Sunday 27 January 2013

Heimagerður Tower Zinger kjúklingahamborgari með kröftugri salsasósu og kartöfluköku


Sko... leyfið mér aðeins að útskýra! Af og til þarf maður að lesa drasl til að kunna að meta fagurbókmenntir.  Stundum, og ég meina bara stundum, finnst mér gott að koma við á KFC og panta mér einn Tower Zinger borgara. Þær stundir koma sjaldan og þá helst á sunnudagsmorgnum eftir skemmtilegt laugardagskvöld. Og ég bara viðurkenni það - mér finnst þessi hamborgari bara déskoti góður. En ég er ekki hrifinn af skyndibitastöðum - ekki fyrir fimmaur. Þeir höfða bara ekkert til mín -svona alla jafna.

En Tower Zinger borgari er bara ansi vel heppnaður hamborgari, salsasósa og stökkur kjúklingur ásamt kartöfluköku og majonesi - þetta bara virkar! KFC er ekki til í Svíþjóð svo ég viti, þannig að langi mann í þannig hamborgara þá verður maður bara að gera þetta sjálfur. Og þá getur maður gert það á þennan hátt.

Ég hef áður gert djúpsteiktan kjúkling - PFC (Pukgränden Fried Chicken) kjúkling - þið getið kíkt á það hér. Það er dáldið snúið að djúpsteikja kjúkling - hann verður auðvitað að elda í gegn án þess að hann brenni að utan. Það er því mikilvægt að gæta að hitanum á olíunni og hafa hitamæli við hendina. Svo má auðvitað fjarlægja einn bita úr pottinum þegar maður heldur að hann sé tilbúinn - og stinga hitamælinum í bitann - 82 gráður og þá er hann tilbúinn. Eða hreinlega bara skera inn í hann og leita af sér allan grun!

Heimagerður Tower Zinger kjúklingahamborgari með kröftugri salsa og kartöfluköku


Við flysjuðum tólf stórar kartöflur niður og kreistum vatnið úr þeim. Ég setti þær meira að segja í svo grænmetisþeytu til að ná úr meiri vökva. Síðan er bara að salta og pipra.


Kartöflurnar eru síðan steikar á pönnu þangað til að þær eru brúnar á báðum hliðum. Síðan skellt í ofn til að halda þeim heitum þangað til að restin af máltíðinni er undirbúin.



Auðvitað hefði verið betra að marinera kjúklinginn yfir nótt - en löngunin í kjúklingaborgarann var eiginlega "akút" þannig að hann fékk bara skyndimarineringu. Þegar verið er að djúpsteikja kjúkling herma flestar heimildir að mikilvægast af öllu er að krydda kjúklinginn á öllum stigum.

Við notuðum eina til tvær tsk af papríkudufti, sama magn af hvítlauksdufti og sama af laukdufti,  hnífsodd af cheyanne pipar og auðvitað salt og svo svartan pipar sem við settum beint á kjúklinginn. Síðan hellti ég saman við einum bolla af hreinni jógúrt (sem hafði líka fengið smáræði af kryddi). Látið standa í ísskáp að minnsta kosti 30 mínútur - helst lengur auðvitað. Slaka á og fá sér bjór.


Síðan er kjúklingnum velt upp úr krydduðu hveiti (sömu krydd og áður). Umfram hveiti er bankað af og svo er kjúklingurinn djúpsteiktur.


Það tók um 15-20 mínútur að djúpsteikja stærstu bitana í gegn við sirka 140-150 gráðu hita. Ég lét mér nægja að mæla með hitamæli til að kanna hvenær þeir voru tilbúnir. 


Bitinum var síðan raðað á grind þannig að umfram olía læki af.


Næst er að byggja upp borgarann; fyrst majones, svo salsasósu (og tabascó fyrir þá sem vilja), tómat- og lauksneiðar, loks kjúklingabitann.


Síðan ostsneiðar, kartöflukökuna og í lokin hamborgarabrauð sem hefur verið smurt með majonesi. 


Með matnum fengum við okkur rauðvínsglas. Að þessu sinni Masi Modello delle Venize frá Ítalíu. Ég hef lengi haft dálæti af víni frá þessum framleiðanda. Masi Campofiorin er eitt af mínum uppáhaldsvínum. Þetta er eiltíð léttari útgáfa frá sama framleiðanda. Vínið er fallega rúbin rautt í glasi, sultað og létt kryddað. Góður sopi!

Ég þarf varla að taka það fram hvað þessi kjúklingaborgari var góður!

Bon appetit!

Monday 21 January 2013

Einfaldar amerískar pönnukökur með bláberjum og bönunum í sumarbústaðnum


Það hefur verið heilmikið um að vera síðastliðna daga. Eins og lesendur sáu á síðustu bloggfærslu þá var ég að elda á marókósku veitingahúsi í Malmö nýverið. Að mínu mati heppnaðist kvöldið alveg ljómandi vel og var sérstaklega ánægjulegt fyrir mig. Það var vissulega skemmtilegt en jafnframt krefjandi að vinna í alvöru eldhúsi!

Nú á fimmtudaginn var lauk ég starfsnámi mínu í stjórnun með fyrirlestri um verkefni sem ég hef verið að vinna við síðastliðna fjóra mánuði. Það var ljúft að klára þennan áfanga og geta snúið sér aftur af klínískri vinnu á gigtardeildinni minni í Lundi.

Punkturinn yfir i-ið síðustu viku var þó doktorsvörn móður minnar, Lilja M. Jónsdóttur. Hún hefur unnið að doktorsverkefni sínu undanfarin sjö ár þar sem hún hefur skoðað hvernig kennarar takast á við kennarastarfið fyrstu starfsár sín. Hún fylgdist með fimm ungum kennurum í fimm ár og ræddi við þá reglulega. Fjölmennt var á útskriftinni og móðir mín stóð sig eins og hetja. Ég held að ég hafi aldrei verið jafn stoltur af elsku mömmu en einmitt síðastliðin föstudag. Til hamingju mamma!

Eftir doktorsvörnina var auðvitað haldin veisla sem faðir minn sá að mestu um að skipuleggja og undirbúa. Lítið var keypt af tilbúnum mat annað en kjúklinga- og nautaspjót sem voru ágæt. Restina gerði hann sjálfur eða fékk okkur til að hjálpa til. Föstudagsmorguninn síðastliðinn var færibandavinna í eldhúsi foreldra minna í Lönguhlíðinni. Hann gerði kjötbollur og kraftmikla tómatsósu, beikonvafðar kokteilpylsur og þrenns konar ljómandi góðar snittur. Svo gerði Marta frænka ljúffeng skinkuhorn og Guðbjörg, samstarfskona mömmu og pabba, litlar kransakökur. Það var nóg af veigum og kaffi og súkkulaði í desert. Ég gat ekki betur séð en að gestir væru sáttir!

Á laugardaginn skunduðum við upp í sumarbústað í Kjósinni og elduðum lambakjöt með bökuðum kartöflum. Daginn eftir vaknaði ég heldur seint, en gerði ég síðan þessar einföldu - en jafnframt gómsætu pönnukökur fyrir sjálfan mig og nokkra aðra (flestir höfðu vaknað fyrr og voru búnir að borða).

Einfaldar amerískar pönnukökur með bláberjum og bönunum í sumarbústaðnum



Fékk nýtt leikfang í eldhúsið. Að þessu sinni áskotnaðist mér ný Le Creuset crepe (pönnuköku) panna. Eins og allir sem lesa bloggið mitt vita þá er ég forfallinn Le Creuset aðdáandi og safna pottum og leirvörum frá þessu vörumerki. Vörumerkið er franskt og hefur starfað í Fresnoy-le-Grand síðan 1925. Þetta er gæðavara og endist að eilífu. Ég er nokkuð sannfærður af barnabörnin mín eiga eftir að erfa þessa potta eftir mig - alltént vona ég það!


Setti bolla af hveiti í skál, 1/4 tsk af salti, 1/2 tsk af lyftidufti og 1/2 tsk af sykri í skál og hrærði saman. Setti síðan eggjaguluna saman við en hafði hvítuna sér. Blandaði síðan saman sirka 100 ml af mjólk - þannig að úr varð þykkt deig sem hjúpaði bakhlið á skeið án þess að renna af.



