Thursday 13 January 2011

13. janúar: Gómsætur ofnbakaður lax með austurlenskum áhrifum,hrísgrjónum og salati


Þetta er fyrsta formlega færslan mín hérna á Eyjunni - Sarpurinn minn var þó fluttur yfir í morgun af tæknifólki eyjunnar og kann ég þeim góðar þakkir fyrir. Fyrir þá sem hafa áhuga er þar að finna færslurnar mínar í gegnum árin. Allt um matargerð frá því að ég byrjaði að blogga, rétt fyrir jólin 2006!  Ég er þó ekki menntaður kokkur, langt í frá - bara áhugamaður ... jafnvel má ganga svo langt að segja ástríðumaður í matargerð.  Dagvinnu hef ég þó aðra, og þá er ég  læknir í sérnámi í lyf- og gigtarlækningum og er búsettur á Skáni ásamt fjölskyldu minni. Síðastliðin áratug hefur mitt aðal áhugamál verið eldamennska, matur og vín. Þessu áhugamáli hef ég reynt að gera grein fyrir í gegnum bloggið mitt. Ég hef áður bloggað á moggablogginu og síðan gerði ég tilraun til þess að blogga á miðjunni. Hingað er ég þó kominn núna. Takk fyrir góðar móttökur!

P.s . Allar athugasemdir, ábendingar, uppskriftir eru vel þegnar. Er alltaf á höttunum eftir nýjungum!

----

Lífið heldur áfram sinn vanagang. Það er ótrúlegt hvað tíminn líður alltaf hratt. Mér finnst vikurnar hreinlega þjóta áfram næstum því án þess að maður taki eftir því. Seinast þegar maður leit upp voru nokkrar vikur í jól. Núna eru þau liðin tíð. Og janúar að verða hálfnaður. Dísus.

Þennan rétt hefur eiginlega konan mín gert að sínum. Ég hef áður bloggað um heldur keimlíkan laxarétt um sumarið 2008 þegar við bjuggum hjá foreldrum mínum áður en við fluttumst til Svíþjóðar. Þá var sósan aðeins öðruvísi og laxinn fór á grillið. Þessi réttur var vissulega einfaldur - var undirbúinn á 5 mínútum og svo var restin bara að bíða eftir því að hann yrði tilbúinn.

Þeir sem fylgjast með blogginu mínu sjá að ég oft með lax á boðstólnum. Ástæða þess er einföld - það er besti fiskurinn sem hægt er að kaupa ferskan hérna á meginlandinu á viðráðanlegu veðri. Það er ekkert óvenjulegt að borga 250-300 SEK fyrir lúðu eða skötusel. Fiskmeti er lúxusfæða á þessum slóðum. Auðvitað er hægt að kaupa hann frosinn frá Findus í búðunum en í mínum bókum fær sú vara alger falleinkunn. Frosinn fisk er hægt að fá frá "fiskbílunum", sem ég hef skrifað um áður en það verður líka að teljast munaðarvara.

13. janúar: Gómsætur ofnbakaður lax með austurlenskum áhrifum, hrísgrjónum og salati


Fyrst var að gera sósuna - eða marineringuna sem laxinn var eldaður í. 50 ml af soyasósu, 25 ml af teriyaki sósu, 2 msk af Mirin ásamt 2 tsk af sykri var sett í pott og hitað upp að suðu og soðið niður um þriðjung. Eldfast mót er penslað með smávegis jómfrúarolíu. Laxinn er þveginn og þurrkaður og síðan settur í eldfast mót. Sósan er hellt yfir fiskinn, saltað og piprað og að lokum er sesamfræjum stráð yfir.

Sett inn í forhitaðan ofn, 180 gráður, og eldaður í 20 mínútur þar til hann er eldaður í gegn. Þegar tilbúinn var nokkrum niðurskornum steinselju laufum sáldrað yfir. Auðvitað hefði kóríander verið betri en því miður var hörgull á því í ísskápnum mínum. Suðum basmati hrísgrjónum skv. leiðbeiningum og bárum fram með auk ljúffengs einfalds salats.

Með matnum var í boði smávegis hvítvínstár. Ég hafði keypt þessa flösku, Fleur de Cap Unfiltered frá því 2009. Smakkaði aftur nýverið Chardonnay-ið frá þeim sem var ansi ljúffengt vín. Þetta vín er jöfn blanda af fjórum ólíkum þrúgum, chardonnay, sauvignion blanc, semillion og síðan viognier. Þetta er ansi kröftugt vín - ilmar af ávöxtum, ferskt á bragðið, þétt og aðeins smjörkennt ansi bragðmikið. Þetta var ágætis vín sem passaði vel með matnum.

Bon appetit!

3 comments:

  1. Hvað er Mirin?

    Elska lax út af lífinu. Uppáhalds fiskurinn minn. Hvar fæst hann bestur hér í Lundi?

    ReplyDelete
  2. Ragnar Freyr Ingvarsson13 January 2011 at 22:31

    Sæl Kristbjörg.

    Mirin er japanskt dísætt hrísgrjónavín sem hægt er að fá í flestum verslunum. Varla er hægt að tala um vín þegar maður fær þetta útí búð - alc 1% eða nálægt því.

    Ég hef verið að kaupa lax í City gross í Gunnesbo - og það hefur komið mér á óvart hversu góður hann er!

    Prófaðu þessa uppskrift - hún er þrælgóð!

    mbk, Ragnar

    ReplyDelete
  3. Einstaklega góð og fljótleg uppskrift,en þegar ég elda hana næst,sem ég örugglega geri,ætla ég að stytta tímann niður í 15

    ReplyDelete