hans aðferð. Valdís kann best að meta hrygginn eldaðann með sous vide aðferð. 

Og þannig er aðfangadagurinn - ég í eldhúsinu að elda rjúpur með tvennu hætti og svínahamborgarahrygginn á tvo vegu svo að allir verði glaðir. Og að þessu sinni fékk ég heilmikla aðstoð við eldamennskuna. Þetta var sannkallað samvinnueldhús. Villi var mér innan handar sem aðstoðarkokkur - honum hefur farið mikið fram á árinu. Tengdamamma mín, hún Hrafnhildur, tók að sér að elda rjúpurnar með hefðbundinni aðferð. Mamma mín sauð rauðkál og gerði Waldorf salat. Pappi skar niður laxinn í forréttinn og sá um sósuna með honum og Snædís skreytti matarborðið. 

Þetta var sannarlega ljúfur dagur í eldhúsinu. Og alveg sannarlega dásamlegt aðfangadagskvöld. 


Fjölbreytt íhaldssemi fram í fingurgóma - Rjúpur og svínahamborgarahryggur á tvo vegu með hefðbundnu meðlæti og dásamlegu léttvíni

Ætli mikilvægasta verkefni dagsins sé ekki að undirbúa sósunar. Og þær eru að sjálfsögðu gerðar frá grunni. 

Flestar sósur á mínu heimili hefjast með mirepoix. 

2-3 sellerísstangir
2 rauðlaukar
3-4 gulrætur
smjör/olía til steikingar
lárviðarlauf
nokkrar timjangreinar

Hérna skildu sósurnar sig í sitthvora áttina. 

Fyrir svínasósuna

brúnuð bein (af svínahamborgarahryggnum)
500 ml rauðvín
1 l kjötsoð
salt og pipar 

Fyrir rjúpusósuna

brúnuð bein (af rjúpunum )
50 ml púrtvín 
500 ml hvítvín 
700 ml vatn 
salt og pipar Villi Bjarki tók að sér að verka rjúpurnar. Honum hefur, eins og ég nefndi hér að ofan, farið mjög fram á árinu í eldhúsinu - er farinn að elda fjölda rétta, baka brauð og er orðinn sérstaklega lunkinn með hnífinn (enda duglegur að æfa sig). 

Þetta er líklega besta leiðin til að gera sósu - hún er vissulega tímafrek - en er vel þess virði. 

Það verður ansi magnaður ilmur í eldhúsinu þegar maður steikir brúnuð rjúpnabeinin og hellir smá skvettu af góðu púrtvíni yfir. Það er ágætt að fá sér smá tár yfir eldamennskunni. Svona til að viðhalda innblæstrinum. 


Ég skar hrygginn í helminga. Setti annan helminginn í poka, hellti í hann hálfri flösku af vatni, smá rauðvín, lárviðarlaufi, einiberjum og einum stjörnuanís. Innsiglaði í vakúmvél og setti í heitt vatnsbað - 65 gráðu heitt í um 4,5 tíma. 


Svo var það hin hefðbundni. Ég setti hann á beð af mirepoix rétt til að lyfta honum upp. Setti með lárviðarlauf, einiber og einn stjörnuanís - líkt og ég gerði með þann sem fór í vatnsbaðið. Setti svo rauðvín og kjötsoð. 


Sauð upp soðið fyrst - annars tekur ansi langan tíma að hita þetta í ofninum. Hugmynd er að hryggurinn sé nánast gufusoðinn í rauðvíni og soði. Eldaður við um 160 gráður, þangað til kjarnhita er náð. Ég lét hann fara upp í 67 gráður. 


Þá var hægt að fara að huga að forréttinum. Að gera graflax er ofur einfalt. 

1 kg lax
100 g sykur
100 g gróft salt
1 tsk rósapipar 
2 tsk þurrkaðar jurtir frá Marberg
30 ml Marberg gin
handfylli ferskt dill

Þessum hráefnum er blandað saman í skál og svo lagt ofan á laxinn. Svo er hann vafinn inn í plast og geymdur í ísskáp í tvo til þrjá daga undir fargi. Snúið tvisvar á dag. Svo er skolað vel af fisknum, hann penslaður með jómfrúarolíu og skreyttur með fersku dilli og svo settur í ísskáp þar til á reiða hann fram. 


Faðir minn, Ingvar, var settur í að útbúa forréttinn. Hann gerir alltaf graflaxsósuna frá grunni en hún er blanda af sýrðum rjóma, majónesi, dijonsinnepi, hlynsírópi, fersku dilli, salti og pipar. Smökkuð til þangað til að hann fer að brosa. 

Laxinn var skorinn í þunnar sneiðar, lagður á ristað brauð sem hafði verið smurt með smjöri. Nóg af sósu. 


Með forréttinum nutum við Moillard Pouilly-Fuissé sem er franskt Chardonnay hvítvín. Einstaklega ljúffengt. Góður smjörkenndur ávöxtur, þurrt í góðu jafnvægi og passaði vel með forréttinum. 
    

Svo var bara að demba sér aftur inn í eldhúsið. Þykkja sósurnar með smjörbollu og smakka til með kúnstarinnar reglum. Setja rauðkál og waldorf salat í skálar. Sykurbrúna kartöflur. Setja gljáa á bæði sous vide hrygginn og þann hefðbundna og steikja rjúpurnar. 

Þegar allir hjálpast að er þetta leikur einn.

Fyrir þá sem kusu að fá sér rjúpu bauð ég upp á annað vín frá Moillard - Vosne-Romanée sem er Pinot noir, ræktað skammt fyrir utan Beaune í Búrgundarhéraði í Frakklandi. Þetta er einstaklega ljúft Pinot noir - í góðu jafnvægi, með dökkum ávexti, jarðaberjum, þurrt og aðeins sýrt sem passaði ljómandi með smjörsteiktri villibráðinni. 

Með svínahamborgarhryggnum bauð ég upp á Cabo de Hornis Cabernet Sauvignion 2017 sem er vín frá rótum Andesfjallanna. Það er ræktað í Cachapoal dalnum. Þetta vín er alger negla. Kraftmikið, þurrt í ljómandi jafnvægi. Þessi árgangur skorar 4,6 á Vivino og ég tek undir það. Ótrúlega bragðgott. 

Svo var sest inn í stofu og pakkarnir opnaðir. Það er fátt sem gleður meira en að sjá börnin sín gleðjast yfir jólagjöfunum og sjá hvort gjöfin til eiginkonunar slær í gegn þetta árið. 

Þetta var svo sannarlega vel heppnað aðfangadagskvöld. Gleðileg jól! 


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Friday 25 December 2020

Einn besti forréttur allra tíma - Rækjukokteill

 


Árið er senn á enda, 2014,  hvert fórstu eiginlega? Þetta hefur sannarlega verið viðburðarríkt ár hjá mér og mínum nánustu. Við höfum ferðast heilmikið - Byrjuðum í janúar á Íslandi í tilefni fertugs afmælis Kolbrúnar mágkonu minnar. Fórum í árlega skíðaferð til St. Michael í Austurríki. Við hjónin brugðum okkur til Englands snemma vors til vina okkar og áttum saman frábæra helgi í Brighton. Börnin fóru til Íslands í sumar og dvöldu um tíma og svo fórum við öll stórfjölskyldan í ferð um Þýskaland, Póllands, Tékklands og Austurríkis í lok júlí. Við áttum viku á Íslandi í haustfríi skólans og svo fór ég á ráðstefnu í Boston auk nokkurra ferða til Íslands í tilefni bókaútgáfunnar. 

Og þetta hefur verið afkastamikið ár. Á milli 5. janúar og 15. júni eldaði ég og skrifaði Veisluna endalausu auk þess að taka upp sjónvarpsþætti fyrir Skjáinn sem voru sýndir í vor. Læknisstarfið var líka sérstaklega gefandi með mörgum skemmtilegum og krefjandi verkefnum! Ég mun seint gleyma þessu skemmtilega ári! 

Í kvöld erum við svo með góða gesti í mat. Tengdafaðir minn, Eddi og sambýliskona hans Dóróthea eru hjá okkur yfir áramótin ásamt bróður mínum. Svo koma útgefendurnir mínir, Tommi og Anna Margrét ásamt drengjunum sínum og borða og skála með okkur. Ég ætla að hafa þennan "old school" forrétt auk þess að vera með nýja útgáfu af Wellington buffi! 