Þeytti síðan upp hvítuna þannig að hún þrefaldaðist í rúmmáli en var þó ekki stífþeytt. Hvítunni blandaði ég síðan varlega saman við með sleikju. Ekki má hræra saman með miklu afli því þá lemur maður loftið úr hvítunni, en hana vill maður varðveita til að pönnukökurnar verði loftkenndar og "fluffy".


Pannan hituð varlega á eldinu. Smjörið brætt og svo er bara að byrja að baka. Það er oft svo að fyrstu pönnsurnar verði hálf klaufalegar en það er engin ástæða til þess að henda þeim.


Ég skolaði af bláberjunum og skar síðan einn banana niður í þunnar sneiðar.


Ég setti 1-2 matskeiðar fyrir hverja pönnuköku og síðan raðaði ég berjum/bönunum á deigið. Þegar loftbólurnar fara að komast í gegnum deigið er kominn tími til að snúa þeim. Það þarf ekki að steikja þær nema 1-2 mínútur á hvorri hlið!


 Raðaði síðan þremur pönnukökum upp á disk. Nokkur fersk ber ofan á ásamt ferskum banana sneiðum. Svo er bara að hella smáræði af hlynsírópi ofan á og síðan gæða sér á dásamlega ferskum morgunverði!

Bon appetit!

 P.s.


Svo má líka gera "savory" útgáfu með sveitaskinku, briesneiðum og hvítlauksolíu. Namminamm! 

Bon appetit - aftur! 


Sunday 13 January 2013

Gestakokkur í Malmö: Fyllt lambasíða á marókóska vísu með döðlusósu, kúskús og rótargrænmeti


Þetta var sannarlega spennandi dagur í gær. Ég hafði fengið það hlutverk hjá nágrönnum mínum og vinum að vera gestakokkur á nýjum veitingastað þeirra í Malmö. Latifa er frá Marókkó og hefur hún búið í Svíþjóð í mörg herrans ár. Hún hefur lengi unnið innan veitingabransans og ákvað nýverið að slá til og stofna fyrsta marókóska veitingastaðinn í Malmö. Johnsson's kök er í Norra Skolgatan og er í sama húsnæði og íbúðahótel. Hægt er að kíkja á síðuna þeirra hérna.

Ég lagði grunninn að matseðlinum með Latifu fyrir nokkrum vikum síðan. Mig hefur lengi langað til að elda lambasíðu aftur - en það er ansi langt síðan ég gerði þetta seinast. Það var í október 2010 að ég fyllti lambasíðu með couscous og apríkósum. Ansi ljúffengt fannst mér - hægt er að lesa meira um það hérna. En að þessu sinni breyttum við uppskriftinni talsvert. Fyllingin var ansi frábrugðin - núna fyllt með kjötfarsi og kryddað með ljúffengum marókóskum kryddum. 

Oft getur maður ferðast um heiminn í gegnum eldhúsið. Maður hefur ekki endalaus tækifæri til ferðalaga og stundum er hægt að stytta sér leið með því að lesa um, skoða myndir, hlusta á tónlist og svo auðvitað elda mat þeirra staða sem mann langar til að heimsækja. Maður kemst ansi langt á þessari aðferð. En auðvitað ætla ég einhverntíma að ganga um markaðina í Marrakesh, fara á veitingastaði, kaupa krydd og fallegan marókóskan borðbúnað! 


Gestakokkur í Malmö: Fyllt lambasíða á marókóska vísu með döðlusósu, kúskús og rótargrænmeti 

Latifa sótti mig um tíuleytið. Við brunuðum beint til Malmö og brettum upp ermarnar.


Latifa var aðstoðarkokkur minn þennan dag. Ekki amalegt að hafa atvinnumann innan seilingar! Hún sá um að undirbúa rótargrænmetið; gulrætur, kartöflur, nýpur, sellerírót, rófur, lauk, hvítlauk og rauðbeður. Grænmetinu var öllu velt upp úr olíu, saltað og piprað og síðan stráði ég kúmenfræjum yfir. Bakað í ofni við 180 gráður í fimm kortér!


Ég undirbjó síðan rækjurnar. Fullt af risarækjum, nóg af harissa - sem er chilliblanda gerð úr piripiri chili, olíu - oft er hvítlaukur og kóríander haft með. Harissa er upprunalega frá Túnis en er líka mikið notað í marókóskri matargerð.



Setti síðan ég heilmikið af hakkaðri ferskri myntu, sneiddi niður fjórar sítrónur og kreisti safann úr. Þá slatta af olíu. Þetta fékk síðan að marinerast í ísskápnum allan daginn.


Rækjurnar voru þræddar upp á spjót, penslaðar með smjöri og grillaðar. Bornar fram á salatbeði með jógúrtsósu; tyrknesk jógúrt, hvítlaukur, salt, pipar, fullt af myntu og svo fljótandi hunang.


Latifa gerði gómsætt brauð til að bera fram með matnum. Hún blandar anísfræjum saman við brauðdeigið sem gefur því sérstaklega ljúffengt bragð!


Latifa bar einnig ábyrgð á eftirréttinum - sem ég valdi þó! Mille Fuille er maróskósk lagkaka gerð úr smjördeigi sem er raðað saman með vanillukremi. Síðan er appelsínubragðbætt sykurbráð sett ofan á og smá súkkulaðikrem.


Ég útbjó fyllinguna fyrir lambasíðuna á eftirfarandi hátt: Nautakjöt, gnægð af smátt söxuðum lauk og hvítlauk, jómfrúarolía, nóg af papríkudufti, engiferi, broddkúmeni, salti og pipar og svartar marókóskar olífur auk, handfyllis af ferskri steinselju.


Lambasíðurnar voru hreinsaðar og lagðar á bretti. Fylling sett inní og svo var síðunni rúllað upp. Setti fyrst spjót í gegnum rúllurnar og batt síðan snæri til að tryggja að þær myndu ekki opnast.


Smá yfirlit úr eldhúsinu.


Ætli ég hafi ekki gert einar fimmtán rúllur!


Hérna eru svo nokkrir af gestunum. Bróðir og systir Latifu og svo vinkona þeirra. Þau virtust afar ánægð með matinn.


Þessi ljósmynd var tekin seint um kvöldið þegar allir gestirnir voru búnir að borða. Fyllingin var orðin pínu þurr á þessum tímapunkti en hafði ekki tapað neinu af gómsætu bragðinu. 


Döðlusósan gat ekki verið einfaldari. Við gerðum grænmetissoð frá grunni. Fyrir hverja 250 ml af soði setti ég 5 döðlur. Döðlurnar, sem voru ferskar, voru kjarnhreinsaðar og svo bakaðar í ofni í 15 mínútur til að lokka enn frekar fram sætuna í þeim. Notaði síðan töfrasprota til að blanda þessu saman. Til að ná jafnvægi, setti ég smáræði af smjöri (ein teskeið fyrir 250 ml af sósu) og svo auðvitað salt og pipar.

Síðan var bara að raða þessu upp á fallegan disk - auðvitað frá Marókkó. Nóg af grænmeti bæði fersku og ofnbökuðu rótargrænmeti, beð af eimsoðnu kúskús - tvær þykkar sneiðar af lambasíðu, sósa og svo kóríanderlauf.

Þetta var ótrúlega gott - þó að ég segi sjálfur frá!

Bon appetit!

Sunday 6 January 2013

Gómsæt baka með kalkún, sveppum og þroskuðum cheddar osti

Undanfarin ár hef ég verið með einhversslags yfirlit yfir jólaeldamennskuna. Í ár ákvað ég að sleppa því þar sem það hefði verið hrein endurtekning á pistlum fyrri ára. Ég setti þó nokkra hlekki upp á Facebook síðuna mína. Ég er ekki einn af þeim kokkum sem á hátíðardögum ákveður að venda kvæði sínu í kross og finna upp á nýjum glaze á hamborgarahrygginn! Fyrir mig og fjölskylduna mín byggja hátíðarhöldin á jólum og áramótum á að skapa hefðir og viðhalda þeim. Byggja upp minningar sem börn manns og ættingjar geta hlýjað sér við og hlakkað til að endurtaka leikinn að ári.

Ætli ég muni ekki reyna að nota nýja árið fyrir nýjar hugmyndir og hugmyndaauðgi. Ég stend á vissum tímamótum. Ég hef lokið sérnámi mínu í gigtarlækningum og hafið störf sem sérfræðingur á háskólasjúkrahúsinu í Lundi. Eftir tvær vikur mun ég ljúka námi mínu í stjórnun. Og mín bíða skemmtileg verkefni. Ég hef fengið áframhaldandi ráðningu í Lundi við krefjandi verkefni að mínu skapi sem og að ég stend í því skapandi verkefni að skrifa matreiðslubók.

Matreiðslubókin mín verður úrval af bestu uppskriftum mínum og margar mun ég birta í nýjum búningi. Ég mun líka vera með margar nýjar uppskriftir sem ég hef verið að sanka að mér síðustu misseri og á eftir að elda. Heimasíðan mín verður því kannski með eilítið breyttu og kannski á stundum fátæklegra sniði fyrsta hálfa árið af því vonandi gjöfula ári - 2013.

Gómsæt baka með kalkún, sveppum og þroskuðum cheddar osti

Þessi baka var gerð á milli jóla og nýárs. Auðvitað má nota kjúkling í stað kalkúnsins og niðurstaðan verður áreiðanlega mjög góð.

Botninn er mjög einfaldur. Bara að blanda 250 gr af hveiti saman við 100 grömm af smjöri sem maður brýtur hægt og rólega saman við hveitið. Bæta við hálfri teskeið af salti og síðan smáræði af köldu vatni - bara rétt nóg til að binda deigið saman í fallegan deigklump. Næsta skref er að pakka deiginu inn í plastfilmu og setja það síðan inn í ísskáp í 30-40 mínútur til að leyfa því að jafna sig og leyfa smjörinu að stífna aðeins.


Þá er deigið flatt út þannig að það er að minnsta kosti 30 prósent stærra heldur en eldfasta mótið sem það á að bakast í. Bökumótið þarf að smyrja með smjöri þannig að deigið festist ekki við. Tylla síðan deiginu ofan í mótið og forma það eftir bökumótinu. Síðan klippir maður bara burt það sem stendur upp úr - auðveldast er að rúlla bara kökukeflinu yfir kantana og þá klippist deigið einfaldlega af.

Síðan gataði ég deigið með gaffli og bakaði í 15 mínútur í 180 gráðu heitum ofni. Sumir setja bökunarpappír ofan á deigið og svo baunir eða eitthvað til að hindra að deigið lyfti sér - en það dugði alveg að gata deigið lítillega.


Fyllingin er afar einföld. Ég setti fimm egg í skál, salt og pipar og svo 200 ml af rjóma, 100 ml af nýmjólk og þeytti saman með gaffli.


Ég notaði afganginn af kalkúninum frá því á jóladag, blandaði bæði hvítu og brúnu kjöti. Skar síðan niður 15 meðalstóra skógarsveppi í fjórðunga og raðaði í forbakaða bökuna. Hellti síðan eggjablöndunni ofan á. Síðast en ekki síst 150 gr af rifnum cheddarosti. Bakað þangað til að osturinn er fallega gullinn.



Bökuna er auðvitað hægt að borða strax með ríkulegu salati, eða leyfa henni að kólna - og við það verður hún þéttari og fallegri á diski. Bragðið breytist þó ekkert við meðferðina. Bakan er það ljúffeng.


Takk fyrir allar heimsóknirnar á síðastliðnu ár. Áhugi lesenda á uppátækjum mínum í eldhúsinu er mér stöðugur innblástur í leit minni af nýjum uppskriftum! Verið ávallt velkomin.

Þið getið síðan bæst í hóp lesenda á Facebook - The Doctor in the Kitchen - en þar reyni ég líka að miðla ýmsu áhugaverður matartengdu efni!

Bon appetit!