Thursday 27 January 2011

Silkimjúkt Spaghetti með reyktri bleikju, rauðlauk og kapers. Namminamm!



Tveir pastaréttir í röð! Það verður að segjast að það er ansi mónótón! Það var þó ekki lagt upp með slíkt. Mín hugmynd var að gera ommilettu á franska vísu með sömu hráefnum - en ég varð að lúta lægra haldi fyrir heimilisfólki sem stakk upp á að gera annað. Maður getur ekki alltaf fengið að ráða. Ég verð að hugga mig við að þetta er þó enn í anda manifestósins - og núna var komið að því að gera fisk.

Þessi réttur er auðvitað byggður á Spaghetti Carbonara - sem er einn af mínum uppáhalds spaghetti réttum. En lífið getur ekki verið endalaust beikon. Svoleiðis er það nú bara. Þessi útgáfa myndi teljast sem svona "spin off" í hollari kantinum. Reyktu bleikjuna hef ég verið svo heppinn að fá frá Íslandi. Tengdafaðir minn, Eddi, er veiðimaður fram í fingurgóma og er duglegur að bera í mig reyktan fisk. Takk Eddi minn!!!

Annars var ég að fá mér nýja myndavél. Vonast til þess að hún verði til að myndirnar á síðunni minni verða fallegri. Maturinn á líka að gleðja augað.

Silkimjúkt Spaghetti með reyktri bleikju, rauðlauk og kapers. Namminamm!

Þetta er ansi fljótlegur réttur. Og hann má gera á 10 mínútum - öllu fljótlegra verður það ekki.

Fyrst er að sjóða vatn, ríkulega saltað og síðan sjóða gott spaghetti eftir leiðbeiningum. Á meðan eru hin hráefnin undirbúin. Fimm egg sett í skál og þeytt saman með 2 msk af léttum creme fraiche. Saltað og piprað. Síðan er heill rauðlaukur skorinn heldur smátt niður. 250 g af reyktri bleikju er síðan skorinn niður þunnt.

Þegar spaghettíið er al dente, þarf að hafa hraðar hendur. Vatninu er hellt frá. Eggin, bleikjan, rauðlaukurinn og svo 2 msk af kapers er hrært saman við rjúkandi heitt spaghettíið og svo er lokið sett á og leyft að standa í 2-3 mínútur. Við þetta eldast sósan og bleikjan. Saltað og piprað.

Borið fram með einföldu salati, kannski smá brauðhleif og hvítvínstári - eigi maður slíkt skilið á annað borð.



Bon appetit.

Tuesday 25 January 2011

Létt og gott penne alla frutta di terra með salati og brauðhleif

Hérna í Púkagrandanum númer eitt höldum við áfram að njóta manifestósins sem lagt var upp með í upphafi ársins. Á virkum dögum höfum við þann háttinn á að við eldum grænmetisrétt einn daginn og svo fiskrétt hinn. Þetta hefur næstum alltaf tekist. Við höfum einnig lagt okkur fram að hafa réttina í léttara lagi - en það var bara aukaverkun að verkefninu og alls ekki áformað. Hver hugsar ekki um matarræðið rétt eftir jólin.

Þessi réttur er ansi sniðugur. Hugmyndin er fengin frá rétt sem ég hef eldað áður, en þar notaði ég bara tómata, hvítlauk og basil. Sjá hérna. Núna var ísskápurinn fullur af nýkeyptu rótargrænmeti og ég nýbúinn að syngja lofsöng til kartöflunnar og annars rótargrænmetis, og því ekki annað hægt en að nota það í réttinn. Þemað varð því þetta.

Létt og gott penne alla frutta di terra með salati og brauðhleif

Svona matur er eins einfaldur og fljótlegur og hugsast getur. Þó þarf hann 30 mínútur í ofninum. En að undirbúa réttinn er bara nokkra mínútna verk.

Fyrst var að flysja einn heldur stóran rauðlauk og hluta gróft niður, hálft "butternut" grasker, kúrbít, 3 hvítlauksrif og síðan handfylli af kirsuberjatómötum skornum í helminga. Þremur msk af hvítlauksolíu var sáldrað yfir og síðan blandað vel saman. Saltað vel og piprað. Bakað í 200 gráðu heitum ofni í 20 mínútur. Síðan er 4-5 msk af léttum creme fraiche, hræðum til að gera það meira vökvakennt, blandað saman við ásamt jafnmiklu magni af vatni frá pastapottinum, ásamt smá skvettu af hvítvíni - því sama og við fengum okkur með matnum. Sett aftur inn í ofn í nokkrar mínútur og leyft að hitna aftur.

triventoPenne soðið skv. leiðbeiningum í ríkulegu söltuðu vatni - og eins og segir að ofan nota ég nokkrar matskeiðar sem grunn að pastasósunni.

Borið fram með heitum brauðhleif og góðu salati, græn lauf, smátt skorin rauðlaukur, rauð paprika, steinselja, ristuð graskersfræ og nokkrum bitum af smátt skornum mozzarella.

Með matnum fengum við okkur smá hvítvínstár. Við áttum Trivento Chardonnay - Chenin búkollu í ísskápnum. Það er alltaf gott að eiga smátár í kælinum til að vinda sig aðeins niður í lok dags. Þetta vín er frá Argentínu og er ungt vín - frá því í fyrra - eins og vanin er með búkollur. Þetta er ljómandi góð búkolla - fallega gult í glasi, létt á nefnið og ferskt og ansi ávaxtaríkt á bragðið. Gott vín!

Bon appetit!



Sunday 23 January 2011

Hin fullkomna ofnsteikta "roast" kartafla! Viva kartöflur!





Það er alveg þess virði að blogga um þetta efni. Kartöflur eru auðvitað eitt besta og vinsælasta meðlæti sem um getur. Það er nú svo að frönsk kartafla er mest selda vörutegund í heiminum en að mínu mati er ofnsteikta kartaflan sú allra besta. Það er fátt sem nær að skáka kartöflu sem hefur hlotið þá meðferð sem lýst verður. Stökk að utan og síðan létt, næstum ofelduð, að innan. Á ensku segir maður "fluffy" - ætli það myndi ekki þýðast - lókennt/flögrandi! Allar ábendingar eru vel þegnar.

Annars má meðhöndla allt rótargrænmeti á þennan hátt því til bóta - sætar kartöflur, rófur, næpur, nípur, gulrætur, seljurót, rauðrófur, lauk af hvaða gerð sem er og svo framvegis.

Síðan má gjarnan leika sér með hvaða olíur maður notar til að steikja kartöflurnar upp úr. Kraftmikil ólífuolía er auðvitað góð og gild, smjörklípa hefur auðvitað aldrei drepið neinn og gefur sitt einkennandi karmelliseraða bragð. En vilji maður ganga syndinni á hönd þá notar maður gæsa eða andafitu. Slíkt er auðvitað "decadent" en bragðið....krakkar....bragðið er rosalegt. Fátt er betra. Það er svo gott að svoleiðis má einungis gera einu sinni á ári. Ég gerði slíkt um áramótin, þannig að við þurfum að bíða í ár eftir syndinni ljúfu. Þrjúhundruðfjörutíuogtveir langir dagar.

Hin fullkomna ofnsteikta "roast" kartafla! Viva kartöflur!

Auðvitað má nota hvernig kartöflu sem er - en mjölkenndar kartöflur henta jafnvel betur en þær sem eru þéttari í sér. Skýrist nánar síðar í færslunni.


Regla 1.

Flysja kartöflurnar fyrir suðu. Þetta er mikilvægt skref. Það er til þess að ysta lagið á kartöflunni verði vel soðið og verði síðan auðvelt að ýfa upp að lokinni suðu.

Regla 2.

Sjóða í vel söltuðu vatni. Og einungis þarf að forsjóða kartöflurnar í 7 mínútur (ekki sex og ekki átta - þetta er þó ekki alveg svo heilagt). Eftir suðuna er kartöflunum hellt í sigti og þeim síðan kastað til í sigtinu (á ensku tossed - sem er aðeins mildara orð heldur en að kasta). Þetta þarf að gera varlega þar sem maður vill ýfa upp yfirborðið á kartöflunni áður en þær fara í heita fituna en þó ekki svo að þær byrji að brotna í sundur!

