Showing posts with label brie. Show all posts
Showing posts with label brie. Show all posts

Monday, 21 January 2013

Einfaldar amerískar pönnukökur með bláberjum og bönunum í sumarbústaðnum


Það hefur verið heilmikið um að vera síðastliðna daga. Eins og lesendur sáu á síðustu bloggfærslu þá var ég að elda á marókósku veitingahúsi í Malmö nýverið. Að mínu mati heppnaðist kvöldið alveg ljómandi vel og var sérstaklega ánægjulegt fyrir mig. Það var vissulega skemmtilegt en jafnframt krefjandi að vinna í alvöru eldhúsi!

Nú á fimmtudaginn var lauk ég starfsnámi mínu í stjórnun með fyrirlestri um verkefni sem ég hef verið að vinna við síðastliðna fjóra mánuði. Það var ljúft að klára þennan áfanga og geta snúið sér aftur af klínískri vinnu á gigtardeildinni minni í Lundi.

Punkturinn yfir i-ið síðustu viku var þó doktorsvörn móður minnar, Lilja M. Jónsdóttur. Hún hefur unnið að doktorsverkefni sínu undanfarin sjö ár þar sem hún hefur skoðað hvernig kennarar takast á við kennarastarfið fyrstu starfsár sín. Hún fylgdist með fimm ungum kennurum í fimm ár og ræddi við þá reglulega. Fjölmennt var á útskriftinni og móðir mín stóð sig eins og hetja. Ég held að ég hafi aldrei verið jafn stoltur af elsku mömmu en einmitt síðastliðin föstudag. Til hamingju mamma!

Eftir doktorsvörnina var auðvitað haldin veisla sem faðir minn sá að mestu um að skipuleggja og undirbúa. Lítið var keypt af tilbúnum mat annað en kjúklinga- og nautaspjót sem voru ágæt. Restina gerði hann sjálfur eða fékk okkur til að hjálpa til. Föstudagsmorguninn síðastliðinn var færibandavinna í eldhúsi foreldra minna í Lönguhlíðinni. Hann gerði kjötbollur og kraftmikla tómatsósu, beikonvafðar kokteilpylsur og þrenns konar ljómandi góðar snittur. Svo gerði Marta frænka ljúffeng skinkuhorn og Guðbjörg, samstarfskona mömmu og pabba, litlar kransakökur. Það var nóg af veigum og kaffi og súkkulaði í desert. Ég gat ekki betur séð en að gestir væru sáttir!

Á laugardaginn skunduðum við upp í sumarbústað í Kjósinni og elduðum lambakjöt með bökuðum kartöflum. Daginn eftir vaknaði ég heldur seint, en gerði ég síðan þessar einföldu - en jafnframt gómsætu pönnukökur fyrir sjálfan mig og nokkra aðra (flestir höfðu vaknað fyrr og voru búnir að borða).

Einfaldar amerískar pönnukökur með bláberjum og bönunum í sumarbústaðnum



Fékk nýtt leikfang í eldhúsið. Að þessu sinni áskotnaðist mér ný Le Creuset crepe (pönnuköku) panna. Eins og allir sem lesa bloggið mitt vita þá er ég forfallinn Le Creuset aðdáandi og safna pottum og leirvörum frá þessu vörumerki. Vörumerkið er franskt og hefur starfað í Fresnoy-le-Grand síðan 1925. Þetta er gæðavara og endist að eilífu. Ég er nokkuð sannfærður af barnabörnin mín eiga eftir að erfa þessa potta eftir mig - alltént vona ég það!


Setti bolla af hveiti í skál, 1/4 tsk af salti, 1/2 tsk af lyftidufti og 1/2 tsk af sykri í skál og hrærði saman. Setti síðan eggjaguluna saman við en hafði hvítuna sér. Blandaði síðan saman sirka 100 ml af mjólk - þannig að úr varð þykkt deig sem hjúpaði bakhlið á skeið án þess að renna af.



Þeytti síðan upp hvítuna þannig að hún þrefaldaðist í rúmmáli en var þó ekki stífþeytt. Hvítunni blandaði ég síðan varlega saman við með sleikju. Ekki má hræra saman með miklu afli því þá lemur maður loftið úr hvítunni, en hana vill maður varðveita til að pönnukökurnar verði loftkenndar og "fluffy".


Pannan hituð varlega á eldinu. Smjörið brætt og svo er bara að byrja að baka. Það er oft svo að fyrstu pönnsurnar verði hálf klaufalegar en það er engin ástæða til þess að henda þeim.


Ég skolaði af bláberjunum og skar síðan einn banana niður í þunnar sneiðar.


Ég setti 1-2 matskeiðar fyrir hverja pönnuköku og síðan raðaði ég berjum/bönunum á deigið. Þegar loftbólurnar fara að komast í gegnum deigið er kominn tími til að snúa þeim. Það þarf ekki að steikja þær nema 1-2 mínútur á hvorri hlið!


 Raðaði síðan þremur pönnukökum upp á disk. Nokkur fersk ber ofan á ásamt ferskum banana sneiðum. Svo er bara að hella smáræði af hlynsírópi ofan á og síðan gæða sér á dásamlega ferskum morgunverði!

Bon appetit!

 P.s.


Svo má líka gera "savory" útgáfu með sveitaskinku, briesneiðum og hvítlauksolíu. Namminamm! 

Bon appetit - aftur! 


Thursday, 9 September 2010

Viva Frakkland: Grilluð Nautasteik með dijon sinnepi, grilluðum brie og steiktum kartöflum



dijon.jpg

Daginn eftir héldum við leið okkar áfram suður í áttina að Dijon, þar gistum við á tjaldstæði í borginni. Fórum í hjólatúr um borgina þegar við komum. Um nóttina gerði algert úrhelli og regnið dundi á bílnum. Að vissu leyti er það notalegt að liggja og lúra undir buldrandi regninu. Sem betur fer stytti upp síðla morguns og við fórum á kreik. Eftir síðbúinn morgun/hádegisverð fórum við aftur á hjólunum inn í Djion, skoðuðum Notre Dame – enn ein óhemjufögur og voldug kirkjubygging. Sátum þar um stund. Sonur minn, Vilhjálmur, hefur alltaf miklar áhyggjur af Jesú og hvers vegna hann hangir alltaf á krossinum. Þó virðist hann hafa gaman af því að skoða kirkjur – vill kíkja í hvern krók og hvern kima. Valdís hefur meiri áhuga á bænarstöðunum í kirkjunni, þar sem maður getur kveikt kertaljós og sent einhverjum ná/fjarkomnum góðar kveðjur í huganum. Síðan fundum við Tourist info og fengum fleiri kort og fórum í skipulega gönguferð um borgina. Virkilega fögur borg með fallegum og tignarlegum byggingum og fallegum strætum.

dijon_2.jpg

Seint um eftirmiðdaginn fórum við af stað aftur og keyrðum suður frá Dijon í átt að Beaune og þar er maður kominn á helstu slóðir Búrgundarvína. Flest búrgúndarvín eru Pinot Noir og eru ótrúlega breytileg víngarða á milli. Við keyrðum suður til lítils smábæjar, Change, og fengum að gista á liltum víngarði sem lá í útjarði bæjarins, Domaine Antonine des Echards. Öðru megin við grindverkið bitu nokkrar kusur safaríkt grasið og hinum megin við okkur voru vínviðirnir, Pinot noir.

Eigandi víngarðsins kom út og heilsaði upp á okkur og bauð okkur í heimsókn að bragða vínin hans. Hann hafði sennilega verið búinn að smakka aðeins áður – hress og skemmtilegur. Hrákadallurinn var hvergi nálægur og við fórum rausnarlega í gegnumnokkrar tegundir vína sem hann framleiddi. Byrjuðum á tveimur hvítvínum, síðan rósavíni og í lokin þrjár tegundir rauðvíni. Mér leist áfaflega vel á þetta, smökkunin hafði losað um budduna og því fór svo að við keyptum tvo kassa af víni. Við kvöddum síðan bóndann með virktum sem leysti okkur út með afganginn af rósavíninu.

img_2742_1023212.jpg

Viva Frakkland: Grilluð Nautasteik með dijon sinnepi, grilluðum brie og steiktum kartöflum

Ég hafði að sjálfsögðu keypt stórar krukkur af djion sinnepi, Edmond Falliot, bæði af hreinu og síðan grófu. Um kvöldið grilluðum við nautasteik með dijon sinnepi. Grilluð nautasteik með dijon sinnepi, salati, kúrbítsneiðum og auðvitað búrgúndarvíni. Svona matargerð er eins einföld og hugsast verður. Þannig getur það verið þegar maður er með gott hráefni í höndunum.

grilli.jpg
Nautakjötið var saltað og piprað og síðan smurt rausnarlega með djion sinnepi og leyft að standa í 30-40 mínútur. Á meðan er grillið sett saman og kynnt undir kolunum.

Sósan var í raun bara hitaður Brie ostur. Fjarlægði hann úr umbúðunum og stakk síðan nokkur göt á ostinn með gafli. Síðan skar ég hvítlauk í helming og nuddaði ostinn með honum, vafði honum síðan  inn í álpappír. Áður en honum var lokað hellti ég smá hvítvíni yfir og pakkaði honum svo alveg inn. Sett á grillið og leyft að sitja þar þangað til að maturinn var tilbúinn.

steik_1023196.jpg

Steiktum einnig nokkra kartöflubáta á pönnu til að hafa með matnum. Grillaði einnig nokkrar kúrbítssneiðar með, bara penslaðar uppúr smá olíu, salt og pipar og svo grillað. Einfalt og gott. Hef sjálfur verið að dunda við að rækta kúrbít. Árangurinn hefur verið góður. Læt fylgja með mynd að því sem beið í garðinum þegar heim var komið.

img_2963.jpg

Bon appetit