Monday 13 September 2010

Klakamót í Lundi: 33 langelduð lambalæri, 40 lítrar af rjómasveppasósu, 40 kartöflugratín og 40 kíló af salati fyrir svanga fótboltagarpaJæja ... það verður að segjast að það er erfitt að vélrita þessa færslu þar sem ég er með harðsperrur í öllum skrokknum, meira að segja í fingrunum. Um helgina var haldið klakamótið í knattspyrnu og var að þessu sinni haldið í Lundi. Þetta mót er fyrir Íslendinga sem eru búsettir í Skandinavíu og hafa áhuga á því að leika sér í fótbolta. Þetta mót hefur verið haldið nokkuð oft, en menn greinir þó eitthvað á um það hvenær fyrsta mótið var haldið - mögulega var fyrsta mótið 1981, '84 eða '86. En óháð því mun þetta hafa verið stærsta mótið sem haldið hefur verið hingað til. Í þetta sinn tóku 272 glaðir Íslendingar þátt í mótinu - 26 lið skráð til þátttöku.

Og stemmingin var frábær. Menn mættu hvaðanæva að, allt frá Uppsölum í Svíþjóð og sunnan frá Sönneborg í Danmörku og allsstaðar á milli. Áhugi á fótbolta, bjórþorsti og íslenski uppruninn sameinaði alla! Fótboltaliðið Þungur hnífur frá Lundi skipulagði mótið og samkvæmt heimildum munu þeir hafa hafist handa fyrir sex mánuðum. Eiginkonur þeirra, húsmæðramafían svokölluð, sá um veitingasölu og fótboltaliðið Þyngri hnífur hljóp einnig undir bagga.

Það má segja að ég hafi verið plataður í að sjá um eldhúsið - það er alveg satt! Fyrir mánuði síðan fékk ég skilaboð á Facebook um hvort að ég væri til í að vera til ráðleggingar um matseld fyrir mótið. Það er nú einfalt að gefa ráð! Síðar fékk ég símtal frá öðrum sem nefndi að margir væru til skrafs og ráðagerða. Tveimur vikum fyrir mótið var svo haldinn fundur þar sem í ljós kom að enginn væri kokkurinn, nema ég ... og ég er ekki einu sinni kokkur! Enn ég var viljugt fórnarlamb - þannig að ég vældi ekki svo mikið að hafa verið blekktur af Hnífunum og lét því til leiðast, með bros á vör ... var það ekki annars?Við hittumst á fundi og lögðum á ráðin. Við settum saman matseðil, eitthvað sem þreyttum og svöngum fótboltagörpum ætti að þykja gott eftir að hafa sparkað í bolta allan daginn og skolað niður nokkrum öldósum.Og það var ekkert lítið af mat sem var pantaður fyrir kvöldverðinn. Gert var ráð fyrir því að 272 fótboltagarpar væru svangir ... mjög svangir. Því pantaði ég 100 kíló af lambalærum, tæp 80 kíló af kartöflum, 40 lítra af rjóma, 3 kíló af smjöri, 10 kíló af osti, 12 kíló af sveppum, 15 kíló af káli, 140 tómata, 40 paprikur, 3 kg af fetaosti, fullt af kryddi, salti og pipar og margt margt fleira. Mótið var haldið rétt fyrir utan Lund í Södra Sandby í nýjum skóla. Þar fékk ég elda í tveimur heimilisfræðistofum. Allt splunkunýtt. 16 eldavélar og 16 ofnar. Ansi mikið til að henda reiður á!

Ég náði meira að segja að vera með í þremur leikjum yfir daginn. Skoraði meira að segja tvö mörk með liðinu Tæklandi Læknar. Liðsmenn tæklandi lækna voru undrandi yfir því að ekki sigra mótið ... mjög undrandi! Okkur gengur vonandi betur á næsta ári!

Klakamót í Lundi: 33 langelduð lambalæri, 40 lítrar af rjómasveppasósu, 40 kartöflugratín og 40 kíló af salati fyrir svanga fótboltagarpaJæja - þá er að hefjast handa. Fyrst var að forkrydda lambalærin. Byrjaði á því að nudda þau upp úr jómfrúarolíu, síðan nóg af pipar, salt og síðan með blöndu af timian, bergmyntu, rósmarín og lavender. Látið standa yfir daginn og marinerast á meðan aðrir liðir á matseðlinum voru undirbúnir.

Lambalærunum var síðan komið fyrir í 16 ofnum og bakað við lágan hita í 2-3 klukkutíma þar til að kjarnhitinn náði 60-65 gráðum. Þá voru þau tekin út og látin standa við herbergishita í 30 mínútur undir álpappír. Á meðan var grillið sett í gang. Lærin voru síðan kláruð á grilli og steikt þar til þau voru brún og stökk að utan. Þá var kjötið skorið af beininu. Áður en það var sneitt niður smurðum við ríflega af ferskri kryddjurtablöndu yfir kjötbitann.Kryddblandan sem ég útbjó samanstóð af fullt af ferskri steinselju, majoram, timian, bergmyntu og rósmarín, jómfrúarolíu, sítrónubörk, balsamikediki og auðvitað salti og pipar. Myndin sýnir kryddblönduna á forstigi - átti þarna eftir að bæta jómfrúarolíunni og edikinu samanvið.Gerðum kartöflugratín - fjörutíu stykki!. Fyllti fjörutíu 3L eldföst mót hvert og eitt með niðursneiddum kartöflum, handfylli af smáttskornum lauk, 1 msk af hvítlauk, nóg af salti og pipar, þurrkað rósmarín, 1 L af rjóma, nokkrar klípur af smjöri, 400 gr af osti sett ofan á. Bakað í ofni í 6 korter við 180 gráður.Gerðum einnig salat- kannski ekki við - dömurnar á myndinni sáu um alla vinnuna. Þær skáru niður icebergsalat, tómata, papríkur og muldu svo fetaost yfir. 0g síðan var öllu auðvitað blandað saman. Ég gerði þó vinagrettuna úr jómfrúarolíu, smáttskornum hvítlauk, balsamediki, salt, pipar og sítrónusafa sem var síðan blandað saman við salatið.Sósan var gerð að fyrirmynd Ragnars Blöndals kokks (hann hafði einnig áhrif víðar!) sem eldaði fyrir sextugsafmæli foreldra minna í sumar. Ég breytti lítilsháttar útaf. Takk nafni! Fyrst bræddi ég smjör í potti. 2 kíló smjör á móti ellefu kílóum af sveppum. Steikti ansi lengi, sveppirnir gáfu frá sér vökva sem fékk síðan að sjóða niður, saltað og piprað
 

. Síðan var sveppunum leyft að ristast í pottinum og þegar þeir voru fallega gullinbrúnir setti síðan rúman tvo lítra af rauðvíni - Drostdy Hof úr búkollu. Sauð niður vínið. Síðan setti ég 20 lítra af rjóma og svo 15 lítra af kjötsoði. Saltað og piprað. Sósan fékk síðan að sjóða nokkra klukkutíma. Passaði bara að bæta aðeins á soði í pottinn yfir daginn og líka að hún brynni ekki við botninn. Hún þykknaði hægt og rólega og það þurfti einungis að nota smáræði af maizenamjöli til að þykkja hana í lokin.Vil taka sérstaklega fram að svona verkefni var ekkert sólóprojekt, því fer fjarri. Fyrr um daginn naut ég góðrar aðstoðar Tungs hníf sem komu og hjálpuðu til við að skera niður ýmislegt. Seinna um daginn var nokkrum duglegum eiginkonum skipt inná: Þórey, Jara, Björk og Lóa. Hvílíkir dugnaðarforkar. Vinaliðið Tyngri hnífur kynnti undir kolunum og bar niður úr eldhúsinu. Þegar við vorum að grilla vatt sér að herramaður að nafni Níels og stóð í ströngu við grillið og svo kom kokkur frá Danmörku, Siggi, og hjálpaði okkur að úrbeina herlegheitin. Takk öllsömul fyrir hjálpina.


Þetta gekk lygilega vel og strákarnir voru sáttir og saddir. Veit samt ekki alveg hvort að ég tek svona að mér aftur. Að vera kokkur er ALVÖRU vinna! Ætli ég haldi ekki áfram í dagvinnunni - tek á móti tímapöntunum á gigtardeildinni í Lundi! Síminn er ...

Bon appetit.

No comments:

Post a Comment