Rækjukokteill - aftur til framtíðar - áramótin 2014!


Eiga ekki flestir óljósar minningar um að hafa borðað rækjukokteil einhvern tíma í gamla daga? Ég man alltént eftir því sem barn og unglingur að hafa borðað rækjukokteil í forrétt margoft. Ætli margir deili ekki þessari minningu? Svo hvarf rækjukokkteillinn og varla hefur til hans spurst síðan – og liðinn er aldarfjórðungur. 

Ætli fólk hafi ekki bara borðað yfir sig og fengið nóg? Ég held samt að það sé kominn tími til að endurvekja þennan rómaða rétt og hefja hann á stall og af hverju ekki? Rækjur eru góðar, majónes er gott – svo hvað getur klikkað? 

Fyrir fjóra

250 g rækjur
50 g tómatsósa 
50 g majónes 
cheyenne-pipar á hnífsoddi 
safi úr 1/4 sítrónu 
jöklasalat í botn glasanna 
1/2 lárpera, skorin í teninga 
6 tsk fersk laxahrogn

1. Blandið saman rækjum, tómatsósu, majónesi, sítrónusafa og
cheyenne-pipar.
2. Saxið kál og lárperu og setjið í botn glass fyrir hvern og einn. Setjið rækjukokteilinn ofan á.
3. Skreytið með einni teskeið af laxahrognum (eða rauðum kavíar). 


Gleðilegt ár og takk fyrir árið sem er að líða! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Wednesday 16 December 2020

Ostakvöldverður á aðventunni - Innbakaður gullostur, bráðinn Dímon, smælki, pæklað grænmeti, jólapaté og tilheyrandi


Þetta er einfaldur matur til að henda saman á aðventunni þegar maður er úthaldslítill í eldhúsinu. Handtökin gætu vart verið fljótlegri eða einfaldari - baka osta, sjóða kartölfur, taka til í ísskápnum og steikja súrdeigsbaguettu. 

Ostakvöldverður á aðventunni - Innbakaður gullostur, bráðinn Dímon, smælki, pæklað grænmeti, jólapaté og tilheyrandi

1 gullostur
1 Stóri Dímon 
1 stórt hvítlauksrif
1 blað af smjördeigi
1 egg
750 g smáar kartöflur
pæklað grænmeti úr ísskápnum (hægt er að fá tilbúnar súrar gúrkur útí búð) - ég átti gúrkur, gulrætur og blómkál
jólapaté frá Kjötbúðinni
baguetta - skorin í sneiðar, pensluð með jómfrúarolíu og bökuð snöggt í ofni. 
heimagerð sulta að eigin vali (einnig má kaupa góða sultu útí búð)
blandaðir ostar (camenbert, höfðingi, jólayrja, brie)

Það er varla hægt að tala um þetta sem eldamennsku. 

Byrjið á því að taka utan af einu hvítlauksrifi og sneiðið það gróflega niður. Skerið smáar raufar í ostinn og troðið hvítlauksbitunum í raufarnar. 

Vefjið smjördeiginu utan um ostinn. Setjið í kæli á meðan þið takið saman restina. Munið að pensla smjördeigið með þeyttu eggi áður en þið skellið ostinum í 200 gráðu heitan, forhitaðan ofninn. 


Spekkið Stóra Dímon einnig með hvítlauk líkt og gert var við gullostinn. Bindið tvo strengi utan um ostinn (þannig að hann haldi betur formi sínu - takið svo eftir hvernig sú meðferð reyndist alveg gagnslaus). 

Setjið ostinn inn í ofninn við 200 gráður (nokkrum mínútum eftir að ég setti ostinn í ofninn þá brustu umbúðirnar og ég tók á það ráð að færa hann yfir í lítið eldfast mót sem ég á - sem var engu síðra). 


Sjóðið kartöflur í söltuðu vatni þar til þær eru mjúkar í gegn. Hellið vatninu frá og veltið upp úr olíu, saltið og piprið. 


Skerið jólapatéið hans Geira í þykkar sneiðar. Raðið pækluðu grænmeti í skálar. Sækið sultuna. 

Penslið niðursneidda baguettu með olíu og bakið í heitum ofni þar til hún tekur að brúnast. 


Ég veit ekki hvað ykkur finnst - en þetta er ansi girnilegt! 


Með þessu hlaðborði bar ég fram spænskt rauðvín sem ég hef gætt mér á nokkrum sinnum áður. Baron de Ley Reserva frá Rioja héraði frá því 2015. Þetta er vín framleitt eingöngu úr Tempranillo þrúgum. Þetta er bragðmikið vín - kröftugur ávöxtur á tungu, tannínríkt, þurrt og með góðri sýru til að stilla sér upp á móti feitum ostunum. 

Hvað er fallegra en að sjá kartöflu umvafða bráðnum Dímon? 


Held að það sé bara kartafla umvafin bráðnum gullosti. Ég hreinlega elska gullost! 

Verði ykkur að góðu! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday 13 December 2020

Villibráðarjól - grafin grágæsarbringa með cassis- og bláberjasultu, rjómaostfroðu og snöggeldaður krónhjörtur með nípumauki, karmelliseruðum graskeri og Campofiorinrauðvínssósu


Jólin eru að koma, jólin eru að koma! 

Ég var beðinn um að leggja til uppskrift í Hátíðarblað Morgunblaðsins, sem var auðvitað sjálfsagt. Ég leitaði í sarpinn minn á síðunni og við þá yfirferð myndgerðist hið augljósa. Ég er alger íhaldsmaður - jólaíhaldsmaður. Uppskriftirnar mínar eru gjarnan blæ- og svipbrigði af sömu sígildu réttunum. Og ekki að ég telji að maður þurfi nokkuð að skammast sín fyrir það. Þess þá heldur. Jólin eru hátið nostalgíunnar - að leita í barnæskunna og reyna að skapa minningar fyrir næstu kynslóð. 

Ég varð því að finna upp á einhverju nýju. Og ég held að ég hafi aldrei eldað neitt þessu líkt - öll hráefnin eru framandi fyrir jólaborðið á mínu heimili. 

Villibráðarjól - grafin grágæsarbringa með cassis- og bláberjasultu, rjómaostfroðu og snöggeldaður krónhjörtur með nípumauki, karmelliseruðum graskeri og Campofiorinrauðvínssósu


Grafin grágæsarbringa með cassis- og bláberjasultu, rjómaostfroðu og ferskum bláberjum

Fyrir fjóra

1 grágæsarbringa
handfylli ferskt rósmarín
handfylli ferskt timjan
1 msk rósapipar
1 msk grænn pipar
2 msk þurrkað blóðberg
50 g gróft sjávarsalt
50 g sykur

Öllum hráefnum er blandað saman og lögð ofan á plastfilmu. 
Grágæsarbringunni er komið fyrir í miðjunni og svo er plastinu vafið þétt utan um hana þannig að hráefnin dreifist jafnt yfir. Sett í ísskáp í 2-3 daga undir fargi (ég notaði mjólkurfernu). Snúið á degi hverjum. 

4 súrdeigsbrauðsneiðar smjör
hvítlauksrif
1/2 dós rjómaostur með lauk og graslauk 
250 ml rjómi
grafin grágæs, skorin í þunnar sneiðar
handfylli af basilíku sprettum
handfylli af bláberjum
4 msk heimagerð bláberjasulta
100 ml cassis líkjör
salt og piparByrjið á því að setja sultuna í pott og bætið sólaberjalíkjörnum saman við. Hrærið vandlega saman og sjóðið niður líkjörin. Látið kólna. Setjið rjómaostinn í skál og hrærið rjómanum vandlega saman við. 
Hellið blöndunni í rjómasprautu og hleypið gasi á sprautuna. Geymið í kæli. Gætið að því að hrista sprautuna vel áður en þið sprautið úr henni. Gott er að prófa áður. Smyrjið brauðið með smjöri og steikið á pönnu. Skerið hvítlauksrifið í helminga og raspið ofan á heitt brauðið. Sneiðið grágæsarbringuna í þunnar sneiðar og leggið ofan á brauðið. Skerið bláberin í helminga. Raðið brauðinu á disk, sprautið rjómaostfroðunni yfir. Dreifið cassis-bláberjasultunni á diskinn. Skreytið með berjum og basilsprettum. Salt og pipar eftir smekkÞetta var ótrúlega ljúffengt - og þetta verður gert aftur. 


