Sunday, 10 June 2018

Marineraðar lambakótilettur með mangó, chili og tómatsalsa, ostafylltum papríkum, gúrkum í majó og vel laukuðu kartöflusalati

Þennan rétt gerði ég í byrjun síðustu viku fyrir grillblað Morgunblaðsins sem kom út nú um helgina. Ég var fullur af innblæstri eftir ferðalag helgarinnar en við höfðum verið við tökur á þættinum mínum, Lambið og miðin, á Mývatni og í Húsavík. Ferðalaginu er þó langt frá því lokið. Við eigum ennþá eftir að taka upp á Snæfellsnesinu, Vík, Höfn og í Vestmannaeyjum. Mikið hlakka ég til - það er svo gaman að elda góðan mat, umlukin góðu fólki og ótrúlegri náttúru.

Alltént er innleggið hér sem ég sendi í Grillblaðið. Það er vel þess virði að næla sér í eintak - auk mín voru margir með skemmtilegar og spennandi uppskriftir.

----

Loksins erum við Reykvíkingar farnir að sjá einhver teikn um að sumarið sé á næsta leiti. Sólin hefur aðeins gægst út í gegnum skýjahnoðrana og regninu hefur eitthvað slotað. Það er fátt sem gleður meira en von um góðviðri þannig að hægt sé að kynda undir grillinu með sólarglætu í hjarta.

Þessi uppskrift tyllir því besta úr íslenskri náttúru upp á ljúfan stall þar sem lambið og grænmetið fá sérstaklega að njóta sín.

Bon appetit!
Marineraðar lambakótilettur með mangó, chili og tómatsalsa, ostafylltum papríkum, gúrkum í majó og vellaukuðu kartöflusalati 

Hráefnalisti

Marineraðar lambakótilettur

2 hryggir skornir í 1,5 cm þunnar sneiðar
4 msk jómfrúarolía
safi úr einu lime
börkur af einu lime
3 hvítlauksrif
½ rauður chilipipar
1 tsk hlynsíróp
salt og pipar

Vel laukað kartöflusalat

1 kg smælki með hýðinu
1 rauðlaukur
búnt af vorlauk
4 skalottulaukar
4 msk smátt skorinn graslaukur
4 msk smátt skorin steinselja
3 hvítlauksrif
3 msk majónes
2 msk grísk jógúrt
2 tsk hlynsíróp
2 tsk hvítvínsedik
salt og pipar

Mangósalsa

1 mangó
4 kjarnhreinsaðir tómatar
1 rauður chilipipar
2 msk hökkuð fersk mynta
4 msk jómfrúarolía
2 tsk hlynsíróp
salt og pipar

Fylltar papríkur

5 rauðar íslenskar papríkur
400 g rjómaostur til matargerðar
einn castello-ostur með chilibragði
4 hvítlauksrif
1 msk hökkuð fersk steinselja
1 msk hökkuð fersk basil
salt og pipar

Agúrkusalat frá Hveravöllum

1 kjarnhreinsuð agúrka
1 tsk sykur
2 msk majónes
1 tsk hökkuð ferks steinselja
safi úr hálfu lime
salt og piparÉg átti talsvert af grænmeti eftir að loknum tökum sem ekki var hægt að láta það fara til spillis.


Ég lét eina öskju af rjómaosti ná herbergishita, færði hann yfir í skál og hrærði upp til að mýkja hann enn frekar.


Kastaði mæðinni með því að deila fordrykk með gestunum okkar. Ég skenkti í glös Masi - Rosa dei Masi. Eftir að hafa heimsótt þennan vínframleiðanda hefur hrifning mín á þessu víni aukist umtalsvert. Þetta er ljúft ávaxtaríkt vín sem gott er að drekka þegar sést til sólar. 


Skar papríkurnar í helminga og kjarnhreinsaði. Saxaði kryddjurtirnar og hvítlaukinn smátt og blandaði saman við rjómaostinn ásamt salti og pipar.


Ostablöndunni tróð ég svo í papríkurnar og lagði væna sneið af castello chiliosti ofan á.


