Wednesday, 14 March 2018

Miðvikudagsveisla: Seiðandi tælenskt fiskikarrí með brúnum basmati hrísgrjónum


Flestir hafa lítinn tíma til að elda á virkum dögum. Þetta á eins við mig og alla aðra. Þá er gott að hafa fljótlegar uppskriftir í handraðanum. Þessi er einkar fljótleg - hún verður til á þeim tíma sem tekur að sjóða hrísgrjónin - ég notaði reyndar brún basmati hrísgrjón sem þurfa um 25 mínútna suðu og keypti mér þannig örlítið meiri tíma.

Fiskurinn var að sjálfsögðu keyptur hjá vinum mínum í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum. Ég hef skipt við þá lengi. Yfirleitt spyr ég bara hvað er ferskast í borðinu og elda úr því - í þetta skiptið var það nýveidd langa og svo nýslátraður íslenskur eldislax. Íslenskt sjávarfang er að mínu mati það besta í heimi. Við njótum þess að geta fengið spriklandi ferskt hráefni eiginlega á hverjum degi vikunnar.

Við ættum þess vegna að elda fisk oftar í viku en við gerum. Kannanir sýna að við neytum minni fisks en við gerðum áður. Einu sinni borðuðu Íslendingar fisk fjórum til fimm sinnum í viku - nú er það ekki nema um tvisvar. Auðvitað ættum við að borða fisk mun oftar - enda er þetta einn hollasti og ferskasti matur sem við höfum á völ á.

Miðvikudagsveisla: Seiðandi tælenskt fiskikarrí með brúnum basmati hrísgrjónum

Ég vona auðvitað að sem flestir prófi þessa uppskrift. Hún var óeinföld og fljótleg og auðvelt að nálgast öll hráefnin í hvaða verslun sem er.

Fyrir fjóra

1 kg af blönduðum fisk - lax, langa og rækjur
250 g blómkál
1 dós af kókósmjólk
100 ml vatn
2 msk jómfrúarolía
1 tsk fiskikraftur
2 msk rautt taílenskt karrí
1/2 rauður chili pipar
5 cm engifer
2 hvítlauksgeirar
1/2 rauðlaukur
salt og pipar

200 g brún hrísgrjón
1 tengingur kjúklingakraftur

Setjið hrísgrjónin í pott með nógu vatni. Hrærið kjúklingakraftinum saman við. Þegar þau eru tilbúinn - hellið vatninu frá.Skerið laukinn, chili, engifer og hvítlauk smátt og steikið í jómfrúarolíunni þangað til að allt er fallega mjúkt og ilmandi. 


Sneiðið fiskinn niður í munnbitastóra bita og hafið á hliðarlínunni þangað til að sósan er tilbúin.


Blandið kókósmjólkinni og vatninu saman við og hitið að suðu.


Setjið svo karríið saman við. Blandið vandlega saman við ásamt fiskikraftinum. 


Næst er að setja blómkálið saman við sósuna og látið krauma í sjö til tímu mínútur. 


Bætið svo fisknum saman við - hann þarf ekki langan tíma - sjö mínútur eða svo ættu að duga. 


Rétt áður en hrísgrjónin eru tilbúin, bætið þið rækjunum saman við sósuna - þær þurfa ekki nema tvær mínútur eða svo. 


Ef þessi sósa er ekki girnileg - þá veit ég ekki hvað?


Setjið hrísgrjónin á disk og setjið svo rausnarlegan skammt af fisknum yfir grjónin. Skreytið með kóríander - þ.e.a.s fyrir þá sem eru ekki með ofnæmi fyrir kóríander.


Það er gott að njóta góðs víns með mat eins og þessum. 


Burlesque white zinfandel er amerískt rósavín sem passar vel með bragðmiklum mat eins og þessum. Þetta er ansi bragðmikið vín - sætt á tungu með ljúfu eftirbragði af mjúkum vínberjum. 

Ég hvet ykkur eindregið til að prófa þessa uppskrift. Hún er einkar ljúffeng. Wednesday, 7 March 2018

Læknirinn á Ítalíu: Heimagert tortellini fyllt með langelduðu villisvíni, fonduta sósu og ferskum trufflum og Bistecca alla Fiorentina með töskönskum baunumEins og kom fram í færslu nýlega þá bauðst mér að fara í vínsmökkunarferð til Ítalíu síðastliðið vor. Með mér í för var mín íðilfagra eiginkona, Snædís Eva og svo Kristján Kristjánsson, leikstjóri extraordiner, og eiginkona hans Anna Guðný. Við gerðum tvo sjónvarpsþætti úr þessu ferðalagi okkar og  hægt er að sjá þá í Sjónvarpi Símans - Premium. Ég gerði grein fyrir uppskriftum úr fyrri þættinum í nýlegri færslu sem hægt er að lesa hérna, þar vorum við í heimsókn í Veróna hjá Masi og tókum þátt í að fagna afmælisárgangi vinsælasta víns þeirra - Masi Campofiorin - 50 ára. 

Eftir tvo dásamlega daga hjá Masi ókum við svo suður til Toskana og heimsóttum Piccini, Valiano og einnig Villa al Cortile sem liggur rétt fyrir utan bæinn Montalcino. Þar tóku á móti okkur Piccini fjölskyldan og þar er auðvelt að segja að vel hafi verið tekið á móti okkur. Hvílík gestrisni. Við fengum heilt hótel fyrir okkur með sundlaug fyrir utan dyrnar. Fátt vekur hjá manni meiri innblástur en að vakna snemma að morgni eftir dásamlegar rauðvínsmarineraðar kvöldstundir en að hoppa út í kalda laugina umlukinn dásamlegri fegurð sveitanna í Toskana.  

Ég hvet ykkur til að kíkja á þættina - þeir gefa smjörþefinn af því hvernig er að vera í vínsmökkunarferð á þessum slóðum. 


Læknirinn á Ítalíu: Heimagert tortellini fyllt með langelduðu villisvíni fonduta sósu og ferskum trufflum og Bistecca alla Fiorentina með töskönskum baunum


Í heimsókn okkar til Toskana var okkur boðið til hádegisverðar á vínekru Valiano. Við vorum á ferðinni snemma sumars - þarna voru þrúgurnar rétt að brjótast út - sem seinna áttu eftir að þroskast og verða að ljúffengu Chianti víni - Poggio Teo. Víni sem við fengum að njóta með hádegisverðinum.


Þarna kenndi ýmissa grasa. Ætli hápunkturinn hafi ekki verið Poppa di pomodore - sem er frægur réttur frá Toskana. Þetta er í raun skilgreint sem súpa - sem hann er eiginlega ekki. Þetta er meira eins og kássa, gerð úr gömlu brauði sem er bragðbætt með jómfrúarolíu, hvítlauk og svo auðvitað heilmiklu af ferskum tómötum sem er maukað saman með brauðinu. Ljúffengt! 

Með þessu fengum við að njóta ýmis konar meðlætis; pylsur, skinka, mozzarella, tómatar, frittatta og pecorina ostur. 


Seinna um daginn fengum við kynningarferð um vínkjallara Valíanó með Mario Piccini eiganda vínekrunnar ásamt syni hans. Við fengum að smakka ólíka árganga Poggio Teo og sjá hvernig vínið umbreytist við að fá að liggja í viðartunnum. 


Við áttum skap saman - Mario og ég. Hann var eins og gefur að skilja virkilega fróður um vínið og deildi ólmur með okkur öllu um vínin sín og hvernig þeirra verði sem best notið. 


Eftir heimsóknina til Valiano snerum aftur á hótelið okkar sem var rétt sunnan við þorpið San Gimignano sem er undurfagurt og margir hafa án efa heimsótt.

Hráefnalisti (grófur)

500 g hveiti
3 egg
vatn til að binda
nokkrar matskeiðar jómfrúarolía
salt

fylling úr villisvíni

langeldaður villisvínaframpartur
jómfrúarolía
pecorínóostur
salt og pipar

Fonduta sósa

700 ml mjólk
300 g pecorínóostur
salt og pipar


Yfirkokkur hótelsins, Alfonso, var okkur innan handar við matargerðina. Við byrjuðum á því að gera pastað. 


Pastað fékk að hvíla í 30 mínútur í kæli. Svo flatt úr vandlega.


 Næst var það fyllt og mótað í tortellini. Þurfti nokkrar atrennur en hafðist á endanum. Fonduta sósan var nógu einföld. Mjólkin var hituð upp varlega í vatnsbaði.


Pecoríno ostinum var svo bætt varlega saman við heita mjólkina og séð til að hann leystist alveg upp. Þetta er harður ostur þannig að þetta tók nokkra stund. 


Pastað var svo soðið í ríkulega söltuðu vatni í nokkrar mínútur og svo steikt í smjöri á pönnu. 


Pastað var svo lagt á disk, fonduta sósunni sáldrað yfir, fullt af ferkum trufflum raspað yfir. 


Skreytt með stökku beikoni og svo ferskum fenneltoppum. Dásamlegt.


Næst var það svo Bistecca ala Fiorentina. Þetta er kjötbiti úr Chianina kúnni sem er vöðvamikið kyn og gefur af sér einstaklega bragðmikið kjöt.

Það var grillað á funheitu grilli. Alfonso var alveg á því að ekki ætti að salta og pipra fyrr en eftir á. Gott var það hvort sem heldur var!


Með matnum bárum við fram Canneloni baunir sem höfðu verið soðnar í kjúklingasoði, svo steiktar upp úr rósmarín bragðbættri jómfrúarolíu.


Kjötið fékk að hvíla í nokkrar mínútur áður en það var skorið niður. Það var svo ljúffent að það hefði verið hægt að snæða það hrátt.


Þessi ferð var með ólíkindum, Og ekkert meira verðlaunandi en að ljúka því með því að skála við mömmu Piccini í víni með hennar nafni - Mama Piccini.

Endilega kíkið á þættina.

Vonandi njótið þið þeirra vel!

Wednesday, 28 February 2018

Steik og Garúnarbaka heimsótt á nýjan leik - nú með breyttu sniði


Steik og Guinness baka er líklega ein besta baka sem gerð hefur verið. En samt er það svo að eiginlega flestir nautnaseggir hafa einhvern tíma pantað sér þessa böku á ferðalögum sínum til Englands og verið ýmist ánægðir eða sviknir með gæðin á þessari böku á þeim knæpum sem þeir hafa setið á. Enda er hún algerlega háð þeim hráefnum sem notuð eru og hvernig hún er elduð. 

Á deig að vera í botninum, á ekki að nota alvöru guinness, má nota eitthvað annað, hvað má nota? Þetta eru spurningarnar sem brenna á nautnaseggjum  alltént mér sjálfum. Í fyrra gerði ég atlögu að þessari böku í þáttum sem ég var með á ÍNN á meðan sú stöð var og hét. Þá kallaði ég hana Surtböku og notaði íslenskt lambakjöt, bjór og rótargrænmeti. Og sú var vel lukkuð. Hægt er að sjá allt um hana hérna

Í þessari uppskrift er notuð Garún - sem ljúffengur íslenskur stout sem er þó aðeins léttari en íslenskri Surturinn sem er ansi kynngimagnaður. Í þessari atrennu er svo rétturinn aðskilinn að vissu leiti þannig að kássan og smjördeigið er eldað sér og svo sameinað á diskinum í lokin. Hvort er síðan rétta leiðin verður hver og einn að gera upp við sig! 

Þennan rétt ákvað ég að hafa á afmæli mínu núna um helgina og var svo sannarlega ekki svikinn! Og ég valdi auðvitað að halda upp á daginn í sumarbústað fjölskyldunnar!

Steik og Garúnarbaka heimsótt á nýjan leik - nú með breyttu sniði

Fyrir 68

Hráefnalisti

1,5 kg nautaframpartur
2 gulrætur
1 stór rauðlaukur
2 sellerístangir
3 -5 hvítlaukrif
3 lárviðarlauf
4-5 msk hveiti
1 tsk hvítlaukssalt
3 msk jómfrúarolía
50 g smjör
500 g kastaníusveppir
1 bouquet garni  2 rósmarín greinar, 2-3 timjan greinar, steinseljustangir
3 flöskur Garún icelandic stout
500 ml nautasoð
3-4 msk worscherstershire sósa
salt og pipar
600 g smjördeig

500 g baunir 
1 l af kjúklingasoði
100 g smjör
salt og piparSkerið grænmetið niður gróflega og steikið í olíu ásamt lárviðarlaufum. Gleymið ekki að salta og pipra. Þegar grænmetið er mjúkt og ilmandi setjið það til hliðar.


Skolið og þerrið kjötið vandlega. 


Fáið verðandi ninju til að skera niður kjötið í 2x2 cm stóra bita. 


Veltið kjötinu upp úr hveiti og hvítlaukssalti.


Brúnið kjötið svo að utan í smjöri. 


Brúnið þangað til að kjötið er orðið fallega brúnt að utan og þið sjáið að það muni verða stórkostlega ljúffengt.


Hellið svo öllu kjötinu saman við ásamt öllu grænmetinu. Hellið svo bjórnum samanvið.


Svo nautasoðinu og sjóðið upp bjórinn.


Bætið svo sveppunum saman við kássuna.


Bætið svo bouqeut garni saman við kássuna. 


Setjið svo kássuna inn í ofn við 170 gráður í tvær og hálfa til þrjár klukkustundir. 


Þegar kássan er tilbúin - takið þið kryddjurtirnar frá. 


Kjötið er dásamlega ljúft og meyrt og dettur í sundur.


Það er um að gera að njóta ljúffengs rauðvínssopa með kássunni hafi maður klárað bjórinn með eldamennskunni eins og hætta er á. Þetta vín er frá Bandaríkjunum og er hátt skrifað á meðal rauðvínsunnenda á rauðvín á Íslandi hóp á Facebook. Þetta er dumbrautt vín í glasi  þetta er vín sem er ríkt af dökkum ávexti, kryddað og ljúffent með löngu og miklu eftirbragði. 


Með matnum bárum við fram djúpsteiktar sveitafranskar, sem við köllum svo  þá eru kartöflurnar skornar þunnt og steiktar lengi svo þær verða alveg stökkar. 


Þá suðum við petit pois grænar baunir í kjúklingasoði. Það tekur bara örskamma stund  vatninu er svo hellt frá og smjörið látið bráðna saman við. Stappað með gaffli. 


Í staðinn fyrir að loka kássuna inn í smjördeigi í eldföstu móti bökuðum við smjördeigið eitt og sér í ofni. Við prófuðum að gera fléttur  bæði grófar og fínar  eins og sjá má á myndinni. Penslað með eggjablöndu, saltað og piprað og svo bakað í 220 gráðu heitum ofni í kortér. 


Svo er bara að leggja fallega á borð - móðir mín - Lilja María sá um það eins og endranær þegar við erum saman í sumarbústaðnum.


Svo er bara að raða herlegaheitunum upp á disk  ég var svo sannarlega ekki svikinn á afmælinu. 

Það er gaman að eiga afmæli.

Endilega prófið - Verði ykkur að góðu! 

LinkWithin

Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...