Læt þessa mynd líka fylgja - bara af því að mér finnst hún svo falleg. Þessar tvær myndir og sú efsta í færslunni voru teknar af ljósmyndara Morgunblaðsins - Kristni Magnússyni. 

Snöggeldaður krónhjörtur með nípumauki, karmelliseruðu graskeri og Campofiorinrauðvínssósu

800 g krónhjartarlund (skorin í fjóra bita)
salt og pipar 
smjör/olía til steikingar 

Látið kjötið standa út á borði til að ná stofuhita. Saltið og piprið vandlega.


Steikið á heitri pönnu þannig að kjötið sé jafnbrúnað. Komið hitamæli fyrir í kjötinu og setjið í 130 gráðu heitan ofn og eldið að kjarnhita. Látið standa í 10-15 mínútur undir álpappír til að jafna sig.

Nípumauk

2 stórar nípur
1 kúfuð teskeið af Edmont Fallot sinnepi 
50 ml rjómi
50 g smjör
salt og pipar 


Flysjið og sjóðið nípurnar í söltu vatni. Þegar þær eru mjúkar í gegn hellið þið vatninu frá. Maukið saman með rjóma, smjöri, sinnepi, salti og pipar. Haldið heitu.

Ofnristað grasker

1/2 "butternut" grasker 
góð jómfrúarola (t.d Olio Principe eða Olio Nitti) 
salt og pipar 
ferskt timjan til skreytingar 


Flysjið og skerið graskerið í litla kubba - einn sentimetra. Veltið upp úr góðri olíu, salti og pipar.
Bakið í 180 gráðu heitum ofni þangað til að þeir eru fallega brúnaðir. 

Strengjabaunir

góð jómfrúarrolía (t.d Olio Principe eða Olio Nitti) 
salt og pipar 

Gufusjóðið strengjabaunirnar í nokkrar mínútur þar til þær eru mjúkar í gegn. Veltið upp úr góðri jómfrúarolíu. Saltið og piprið. 

Campofiorinrauðvínssósa

500 g hreindýrahakk (það má auðvitað líka nota nautahakk)
1/2 gulur laukur 
2 hvítlauksrif
smjör/olía til steikingar
500 ml Campofiorin rauðvín (auðvitað má nota hvaða rauðvín sem er)
1 greinar af timjan
500 ml kjúklingasoð
2 msk smjör 
salt og pipar


Steikið hakkið og laukinn í smjöri þangað til að það fær á sig fallega brúnan lit. Saltið og piprið.
Undir lok steikingarinnar á kjötinu og lauknum, bætið þið smátt skornum hvítlauk saman við og látið steikjast í nokkrar mínútur. Gætið að brenna ekki laukinn eða hvítlaukinn. Bætið rauðvíninu saman við og sjóðið upp ásamt timjan greininni - og sjóðið niður þannig að það eru ekki nema kannski 50-70 ml af víni eftir á pönnunni. Bætið næst kjúklingasoðinu saman við og sjóðið upp og síðan sjóðið niður um rúmlega helming. Síið sósuna í annan pott og bætið smjöri, litlu í senn, saman á meðan þið hrærið jafnt og þétt. Þannig fær sósan á sig fallegan gljáa og aukna þykkt. Saltið og piprið eftir smekk. 
Að myndatöku lokinni þurfti náttúrulega að snæða matinn. Ekki leiðinlegt hlutskipti. Með matnum bar ég fram Masi Corbec - sem hefur verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér síðan að ég smakkaði það fyrst. Þá vorum við að taka upp fyrstu þættina af Ferðalagi bragðlaukanna og heimsóttum vínframleiðandann Masi í Verona. Þetta vín er þó ekki ítalskt heldur framleitt á vínekrum þeirra í Argentínu - blanda af ítölsku þrúgunni Corvina (þó ræktuð í Argentínu) og svo Malbec, sem er algengasta þrúgan þar í landi. Þetta er ljúffeng blanda, þurr en ávaxtaríkt, kryddað aðeins með mjúku og löngu eftirbragði. Algerlega kandidat sem jólavínið í ár. Verði ykkur að góðu. 