Regla 3.

Setja ofnskúffu á hlóðirnar og hella þeirri fitu sem á að nota;  matarolíu, jómfrúarolíu, grænmetisolíu, smjöri, hvítlauksolíu eða gæsafitu, hvað sem er bara þannig að fitan sé heit þegar kartöflurnar eru færðar yfir í skúffuna. Kartöflurnar eru síðan steiktar í fitunni í nokkrar mínútur.

Regla 4.

Salta vel og pipra. Hérna gefst líka tækifæri að lauma að nokkrum kryddum að án þess að skaða réttinn. Rósmarín, timian og slíkar harðgerðar jurtir eru fullkomnar í þennan rétt.

Regla 5.

Ofnskúffan er sett í forhitaðan ofninn, 180-200 gráður, og kartöflurnar steiktar þar til gullinbrúnar og fallegar.

Regla 6.

Búa til góðan aðalrétt sem ekki fölnar við hliðina á hinni "fullkomnu" ofnsteiktu kartöflu

Bon appetit!

rótargrænmeti

Thursday 20 January 2011

Er hægt að gera hollt "Mac and cheese"? Gómsæt útgáfa með blómkáli ogpúrrulauk!

Makkarónur með osti er ákaflega vinsæll réttur vestanhafs og telst til svokallaðs"comfort food". Slíkur matur er yfirleitt hlaðin kolvetnum og oftast gerður með miklu smjöri og rjóma og er eftir því... oftast ári góður. Vermir sálina en hýðir síðuna! Þessi réttur er tilraun til að gera holla útgáfu af þessum ágæta rétt. Og svei mér þá ég held að það hafi bara tekist. Ekki það að hann hafi verið ostlaus - því fer fjarri, en!...en það fór ekki arða af smjöri eða rjóma í réttinn og bara lítilræði af mjólk!

Þessa blómkálssósu bjó ég til um daginn þegar við gerðum grænmetislasagna. Og í stað þess að búa til bechamél sósu (ein af móðursósunum; gerð úr smjöri, hveiti og mjólk) gerðum við sósu sem svipaði til þess sem við gerðum í kvöld. Þessi réttur er líka sannarlega í anda manifestósins sem var sett í upphafi mánaðarins.

Er hægt að gera hollt "Mac and cheese"? Gómsæt útgáfa með blómkáli og púrrulauk!

Fyrst var að setja tvo potta með söltuðu vatni og hita að suðu. 400 gr af blómkáli var skorið í bita og soðið þar til mjúkt - kannski í 8-10 mínútur. Á sama tíma var penne pasta soðið þar til al dente. Þegar blómkálið var tilbúið var það sett í skál, smá skvetta af pasta vatninu bætt við, 150 ml af mjólk, salt og pipar - nóg af því og þeytt saman með töfrasprota. 150 gr af rifnum cheddarosti er bætt saman við.

2-3 msk af kröftugri hvítlauksolíu er dreift í eldfast mót, pastað sett ofan í og blómkálsostasósan hrærð saman við ásamt heilum niðurskornum púrrulauk. Smávegis af rifnum osti er sáldrað yfir. Bakað í þar til osturinn verður gullinnbrúnn. Borið fram með brauðhleif og einföldu salati.

Bon appetit.

Tuesday 18 January 2011

Ljúffeng marókósk Tagine með "butternut" graskeri og kjúklingabaunummeð kúskús

Það varð að víkja útaf Manifestóinu í gærkvöldi - mánudagskvöldið. Ástæðan var að mínu mati skiljanleg. Við höfðum eldað lambalæri með ofnbökuðu grænmeti á sunnudagskvöldið - svona ekta sunnudagssteik og það varð talsverður afgangur af matnum. Þar sem það að henda mat á mínu heimili telst til stærstu synda varð auðvitað að nota afgangana. Og það stóð ekkert í veginum að gera Pytt i Panna - skera kjötið niður í smábita, sem og grænmetið, nota gulræturnar, laukinn og selleríið úr ofnskúffunni (sem var sett undir lambalærið) og steikja þetta saman, hella svo afganginum af sósunni yfir og bera fram með steiktu eggi, rauðkáli og góðu sinnepi. Ljúffengt. En ekki eftir manifestóinu.

Þannig það var aftur á beinu brautina í kvöld. Bróðir minn sá um að útbúa matinn og hann er ansi flinkur í eldhúsinu. Í þetta sinn gekk ég þó frá. Eins og ég hef nefnt nokkrum sinnum áður þá hefur matargerð sunnan miðjarðarhafs verið í talsverðu uppáhaldi síðasta árið700  og við gert nokkrar tilraunir að því að elda ólíka rétti frá þessum heimshluta. Taginuna keypti ég af marókóskum farandsölumanni á torgi í Salzburg í lok ágúst á þessu ári. Stórgóð kaup alveg!

Ljúffeng marókósk Tagine með "butternut" graskeri og kjúklingabaunum með kúskús



Hráefnalisti

1 laukur
4 hvítlauksrif
5 cm engfier
1 msk broddkúmen
1 tsk paprikuduft
1/2 tsk chilli
1 msk kóríander
700 gr grasker
1 dós niðursoðnir tómatar
1 dós kjúklingabaunir
Handfylli þurrkaðar plómur
1 bolli grænmetissoð
Salt og pipar
Jómfrúarolía
1 msk hunang

Fyrst var að skera heilan stóran gulan lauk smátt niður, 4 stór hvítlauksrif og síðan fimm sentímetra af engifer. Taginan var hituð varlega á meðan og þetta síðan steikt þar til mjúkt. Síðan var að bæta við kryddunum; 1 msk cumin, 1 tsk af papriku, 1/2 tsk af chilli, 1 msk af kóríander og steikt í 2 mínútur til að vekja kryddin. Síðan var sett 700 gr af "butternut" graskeri, skornu í tenginga, 1 dós af niðursoðnum tómötum og ein dós kjúklingabaunum auk handfylli af niðurskornum þurrkuðum plómum, einn bolla af grænmetissoði, saltað og piprað, lokið sett á og suðunni leyft að koma rólega upp. Soðið varlega við heldur lágan hita í þrjúkorter. Rétt undir lokin var einni matskeið af hunangi hrært saman við.

Borið fram með kúskúsi gerðu eftir leiðbeiningum. Smávegis grænmetiskrafti, salti og pipar er bætt saman við til að lífga aðeins upp á kornið.

Bon appetit!

Sunday 16 January 2011

Ótrúlega ljúffeng Steik og Guinnessbaka með grænum baunum: Heimsóttaftur - fyrir mömmu!




Við vöknuðum eldsnemma í gærmorgun og rifum okkur á fætur. Þó að það væri laugardagur. Við drifum okkur á skíði. Þegar maður býr á flatlendinu á Skáni er fátt um fína drætti þannig að við keyrðum 100 km norður og við landamæri Skánar og Halland er að finna lítið skíðasvæði, Vallåsen. Þarna eru tvær stólalyftur og nokkrar minni diskalyftur og  svæðið bara furðugott svona miðað við að engin eru fjöllin. Lengsta brautin var tæpir 1300 metrar. Það var þó dagljóst að þetta svæði dró ekki til sín færustu skíðamennina. Svæðið var pakkað af Dönum og virtist annar hver maður standa á brauðfótum. Þrátt fyrir að hafa verið samtals 5 vikur á skíðum síðastliðin 4 ár hef ég aldrei séð svona mörg óhöpp á skömmum tíma. 10-15 glæsilegar byltur, tveir kröftugir árekstrar, einn sem dróst með T lyftunni fastur á fæti - en sigurvegarinn var eflaust náunginn sem keyrði inn í tré án þess svo mikið að bera fyrir sig hendurnar. Engin virtist slasa sig alvarlega þannig að það er í lagi að viðurkenna þá Þórðargleði sem maður upplifði í gær. Hægri hluti framheilans ljómaði!

