Á föstudögum höfum við oft haft þann háttinn á að gera flatbökur. Slíkt hef ég bloggað um oft áður. Við ótal tækifæri! Læt fylgja nokkra hlekki! Það er bara engin leið að verða leiður á þessum mat. Samt, ef maður brýtur þetta niður þá er þetta bara brauð með osti. Bara brauð með osti. Sem er jú líka déskoti gott! Auðvitað breytir það eitthvað málinu að setja ferskt deig, með ljúffengri sósu og góðum osti inn í rjúkandi heitan ofn. Horfa á þunnt brauðið bakast og gullna, jafnvel sjá nokkrar loftbólur dúkka upp, osturinn umbreytist - verður gullinn og mjúkur og dásamlegur. Semsagt brauð með osti í hæstu hæðum.
Svo er það líka svo ánægjulegt hvað það er einfalt að gera góða pizzu. Það hvarflar ekki að mér lengur að panta pizzu - okei... það kemur fyrir - en mjög sjaldan. Svo finnst mér líka svo gaman að fá börnin með í eldhúsið og pizzur er fullkomnar að því leyti. Það er ánægjulegt að geta leyft börnunum sínum að vera með í eldhúsinu þannig að þau geti síðan notið afrakstursins. Flatbökugerð er svo einföld að jafnvel smábörn geta fengið að prófa að rúlla út deigið og/eða raðað á áleggi þannig að þau geta verið stolt af verki sínu. Svo eru þetta líka frábærar samverustundir.
Og svo má setja hvað sem er á flatböku. Það er nú svo einfalt. Einhvertíma hefur einhver sett hvaðsemer á pizzu. Í þessari færslu ætla ég að gera grein tveimur flatbökukvöldum.
Við áttum heilmikið af afgöngum eftir áramótaveisluna og við ákváðum að það til að nýta afgangana sem best væri einfaldast að skera þá niður á flatböku. Og það var gott. Í kvöld verður þetta ekki eins eksótíkst. En til að halda í manifestóið ætla ég að minsta kosti að gera eina flatböku sem er hlaðin sjávarréttum. Og með þessu er maður auðvitað með gott rauðvínsglas.
Eins og ég nefndi áður þá hef ég bloggað oft áður um flatbökuævintýrin í eldhúsinu mínu: Hérna er ein með
kartöflum, önnur með
humri og þistilhjörtum - alveg geðveikt góð! Ég hef nokkrum sinnum grillað flatbökur, eitt sinn fyrir
nokkra verðandi sálfræðinga og svo var þ
essi elduð á grillinu vorið 2000. Svo hef ég prófað að steikja pizzur - pizza fritta, þessi
steikta útgáfa er líka gómsæt sem og
Calzone eða hálfmánalagaflatbaka. Svo gerði ég
þessa seint haustið 2009. Þannig að þetta er ekki í fyrstasinn sem ég blogga um flatbökur - það er alveg ljóst!
Maður verður bara aldrei þreyttur á flatbökum.
Fantagóðar flatbökur á föstudagskvöldi. Allt rímar í vikulok!
Allavega ... snúum okkur að matnum.Fyrst var að gera deigið. Útí 300 ml af ylvolgu vatni er sett 2 tsk þurrger og 30 g af sykri eða hunangi. Blanda saman vatninu, gerinu og sykri og leyfi gerinu að vakna - þá freyðir svona ofan á vatninu - tekur svona 10-15 mín. 400-600 gr. hveiti er er sett í skál og saltið og olíunni blandað saman við. Mikilvægt er að leyfa gerinu að vakna vel og rækilega og ekki setja saltið þarna úti - þar sem saltið hamlar aðeins gerjunarferlinu. Blanda vatninu svo hægt saman við hveitið þar til það verður að góðum deigklump. Það er mikilvægt að hræra deigið vel - þannig hefast það mikið betur og bragðast líka betur. Ég vil að deigið dúi vel undan fingri og þegar áferðin er þannig að deigið jafnar sig hratt þegar maður ýtir fingri í það breiði ég viskastykki yfir skálina og leyfi að hefast - eins lengi og maður hefur tíma. Deigið er nóg í tvær pizzur.
Sósan var einföld - og átti bara að liggja í bakgrunni til að leyfa kjötinu og sveppunum að njóta sín. Dós af góðum niðursoðnum tómötum sett í pott, væn skvetta af balsamic ediki, tómatpure, sykur, salt, pipar. Done! (eins og Gordon Ramsey segir í lok allra uppskrifta sinna)
Fyrir þá sem lásu
áramótafærsluna mína þá má sjá að ég var með bæði önd, risotto, aspas og dádýrshrygg í matinn. Og ég átti fullt afgöngum. Þeir enduðu allir á flatböku þann 2. janúar.
Flatbaka með þunnt skorinni andabringu, aspas og risottohnoðrum.
Flatbaka með þunnt skornum dádýrshrygg og gæsafituofngrilluðum kartöflum. OMG
Í kvöld var ég svo - í anda manifestósins - með ljúffenga sjávarréttarpizzu, auk annarra. Raðaði niðursoðnum túnfisk, rækjum og síðan ansjósum á flatbökuna ásamt niðurskornum rauðlauk og kapers. Síðan ost auðvitað og smávegis af rjómaosti. Ekki gleyma að salta og pipra.
Síðan gerðum pizzuna sem Villi sonur minn vildi fá - með skinku og sveppum. Og að lokum Quattro Stagione sem er sígíld flatbaka með skinku, þistilhjörtum, ólívum og sveppum. Ljúffeng.
Við gerðum þessa fyrirtaks hvítlauksolíu; settum í blandara - 6-8 hvítlaukrif og bolla af olíu. Þeytt saman og maður fær þessa dásamlegu ilmríku grænu kraftmiklu hvítlauksolíu. Hvílík kjarnorkuhvítlauksolía. Með matnum nutum við víns frá Spáni, Pata Negra, sem er Tempranillo vín frá því 2004. Þetta er vín sem er dökkt og heldur þykkt í glasi, ilmar af sólberjum og jafnvel smá leðri. Á bragðið dökk ber - fyllir munninn ágætlega með góðu eftirbragði.
Bon appetit!