Blússhitaði grillið og bakaði papríkurnar í um 20-25 mínútur. 


Mangósalsað var nauðaeinfalt. Skar einfaldlega mangó, tómata, chili og myntu niður og blandaði saman og lagði í skál. Bragðbætti síðan með jómfrúarolíu, hlynsírópi og salti og pipar.


Gúrkusalatið var einnig fljótlegt og einfalt. Ég fékk hugmynd að þessari uppskrift frá Páli og Heiðbjörtu á Hveravöllum. Kjarnhreinsaði eina agúrku og skar í litla bita. Bætti majónesi saman við ásamt sykri, smátt skorinni steinselju, limesafa og saltaði og pipraði.


Bróðir minn tók að sér að gera salatið. Smælkið var soðið í söltuðu vatni, vatninu hellt frá og þær látnar kólna í 30 mínútur. Á meðan skar hann niður alla laukana og blandaði þeim svo saman við kartöflurnar ásamt kryddjurtunum. Að lokum hrærði hann í sósuna og blandaði henni svo saman við kartöflurnar og laukinn. Smakkað til með salti og pipar.


Auðvitað marineraði ég lambakótiletturnar. Þær hafði Bjössi í Kjöthöllinni snyrt fyrir mig með stuttum fyrirvara. Ég notaði góða jómfrúarolíu, safa úr einni límónu og svo börkinn af henni, hökkuð hvítlauksrif, chili, hlynsíróp og svo salt og pipar. Þetta fékk að standa í tvær til þrjár klukkustundir áður en þær fóru á grillið.


Ég er að prófa nýtt grill - Weberinn minn lifði ekki veturinn af - það kútveltist í einhverjum storminum og vildi ekki fara í gang. Ég fékk að prófa Napóleon grill frá Byko (var einnig að grilla þar um helgina) og það kom mér á óvart hversu hratt það náði háum hita. Hlakka til að leika mér með það í sumar. 


Lambið þurfti ekki nema nokkrar mínútur á hvorri hlið.


Papríkurnar ilmuðu dásamlega þegar þær voru bornar fram.


Með matnum drukkum við Masi Tupungato Corbec frá 2015. Þetta er blanda af Corvina og svo Malbec. Corvina þrúgan rekur uppruna sinn til Valpolicella en er ræktað í Argentínu sem er síðan blandað við Malbec (sem er undirstaðan í Argentískri víngerð). Ég tel mig bera ábyrgð á því að þetta vín er nú fáanlegt á Íslandi þar sem ég hvatti Ölgerðina eindregið til að flytja það inn þegar við vorum á ferðalagi á Ítalíu síðastliðið vor. Þetta er dúndur vín!


Þetta var dásamleg máltíð. Hvet ykkur til að prófa - hvað er betra en íslenskt lambakjöt og íslenskt grænmeti.

Verði ykkur að góðu!


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Thursday, 7 June 2018

Fjölbreyttar og ljúffengar nautasteikur með sveppuðustu sveppasósu allra tíma með vel-ostuðu sætkartöflugratíni


Við erum farnir að vinna í nýrri sjónvarpsseríu sem sýnd verður eftir áramót á Sjónvarpi Símans. Fyrsta tökuhelgin var nú um liðna helgi þar sem við brugðum okkur til Mývatns og Húsavíkur. Veðurguðirnir léku við okkur með sól og blíðu, og stillu þegar ekki skein sól.

Og þetta var ekkert lítið skemmtilegt. Þetta var eiginlega ólýsanlegt - allt sem við sáum, gerðum og elduðum. Það er svo gaman að kynnast fólki við þessar aðstæður. Allir eru að sýna sínar bestu hliðar. Svo var heldur ekki leiðinlegt að vinna með svo frábærri áhöfn- Kiddi að leikstýra og framleiða, Árni og Elvar á tökuvélum og með brósi mér við hlið. Þetta var ógleymanleg helgi og ég hlakka mikið til að sýna ykkur afraksturinn. En ferðalagið er rétt nýhafið - við eigum eftir að ferðast víðar um landið.

