Friday 7 January 2011

6. janúar: Penne Pasta með ofngrilluðum laxi, tómötum og blönduðumkryddjurtum með heitu baguette - er manifestóið strax fokið?

Það var talað digurbarkalega um manifestó, af undirrituðum, í seinustu færslu. Þar bar á miklu tali um grænmetisrétti einn daginn og svo fiskrétti hinn. Hérna varð ég strax að brjóta reglurnar ... Maður er ekki betri maður en þetta?!? En skýringarnar eru ágætur (að mínu mati); Reglur tengdamóður minnar um nytsemi vógu hærra en skráð, þó ekki þinglýst, manifestóið. Maður verður að vera nýtinn. Ísskápurinn var fullur af afgöngum frá því kvöldinu áður. Og maður getur ekki hent afgöngum - slíkt gengur á móti góðum lögmálum.

Þannig að úr varð að reyna að samtvinna manifestóið um grænmetis- og fiskrétt í einn og sama réttinn. Og úr varð þessi uppskrift. Ég reyndi að blanda saman eins miklu grænmeti í réttinn og unnt var á skömmum tíma! Þið kannski prófið þetta sjálf. Eftir á að hyggja hefði þurft að sæta réttinn aðeins með sykri eða skvettu af tómatsósu. Þið dæmið sjálf!

6. janúar. Penne Pasta með ofngrilluðum laxi, tómötum og blönduðum kryddjurtum með heitu baguette - er manifestóið strax fokið út um veður og vind?

Byrjum á því að saxa niður kryddið - þá verður svo góð lykt í eldhúsinu. Ilmurinn af skornu basil, steinselju og pipruðu klettasalati fyllir vitin!

kryddjurtir

Eins og fram kom í seinustu færslu voru laxmedalíur eldaðar á miðvikudagskvöldið. Það varð talsverður afgangur - og slíkt verður að virða. Ofar tíðræddu manifestói. Vona bara að ég standi mig betur í næstu viku... sjáum til!

tómatar

Fyrst var að steikja einn smátt skorinn rauðlauk og 3-4 hvítlauksrif í olíu á heitri pönnu. Síðan var einum stórum niðurskornum tómat bætt samanvið og saltað og piprað. Steikt um stund. Þá var að bæta handfylli af steinselju, basil og klettasalati, smátt skornu á pönnuna og steikt þar til það hefur aðeins koðnað niður. Síðan var laxinum bætt við á pönnuna ásamt einum bolla af grænmetissoði. Saltað og piprað.

IMG_4000

Pastað soðið eftir leiðbeiningum í ríkulega söltuðu vatni þar til al dente. Vatninu hellt frá og pastanu bætt saman við sósuna. Parmaosti sáldrað yfir, ásamt aðeins meira af salti og pipar. Borið fram með smávegis brauðhleif og góðu salati og kannski hvítvínstári.

Bon appetit!

2 comments:

 1. Sæll kæri tengdasonur og takk fyrir matarorgíuna um áramótin. Rakst á eftirréttaruppskrift sem mér virðist vera hæfileg áskorun fyrir mann eins og þig. Athugaðu hvort þú finnur ekki Torta de las trés leches í þínum litteratúr. Kveðjur E

  ReplyDelete
 2. Sæll Eddi minn.
  Takk sömuleiðis - alltaf frábært að fá þið í heimsókn.
  Áskorun tekið - og verið gerð næst þegar þú ert á ferðinni.
  Ragnar

  ReplyDelete