Núna hef ég gert þennan rétt nokkrum sinnum. Ég klúðraði honum algerlega þegar hann var eldaður í fyrsta skipti. Ég brenndi hann við - royalt! Og það er engin leið til að redda því - brunabragðið er ekki einu sinni hægt að bjarga með rjóma - sem reddar nú flestu! Þetta er réttur sem þarf tæplega þriggja klukkustunda matreiðslu. Þannig að maður verður að hafa nógan tíma. Eins væri hægt að elda kássuna daginn áður og klára svo bökuna daginn eftir (sennilega væri það bragðbest - mér finnst næstum allar kássur batna við að það að fá að slaka á yfir nótt - brögðin einhvern veginn aðlagast betur hvoru öðru. Það verður þó að segjast að þetta er eins og næstum allur matur sem ég elda - ákaflega einfalt. Hvað varðar klúðrið í fyrsta skiptið - þá skildi ég það eftir við lágan hita til að malla á meðan ég skrapp í skvass. Það var því pöntuð flatbaka það kvöldið.

Eftir að ég gerði síðan Beuf Beaurgnion ala Juliu Childs fékk ég síðan áhuga á því að gera þessa kássu aftur. Hennar leið var fólgin í því að setja kássuna við lágan hita inn í ofn - það fannst mér algert þjóðráð. Ég eldaði því kássuna aftur eins og lög gera ráð fyrir nema skellti henni í ofn við 120 gráðu hita - freistaði svo gæfunnar og skellti mér í skvass aftur. Það var nú ekki skvassið sem eyðilagði hana í fyrra skiptið. Núna hef ég eldað hana nokkrum sinnum með þessari aðferð - og hún virkar alltaf. Nokkrir nágrannar mínir hafa líka prófað að gera hana og lukkast vel! Hvet alla til að prófa enda fantagóður réttur.

Ástæða þess að ég er að minnast á þennan rétt aftur er tvíþætt. Í fyrsta lagi er rétturinn svo góður að það er alveg þess virði að skrifa um hann tvisvar. Og í öðru lagi vegna þess að móðir mín lagði hönd á plógin og betrumbætta réttinn. Móðir mín, hún Lilja, er ákaflega dugleg að öllu föndri og slíkt handverk leikur í höndunum á henni. Hún sá um að skreyta smjördeigið og ég er ekki frá því að bakan hafi verið ennþá betri fyrir vikið. Fallegur matur smakkast eitthvað örlítið betur en matur sem er ljótur fyrir augað. Mamma - takk fyrir hjálpina.

Ótrúlega ljúffeng Steik og Guinnessbaka með grænum baunum: heimsótt aftur fyrir mömmu!


Fyrst er að byrja því að vinna kjötið aðeins. Um það bil kíló af nautakjöti - alls ekki dýrum bita, en vel fitusprengdum (rétturinn verður eldaður það lengi að allt kjöt verður meyrt eftir þann tíma) - er skorið í 2,5 cm sinnum 2,5 cm stóra bita. Bitarnir eru þurrkaðir vel með eldhúspappír og síðan saltaðir og pipraðir. Þá eru þeir steiktir í vel heitri olíu þannig að þeir brúnast fallega. Gætið að fylla ekki pottinn af kjöti - þá lætur kjötið frá sér vökva og sýður frekar en að karmelliserast á pönnunni. Þegar kjötið brúnað þá er það tekið úr pottinum og lagt til hliðar á meðan farið er í næsta skref. Þá er að skera niður tvo hvíta lauka, 5-6 hvítlauksrif, tvær stórar gulrætur og 2-3 sellerístangir - sem er svo steikt í olíu, saltað og piprað í kannski tíu mínútur við miðlungshita. 




Gæta þess að brenna ekki grænmetið. Þegar grænmetið er glájandi og fallegt þá er kominn tími á að bæta kjötinu saman við. Ég velti kjötbitunum fyrst upp úr hveiti áður en þeir fóru aftur í pottinn - þannig býr maður til smá "roux" og auðveldar að kássan þykkni. Þá er bætt tvær dósir af guinnes bjór.




Nóg af fljótandi nautakrafti, bolli af vatni,  salt, pipar, 250 gr af sveppum, 20 steikarlaukar (smálaukar) 2 msk af ferskri rósmarín, 1 tsk af þurrkuðu timian og tvö lárviðarlauf. Hrært vel saman og hitað. Þegar suðan er kominn upp þá er lok sett á pottinn og hann settur inn í ofn 2-2 1/2 klukkustundir við 120 gráðu hita (þá er þjóðráð að gera eitthvað annað).




Smjördeig geri ég aldrei sjálfur - það er hægt að fá  það frosið allstaðar, og það er yfirleitt ljúffengt. Tek nóg út úr frystinum til að búa til botn og síðan auðvitað lok.  Smjördeigið er lagt í mótið, passa að láta það liggja þétt að. Kássan er tekin úr ofninum, hún mun lykta stórkostlega - ég lofa!



Bætti handfylli af rifnum Cheddarosti í kássuna og hræði saman, þá varð hún en þykkari. Kássan er hellt yfir í mótið, cheddarostur er rifin yfir, og lokið sett á. 



Bakan skreytt - og sá móðir mín alfarið um það!  Það er mikilvægt að setja nokkur göt á lokið til að hleypa gufunni út. Lokið er penslað með smá eggjaþvotti (egg og skvetta af vatni) - og bakað í 30-45 mínútur þar til smjördeigið er fallega gullið.


Borið fram með grænum baunum og heimagerðum frönskum - niðursneiddar kartöflur, velt upp úr smá olíu, saltaðar vel og bakaðar í ofni þar til fallega gullin brúnar, kannski 45 mínútur.



Með matnum drukkum við Montes Alpha Cabernet Sauvignion frá 2006. Ég hef nokkrum sinnum bloggað um þetta vín áður - enda ekki skrítið þá er þetta eitt af mínum uppáhaldsvínum. Þegar ég keypti það inn í fyrsta sinn veitti ég því athygli að það var flutt inn í viðarkössum. Þetta er stórt Cabernet Sauvignion í þeim skilningi að þetta vín fyllir munninn - kraftmikið, þungt á tungu, eikað, djúpur og dökkur ávöxtur og með löngu eftirbragði - namminamm. Passaði stórvel með matnum og sveik ekki sem endranær.


Bon appetit.

Friday 14 January 2011

Fantagóðar flatbökur á föstudagskvöldi. Allt rímar í vikulok!

Á föstudögum höfum við oft haft þann háttinn á að gera flatbökur. Slíkt hef ég bloggað um oft áður. Við ótal tækifæri! Læt fylgja nokkra hlekki! Það er bara engin leið að verða leiður á þessum mat. Samt, ef maður brýtur þetta niður þá er þetta bara brauð með osti. Bara brauð með osti. Sem er jú líka déskoti gott! Auðvitað breytir það eitthvað málinu að setja ferskt deig, með ljúffengri sósu og góðum osti inn í rjúkandi heitan ofn. Horfa á þunnt brauðið bakast og gullna, jafnvel sjá nokkrar loftbólur dúkka upp, osturinn umbreytist - verður gullinn og mjúkur og dásamlegur. Semsagt brauð með osti í hæstu hæðum.



Svo er það líka svo ánægjulegt hvað það er einfalt að gera góða pizzu. Það hvarflar ekki að mér lengur að panta pizzu - okei... það kemur fyrir - en mjög sjaldan. Svo finnst mér líka svo gaman að fá börnin með í eldhúsið og pizzur er fullkomnar að því leyti. Það er ánægjulegt að geta leyft börnunum sínum að vera með í eldhúsinu þannig að þau geti síðan notið afrakstursins. Flatbökugerð er svo einföld að jafnvel smábörn geta fengið að prófa að rúlla út deigið og/eða raðað á áleggi þannig að þau geta verið stolt af verki sínu. Svo eru þetta  líka frábærar samverustundir.

Og svo má setja hvað sem er á flatböku. Það er nú svo einfalt. Einhvertíma hefur einhver sett hvaðsemer á pizzu. Í þessari færslu ætla ég að gera grein tveimur flatbökukvöldum.

Við áttum heilmikið af afgöngum eftir áramótaveisluna og við ákváðum að það til að nýta afgangana sem best væri einfaldast að skera þá niður á flatböku. Og það var gott. Í kvöld verður þetta ekki eins eksótíkst. En til að halda í manifestóið ætla ég að minsta kosti að gera eina flatböku sem er hlaðin sjávarréttum. Og með þessu er maður auðvitað með gott rauðvínsglas.

Eins og ég nefndi áður þá hef ég bloggað oft áður um flatbökuævintýrin í eldhúsinu mínu:  Hérna er ein með kartöflum, önnur með humri og þistilhjörtum - alveg geðveikt góð! Ég hef nokkrum sinnum grillað flatbökur, eitt sinn fyrir nokkra verðandi sálfræðinga og svo var þessi elduð á grillinu vorið 2000. Svo hef ég prófað að steikja pizzur - pizza fritta, þessi steikta útgáfa er líka gómsæt sem og Calzone eða hálfmánalagaflatbaka. Svo gerði ég þessa seint haustið 2009.  Þannig að þetta er ekki í fyrstasinn sem ég blogga um flatbökur - það er alveg ljóst!

Maður verður bara aldrei þreyttur á flatbökum.

Fantagóðar flatbökur á föstudagskvöldi. Allt rímar í vikulok!

Allavega ... snúum okkur að matnum.Fyrst var að gera deigið. Útí 300 ml af ylvolgu vatni er sett 2 tsk þurrger og 30 g af sykri eða hunangi. Blanda saman vatninu, gerinu og sykri og leyfi gerinu að vakna - þá freyðir svona ofan á vatninu - tekur svona 10-15 mín. 400-600 gr. hveiti er er sett í skál og saltið og olíunni blandað saman við. Mikilvægt er að leyfa gerinu að vakna vel og rækilega og ekki setja saltið þarna úti - þar sem saltið hamlar aðeins gerjunarferlinu. Blanda vatninu svo hægt saman við hveitið þar til það verður að góðum deigklump. Það er mikilvægt að hræra deigið vel - þannig hefast það mikið betur og bragðast líka betur. Ég vil að deigið dúi vel undan fingri og þegar áferðin er þannig að deigið jafnar sig hratt þegar maður ýtir fingri í það breiði ég viskastykki yfir skálina og leyfi að hefast - eins lengi og maður hefur tíma. Deigið er nóg í tvær pizzur.


Sósan var einföld - og átti bara að liggja í bakgrunni til að leyfa kjötinu og sveppunum að njóta sín. Dós af góðum niðursoðnum tómötum sett í pott, væn skvetta af balsamic ediki, tómatpure, sykur, salt, pipar. Done! (eins og Gordon Ramsey segir í lok allra uppskrifta sinna)

Fyrir þá sem lásu áramótafærsluna mína þá má sjá að ég var með bæði önd, risotto, aspas og dádýrshrygg í matinn. Og ég átti fullt afgöngum. Þeir enduðu allir á flatböku þann 2. janúar.

Flatbaka með þunnt skorinni andabringu, aspas og risottohnoðrum.


Flatbaka með þunnt skornum dádýrshrygg og gæsafituofngrilluðum kartöflum. OMG



Í kvöld var ég svo - í anda manifestósins - með ljúffenga sjávarréttarpizzu, auk annarra. Raðaði niðursoðnum túnfisk, rækjum og síðan ansjósum á flatbökuna ásamt niðurskornum rauðlauk og kapers. Síðan ost auðvitað og smávegis af rjómaosti. Ekki gleyma að salta og pipra.


Síðan gerðum pizzuna sem Villi sonur minn vildi fá - með skinku og sveppum. Og að lokum Quattro Stagione sem er sígíld flatbaka með skinku, þistilhjörtum, ólívum og sveppum. Ljúffeng.


Við gerðum þessa fyrirtaks hvítlauksolíu; settum í blandara - 6-8 hvítlaukrif og bolla af olíu. Þeytt saman og maður fær þessa dásamlegu ilmríku grænu kraftmiklu hvítlauksolíu. Hvílík kjarnorkuhvítlauksolía. Með matnum nutum við víns frá Spáni, Pata Negra, sem er Tempranillo vín frá því 2004. Þetta er vín sem er dökkt og heldur þykkt í glasi, ilmar af sólberjum og jafnvel smá leðri. Á bragðið dökk ber - fyllir munninn ágætlega með góðu eftirbragði.


Bon appetit!

Thursday 13 January 2011

13. janúar: Gómsætur ofnbakaður lax með austurlenskum áhrifum,hrísgrjónum og salati


Þetta er fyrsta formlega færslan mín hérna á Eyjunni - Sarpurinn minn var þó fluttur yfir í morgun af tæknifólki eyjunnar og kann ég þeim góðar þakkir fyrir. Fyrir þá sem hafa áhuga er þar að finna færslurnar mínar í gegnum árin. Allt um matargerð frá því að ég byrjaði að blogga, rétt fyrir jólin 2006!  Ég er þó ekki menntaður kokkur, langt í frá - bara áhugamaður ... jafnvel má ganga svo langt að segja ástríðumaður í matargerð.  Dagvinnu hef ég þó aðra, og þá er ég  læknir í sérnámi í lyf- og gigtarlækningum og er búsettur á Skáni ásamt fjölskyldu minni. Síðastliðin áratug hefur mitt aðal áhugamál verið eldamennska, matur og vín. Þessu áhugamáli hef ég reynt að gera grein fyrir í gegnum bloggið mitt. Ég hef áður bloggað á moggablogginu og síðan gerði ég tilraun til þess að blogga á miðjunni. Hingað er ég þó kominn núna. Takk fyrir góðar móttökur!

P.s . Allar athugasemdir, ábendingar, uppskriftir eru vel þegnar. Er alltaf á höttunum eftir nýjungum!

----

Lífið heldur áfram sinn vanagang. Það er ótrúlegt hvað tíminn líður alltaf hratt. Mér finnst vikurnar hreinlega þjóta áfram næstum því án þess að maður taki eftir því. Seinast þegar maður leit upp voru nokkrar vikur í jól. Núna eru þau liðin tíð. Og janúar að verða hálfnaður. Dísus.

Þennan rétt hefur eiginlega konan mín gert að sínum. Ég hef áður bloggað um heldur keimlíkan laxarétt um sumarið 2008 þegar við bjuggum hjá foreldrum mínum áður en við fluttumst til Svíþjóðar. Þá var sósan aðeins öðruvísi og laxinn fór á grillið. Þessi réttur var vissulega einfaldur - var undirbúinn á 5 mínútum og svo var restin bara að bíða eftir því að hann yrði tilbúinn.

Þeir sem fylgjast með blogginu mínu sjá að ég oft með lax á boðstólnum. Ástæða þess er einföld - það er besti fiskurinn sem hægt er að kaupa ferskan hérna á meginlandinu á viðráðanlegu veðri. Það er ekkert óvenjulegt að borga 250-300 SEK fyrir lúðu eða skötusel. Fiskmeti er lúxusfæða á þessum slóðum. Auðvitað er hægt að kaupa hann frosinn frá Findus í búðunum en í mínum bókum fær sú vara alger falleinkunn. Frosinn fisk er hægt að fá frá "fiskbílunum", sem ég hef skrifað um áður en það verður líka að teljast munaðarvara.

13. janúar: Gómsætur ofnbakaður lax með austurlenskum áhrifum, hrísgrjónum og salati


Fyrst var að gera sósuna - eða marineringuna sem laxinn var eldaður í. 50 ml af soyasósu, 25 ml af teriyaki sósu, 2 msk af Mirin ásamt 2 tsk af sykri var sett í pott og hitað upp að suðu og soðið niður um þriðjung. Eldfast mót er penslað með smávegis jómfrúarolíu. Laxinn er þveginn og þurrkaður og síðan settur í eldfast mót. Sósan er hellt yfir fiskinn, saltað og piprað og að lokum er sesamfræjum stráð yfir.

Sett inn í forhitaðan ofn, 180 gráður, og eldaður í 20 mínútur þar til hann er eldaður í gegn. Þegar tilbúinn var nokkrum niðurskornum steinselju laufum sáldrað yfir. Auðvitað hefði kóríander verið betri en því miður var hörgull á því í ísskápnum mínum. Suðum basmati hrísgrjónum skv. leiðbeiningum og bárum fram með auk ljúffengs einfalds salats.

Með matnum var í boði smávegis hvítvínstár. Ég hafði keypt þessa flösku, Fleur de Cap Unfiltered frá því 2009. Smakkaði aftur nýverið Chardonnay-ið frá þeim sem var ansi ljúffengt vín. Þetta vín er jöfn blanda af fjórum ólíkum þrúgum, chardonnay, sauvignion blanc, semillion og síðan viognier. Þetta er ansi kröftugt vín - ilmar af ávöxtum, ferskt á bragðið, þétt og aðeins smjörkennt ansi bragðmikið. Þetta var ágætis vín sem passaði vel með matnum.

Bon appetit!

Monday 10 January 2011

10. janúar: Steinbíts- og smálúðufiskibollur með hvítlaukssósu,kartöflum með dilli og salat



Núna er aftur kominn virkur dagur. Og þá vík ég aftur að manifestóinu - það þýðir ekkert að gefast upp strax þrátt fyrir smá frávik strax á fimmtudaginn í seinustu viku. Og á mánudögum er löng hefð fyrir því að hafa fisk. Þetta auðvitað góður vani á mörgum íslenskum heimilum. En það er engin kúltur fyrir þessu í hérna í Svíþjóð. Það er meira að segja svo að hérna í á Skáni tíðkast það að loka fiskbúðum á mánudögum enda oft um hráefnafæð á þessum dögum að því að mér skilst mér á kaupmönnunum.

Anthony Bourdains sagði í bók sinni The Kitchen Confidentia "that you should never order fish on a monday" og gaf síðan góðan skýringu á því. Það væri vegna þess að sá fiskur hafði verið pantaður inn vikunni áður og væri því orðin gamall. Auðvitað var hann að ræða um veitingastaði en það kæmi mér ekkert á óvart ef þetta ætti við margar fiskbúðir á meginlandinu. Á Fróni er þetta auðvitað ekkert vandamál. Góður fiskur er vaninn ekki undantekningin.

Ég átti fisk í frystinum sem ég gat tekið út. Átti eitt ræfilslegt smálúðuflak sem hefði ekki dugað upp í nös á ketti en ásamt nokkrum bitum af steinbít varð þetta nóg í máltíð fyrir fjölskylduna. Steinbítur er ógurlega ljótur fiskur og var ásamt skötuselnum lengi vel hent aftur í sjóinn varð einhver sjómaður svo óheppinn að fá þessa skepnu á línuna hjá sér. Þetta þykir matfiskur góður - en ég verð að segja að ég kann meira við skötuselinn! Hann er jú humar fátæka mannsins (þó kostar hann hvítuna úr augunum). Myndina fékk ég lánaða af heimasíðu Sævars Þórs Ásgeirssonar - vona að hann fyrirgefi mér lánið.

10. janúar: Steinbíts- og smálúðufiskibollur með hvítlaukssósu, kartöflum með dilli og salat

Að gera fiskbollur er einfalt. Ég var með um 700 gr af fiski sem ég setti í gegnum hakkavél, síðan einn og hálfan lauk, 2-3 hvítlauksrif, nóg af salti, sítrónupipar, kúfaða skeið af grófu dijon sinnepi, 3 egg og kannski rétt rúman bolla af hveiti. Síðan er bara að hita blöndu af smjöri og olíu á stórri pönnu og þegar hún er orðin heit - byrja að steikja fiskibollur. Steikja við miðlungshita þar til gullinbrúnar á öllum hliðum og steiktar í gegn.

Borið fram með soðnum kartöflum og þegar tilbúnar, 1 msk af olíu hellt yfir og saxað ferskt dill. Gerðum einnig gott salat - með grænum laufum, rauða papríku, tómat, rauðlauk og smávegis af fetaosti.

Með matnum var ég með sömu sósu og gerði með laxinum. Hún var svo ári góð að það var ekkert úr vegi að endurtaka leikinn. 3-4 matskeiðar af létt creme fraiche, 2 tsk af hvítlauksolíunni góðu, safi úr hálfri sítrónu, salt og pipar eftir smekk.



Bon appetit.

Saturday 8 January 2011

The DEATH STAR of all Cheese burgers:Magnificent moose burger withmature chedder, homemade garlic aioli and caramellized onions!



This blog will be in English - in the sovereign tongue of the mighty English language. Lets hope it holds the adjectives and nouns necessary to decribe this wonder that was our supper this so very cold and dark evening of the seventh of january of the new year of 2011. One might ask - why convert from your native tongue, the beautiful Icelandic language, a language of utter beauty and vocal clarity. The answer is easy!

It is to try win in at least two T-shirts from the Burger and Cheese Society of America. Some might find this quest a meager one - but I find it quite worthy - and worthy of at least .... at least two T-shirts branded in the grandiose name of the Society. In this I will this succeed - of that I am sure!

The mince moose came from one of my good neighbours who is a hunter. He is an ex-marine in the swedish army and learned to hunt from his father. They have hunting grounds in Sweden Smålands were this fall the got three moose. Moose are large creatures. Every animal has 200-300 kg of meat on them. That means alot of meat.... meat! For us lucky neighbours this means scraps. And not just normal scraps - really good scraps! We got some innerthigh, minced shoulder and some other cuts. Gustav and Ulrika - thanks for a wonderful meal!

The DEATH STAR of all Cheese burgers: Magnificent moose burger with mature chedder, homemade garlic aioli, portobello mushrooms and caramellized onions!



First things first! Usually the first things are the most important - this one isn't so. Pour a cold glass of beer and a small glass of Macallan 12 year old single malt Scotch and contemplate how awesome this meal is going to be! And it will be - the beer and scotch are just complementary!
Well - second things seconds. Slice down a couple of red onions. Warm some garlic oil in a pan and throw in the onions and fry over a low-medium heat - careful not to brown or burn the onions. We want them soft, sweet and savory. After 8-10 minutes add a tablespoon of golden syrop and cook for a minute. And then add 2-3 tablespoons of good balsamic vinegar. Bring to a boil and then boil down to a concentrate. Season and when ready set aside and keep warm.

Cut 3-4 portobello mushrooms into medium size squares. Fry over low heat in some garlic oil. Season with some salt and freshly ground black pepper. Set aside but keep warm.



Made some homemade ailoi - which is a just fancy name for homemade mayo! But it is more fancy than mayo - I promise! First squeeze two garlic cloves in a bowl (usually just one clove of garlic is required but I wanted it too be more pungent), add a heaped teaspoon of good Dijon mustard (Edmond Fallot for example), and one yolk from an egg of a happy chicken. Whisk. Add at a steady but sumptle stream of olive oil while whisking constantly and incorporating the oil in the emulsion. If you whisk this will work - if not you will have goo - probably delicious but goo at the most! Season with salt and pepper!



For the burgers I had some good moose meat - made from the shoulder. The moose is a rather lean creature and has a rather low fat concentration. Fat in the meat of the burger is as important as the fat in a good sausage! So I added in some ground pork (24% fat). I had a ratio of eighty procent minced moose (fat about 8%) and the rest ground pork. Mix thoroughly together. Form into patties and season generously with salt and pepper. Wait for the grill to warm up. If you are impatient - have a cold beer out in the cold weather. It eases the wait and you gain perspective.



