Sunday, 7 October 2018

Snöggsteiktar nautasteikur ala Marco Pierre White í grænpiparsósu með ofnbökuðum kartöflum og fersku salati


Ég hef verið að horfa á Michelin- og sjónvarpskokkinn Marco Pierre White á Youtube upp á síðkastið. Fyrir þá sem ekki vita þá var hann líklega einn af fyrstu stjörnukokkum Bretlands. Hann rak nokkra veitingastaði, af þeim var Harvey's í London þekktastur og hann þjálfaði aðrar verðandi stjörnur eins og Gordon Ramsey. Hann var þekktur skapofsamaður og tók Gordon upp eftir honum þegar hann fór að reka eigin eldhús með öskrum, blóti og ragni eins og frægt er orðið. Á miðjum áttunda áratugnum var hann yngsti kokkurinn til að fá þrjár Michelin stjörnur, þá aeðins 33 ára gamall (met hans var þó slegið nokkrum árum síðar). Árið 1999 - öllum að óvörum - hengdi hann upp svuntuna sína og hætti að starfa í eldhúsi. 

Eitthvað þurfti hann þó að gera til að draga fram lífið og rekur í dag veitingastaði, hefur gefið út fjölda matreiðslubóka og komið fram í sjónvarpi - og er forríkur.  Það orkaði þó tvímælis þegar hann gerðist talsmaður Knorr fyrirtækisins, sem flestir þekkja, og sagði þá vera leynivopn sitt í eldhúsinu og hafa verið það um langt árabil. Hneykslunaralda gekk yfir fylkingu matreiðslumanna sem margir gera allt frá grunni! 

Eins og flestir þá nota ég kraft (bæði teninga, duft og vökva) - það er auðvitað fljótlegt. En maður verður ekkert sérlega innblásinn þegar maður les innihaldslýsinguna - þarna er auðvitað salt og fita auk bragðaukandi efna eins og gerextract og mónósódíum glútamat og svo smá kjöt. Ekki að það sé eitthvað slæmt - en kannski ekki eitthvað sem þriggja stjörnu kokkur myndi státa sig af. Þannig að ég varð að prófa. 

Snöggsteiktar nautasteikur að hætti Marco Pierre White í grænpiparsósu með ofnbökuðum kartöflum og fersku salati

Þetta telst seint vera merkileg eldamennska - en þar sem þetta heppnaðist vel þá fannst mér skemmtilegt að greina frá því. 

Svo má jafnframt benda á að ég er ekki talsmaður Knorr - maður má nota hvaða kraft sem er, frá hvaða merki sem er! Þetta var bara það sem ég átti til í skúffunni. 

Hráefnalisti fyrir 6 

6 steikur (200-250g)
3 msk jómfrúarolía
2 kjötkraftsteningar 
pipar
smjör til steikingar

Fyrir sósuna

4 msk Worchestershire sósa
400 ml rjómi
3 msk þurrkuð græn piparkorn
salt og pipar eftir smekk

kartöflur
4 msk hvítlauksolía
ferskt timjan
salt og pipar

blanda af íslensku grænmeti


Ég notaði sumsé venjulegan nautatening.


Og maukaði hann vel niður í jómfrúarolíu með fingrunum.


Svo var nautakraftsmaukinu bara nuddað vandlega inn í kjötið. 


Næst var að steikja kjötið að utan í nógu af smjöri þangað til að það var fallega karmelliserað á hvorri hlið. Ég steikti í tæpar 2 mínútur á hvorri hlið og setti svo steikurnar til hliðar á meðan ég útbjó sósuna.


Og þetta er með aleinföldustu sósum sem ég hef gert! Hellti Worchestershiresósunni á pönnuna og sauð upp og svo niður um helming. 


Næst, nóg af rjóma - sem var líka látin krauma og sjóða niður um þriðjung. 


Svo var bara að bæta grænum piparkornum saman við og láta krauma í tvær til þrjár mínútur í viðbót.


Svo var lítið annað að gera en að koma steikunum fyrir og bera á borð fyrir svanga gesti.