Það er líka gott að þegar mikið er að gera að eiga gott athvarf - þar sem er hægt að slaka vel og rækilega á. Þá er best að heimsækja foreldra mína í Lækjarkoti í Kjósinni.

Fjölbreyttar og ljúffengar nautasteikur með sveppuðustu sveppasósu allra tíma með vel-ostuðu sætkartöflugratíni

Það er ánægjulegt að kynnast framleiðsluaðilum hér í landi. Metnaðurinn er mikill og afraksturinn er orðinn svo góður. Við Íslendingar megum vera stolt af þeirri matvöru sem framleidd er hérlendis.


Við ákváðum að vera aukanótt í bústaðnum og vorum ekki með nægan mat - en það vandamál var auðleyst. Við brunuðum að Sogni í Kjós og sóttum þessar nautasteikur. Ég keypti bæði rifjasteik, framhryggjarbita og svo entrecote.

Hráefnalisti

1,5 kg af blönduðum steikum
jómfrúarolía
salt og pipar

Fyrir sveppasósuna

250 g sveppir
handfylli þurrkaðir sveppir (týndir í haust í Kjósinni)
villisveppaostur
1 laukur
4 hvítlauksrif
500 ml nautasoð
250 ml rjómi
smjör til steikingar
salt og pipar

Fyrir sætkartöflurösti

stór sætkartafla
200 g cheddarostur
1/2 laukur
salt og pipar


Eldamennskan var ekki flókin. Byrjaði bara á því að skella sous vide tækinu í gang. Lét það rúlla við um 56 gráður. Skellti steikunum beint í vatnsbaðið. Hefði alla jafn kryddað með pipar og svo einhverju kryddi við höndina en ég var ekki með poka til að endurinnsigla kjötið. Með þessari aðferð fær kjötið að njóta sín. 

Þetta eru þunnar steikur - þurftu ekki nema um klukkustund - framhryggjarbitinn fékk þó að vera lengst - um 90 mínútur. Það er aðeins seigari biti en hinir og þarf aðeins lengri tíma til að brotna niður og meyrna og þarf því lengri eldunartíma. 


Á meðan var hægt að huga að meðlætinu. Skar niður laukinn, hvítlaukinn og sveppina og karmelliseraði við meðalhita þangað til að þeir tóku fallegan lit.


Vakti þurrkuðu sveppina í heitu vatni. Við það þenjast þeir út aftur. Skellti þeim svo saman við sósuna ásamt vökvanum af sveppunum.

Bætti svo nautasoði saman við og sauð niður um tæpan helming.


Skar svo niður einn sveppaost og bætti við sósuna. Og svo rjómann. Smakkaði til með salti og pipar. 


Þetta endaði sem ein bragðmesta sveppasósa sem ég hef gert - sveppabragðið var kyngimagnað. 


Svo að röstikartöflunum. Ég skar utan af kartöflunni og brytjaði niður í matvinnsluvél.


Saltaði svo og lagði í viskastykki sem ég hengdi í kranann á vaskinum. Kreisti svo vökvann úr kartöflunum. 


Raspaði svo niður helling af cheddarosti og skar niður laukinn.


Blandaði svo öllu saman og setti í eldfast mót sem ég lokaði með álpappír og bakaði í 180 gráðu heitum forhituðum ofni í um klukkustund. Tók álpappírinn af síðastu fimmtán mínúturnar svo að röstikartöflurnar fengu almennilegan lit. 


Svo var bara að klára steikurnar á grillinu. Penslaði þær með jómfrúarolíu, saltaði og pipraði og svo örskamma stund á hvorri hlið til að fá fallegar rendur í kjötið - og aukið bragð auðvitað.


Girnilegt, ekki satt?


Kjötið var fullkomlega eldað. Lungnamjúkt í miðjunni með brúnuðum hjúp. 


Við nutum Brunello Di Montalcino frá Villa Cortile Riserva frá því 2012. Brunello er einn af risum ítalskrar víngerðar og ég fengið að vera þeirrar ánægju aðnjótandi að heimsækja þennan vínframleiðenda (hægt er að sjá þættina Læknirinn á Ítalíu þar sem greint er frá þeirri heimsókn). Ég hef smakkað þetta vín nánast frá þrúgu þangað til að það kemur á flösku. Og það er magnað hvað það tekur miklum breytingum á þroskatíma sínum á tunnum og síðan flöskum. Samkvæmt Vivino er þetta vín meðal 5% af bestu vínum sem framleidd eru í heiminum í dag og fær fjóra af fimm í einkunn. Þetta vín nýtur þess að vera umhellt í karöflu í að minnsta kosti klukkustund áður en þess er neytt en það dregur fram margslungið bragðið ennþá betur - mikinn ávöxt, jarðartóna - með ljúfu og löngu eftirbragði. 


Þetta var alveg dásamleg máltíð!

Verði ykkur að góðu!


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 20 May 2018

Bragðlaukaferð til Spánar; Bilbao, Logroño og Laguardia - dásamlegur matur og ennþá ljúffengari vín


Þeir lesendur sem fylgja mér á Facebook hafa getað fylgst með ferðalagi mínu til Spánar nú í liðinni viku. Mér bauðst að fara og kynna mér víngerð Ramón Bilbao sem er skammt sunnan við Bilbao í Rioja héraði. Við vorum átta ferðalangar saman í hópi - virkilega skemmtilegir ferðafélagar - þetta voru þrír dagar, pakkaðir af mat, víni, spjalli og hlátrasköllum. Hlakka mikið til að hitta þetta fólk á nýjan leik. 

Við lögðum af stað snemma á mánudagsmorguninn og vorum ekki komin til Bilbao fyrr en tæpum tólf klukkustundum síðar. Þar tók á móti okkur fjölmiðlatengill Ramon Bilbao, Anna, sem sá til þess að við okkar var stjanað í mat og drykk. Við snerum heim til Íslands aðfaranótt fimmtudags, södd og sátt eftir spennandi og lærdómsríkt ferðalag.

Bragðlaukaferð til Spánar; Bilbao, Logroño og Laguardia - dásamlegur matur og ennþá ljúffengari vín


Við fórum út að borða á Casa Rufo sem er veitingastaður í miðbæ Bilbao í Baskalandi. Staðurinn er sannarlega einstakur. Gengið er inn í litla verslun sem selur ferskt kjöt, ansjósur sem veiddar eru í Biscay flóa, ferskt grænmeti, auk þess að vera með gríðargott úrval af vínum frá nærlægum vínekrum.


Það var enginn skortur á ansjósutegundum.


Það kenndi ýmissa grasa í þessari verslun - en hún er mun frægari sem veitingahús.


Eigandi staðarins tók á móti okkur opnum örmum og sá til þess að glös voru vel fyllt af vínum framleiddum af Ramón Bilbao og þeirra samstarfsfyrirtækjum.


Við snæddum að sjálfsögðu ansjósur - og með þeim fengum við þetta ljúffenga hvítvín sem er framleitt í Gaulverjalandi skammt frá ströndum Atlantshafsins. Það er gert úr Albariño þrúgunni sem ég hef ekki smakkað áður. Þetta er einstaklega frísklegt hvítvín með ljúfum epla- og perutónum og mjúku eftirbragði.


Ég fór og skoðaði mig um á staðnum - hann tekur ekki nema 45 manns í sæti og er hver angi staðarins aðeins krúttlegri en sá næsti.


Opið var inn í eldhús og þar mátti sjá kokkinn af störfum þar sem hann grillaði þessar risastóru nautasteikur.


Kjötið var einstaklega ljúffengt, meyrt og bragðgott.


Maður fór velmjúkur af staðnum og auðvitað fékk eigandinn knús frá okkur öllum.


Gönguferðin heim var ekki af verri endanum. Við gengum með Rio del Nervion O de Bilbao en við hana stendur Guggenheim safnið ásamt öðrum fallegum minnismerkjum.


Næsta dag tókum  viðdaginn snemma og ókum suður yfir til Rioja héraðs þar sem víngerð Ramón Bilbao er staðsett. Anna sýndi okkur vinekrurnar þar sem vínberin voru rétt að byrja að myndast. Það var áhugavert að sjá hversu mikil vinna það er að framleiða vín. Öllum þáttum víngerðarinnar er sinnt af mikilli kostgæfni.


Við skoðuðum einnig vínframleiðsluna sem er geysistór. Ramón Bilbao framleiðir meira en fimm milljón flöskur af víni árlega. Við gengum endalausa ganga af eikartunnum - en víngerðin hýsir meira en tuttugu þúsund eikartunnur af rauðvíni sem fá að þroskast í 12-24 mánuði áður en það fer á flöskur.


Að sjálfsögðu fengum við svo að smakka á herlegheitunum. Smökkuðum tvær tegundir af hvítvíni, rósavín og svo nokkrar tegundir af rauðvíni sem framleitt er í víngerðinni.


Öll voru við svöng eftir vínsmökkunina og þá fengum við hádegisverð á veitingahúsi staðarins. Í forrétt fengum við hvítan aspas, ansjósur á "gem" salathaus með ljúffengri jómfrúarolíu. Líkt og kvöldið áður var opið inn í eldhúsið og hægt að fylgjast með kokkinum að störfum. 


Í aðalrétt var boðið upp á lambakótilettur af vorlambi sem voru skornar næfurþunnt og grillaðar yfir vínviðarkolum. Afar ljúffengar bornar fram á einfaldan hátt með salti og pipar og með góðri jómfrúarolíu.


Allir fóru saddir og glaðir frá Ramón Bilbo. Fyrir miðju er Antonio Salinas markaðstjóri Ramón Bilbao. Við hittum hann svo aftur seinna sama dag.


Um kvöldið fór Antonio með okkur í gönguferð um Laurel stræti í Logroño sem er þekkt gata, einna helst fyrir það að þarna er fjöldi vinsælla tapasstaða. 


Við röltum á milli nokkurra staða. Fengum allt frá sjávarfangi - kolbrabba á einum stað og svo  hvítlaukssteikta sveppi á þeim næsta.


Stoppuðum á öðrum stað þar sem við snæddum langeldað svínakjöt og gellur í eigin soði.


Enduðum svo á fjórða staðnum þar sem við fengum fjöldan allan af ólíkum tegundum af iberco skinkum og þurrkuðu nautakjöti, sem allt var framleitt í grenndinni. 


Með þessu smökkuðum við dásamlega gott rauðvín frá Ramón Bilbao - Mirto. Einstaklega ljúffengt rauðvín sem því miður er ekki enn selt á Íslandi. En lengi má vona. 


Það var, sko, vandræðalaust að skála með þessu góða fólki! 


Eftir að hafa fengið að sofa aðeins út á miðvikudagsmorguninn heimsóttum við bæinn Laguardia í Rioja sem er að finna spölkorn frá Lagrono. Þetta er fallegur lítill bær sem er reistur eins og borgarviki. Innan múranna búa um 1500 manns. Bærinn er afar sjarmerandi. 


Auðvitað þurftum við að fá eitthvað að borða. Undir mörgum af húsunum eru vínkjallar sem liggja átta til níu metra undir yfirborði jarðar. Sumum hefur verið breytt í veitingahús og vínbari og fengum við að heimsækja einn þeirra.


Þarna fengum við krókettur fylltar með reyktri skinku og bechamél sósu auk fleirri rétta.


Við fengum aftur hvítan aspas, nú steiktan með pækluðum smáttskornum rauðlauk. 


Þessi mynd sýnir afrakstur ferðarinnar. Þetta var vínið sem hópurinn valdi til innflutnings nú á næstu vikum. Þetta er bragðmikið vín - fullt af frísklegum berjatónum, milt kryddað með ljúffengu eikarbragði. 

Þið eigið eftir að kunna að meta þetta vín!


LinkWithin

Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...