Sunday 10 November 2013

Grillaður kjúklingur með 40 hvítlauksrifjum og saus velute - heimsótt aftur

Ég verð að viðurkenna að ég hef bloggað um þennan rétt áður. Þetta er svona "revival" færsla. Það var sumarið 2008 að ég bloggaði fyrst um þennan rétt, sjá hérna. Þá ofnbakaði ég hann, en ég hef líka prófa að steikja hann á pönnu, sjá hérna - sem var líka ljúffengt. Að þessu sinni notaði ég ferskan hvítlauk sem ég fann á grænmetismarkaðnum í gærmorgun og svo líka fáfnisgras (estragon) sem fer alveg sérstaklega vel kjúklingi.


Ég var með fullt hús af gestum í gærkvöldi. Tengdafaðir minn, Eddi og kærastan hans Dóróthea, hafa verið í heimsókn hjá okkur síðustu daga. Svo kom bróðir minn og kærastan hans suður frá Stokkhólmi og til að slá upp alvöru partíi bauð ég líka útgefendunum mínum, þeim Tomma og Önnu Margréti og svo auðvitað öllum krakkaskaranum. Þetta varð ljómandi góð veisla. Og það var alveg ástæða til að fagna - allavega fannst mér það. Það er nú ekki á hverjum degi sem maður sér bók eftir sjálfan sig á metsölulista - númer eitt í bókaflokknum hand-, fræði- og matreiðslubækur, og svo númer tvö á metsölulistanum á eftir sjálfum Arnaldi Indriðasyni! Maður lifandi - hvað ég er glaður með þetta!Og þá er bara um að gera að lyfta glösum og skála! Skál!

Grillaður kjúklingur með 40 hvítlauksrifjum og saus velute - heimsótt aftur

Fyrir kjúklinginn;
1 kjúklingur
40 hvítlauksrif í pappírnum
20 gr smjör
1 tsk fáfnisgras
Salt og pipar

Fyrir meðlætið;
1 kg blandaðar gulrætur
1 msk andafita
1 msk hunang
salt og pipar
Fersk steinselja

Fyrir sósuna;
600 ml kjúklingasoð (auk þess sem fellur til við eldun kjúklingsins)
30 gr smjör/30 gr hveiti (smjörbolla)
150 ml rjómi
salt og pipar
(soya og sulta ef þarf)


Ferskur hvítlaukur er bragðmikill og eilítið hastur og er ofsalega góður bakaður þar sem bragðið þróast og verður sætt og kraftmikið. 


Fáfnisgras er bragðgott krydd - það er með anískeim og þekktast fyrir þáttöku sína í bernaise sósu en á erindi mun víðar eins og í þennan rétt. Fáfnisgras á fastan sess í franskri matargerð og tilheyrir flokknum fines herbes ásamt kerfli, steinselju og graslauk. 


Ég bræddi 75 gr af smjöri sem ég penslaði kjúklinginn með. 


Skar niður fáfnisgrasið og dreifði yfir kjúklinginn ásamt ríkulegu magni af salti og pipar. Setti hvítlauk inn í hvern kjúkling og svo restina í kring. 


Setti kjúklinginn út á grill, á óbeinan hita við 200 gráður og bakaði í einn og hálfan tíma þangað til kjarnhiti fuglsins var kominn í 84 gráður. 


Sá þessar fallegu gulrætur á markaðnum í morgun og það var nú ekki hægt að standast þær. Keypti fjólubláar, gular og svo auðvitað venjulegur nýjar gulrætur. 


Velti gulrótunum upp úr einni matskeið af bræddri andafitu og einni matskeið af hunangi. Og svo er auðvitað saltað og piprað. Bakað í forhituðum ofni, 180 gráður í rétt rúman klukkutíma.


Síðan voru gulræturnar færðar yfir í skál og nokkrum ferskum steinseljulaufum sáldrað yfir. 


Kjúklingurinn heppnaðist ljómandi vel - var lungamjúkur og ljúffengur. 

Gerði einfalda sósu með matnum. Átti kraftmikið kjúklingasoð sem ég sauð upp og þykkti með smjörbollu. Hellti svo kraftinum af kjúklingum samanvið. Rjómaskvetta, salt og pipar og leyft að sjóða í nokkrar mínútur. Voila.


Við skáluðum í ljúffengu kampavíni sem Anna Margrét og Tómas komu með. Veuve Clicquot Ponsardin Brut - sem alla jafna gengur undir nafninu Gula ekkjan. Þetta er vín sem á sér langa sögu. Fyrirtækið var stofnsett 1772 af Philippe Clicquot en þegar hann lést 1805 tók eiginkona hans, Barbe-Nicol Ponsardin, yfir reksturinn og einbeitti sér helst að kampavínsframleiðslunni. Hún var ein af fyrstu viðskiptakonunum í Frakklandi og undir hennar stjórn óx fyrirtækið og er í dag einn af risunum á kampavínsmarkaðinum. 

Þetta er ljómandi góður sopi. Fallega strágult í glasi, léttur ilmur sem springur út í munni með léttum ávexti og mildum sítrónukeim! 


Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment