Tuesday 25 January 2011

Létt og gott penne alla frutta di terra með salati og brauðhleif

Hérna í Púkagrandanum númer eitt höldum við áfram að njóta manifestósins sem lagt var upp með í upphafi ársins. Á virkum dögum höfum við þann háttinn á að við eldum grænmetisrétt einn daginn og svo fiskrétt hinn. Þetta hefur næstum alltaf tekist. Við höfum einnig lagt okkur fram að hafa réttina í léttara lagi - en það var bara aukaverkun að verkefninu og alls ekki áformað. Hver hugsar ekki um matarræðið rétt eftir jólin.

Þessi réttur er ansi sniðugur. Hugmyndin er fengin frá rétt sem ég hef eldað áður, en þar notaði ég bara tómata, hvítlauk og basil. Sjá hérna. Núna var ísskápurinn fullur af nýkeyptu rótargrænmeti og ég nýbúinn að syngja lofsöng til kartöflunnar og annars rótargrænmetis, og því ekki annað hægt en að nota það í réttinn. Þemað varð því þetta.

Létt og gott penne alla frutta di terra með salati og brauðhleif

Svona matur er eins einfaldur og fljótlegur og hugsast getur. Þó þarf hann 30 mínútur í ofninum. En að undirbúa réttinn er bara nokkra mínútna verk.

Fyrst var að flysja einn heldur stóran rauðlauk og hluta gróft niður, hálft "butternut" grasker, kúrbít, 3 hvítlauksrif og síðan handfylli af kirsuberjatómötum skornum í helminga. Þremur msk af hvítlauksolíu var sáldrað yfir og síðan blandað vel saman. Saltað vel og piprað. Bakað í 200 gráðu heitum ofni í 20 mínútur. Síðan er 4-5 msk af léttum creme fraiche, hræðum til að gera það meira vökvakennt, blandað saman við ásamt jafnmiklu magni af vatni frá pastapottinum, ásamt smá skvettu af hvítvíni - því sama og við fengum okkur með matnum. Sett aftur inn í ofn í nokkrar mínútur og leyft að hitna aftur.

triventoPenne soðið skv. leiðbeiningum í ríkulegu söltuðu vatni - og eins og segir að ofan nota ég nokkrar matskeiðar sem grunn að pastasósunni.

Borið fram með heitum brauðhleif og góðu salati, græn lauf, smátt skorin rauðlaukur, rauð paprika, steinselja, ristuð graskersfræ og nokkrum bitum af smátt skornum mozzarella.

Með matnum fengum við okkur smá hvítvínstár. Við áttum Trivento Chardonnay - Chenin búkollu í ísskápnum. Það er alltaf gott að eiga smátár í kælinum til að vinda sig aðeins niður í lok dags. Þetta vín er frá Argentínu og er ungt vín - frá því í fyrra - eins og vanin er með búkollur. Þetta er ljómandi góð búkolla - fallega gult í glasi, létt á nefnið og ferskt og ansi ávaxtaríkt á bragðið. Gott vín!

Bon appetit!No comments:

Post a Comment