Sunday 6 January 2013

Gómsæt baka með kalkún, sveppum og þroskuðum cheddar osti

Undanfarin ár hef ég verið með einhversslags yfirlit yfir jólaeldamennskuna. Í ár ákvað ég að sleppa því þar sem það hefði verið hrein endurtekning á pistlum fyrri ára. Ég setti þó nokkra hlekki upp á Facebook síðuna mína. Ég er ekki einn af þeim kokkum sem á hátíðardögum ákveður að venda kvæði sínu í kross og finna upp á nýjum glaze á hamborgarahrygginn! Fyrir mig og fjölskylduna mín byggja hátíðarhöldin á jólum og áramótum á að skapa hefðir og viðhalda þeim. Byggja upp minningar sem börn manns og ættingjar geta hlýjað sér við og hlakkað til að endurtaka leikinn að ári.

Ætli ég muni ekki reyna að nota nýja árið fyrir nýjar hugmyndir og hugmyndaauðgi. Ég stend á vissum tímamótum. Ég hef lokið sérnámi mínu í gigtarlækningum og hafið störf sem sérfræðingur á háskólasjúkrahúsinu í Lundi. Eftir tvær vikur mun ég ljúka námi mínu í stjórnun. Og mín bíða skemmtileg verkefni. Ég hef fengið áframhaldandi ráðningu í Lundi við krefjandi verkefni að mínu skapi sem og að ég stend í því skapandi verkefni að skrifa matreiðslubók.

Matreiðslubókin mín verður úrval af bestu uppskriftum mínum og margar mun ég birta í nýjum búningi. Ég mun líka vera með margar nýjar uppskriftir sem ég hef verið að sanka að mér síðustu misseri og á eftir að elda. Heimasíðan mín verður því kannski með eilítið breyttu og kannski á stundum fátæklegra sniði fyrsta hálfa árið af því vonandi gjöfula ári - 2013.

Gómsæt baka með kalkún, sveppum og þroskuðum cheddar osti

Þessi baka var gerð á milli jóla og nýárs. Auðvitað má nota kjúkling í stað kalkúnsins og niðurstaðan verður áreiðanlega mjög góð.

Botninn er mjög einfaldur. Bara að blanda 250 gr af hveiti saman við 100 grömm af smjöri sem maður brýtur hægt og rólega saman við hveitið. Bæta við hálfri teskeið af salti og síðan smáræði af köldu vatni - bara rétt nóg til að binda deigið saman í fallegan deigklump. Næsta skref er að pakka deiginu inn í plastfilmu og setja það síðan inn í ísskáp í 30-40 mínútur til að leyfa því að jafna sig og leyfa smjörinu að stífna aðeins.


Þá er deigið flatt út þannig að það er að minnsta kosti 30 prósent stærra heldur en eldfasta mótið sem það á að bakast í. Bökumótið þarf að smyrja með smjöri þannig að deigið festist ekki við. Tylla síðan deiginu ofan í mótið og forma það eftir bökumótinu. Síðan klippir maður bara burt það sem stendur upp úr - auðveldast er að rúlla bara kökukeflinu yfir kantana og þá klippist deigið einfaldlega af.

Síðan gataði ég deigið með gaffli og bakaði í 15 mínútur í 180 gráðu heitum ofni. Sumir setja bökunarpappír ofan á deigið og svo baunir eða eitthvað til að hindra að deigið lyfti sér - en það dugði alveg að gata deigið lítillega.


Fyllingin er afar einföld. Ég setti fimm egg í skál, salt og pipar og svo 200 ml af rjóma, 100 ml af nýmjólk og þeytti saman með gaffli.


Ég notaði afganginn af kalkúninum frá því á jóladag, blandaði bæði hvítu og brúnu kjöti. Skar síðan niður 15 meðalstóra skógarsveppi í fjórðunga og raðaði í forbakaða bökuna. Hellti síðan eggjablöndunni ofan á. Síðast en ekki síst 150 gr af rifnum cheddarosti. Bakað þangað til að osturinn er fallega gullinn.



Bökuna er auðvitað hægt að borða strax með ríkulegu salati, eða leyfa henni að kólna - og við það verður hún þéttari og fallegri á diski. Bragðið breytist þó ekkert við meðferðina. Bakan er það ljúffeng.


Takk fyrir allar heimsóknirnar á síðastliðnu ár. Áhugi lesenda á uppátækjum mínum í eldhúsinu er mér stöðugur innblástur í leit minni af nýjum uppskriftum! Verið ávallt velkomin.

Þið getið síðan bæst í hóp lesenda á Facebook - The Doctor in the Kitchen - en þar reyni ég líka að miðla ýmsu áhugaverður matartengdu efni!

Bon appetit!


2 comments:

  1. Sæll, og takk fyrir allar girnilegu bloggfærslurnar. Bara smá vangaveltur eftir að hafa horft ágirndaraugum á myndina af bökunni, vantar eitthvað í uppskriftina?? Sé eitthvað grænt þarna og jafnvel eitthvað sem minnir á rauðlauk :)

    ReplyDelete
    Replies
    1. Sael Sigrun

      Thad er harrett hja ther - vantar baedi raudlaukinn - ein slikan skornar i sneidar og svo steinselju, kannski 2-3 msk hakkad ferskt.

      Takk fyrir ad kikja vid!

      mbk, Ragnar

      Delete