Fire up the grill - even though it is in the midst of winter (the heaviest winter in south Sweden in record). There is something cool (both literally and figuratively) about grilling in the snow. When the grill is hot place your burgers on the grill. After a few minutes turn them and place thick slices of mature cheddar cheese on the burgers and cook till the cheese has melted.



Serve with some homefries. Now some say that homefries fade in comparison to the fast food ones. I am not one of those "somes". The key to a succsesful homefry is the double fry! Cut good quality potatoes into fry-looking strings. Heat your oil. To check when it is ready it is easiest to use a thermometer - the temprature you are looking for is around 190 degrees Celsius. You can also put one fry in in the beginning - if it sizzles you ready to roll. Be careful not to overheat your oil - unless you want to invite the members of the fire department for dinner!


Now some might argue that a the best beverage for a burger would be a beer for the grownups and soda for the younglings. But for a meal of this caliber I thougt that a bottle of red wine would be in order and in hindsight this was not a mis-judgement! I popped the cork of an Italian wine - Monte Garbi Ripasso from 2008. It is made from a blend of three grapes, mostly Corvina in the region outside Venice. I found this to be an enjoyable wine, scents of dark fruit, rather delicate and dry on the tongue. Went really well with the burger.



Back to the burger; The death star of all cheeseburgers! It was made in the following manner. French dijon on the bun, then the portobello mushrooms, placed the tomatoes next, then rocket leaves. Now for the burger - dripping with chedder cheese, caramellized red onions on top and then close the deal with a bun spread with garlic aioli. Holy moly! Biting into this was a dream - an adventure for the tastebuds. I urge you to try it!



Bon appetit!

Friday 7 January 2011

6. janúar: Penne Pasta með ofngrilluðum laxi, tómötum og blönduðumkryddjurtum með heitu baguette - er manifestóið strax fokið?

Það var talað digurbarkalega um manifestó, af undirrituðum, í seinustu færslu. Þar bar á miklu tali um grænmetisrétti einn daginn og svo fiskrétti hinn. Hérna varð ég strax að brjóta reglurnar ... Maður er ekki betri maður en þetta?!? En skýringarnar eru ágætur (að mínu mati); Reglur tengdamóður minnar um nytsemi vógu hærra en skráð, þó ekki þinglýst, manifestóið. Maður verður að vera nýtinn. Ísskápurinn var fullur af afgöngum frá því kvöldinu áður. Og maður getur ekki hent afgöngum - slíkt gengur á móti góðum lögmálum.

Þannig að úr varð að reyna að samtvinna manifestóið um grænmetis- og fiskrétt í einn og sama réttinn. Og úr varð þessi uppskrift. Ég reyndi að blanda saman eins miklu grænmeti í réttinn og unnt var á skömmum tíma! Þið kannski prófið þetta sjálf. Eftir á að hyggja hefði þurft að sæta réttinn aðeins með sykri eða skvettu af tómatsósu. Þið dæmið sjálf!

6. janúar. Penne Pasta með ofngrilluðum laxi, tómötum og blönduðum kryddjurtum með heitu baguette - er manifestóið strax fokið út um veður og vind?

Byrjum á því að saxa niður kryddið - þá verður svo góð lykt í eldhúsinu. Ilmurinn af skornu basil, steinselju og pipruðu klettasalati fyllir vitin!

kryddjurtir

Eins og fram kom í seinustu færslu voru laxmedalíur eldaðar á miðvikudagskvöldið. Það varð talsverður afgangur - og slíkt verður að virða. Ofar tíðræddu manifestói. Vona bara að ég standi mig betur í næstu viku... sjáum til!

tómatar

Fyrst var að steikja einn smátt skorinn rauðlauk og 3-4 hvítlauksrif í olíu á heitri pönnu. Síðan var einum stórum niðurskornum tómat bætt samanvið og saltað og piprað. Steikt um stund. Þá var að bæta handfylli af steinselju, basil og klettasalati, smátt skornu á pönnuna og steikt þar til það hefur aðeins koðnað niður. Síðan var laxinum bætt við á pönnuna ásamt einum bolla af grænmetissoði. Saltað og piprað.

IMG_4000

Pastað soðið eftir leiðbeiningum í ríkulega söltuðu vatni þar til al dente. Vatninu hellt frá og pastanu bætt saman við sósuna. Parmaosti sáldrað yfir, ásamt aðeins meira af salti og pipar. Borið fram með smávegis brauðhleif og góðu salati og kannski hvítvínstári.

Bon appetit!

Thursday 6 January 2011

Manifestó fyrir janúarmánuð og syndaaflausn á nýju ári: Ljúffengirfiskréttir og gómsætir grænmetisréttir!



Þetta er búið að vera endalaus veisla! Ég hef reynt að gera grein fyrir þessu á blogginu mínu og held að það hafi tekist ágætlega. Lesendur hafa kannski tekið eftir að það hefur verið eldað - eldað og aftur eldað síðastliðnar vikur! Og ekkert léttmeti hefur verið á borðum svosum - enda engin venja að gera svo - það hefur verið notað smjör og rjómi og jafnvel gæsafita og allt sem er gott í lífinu.

Núna verður blaðinu snúið við. Í janúar - í byrjun nýs árs verður það hollt og gott! Það verður þemað. Ekki að ég er að hugsa sérstaklega um neitt megrunarfæði - verði það aukaverkun af þessu öllu - þá er það gott og blessað. En eftir þvílíkt og annað eins kjötát undanfarnar vikur verður að prófa eitthvað nýtt. Og vonandi verður það gott - og vonandi hollt.

Ég vaknaði á Nýársdagsmorgun með þessa hugmynd. Manifestó fyrir janúar! Að elda 16 grænmetisrétti og 16 fiskimáltíðir! Talnaglöggir munu strax sjá að þessi aðferð mun seint ganga upp þar sem mig hreinlega skortir daga til að afgreiða allt þetta. Nema þá að eldað yrði tvisvar á dag. En það er nú vart raunhæft. Ég á jú að heita að vera í vinnu á daginn! Þannig að eftir smávægilegar breytingartillögur á manifestóinu mínu var ákveðið að þetta verkefni yrði einskorðað við virku dagana. Þannig að hérna kemur manifestóið fyrir janúar....bíddu aðeins....það þýðir þó ekki að það má ekki slæða inn einstaka syndum á milli. Maður verður að hafa nammidaga? - fá að draga inn andann af og til - annars springur maður bara á limmunu.

Ókei ... víkjum aftur að Manifestóinu.

Fiskmáltíð annan hvern dag. Og hinn daginn einhvers konar grænmetismáltíð!

Manifestó fyrir janúarmánuð og syndaaflausn á nýju ári: Ljúffengir fiskréttir og gómsætir grænmetisréttir!

Ég náði ekki að taka ljósmyndir af fyrstu tveimur máltíðunum, en mun reyna að gera það í framtíðinni.

3. Janúar: Skötuselur í tamarindtómatsósu (indversk stemmning) með hrísgrjónum og salati.

Þrjú hvítlauksrif, 6 cm af engifer - bæði smáttskorið steikt í olíu þangað til gljáandi. Bætti síðan saman við 2 rauðlaukum skornum í sneiðar (hringi). Salt og pipar og steikti þar til mjúkt. Síðan setti ég matskeið af tamarind paste, teskeið af kúmen og kóríander og síðan hálfa teskeið af chilli og sterkri papriku. Steikt í 2 mínútur til að vekja kryddin. Síðan tvær dósir af tómötum, jafnmikið af vatni, 2 fiskikraftsteninga og síðan nokkrar skvettur af tómatsósu (ekki segja neinum frá því að ég hafi notað tómatsósu). Soðið upp. Síðan var skötuselnum, skornum í nokkuð stóra bita, bætt útí og soðið í nokkrar mínútur í sósunni. Það má í raun slökkva á hitanum þegar fiskurinn er settur útí. Borið fram með basmati hrísgrjónum og blönduðu salati.

4. janúar. Rússnesk rótargrænmetissúpa með heimagerðu gerlausu brauði

Skera rótargrænmeti – kartöflur, sætar kartöflur, gulrætur, nípur – í bita ásamt stórum lauk. Steikja í smjöri þar til laukurinn er orðinn glær. Bæta við a.m.k líter af grænmetis eða kjúklingasoði, smátt skorni steinselju og örlitlu múskati. Leyft að malla í 30 mínútur eða þar til allt grænmetið er orðið mjúkt. Á meðan súpan mallar steikja kál í smjöri þar til það mýkist. Mauka súpuna með töfrasprota og bæta svo kálinu við og því leyft að malla með í 10 mínútur.

5. janúar. Laxamedalíur með hvítlaukssósu, bakaðri kartöflu og haloumi salati

Ég keypti heilan lax og skar hann í þykka þverskorna í bita. Auðvitað er hægt kaupa steikurnar skornar í sneiðar - en það er oftast miklu dýrara. Ég er þegar kominn með plön fyrir afganginn. Nánar um það síðar. Til að útbúa steikurnar má gera það eins og sést á þessum myndum.

laxame_fer.jpg

Byrja á því að leggja sneiðina fyrir framan sig og reyna að pilla beinin úr steikunum. Þau liggja í miðjunni auðvitað - og þau er vonlaust að fjarlægja án þess að eyðileggja bitann. En hin sem liggja klukkan 10 og klukkan 2 (ef maður ímyndar sér stykkið eins og klukku) og þau er auðvelt að plokka út.

laxame_fer_2.jpg

Svo er að fjarlægja hrygginn, skera í hringum hann, og klippa hann síðan út. Einnig þarf að fjarlægja himnuna sem snýr að kviðarholinu og bein sem kunna að liggja þar að.

laxahringur.jpg

Síðan er ekkert eftir nema að vefja fisknum saman og binda fast með snæri svo hann opni sig ekki við eldun.  Saltaður og pipraður. Síðan penslaði ég hann með hvítlauksolíu; heill hvítlaukur flysjaður og maukaður með töfrasprota saman við bolla af jómfrúarolíu. Kreisti einnig smávegis af ferskum sítrónusafa yfir. Steikt upp úr smjöri/olíu á báðum hliðum í 1-2 mínútur á hvorri hlið og svo sett í eldfast mót og bakað í rúmlega 10 mínútur við 200 gráðu hita þar til eldað í gegn.

lax á pönnu

Gerði síðan hvítlaukssósu til að hafa með fisknum. 1 dós af léttum creme fraiche, salt, pipar, sítrónusafi úr hálfri sítrónu og síðan 2 msk af hvítlauksolíunni sem ég hafði búið til.

lax á borðum

Borið fram með bökuðum kartöflum og haloumi salati. Blönduð græn lauf, smátt skorin papríka, rauðlaukur og svo steinselja og síðan nokkrar sneiðar af grilluðum haloumi osti.

Með matnum drukkum við ljómandi gott hvítvín frá Suður Afríku, Fleur du Cap Chardonnay frá 2009. Þetta er hreint út sagt afbragðs gott hvítvín. Fallega gult í glasi. Ilmar af sítrus ávöxtum. Á tungu er það heldur ljúft, kröftugur ávöxtur, sítrónukeimur og mjúkt eftirbragð. Passaði alveg fyrirtaks vel með matnum.

IMG_3991

Bon appetit!

Sunday 2 January 2011

Áramótaveislan: Appelsínugljáð andabringa og langeldaður dádýrshryggurmeð öllu tilheyrandi og creme brulée í dessert. Gleðilegt ár!

Þetta er búið að vera ágætis ár. 2010. Og núna er það liðið og nýtt ár gengið í garð. Það er búið að vera mikil veisla núna yfir hátíðirnar eins og ég hef reynt að greina frá á blogginu mínu. En þannig er það nú hjá flestum. Í janúar byrjar maður eins og venjulega að hugsa aðeins meira um línurnar og hollustuna. Maður er eiginlega komið með upp í kok af veislumat. Ég ætla nú samt að greina frá veislunni áður en ég sný við blaðinu. Er með smá áform í gangi sem ég greini frá í næstu færslu. Eða þar næstu - sjáum hvað áramótaheitið heldur lengi!

Foreldrar mínir flugu til Íslands á gamlársdagsmorgun. Við keyrðum þau niður á lestarstöð og það var sárt að sjá þau fara. Það hefði verið gaman að hafa þau með á gamlárskvöld hérna hjá okkur. Við hittum þau aftur eftir nokkrar vikur. Við eigum stefnumót á Skihotel Speiereck í Austurríki. Þar ætlum við að fara í fjórða skiptið og renna okkur á skíðum. Það verður frábært - eins og alltaf. Fyrir þá sem vilja gista á heimilislegu og góðu skíðahóteli í Ölpunum endilega kíkið á heimasíðuna þeirra Dodda og Þurýjar - sjá hérna. Frábær stemming á hótelinu þeirra. Mér líður alltaf eins og ég sé að koma inn á annað heimili!

Annars breyttust plönin okkar fyrir áramótin ansi mikið á gamlársdag. Ég frétti af góðum kollega sem hafði engin áform um áramótin og við buðum honum í mat. Síðan hættu nágrannar okkar, Gustav og Ulrika, við að aka upp í sumarhúsið sitt í Smálöndunum og við ákváðum að borða saman. Veislan stækkaði og dafnaði á síðasta degi ársins og það þótti mér skemmtilegt. Gustav veiðir mikið og lagði til þennan dádýrshrygg sem var felldur rétt fyrir utan Hässelholm.

Áramótaveislan: Appelsínugljáð andabringa og langeldaður dádýrshryggur með öllu tilheyrandi og creme brulé í dessert. Gleðilegt ár!

grænmeti

Að elda öndina var einfalt. Bringurnar voru teknar úr umbúðum, þvegnar og þurrkaðar og síðan látnar standa og þorna rækilega áður en þær voru steiktar. Það tryggir af húðin/fitan verður stökk og knassandi þegar hún steikist. Steikt úr smá olíu, fyrst með húðina niður. Tvær mínútur á hvorri hlið. Fært yfir í eldfast mót og síðan penslað með appelsínuhunangsgljáa. Hann er einfalt að gera. Tvær msk af olíu, safi úr tveimur appelsínum og þrjár matskeiðar af lífrænu hunangi hitað í potti. Penslað á bringurnar í þykku lagi. Bakað í ofni þar til að kjarnhiti fer í 82 gráður. Látið standa í 15 mínútur eftir að bringurnar voru teknar úr ofninum.

dádýr

Dádýrið hafði ég í hyggju að langelda. Dýrið hafði verið fellt snemma á tímabilinu og var því ansi magurt og því tók ég á það ráð að spekka það með beikoni. Kryddaði það síðan með rósmaríni, salvíu og timiani og síðan með hvítlauk frá Lautrec í Frakklandi sem ég keypti í Frakklandi þegar við vorum þar á ferðinni síðsumars. Hvítlaukur frá þessum bæ þykir vera einn sá besti í heiminum. Þessi hvítlaukur er í raun aðeins bleikur, mildari og sætari en hvíti frændi þess. Aðeins hvítlaukur frá þessum bæ má bera þetta nafn og hefur þessi vara verið sæmd titlinum Prince des Condiments sem ku vera flottur titil að bera - meira að segja fyrir hvítlauk. Hann er alltént ofboðslega bragðgóður. Svíar rækta einnig tegund af rósahvítlauk sem er ansi góður, frá Hammenhög á Österléni. Ég notaði heilmikið af hvítlauk - allavega 2-3 lauka sem ég dreifði yfir kjötið. Það var síðan pakkað inn í álpappír og eldað við 150 gráður í tvær klukkustundir. Látið standa í 30 mínútur áður en það var skorið niður. Eftir á að hyggja hefði ég átt að elda það við aðeins lægri hita til að hafa það aðeins rauðara. En bragðið var ótrúlegt og kjötið var meyrt og gott.

Lautrec hvítlaukur

Ég hafði verið það forsjáll á aðfangadag að frysta hluta af rauðvínssoðsósunni áður en ég fór að smakka hana til og bragðbæta. Þannig átti ég fantagóðan rauðvínslambafond sem grunn til að nota með kjötinu í kvöld. Þetta var svo mikið að það var ekkert mál að kljúfa það niður í tvo potta og gera tvær ólíkar sósur, aðra til að hafa með öndinni og svo hina til að hafa með dádýrinu.

spekkaðurhryggur

Eins og kom fram í jólafærslunni var sósan gerð frá grunni, Fyrst brúnaði ég 2 kíló af lambabeinum. Síðan var grænmetið skorið gróft niður; 2-3 gulrætur, 2-3 sellerístangir, einn stór laukur, nokkur hvítlauksrif - sett í pott ásamt nokkrum lárviðarlaufum, piparkornum, salti og steikt í nokkrar mínútur þar til mjúkt og síðan er beinunum bætt saman við og öllum safa sem fylgir. Vatn bætt í þannig fljóti yfir. Soðið upp og skumminu er síðan fleytt af eftir bestu getu. Leyft að sjóða góðan dagpart með lokið á. Soðið var síðan síað og soðið niður kannski um helming. Þá var einni rauðvínsflösku hellt í annan pott og soðin niður til helmings og þá var soðinu bætt saman við saman við. Þykkt með smjörbollu. Þarna var staldrað við og sósunni deilt í tvo potta. Sósan sem var höfð með öndinni fékk safa úr tveimur appelsínum, smá rjóma, og síðan vænum hluta af því sem rann frá öndinni. Sósan sem var höfð með dádýrinu fékk smá rifsberjasultu, rjóma, pipar og svo allan vökva sem rann frá dádýrinu.

IMG_3946

Með matnum vorum við með gott meðlæti. Grillaði grænan aspas á grillpönnu og bar fram með rifnum parmaosti og salti og pipar. Bróðir minn var settur í að útbúa kartöflurnar. Þær voru flysjaðar, soðnar í söltuðu vatni í sjö mínútur og síðan var vatninu hellt frá og kartöflurnar færðar í eldfast mót. Velt upp úr nokkrum matskeiðum af bræddri andafitu, saltað og piprað og bakað í ofni í hálfa klukkustund þangað til að þær eru gullinbrúnar og fallegar.

IMG_3922-1

Gerði einnig risotto bragðbætt með tveimur ofnbökuðum hvítlaukum:  Tveir litlir laukar, ein sellerí stöng eru söxuð niður smátt og steikt á pönnu upp úr smá smjöri í smá jómfrúarolíu. Þegar grænmetið er búið að svitna aðeins á pönnunni eru 400 gr af Carneroli hrísgrjónum sett útí og hituð með grænmetinu. Hrært stöðugt. Þegar grjónin verða aðeins gegnsæ við jaðrana er 1 stóru hvítvínsglasi hellt útá og hvítvínið soðið niður yfir meðalhita. Hrært stöðugt. Lyktin á þessum tímapúnkti er dásamleg. Þarna fara hrísgrjónin að losa út sterkjuna sem er í þeim og við þurfum stöðugt að vera að bæta heitu soði yfir - sjóða svo niður - hræra stöðugt þar til grjónin eru orðin aldente - sem þýðir að það er smá bit í miðjunni á þeim. Þetta tekur um 15-20 mínútur.

5-7 mínútum áður en risottoið er tilbúið er tveimur heilum hvítlaukum bætt saman við. Þá þarf að undirbúa á eftirfarandi hátt. Setja í álpappír, smá olía yfir og síðan skvettu af hvítvíni og salta. Loka álpappírnum alveg og baka í 40 mínútur við tvöhundruð gráður. Tekið úr ofnum og leyft að kólna nógu mikið svo unnt sé að handleika laukinn án þess að þurfa eyða gamlárskvöldi á bráðamóttökunni vegna brunasára. Þá er hvítlaukurinn kreistur úr pappírnum, lungamjúkur og ilmandi. Hrært saman við hrísgrjónin. Smakkað til og saltað og piprað ef þarf.

Þegar risottoið er tilbúið er 70 gr af rifnum parmesanosti og smásmjörklípu hrært saman við og látið standa í 2 mínútur - þetta verður til þess að það þykknar upp vegna ostsins og verður gljáandi  af smjörinu. Svo er því hellt í skál og borið fram sem meðlæti.

PurpleAngel07Með matnum drukkum við vín frá Chile. Montes Purple Angel frá því 2007. Við ákváðum að hafa dáldið flott vín á borðum - maturinn bauð upp jú upp á það. Þetta rauðvín er blanda af 92% Carmenere þrúgum og síðan 8% Petit Verdot. Carmenere er einungis ræktað í Chile og tala þeir gjarnan um þetta sem sína þrúgutegund. Hún var þó ræktuð í Evrópu áður fyrr, nánar tiltekið í Bordeaux en varð útdauð í lok nítjándu aldar þegar Phylloxera sýking reið yfir Evrópu og olli gríðartjóni. Þessi þrúga hefur rutt sér til rúms seinustu tuttugu árin og að því er virðist nær einvörðungu í Chile. Þetta er kröftugt vín - fyllir munninn. Heldur þurrt á tungu. Mikið berjabragð og vel eikað. Passaði mjög vel með dádýrinu - hygg að öndin hefði þurft að fá aðeins léttara vín - Pínot? Ekki að ég sé að kvarta. Þetta var fantagott!

cremebrule

Í eftirrétt gerði ég Creme Brulee. Þetta er alveg fyrirtaks eftirréttur. Hann þarf að gera fyrirfram þar sem hann þarf að vera í kæli í nokkra tíma áður en hann er borin fram. Ég gerði fyrir 12, enda með fullt hús gesta. Fyrst var að setja 600 ml af rjóma í pott ásamt fræum úr tveimur vanillustöngum og síðan stangirnar sjálfar. Hitað upp að suðu - þó ekki leyft að sjóða og síðan látið standa í 15 mínútur til að leyfa vanillu að losa allt bragðið sitt út í rjómann. Á meðan hrærði ég saman 16 eggjarauðum og rúmlega bolla af strásykri. Síðan er rjómablandan síuð saman við, þannig að stangirnar og stærri korn fara ekki í gegn. Gott er að tempra eggjablönduna fyrst með einni ausufylli af rjómanum, þannig kemur maður í veg fyrir að eggjarauðurnar eldist og verði að ommilettu. Síðan er afgangnum af rjómanum hrært varlega saman við. Sett í lítil eldföst mót. Hægt er að losna við allar vatnsbólur af yfirborði búðingsins með því að fara með brennarann eldsnöggt yfir - loftbólurnar hverfa undir eins.

Sett síðan í vatnsbað og bakað við 170 gráðum heitum forhituðum ofni í 25 mínútur. Ég eldaði hluta af mínum aðeins of lengi. Sett síðan kæli í fjórar klukkustundir. Síðan er perlusykri stráð yfir og hann bræddur með brennara.

creme í snjó-1

Um miðnætti var síðan skálað með Gulu Ekkjunni - Veuve Clicquot Ponsardin Brut, sem er alveg afbragðs kampavín. Það hafði reyndar ekki verið sótt alla leið til Frakklands, þar sem við vorum í sumar, í Champagne. Stærstur hluti þeirra birgða hafði því miður þrotið, þannig að þessa þurftum við bara að sækja á heiðarlegan hátt - í Systemið. Sem var svosvum allt í lagi. Þetta er þurrt eins og nafnið gefur til kynna, brut. Léttur ávöxtur og spriklar á tungunni eins og gott kampavín á að gera. Svona síðla kvöld - sérstaklega gamlárskvöld - rennur nú allt ansi ljúflega niður.

IMG_3970

Við skutum upp flugeldum eins og Íslendingum einum er lagið. Og gerðum okkar besta. Þetta varð ekki að neinni Reykjavík, en við tókum Svenson allaveganna í nefið! Án alls vafa.

Bon appetit!