Við höfðum auðvitað byrjað á kartöflunum. Fyrst skornar niður í helminga, velt upp úr hvítlaukolíu og svo bragðbættar með salti, pipar og fersku timjan. Bakað í forhituðum 180 gráðu heitum ofni í 45 mínútur.

Salatið var heldur ekki flókið, enda þarf það ekkert að vera það. Bara að raða fersku íslensku grænmeti ofan á fersk salatblöð sem búið er að skola. Smá fetaostur til að lyfta því upp og gefa aðra áferð.
Ég greip þessa flösku með mér þegar ég var á leið í gegnum tollinn síðast. Þetta vín hef ég smakkað einu sinni áður fyrir tæpum tveimur árum. Ég hef lengi verið hrifinn af Malbec vínum frá Argentínu - sér í lagi eftir að ég heimsótti landið vegna ráðstefnu fyrir fimm árum. Þetta vín er frá 2015 - dökkrautt, næstum blekað, í blasi - ljúfir tónar af berjum, jafnvel bláberjum, eik. Flauelsmjúkt á tungu með ljúft og breitt eftirbragð. 


Svo var bara að raða á diska og setjast niður og njóta.

Og það er óhætt að hvetja ykkur til að prófa - þetta varð einstaklega bragðgóð og bragðmikil steik!

Bon appetit! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Wednesday, 3 October 2018

Tribjút til Tjöruhúsins, taka tvö - rommkarmelliseraður saltfiskur með gulrótarturnum og gufusoðnu pok-choy


Eins og ég nefndi í færslu í byrjun september, sjá hérna, þá fórum við fjölskyldan í ferðalag um Vestfirðina síðastliðið sumar. Þá heimsóttum við meðal annars Tjöruhúsið á Ísafirði sem er án efa einn besti fiskveitingastaður á Íslandi. Síðan við fórum þangað hef ég mælt með þessum stað við flesta sem hafa áhuga. 

Einn af réttunum sem við borðuðum á veitingastaðnum var eldaður af syni aðalkokksins, en sonurinn er rétt rúmlega tvítugur. Hann virðist ætla að verða föðurbetrungur. Og það er ekkert að því sem faðir hans eldar - réttirnir hans eru vissulega ljúffengir. Ljúffengir! 

Þessi uppskrift er innblásin frá Tjöruhúsinu - mér tókst þó ekki að líkja algerlega eftir því sem við gæddum okkur á í veitingahúsinu - en þetta er tilraun mín til að útbúa eftir minni, bragðlaukaminni, það sem við fengum að borða þar. 


Ef sonur kokksins á Tjöruhúsinu les þetta, þá má hann gjarnan senda mér sína uppskrift. Og þó að mín hafi heppnast vel, þá var hans útgáfa enn betri. 

Tribjút til Tjöruhúsins, taka tvö - Rommkarmelliseraður saltfiskur með gulrótarturnum og gufusoðnu pok-choy

Þetta er auðvitað alger fusion eldamennska. En svona verða stundum góðar uppskriftir til - með tilraunum. 

Það er líka gaman að elda með íslensku hráefni, eins og saltfiski, og svo auðvitað splunkunýtt íslenskt grænmeti. Og það er nóg í boði af því um þessar mundir - eins og það er öll haust! 

Hráefnalisti fyrir 6 manns

1,2 kg saltfiskur - hnakkastykki
100 g smjör
2 msk hveiti
pipar
100 g púðursykur
4-5 msk romm
30 g smjör
handfylli pekan hnetur

600 g stórar gulrætur
3-4 greinar rósmarín
5-6 lauf fersk salvía
3 msk hvítlauksolía
50 g smjör
2-3 msk hunang (eða hlynsíróp)

250 g pak choy
safi úr heilli sítrónu
2 msk jómfrúarolía
1 msk sherrý edik
salt og piparÉg gerði karamellu, setti sykurinn í botninn á stórum pottinn, og kveikti undir - á lágum hita og beið eftir því að sykurinn bráðnaði. Þegar hann fór að bráðna á jaðrinum dró ég hann inn að miðju þannig að hitinn dreifist jafnar um pönnuna og sykurinn bráðni jafnt. Þegar sykurinn var bráðnaður bætti ég við rommi og smjöri. Lét standa í augnablik á meðan ég sinnti saltfisknum. 


Á meðan smjörið bráðnaði á pönnu, velti ég saltfisknum upp úr hveiti og pipraði aðeins. Steikti svo fiskinn upp úr smjörinu.


Bætti handfylli af pekanhnetum á pönnuna og steikti með í nokkrar mínútur.


Hellti svo rommsírópinu á pönnuna. 


Steikti svo áfram í nokkrar mínútur - alls um 10 mínútur. 


Gulræturnar tóku lengri tíma - þannig að ég hefði átt að byrja færsluna á þeim - þær taka um klukkustund í ofninum. Byrjaði á því að flysja þær og skera í nokkuð jafnstóra bita. Gat dobblað Snædísi til að hjálpa mér. Það þurfti engar sérstaka fortölur. 


Gulrótunum var svo raðað í eldfast mót sem ég hafði penslað með hvítlauksolíu. Bragðbætti með smjöri, ferskum kryddjurtum og svo hunangi. Bakaði í 180 gráðu heitum ofni í klukkustund eða svo. 


Nú er hægt að fá íslenskt pok choy - sem er í raun bara afbrigði af því sem við þekkjum sem kínakál - en þetta afbrigði er það sem er algengast í heiminum. 


Ég ákvað að gufusjóða það yfir kjúklingasoði og nokkrum sítrónusneiðum í nokkrar mínútur.


Svo var bara að leggja það á disk og bragðbæta með olíu, sítrónusafa, ediki, salti og pipar.


Með matnum drukkum við þetta ljúffenga rauðvín frá norðanverðu Rioja héraði - Ramon Bilbao. Þetta vín er unnið úr 100% Tempranillo þrúgum. Þetta vín tók ég þátt í að velja til innflutnings nú í vor þegar mér var boðið í heimsókn til Rioja. Þetta er bragðmikið vín - fullt af frísklegum berjatónum, milt kryddað með ljúffengu eikarbragði. Passaði ákaflega vel með saltfiskinum. 


Og hér er hann kominn - rommkarmelliseraður saltfiskur með gulrótarturnum og gufusoðnu pok-choy. 

Afar ljúffengt! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 23 September 2018

Vel hangið og betur kryddað lambalæri með marglitu blómkáli, ekta soðsósu, soðnum kartöflum og ljúffengu rauðvíni


Við komum heim frá Spáni í gærkvöldi eftir vikudvöl við tökur á nýjum sjónvarpsþáttum. Þetta var sannarlega mikil upplifun - það er eiginlega erfitt að lýsa þessu nákvæmlega. Þetta er ekki frí - þar sem maður er að fullu í tökum. eiginlega frá morgni til kvölds. En það mætti lýsa þessu sem ótrúlega skemmtilegri vinnuferð - þar sem allir eru að sýna manni sínar bestu hliðar í mat og drykk. Að auki var ég líka sérstaklega heppinn með vinnufélaga - teymið sem við Kristján Kristjánsson leikstjóri höfum verið að vinna með nú í sumar og í þessari ferð eru skemmtilegt með eindæmum. 

Rek þessa ferð nánar í næstu færslu - og svo auðvitað í þáttunum sem verða á dagskrá nú í vetur. Ég er nokkuð spenntur að sýna ykkur afraksturinn. 

Sumarið var ennþá á Spáni í vikunni sem leið og hitinn náði stundum yfir þrjátíu stig - og rakt. Það var því óneitanlega frískandi að stíga úr Leifsstöð og fá í fangið dásamlegt íslenskt haust. Og gærdagurinn var einstaklega fallegur - kvöldið heiðskýrt og á himnunum dönsuðu norðurljósin í næturmyrkrinu. 

Og þetta er haust-uppskrift - vel eldað lambalæri með flestu af því sem mér finnst tilheyra. Í sjálfu sér ekki margt nýtt á ferðinni - meira bara verið að skerpa á því hvernig má hlúa að hefðunum. 

Vel hangið og betur kryddað lambalæri með marglitu blómkáli, ekta soðsósu, soðnum kartöflum og ljúffengu rauðvíni

Hráefnalisti

1 lambalæri
3 msk jómfrúarolía
3 msk birkisíróp
handfylli þurrkuð kryddblanda af eigin vali (rósmarín, mynta, blönduð piparkorn, allrahanda, einiber - eitthvað í þá áttina)
1/2 flaska gott rauðvín
mirepoix - gulrætur, laukur, hvítlaukur og sellerí
200 ml vatn
Salt og pipar

2 sellerísstangir
1 rauðlaukur
2 gulrætur
2 hvítlauksrif
3 lárviðarlauf
grillað lykilbein
vatn til að þekja
salt og pipar
allur vökvi af lærinu
smjörbolla
50 g af smjöri

3 hausar af blómkáli
salt og pipar
5-6 msk hvítlauksolía

1 kg nýjar kartöflurÉg sótti þetta læri í kjötborðið í Hagkaup í Kringlunni - þeir eru með skáp þar sem kjötið er látið hanga og meyrna í nokkrar vikur. Lærið sem ég hafði keypt hafði fengið að hanga í tvær vikur. Margir hafa það að venju að láta læri meyrna í ísskáp í 5-7 daga í umbúðunum áður en það er eldað. Það er líka góð hugmynd. 


Það er auðvitað hægt að kaupa lærið án lykilbeinsins - eða biðja kjötkaupmanninn um að fjarlægja það fyrir þig. Ég lagði í þetta sjálfur - en það er nú ekki svo flókið - bara að elta beinið með beittum hníf, og fara varlega. Þá hefst þetta að lokum. Og þeim mun oftar sem maður gerir þetta þeim mun betra.


Svona á það að líta út þegar búið er að skera það frá. Það eina sem ég gerði var að maka það sem dálítilli jómfrúarolíu, salta og pipra og grilla svo inní blússheitum ofni í nokkrar mínútur.


Næsta skref var að undirbúa lærið fyrir ofninn. Skar gulrætur, hvítlauk, sellerí og lauk gróflega og setti í ofnpott ásamt jómfrúarolíu, rauðvíni, vatni og lárviðarlaufi. 


Nuddaði lærið með jómfrúarolíu og penslaði með birkisírópi. 


Sáldraði svo kryddblöndunni sem ég hafði útbúið jafnt yfir lærið. Saltaði og pipraði. Bakaði svo í 160 gráðu forhituðum ofni þangað til að kjarnhiti lærisins hafði náð 52 gráðum. Þá tók ég það út og lét það hvíla í 30 mínútur. Þá saltaði ég það ennþá meira og brúnaði undir heitu grilli í örskamma stund. 


Á meðan lærið var í ofninum hugaði ég að sósunni. Skar niður mirepoix grænmetið og steikti í smjöri og olíu með lárviðarlaufi. Saltaði og pipraði. Kom svo brúnuðu lykilbeininu fyrir í pottinum og hellti vatni í pottinn. Hitaði að suðu og lét krauma í um 90 mínútur. Gætti þessa að fleyta froðunni sem flýtur upp á yfirborðið ofan af - þannig verður sósan fallegri á litin.


Næst var að sinna blómkálinu. Mér höfðu áskotnast þessi fallegu marglitu blómkálshöfuð. 


Snyrti þau aðeins og kom fyrir á götóttri ofnskúffu.


Ég bý það vel að eiga gufuofn frá Bosch sem er einfaldur í notkun. Kom vatninu fyrir og gufusauð blómkálið í 20 mínútur í ofninum.


Svo var bara að pensla það með hvítlauksolíu og salta rækilega.


Þá var bara að klára sósuna. Þykkti síað soðið í smjörbollu.


Smakkaði til með smá sultu, salti og pipar og ögn af worchestershiresósu. Loks smjörklípa til að fá fallegan gljáa.


Svo var bara að bera herlegheitin á borð.


Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég blogga um þetta vín; Masi Tupungato Corbec frá 2015. Þetta er blanda af Corvina og svo Malbec. Corvina þrúgan rekur uppruna sinn til Valpolicella en er ræktað í Argentínu sem er síðan blandað við Malbec (sem er algengasta þrúgan sem notuð er í argentínskri víngerð). Þetta vín er fallega dökkrúbinrautt í glasi. Ilmar af ávexti, smá súkkulaði, vanillu og svo eru eikartónar. Bragðið passar ljómandi við ilminn og hefur góða fyllingu og þægilega mjúkt eftirbragð. Þetta er dúndurvín.Þetta er að mínu mati - klassísk haustmatargerð. Og heppnaðist frábærlega. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum HagkaupaSaturday, 15 September 2018

Stolin uppskrift; Mangó, avókadó og bleikjusashimi - blóm með ponzusósu - mín útgáfa


Ég hitti nýverið Dröfn Vilhjálmsdóttur matarbloggara og lífskúnstner og varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að smakka þennan rétt hjá henni. Þvílíkur réttur - ferskur og bragðmikill. Auðvitað gætuð þið smellt á þennan hlekk - og farið beint yfir á síðuna hennar og gert upprunalegu útgáfuna. Ég skil ykkur bara mætavel!

Nokkrum dögum eftir að við hittumst var ég með gesti í mat og auðvitað varð ég að kynna vini mínum fyrir þessari frábæru uppskrift. Og til þess að hafa eitthvað til að skrifa um - varð ég auðvitað að breyta henni lítillega. Þannig finnst mér skemmtilegt að elda - elda eftir minni og reyna að líkja eftir einhverri matarupplifun.

Svo er líka sagt að það að herma eftir einhverjum sé hæsta form hóls!

Ekki er verra hvað þetta er fljótlegur forréttur. Hann verður eiginlega bara tilbúinn þegar maður er búinn að skera niður í hann og raða honum á disk.

Stolin uppskrift; Mangó, avókadó og bleikjusashimi-blóm með ponzusósu - mín útgáfa.

Fyrir sex

400 g bleikja
2 avókadó
1 stórt mangó
50 g fetaostur
salat til skrauts
sítrónusafi

3 msk jómfrúarolía
3 msk soyasósa
2 cm engifer
1 hvítlauksrif
1/2 rauður chili
1 tsk sykur
safi úr hálfri sítrónu
1 msk ristuð sesamfræ
salt og pipar


Ég held að það sé skynsamlegt að byrja á því að gera sósuna. Sósur eins og þessar njóta þess að fá að kynnast í tvö til þrjú kortér áður en þær eru notaðar - þannig fá hráefnin smástund til að blandast saman. 

Ég byrjaði á því að rífa engifer og hvítlaukinn með rifjárni og setja saman við olíuna, sítrónusafann, sykurinn og soyasósuna. Svo kjarnhreinsaði ég chilipiparinn og bætti saman við. 


Svo var þurrristuðum sesamfræjum bætt saman við og smakkað til með salti og pipar. 


Næst var að sinna bleikjunni. Ég hafði keypt Klausturbleikju í Fiskbúðinni við Sundlaugaveginn. Það hefði eins mátt nota Fjallableikju eða jafnvel lax. 


Skar bleikjuna í þunnar sneiðar og penslaði þær svo með smáræði af sítrónusafa. Þannig eldar maður fiskinn lítillega.


Þessi mynd er eiginlega bara til að sýna að mér tókst að kaupa ekki bara eitt heldur tvö fullkomlega fersk avókadó. Hélt eiginlega að þetta væri algerlega ómögulegt á Íslandi! Skar það svo niður í sneiðar eins og mangóið.  


Svo var lítið annað að gera en að raða réttinum saman. Ég gerði tilraun til að raða þessu upp eins og einhvers konar blómi. Skreytti með muldum fetaosti, nokkrum salatblaðatoppum og reyndi svo að dreifa ponzusósunni jafnt yfir. 


Með þessum rétti bar ég fram þetta ljúffenga hvítvín, Leyda Reserva Sauvignion Blanc frá 2016. Þetta vín er frá Chile. Þetta er nokkuð ferskur sopi - með vanillu og pínu sætum rúsínukeim í nefi og svo mjúk smjörkennd sítróna á bragðið. Bar sig vel með bragðmiklum forréttinum. 

Þetta var sannarlega góður forréttur. 

Það var vel þess virði að stela honum af Dröfn - ég á án efa eftir að gera hann aftur. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

LinkWithin

Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...