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum HagkaupaMonday 23 November 2020

Jólaundirbúningurinn hefst snemma í ár: Þrjár tegundir af síld með öllu tilheyrandi


Mér finnst ákaflega jólalegt að gera mína eigin síld fyrir jólin. Og þegar ég segi gera mína eigin síld - þá meina ég auðvitað að bragðbæta síldina sjálfur. Ég hef aldrei farið og verkað síldina frá grunni - enda er það óþarfi þegar unnt er að kaupa hana tilbúna, þ.e.a.s. verkaða, og klára svo með því að kynna hana fyrir ýmis konar sósum og kryddi. Maður hefur, jú, ekki endalausan tíma. 

Í þessari færslu ætla ég að leika mér mest með sýrðan rjóma og majónesi - persónulega eru það síldarréttirnir sem ég leita helst í þegar ég sæki hlaðborð heim. Ætli ég geri ekki aðra fljótlega - með aðeins öðrum áherslum. Á þessum síðustu og verstu tímum er nauðsynlegt að teygja vel og rækilega á aðventunni. 

Jólaundirbúningurinn hefst snemma í ár: Þrjár tegundir af síld með öllu tilheyrandi

Ég kynntist þessari síldartegund, Klädesholmen, þegar ég bjó í Svíþjóð. Ég bloggaði meira að segja um þær uppskriftir. Eins og þá - var faðir minn, Ingvar, mér innan handar en foreldrar mínir eru miklir síldarunnendur og bera ábyrgð á því að hafa komið mér á bragðið. 

Ég var svo á kynningu í sænska sendiráðinu fyrir tveimur árum og sá að hún er komin á markað á Íslandi. Jón, sem flytur síldina inn, var svo almennilegur að gefa mér nokkra pakka af síldinni og reyna að gera henni góð skil. Þ


Þetta eru ekki flóknar uppskriftir og það góða við þær er að það má gæða sér á þeim strax. En ætli þær verði ekki enn ljúffengari við að fá að standa í ísskáp í sólarhring. Þá fá allar bragðtegundirnar að kynnast betur. 

Ég geri mér grein fyrir því að ekki skilja allir þetta hrafnaspark og ætli það sé ekki best að skrifa þetta upp aftur. 

Jólasinnepssíld 

Hráefni

1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
1 dós sýrður rjómi 
3 msk majónes 
handfylli hakkað dill
1 msk hlynsíróp 
1 1/2 msk Edmont Fallot dijon sinnep 
salt og pipar eftir smekk. 


Aðferðafræðin er ekki flókin. Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Færa yfir í fallega krukku. Setja í ísskáp á meðan unnið er í næstu síldarréttum. 


Västerbottensíld 

Þessi uppskrift sló í gegn. Ég stal þessari uppskrift af netinu þar sem ég hafði aldrei gert þetta áður. 

Hráefni

1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
1 dós sýrður rjómi 
2 harðsoðin egg
1/2 dl majónes 
handfylli hökkuð steinselja
hnífsoddur af chilidufti
1 1/2 dl rifinn Västerbottenostur 
salt og pipar eftir smekkÞessi uppskrift er líka ofureinföld - en kannski sú eina sem krafðist einhverrar eldamennsku, ef eldamennsku skyldi kalla. Það þurfti að sjóða eggin! 


Og rífa ostinn. 

Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Færa yfir í fallega krukku. Setja í ísskáp á meðan unnið er í næstu síldarréttum. 


Hvítlaukssíld

Hráefni

1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
1 dós sýrður rjómi 
2 harðsoðin egg
3 msk majónes 
handfylli hökkuð steinselja
1/2 tsk Bera chilisósa
3-4 stór hvítlauksrif
1 tsk hlynsíróp
salt og pipar eftir smekk. 

Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Færa yfir í fallega krukku. Setja í ísskáp á meðan gengið er frá og máltíðin undirbúin.


Einfalt og meira að segja fljótlegt. 


Mamma mín, Lilja María, tók að sér að smyrja rúgbrauðið. Allir fengu einhver verkefni. Það var dálítið sænsk slagsíða á þessu hjá okkur. Bárum fram soðnar kartöflur sem við veltum upp úr góðri jómfrúarolíu, soðin egg, hrökkbrauð og meiri Västerbottenost. Og smá jólabjór. 

Þetta reyndist sannkölluð síldarveisla. 

Verði ykkur að góðu. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa