Thursday 9 September 2010

Viva Frakkland: Grilluð Nautasteik með dijon sinnepi, grilluðum brie og steiktum kartöflumdijon.jpg

Daginn eftir héldum við leið okkar áfram suður í áttina að Dijon, þar gistum við á tjaldstæði í borginni. Fórum í hjólatúr um borgina þegar við komum. Um nóttina gerði algert úrhelli og regnið dundi á bílnum. Að vissu leyti er það notalegt að liggja og lúra undir buldrandi regninu. Sem betur fer stytti upp síðla morguns og við fórum á kreik. Eftir síðbúinn morgun/hádegisverð fórum við aftur á hjólunum inn í Djion, skoðuðum Notre Dame – enn ein óhemjufögur og voldug kirkjubygging. Sátum þar um stund. Sonur minn, Vilhjálmur, hefur alltaf miklar áhyggjur af Jesú og hvers vegna hann hangir alltaf á krossinum. Þó virðist hann hafa gaman af því að skoða kirkjur – vill kíkja í hvern krók og hvern kima. Valdís hefur meiri áhuga á bænarstöðunum í kirkjunni, þar sem maður getur kveikt kertaljós og sent einhverjum ná/fjarkomnum góðar kveðjur í huganum. Síðan fundum við Tourist info og fengum fleiri kort og fórum í skipulega gönguferð um borgina. Virkilega fögur borg með fallegum og tignarlegum byggingum og fallegum strætum.

dijon_2.jpg

Seint um eftirmiðdaginn fórum við af stað aftur og keyrðum suður frá Dijon í átt að Beaune og þar er maður kominn á helstu slóðir Búrgundarvína. Flest búrgúndarvín eru Pinot Noir og eru ótrúlega breytileg víngarða á milli. Við keyrðum suður til lítils smábæjar, Change, og fengum að gista á liltum víngarði sem lá í útjarði bæjarins, Domaine Antonine des Echards. Öðru megin við grindverkið bitu nokkrar kusur safaríkt grasið og hinum megin við okkur voru vínviðirnir, Pinot noir.

Eigandi víngarðsins kom út og heilsaði upp á okkur og bauð okkur í heimsókn að bragða vínin hans. Hann hafði sennilega verið búinn að smakka aðeins áður – hress og skemmtilegur. Hrákadallurinn var hvergi nálægur og við fórum rausnarlega í gegnumnokkrar tegundir vína sem hann framleiddi. Byrjuðum á tveimur hvítvínum, síðan rósavíni og í lokin þrjár tegundir rauðvíni. Mér leist áfaflega vel á þetta, smökkunin hafði losað um budduna og því fór svo að við keyptum tvo kassa af víni. Við kvöddum síðan bóndann með virktum sem leysti okkur út með afganginn af rósavíninu.

img_2742_1023212.jpg

Viva Frakkland: Grilluð Nautasteik með dijon sinnepi, grilluðum brie og steiktum kartöflum

Ég hafði að sjálfsögðu keypt stórar krukkur af djion sinnepi, Edmond Falliot, bæði af hreinu og síðan grófu. Um kvöldið grilluðum við nautasteik með dijon sinnepi. Grilluð nautasteik með dijon sinnepi, salati, kúrbítsneiðum og auðvitað búrgúndarvíni. Svona matargerð er eins einföld og hugsast verður. Þannig getur það verið þegar maður er með gott hráefni í höndunum.

grilli.jpg
Nautakjötið var saltað og piprað og síðan smurt rausnarlega með djion sinnepi og leyft að standa í 30-40 mínútur. Á meðan er grillið sett saman og kynnt undir kolunum.

Sósan var í raun bara hitaður Brie ostur. Fjarlægði hann úr umbúðunum og stakk síðan nokkur göt á ostinn með gafli. Síðan skar ég hvítlauk í helming og nuddaði ostinn með honum, vafði honum síðan  inn í álpappír. Áður en honum var lokað hellti ég smá hvítvíni yfir og pakkaði honum svo alveg inn. Sett á grillið og leyft að sitja þar þangað til að maturinn var tilbúinn.

steik_1023196.jpg

Steiktum einnig nokkra kartöflubáta á pönnu til að hafa með matnum. Grillaði einnig nokkrar kúrbítssneiðar með, bara penslaðar uppúr smá olíu, salt og pipar og svo grillað. Einfalt og gott. Hef sjálfur verið að dunda við að rækta kúrbít. Árangurinn hefur verið góður. Læt fylgja með mynd að því sem beið í garðinum þegar heim var komið.

img_2963.jpg

Bon appetit

No comments:

Post a Comment