Sunday 27 January 2013

Heimagerður Tower Zinger kjúklingahamborgari með kröftugri salsasósu og kartöfluköku


Sko... leyfið mér aðeins að útskýra! Af og til þarf maður að lesa drasl til að kunna að meta fagurbókmenntir.  Stundum, og ég meina bara stundum, finnst mér gott að koma við á KFC og panta mér einn Tower Zinger borgara. Þær stundir koma sjaldan og þá helst á sunnudagsmorgnum eftir skemmtilegt laugardagskvöld. Og ég bara viðurkenni það - mér finnst þessi hamborgari bara déskoti góður. En ég er ekki hrifinn af skyndibitastöðum - ekki fyrir fimmaur. Þeir höfða bara ekkert til mín -svona alla jafna.

En Tower Zinger borgari er bara ansi vel heppnaður hamborgari, salsasósa og stökkur kjúklingur ásamt kartöfluköku og majonesi - þetta bara virkar! KFC er ekki til í Svíþjóð svo ég viti, þannig að langi mann í þannig hamborgara þá verður maður bara að gera þetta sjálfur. Og þá getur maður gert það á þennan hátt.

Ég hef áður gert djúpsteiktan kjúkling - PFC (Pukgränden Fried Chicken) kjúkling - þið getið kíkt á það hér. Það er dáldið snúið að djúpsteikja kjúkling - hann verður auðvitað að elda í gegn án þess að hann brenni að utan. Það er því mikilvægt að gæta að hitanum á olíunni og hafa hitamæli við hendina. Svo má auðvitað fjarlægja einn bita úr pottinum þegar maður heldur að hann sé tilbúinn - og stinga hitamælinum í bitann - 82 gráður og þá er hann tilbúinn. Eða hreinlega bara skera inn í hann og leita af sér allan grun!

Heimagerður Tower Zinger kjúklingahamborgari með kröftugri salsa og kartöfluköku


Við flysjuðum tólf stórar kartöflur niður og kreistum vatnið úr þeim. Ég setti þær meira að segja í svo grænmetisþeytu til að ná úr meiri vökva. Síðan er bara að salta og pipra.


Kartöflurnar eru síðan steikar á pönnu þangað til að þær eru brúnar á báðum hliðum. Síðan skellt í ofn til að halda þeim heitum þangað til að restin af máltíðinni er undirbúin.Auðvitað hefði verið betra að marinera kjúklinginn yfir nótt - en löngunin í kjúklingaborgarann var eiginlega "akút" þannig að hann fékk bara skyndimarineringu. Þegar verið er að djúpsteikja kjúkling herma flestar heimildir að mikilvægast af öllu er að krydda kjúklinginn á öllum stigum.

Við notuðum eina til tvær tsk af papríkudufti, sama magn af hvítlauksdufti og sama af laukdufti,  hnífsodd af cheyanne pipar og auðvitað salt og svo svartan pipar sem við settum beint á kjúklinginn. Síðan hellti ég saman við einum bolla af hreinni jógúrt (sem hafði líka fengið smáræði af kryddi). Látið standa í ísskáp að minnsta kosti 30 mínútur - helst lengur auðvitað. Slaka á og fá sér bjór.


Síðan er kjúklingnum velt upp úr krydduðu hveiti (sömu krydd og áður). Umfram hveiti er bankað af og svo er kjúklingurinn djúpsteiktur.


Það tók um 15-20 mínútur að djúpsteikja stærstu bitana í gegn við sirka 140-150 gráðu hita. Ég lét mér nægja að mæla með hitamæli til að kanna hvenær þeir voru tilbúnir. 


Bitinum var síðan raðað á grind þannig að umfram olía læki af.


Næst er að byggja upp borgarann; fyrst majones, svo salsasósu (og tabascó fyrir þá sem vilja), tómat- og lauksneiðar, loks kjúklingabitann.


Síðan ostsneiðar, kartöflukökuna og í lokin hamborgarabrauð sem hefur verið smurt með majonesi. 


Með matnum fengum við okkur rauðvínsglas. Að þessu sinni Masi Modello delle Venize frá Ítalíu. Ég hef lengi haft dálæti af víni frá þessum framleiðanda. Masi Campofiorin er eitt af mínum uppáhaldsvínum. Þetta er eiltíð léttari útgáfa frá sama framleiðanda. Vínið er fallega rúbin rautt í glasi, sultað og létt kryddað. Góður sopi!

Ég þarf varla að taka það fram hvað þessi kjúklingaborgari var góður!

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment