Thursday 6 January 2011

Manifestó fyrir janúarmánuð og syndaaflausn á nýju ári: Ljúffengirfiskréttir og gómsætir grænmetisréttir!Þetta er búið að vera endalaus veisla! Ég hef reynt að gera grein fyrir þessu á blogginu mínu og held að það hafi tekist ágætlega. Lesendur hafa kannski tekið eftir að það hefur verið eldað - eldað og aftur eldað síðastliðnar vikur! Og ekkert léttmeti hefur verið á borðum svosum - enda engin venja að gera svo - það hefur verið notað smjör og rjómi og jafnvel gæsafita og allt sem er gott í lífinu.

Núna verður blaðinu snúið við. Í janúar - í byrjun nýs árs verður það hollt og gott! Það verður þemað. Ekki að ég er að hugsa sérstaklega um neitt megrunarfæði - verði það aukaverkun af þessu öllu - þá er það gott og blessað. En eftir þvílíkt og annað eins kjötát undanfarnar vikur verður að prófa eitthvað nýtt. Og vonandi verður það gott - og vonandi hollt.

Ég vaknaði á Nýársdagsmorgun með þessa hugmynd. Manifestó fyrir janúar! Að elda 16 grænmetisrétti og 16 fiskimáltíðir! Talnaglöggir munu strax sjá að þessi aðferð mun seint ganga upp þar sem mig hreinlega skortir daga til að afgreiða allt þetta. Nema þá að eldað yrði tvisvar á dag. En það er nú vart raunhæft. Ég á jú að heita að vera í vinnu á daginn! Þannig að eftir smávægilegar breytingartillögur á manifestóinu mínu var ákveðið að þetta verkefni yrði einskorðað við virku dagana. Þannig að hérna kemur manifestóið fyrir janúar....bíddu aðeins....það þýðir þó ekki að það má ekki slæða inn einstaka syndum á milli. Maður verður að hafa nammidaga? - fá að draga inn andann af og til - annars springur maður bara á limmunu.

Ókei ... víkjum aftur að Manifestóinu.

Fiskmáltíð annan hvern dag. Og hinn daginn einhvers konar grænmetismáltíð!

Manifestó fyrir janúarmánuð og syndaaflausn á nýju ári: Ljúffengir fiskréttir og gómsætir grænmetisréttir!

Ég náði ekki að taka ljósmyndir af fyrstu tveimur máltíðunum, en mun reyna að gera það í framtíðinni.

3. Janúar: Skötuselur í tamarindtómatsósu (indversk stemmning) með hrísgrjónum og salati.

Þrjú hvítlauksrif, 6 cm af engifer - bæði smáttskorið steikt í olíu þangað til gljáandi. Bætti síðan saman við 2 rauðlaukum skornum í sneiðar (hringi). Salt og pipar og steikti þar til mjúkt. Síðan setti ég matskeið af tamarind paste, teskeið af kúmen og kóríander og síðan hálfa teskeið af chilli og sterkri papriku. Steikt í 2 mínútur til að vekja kryddin. Síðan tvær dósir af tómötum, jafnmikið af vatni, 2 fiskikraftsteninga og síðan nokkrar skvettur af tómatsósu (ekki segja neinum frá því að ég hafi notað tómatsósu). Soðið upp. Síðan var skötuselnum, skornum í nokkuð stóra bita, bætt útí og soðið í nokkrar mínútur í sósunni. Það má í raun slökkva á hitanum þegar fiskurinn er settur útí. Borið fram með basmati hrísgrjónum og blönduðu salati.

4. janúar. Rússnesk rótargrænmetissúpa með heimagerðu gerlausu brauði

Skera rótargrænmeti – kartöflur, sætar kartöflur, gulrætur, nípur – í bita ásamt stórum lauk. Steikja í smjöri þar til laukurinn er orðinn glær. Bæta við a.m.k líter af grænmetis eða kjúklingasoði, smátt skorni steinselju og örlitlu múskati. Leyft að malla í 30 mínútur eða þar til allt grænmetið er orðið mjúkt. Á meðan súpan mallar steikja kál í smjöri þar til það mýkist. Mauka súpuna með töfrasprota og bæta svo kálinu við og því leyft að malla með í 10 mínútur.

5. janúar. Laxamedalíur með hvítlaukssósu, bakaðri kartöflu og haloumi salati

Ég keypti heilan lax og skar hann í þykka þverskorna í bita. Auðvitað er hægt kaupa steikurnar skornar í sneiðar - en það er oftast miklu dýrara. Ég er þegar kominn með plön fyrir afganginn. Nánar um það síðar. Til að útbúa steikurnar má gera það eins og sést á þessum myndum.

laxame_fer.jpg

Byrja á því að leggja sneiðina fyrir framan sig og reyna að pilla beinin úr steikunum. Þau liggja í miðjunni auðvitað - og þau er vonlaust að fjarlægja án þess að eyðileggja bitann. En hin sem liggja klukkan 10 og klukkan 2 (ef maður ímyndar sér stykkið eins og klukku) og þau er auðvelt að plokka út.

laxame_fer_2.jpg

Svo er að fjarlægja hrygginn, skera í hringum hann, og klippa hann síðan út. Einnig þarf að fjarlægja himnuna sem snýr að kviðarholinu og bein sem kunna að liggja þar að.

laxahringur.jpg

Síðan er ekkert eftir nema að vefja fisknum saman og binda fast með snæri svo hann opni sig ekki við eldun.  Saltaður og pipraður. Síðan penslaði ég hann með hvítlauksolíu; heill hvítlaukur flysjaður og maukaður með töfrasprota saman við bolla af jómfrúarolíu. Kreisti einnig smávegis af ferskum sítrónusafa yfir. Steikt upp úr smjöri/olíu á báðum hliðum í 1-2 mínútur á hvorri hlið og svo sett í eldfast mót og bakað í rúmlega 10 mínútur við 200 gráðu hita þar til eldað í gegn.

lax á pönnu

Gerði síðan hvítlaukssósu til að hafa með fisknum. 1 dós af léttum creme fraiche, salt, pipar, sítrónusafi úr hálfri sítrónu og síðan 2 msk af hvítlauksolíunni sem ég hafði búið til.

lax á borðum

Borið fram með bökuðum kartöflum og haloumi salati. Blönduð græn lauf, smátt skorin papríka, rauðlaukur og svo steinselja og síðan nokkrar sneiðar af grilluðum haloumi osti.

Með matnum drukkum við ljómandi gott hvítvín frá Suður Afríku, Fleur du Cap Chardonnay frá 2009. Þetta er hreint út sagt afbragðs gott hvítvín. Fallega gult í glasi. Ilmar af sítrus ávöxtum. Á tungu er það heldur ljúft, kröftugur ávöxtur, sítrónukeimur og mjúkt eftirbragð. Passaði alveg fyrirtaks vel með matnum.

IMG_3991

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment