Thursday, 4 June 2020

Fullkomin ofngrilluð smálúða með rjómaosti (með karmilliseruðum lauk), smjörsteiktum lauk, fersku timjan og steiktum saffran hrísgrjónum


Fullkomin ofngrilluð smálúða með rjómaosti (með karmilliseruðum lauk), smjörsteiktum lauk, fersku timjan og steiktum saffran hrísgrjónum 

Þetta er einkar fljótlegur réttur sem vandræðalaust er hægt að snara fram í miðri viku - já, eða um helgi ef því er að skipta. 

Þessi uppskrift er birt í samvinnu við Gott í matinn. Sjá hérna

Fyrir fimm

Fyrir fiskinn

1 kg spriklandi fersk smálúða (ég fer alltaf í fiskbúðina á Sundlaugaveginum)
1 hvítur laukur
1 rauðlaukur
2 msk hvítlauksolía
50 g af smjöri
1/2 box af rjómaosti með karmelliserðum lauk 
1 msk ferskt timjan
salt og pipar

Fyrir hrísgrjónin

1,5 bolli basmati hrísgrjón (soðin skv. leiðbeiningum í söltuðu vatni) 
50 g smjör
0,5 g saffran 
salt og pipar

Salatlauf


Skolið af fisknum og leggið í ofnskúffu.


Ég notaði rjómaost með karamellíseruðum lauk - þetta er bragðgóður ostur og þarna er sannarlega að finna sæta lauktóna.


Ég lagði fiskinn á bökunarpappír til þess að minnka uppþvott að matseld lokinni.


Byrjaði á því að pensla fiskinn með hvítlauksolíu og svo ríkulega af rjómaostinum, notaði hálfan pakkann. Ofan á það lagði ég svo bæði rauðlauk og gulan lauk sem ég hafði skorið í sneiðar og mýkt í nokkrar mínútur í smjöri. Gætti þess vandlega að brúna ekki laukinn. Sáldraði svo fersku timjan yfir og bakaði svo í 180 gráðu heitum ofni í 20 mínútur.


Næsta skref var að vekja saffranið í heitu vatni í um 30 mínútur.


Bræddi svo 50 g af smjöri á pönnu og steikti soðin basmati hrísgrjón í nokkrar mínútur áður en ég hellti saffraninu ásamt vatninu saman við. Steikti áfram í nokkrar mínútur. Grjónin verða fallega heiðgul.


Þetta var sérstaklega vel heppnuð máltíð - lúðan var kom einstaklega mjúk og safarík undan hjúp af rjómaosti og smjörsteiktum lauk.

Sannkölluð veislumáltíð.

Verði ykkur að góðu.

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Sunday, 17 May 2020

Dásamlegur Piccata kjúklingur með ljúffengu pasta og lúxus tricolore salati


Það spannst talsverð umræða í dag um hvaða kjúklingarétt ætti að elda í kvöld. Ég stakk upp á Kjúkling Parmigiano - en Snædís var ekki spennt. Vilhjálmur stakk upp á þessum rétti og ég varð að játa að ég hafði aldrei heyrt hann nefndan. Og er ég þó nokkuð lesinn í ítölskum réttum. En það er  gaman að láta koma sér á óvart - og eftir smá lestur varð þessi réttur til. Ég beygði aðeins frá uppskriftinni sem oftast var að finna á netinu og bætti smá lauk, hvítlauk og rjóma saman við það sem ég hafði kynnt mér um daginn. 

Og úr varð þessi uppskrift. 

Dásamlegur Piccata kjúklingur með ljúffengu pasta og lúxus tricolore salati 

4 kjúklingabringur
4 msk hveiti
2 tsk Ítalinn, pizzakrydd frá Kryddhúsinu og grgs.is
salt og pipar
50 g smjör til steikingar
góð jómfrúarolía til steikingar

Fyrir sósuna

1/2 gulur laukur
2 hvítlauksrif
50 g smjör
jómfrúarolía
3 msk kapers
safi úr einni sítrónu
handfylli steinselja
100 ml gott hvítvín
200 ml rjómi
salt og pipar

Rustichella D'Abruzzo spaghetti
30 g smjör 
sítrónuólía frá Olio Principe

Salatið

1 buffalo mozzarella
6 piccolotómatar frá Friðheimum
1 msk ferskt basil (sem við fengum að gjöf frá Helenu í Friðheimum)
salatlauf
olía
góð balsamic olía
salt og piparByrjið á því að bragðbæta hveitið með kryddinu (þ.m.t. salti og pipar). Blandið vel saman og hjúpið kjúklinginn rækilega.


Bræðið smjör á pönnu og bætið olíunni saman við og steikið kjúklinginn að utan. Setjið svo í eldfast mót og haldið heitu í ofni. 


Sneiðið laukinn, hvítlaukinn og steikið úr smjöri og olíu þangað til mjúkur. Bætið svo hvítvíni á pönnuna og sjóðið niður.


Bætið næst kapers, sítrónusafa og sjóðið í tvær mínútur.


Svo rjóma - og sjóðið í fimm mínútur. 


Bætið svo handfylli af steinselju saman við. Kúfaðri handfylli!


Notið gott pasta. Það breytir öllu! 


Á meðan sósugerðin stendur yfir - sjóðið pastað í ríkulega söltuðu vatni, nógu af vatni. Ég er með 8 l pott sem ég fylli. Salta með fullt af salti - tvö grömm fyrir lítra af vatni.


Þegar kjúklingur er eldaður í gegn er honum bætt saman við sósuna. Skreytt með steinselju og sítrónusneiðum raðað með.


Með matnum bárum við fram klassískt salat - tricolore. Fann buffalo mozzarella í búðinni og lagði á beð af fersku salati ásamt piccolo tómötum og fersku basil. Nóg af jómfrúarolíu, ljúffengri balsamic olíu, salti og pipar.


Svo er bara að raða á disk.


Með matnum nutum við Piccini Memoro - sem er blanda af fjórum þrúgum frá Ítalíu. Þetta vín er ljúffengt, bragðríkt og með mjúkt eftirbragð. Og er líka ljúft fyrir budduna. 


Bon appetito!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Saturday, 2 May 2020

Ástaróður til Helga Björns og Reiðmanna vindanna 3: Sveppabrauð aldarinnar, hin sígilda og senjórítan


Undanfarnar vikur hef ég verið að skrifa ástaróða til Helga Björns, Vilborgar og Reiðmanna vindanna fyrir frumkvæði þeirra við að sameina þjóðina með söng og samhug á laugardagskvöldum. Síðasta laugardagskvöld heppnaðist svo vel að eiginkona mín felldi tár yfir söng Sigríðar Thorlacius. Vel heppnað og tilfinningaþrungið kvöld.

Ástaróður til Helga Björns og Reiðmanna vindanna 3: Sveppabrauð aldarinnar, hin sígilda og senjórítan

Sveppabrauð aldarinnar


Fyrir sveppabrauð aldarinnar

1 rúllutertubrauð
1/2 dós sýrður rjómi
3 msk majónes
1/2 dós sveppasmurostur
250 g kastaníusveppir
50 g smjör
1 hvítlauksrif
4 msk þurrkaðir sveppir
1 villisveppaostur
1/2 gullostur
handfylli gratínostur
truffluolía frá Olio Principe
þeytt eggjahvíta úr einu eggi
salt og pipar


Þetta er líklega einfaldasta matseld sem um getur. 

Blandið saman sýrðum rjóma, majónesi og smurosti og smyrjið ofan á brauðið. Skerið ostinn og dreifið yfir.

Skerið sveppina í sneiðar og brúnið upp úr smjöri. Þegar sveppirnir eru komnir hálfa leið bætið þið smáttskornum hvítlauk saman við og steikið áfram. 

Vekið þurrkuðu sveppina í soðnu vatni. Veiðið uppúr og saxið niður. 

Dreifið sveppunum jafnt yfir brauðið. Rúllið þvínæst upp og þéttið aðeins saman. 


Penslið með þeyttri eggjahvítu, dreifið truffluolíu yfir. Skerið gullostinn í þunnar sneiðar og raðið ofan á brauðið. Bætið smáræði af gratínosti yfir. 

Bakið í 45 mínútur við 180 gráðu hita í forhituðum ofni. 


Sveppabrauð aldarinnar er fullkomið! 

Hið sígilda

Fyrir hið sígilda 

1 rúllutertubrauð
1/2 dós sýrður rjómi
3 msk majónes
1/2 dós skinkusmurostur
1 hvítlauksostur
1 krukka af heilum aspas (niðursoðnum) 
1 bréf af skinku
hvítlauksolía frá Olio Principe
handfylli gratínosti
þeytt eggjahvíta af einu eggi
salt og pipar


Blandið saman sýrðum rjóma, majónesi og smurosti og smyrjið ofan á brauðið.

Hellið vökvanum af aspanum og skerið hann svo í hæfilega bita og sáldrið yfir brauðið, ásamt skinku í bitum og smáttskornum hvítlauksosti.

Rúllið svo brauðinu upp.


Blandið hvítlauksolíu saman við þeytta eggjahvítuna og penslið vandlega. 


Dreifið rifna ostinum svo ríflega yfir brauðið og bakið í 180 gráðu heitum forhituðum ofni. 


Hin sígilda er auðvitað gulls ígildi.

Senjórítan - gæti eins heitið "Vilborgin"

1 rúllutertubrauð
1/2 dós sýrður rjómi
3 msk majónes
1/2 dós beikonmurostur
1 bréf af pepperóni
2/3 rauð papríka
1 papríkuostur
2 msk graslaukur
2 handfylli gratínostur
smá reykt papríkuduft
chiliolia frá Olio Principe
salt og pipar


Blandið saman sýrðum rjóma, majónesi og smurosti og smyrjið ofan á brauðið. Skerið papríkuostinn í bita og dreifið yfir.

Sneiðið pepperóni, papríku og graslauk og sáldrið yfir brauðið.

Rúllið brauðinu þétt upp.


Bætið örfáum dropum af chiliolíu saman við eggjahvítuna og penslið brauðið að utan. 


 Stráið reyktri papríku yfir brauðið og setjið mikið af osti. Og svo meira af papríkudufti.


Dreifið rifna ostinum svo ríflega yfir brauðið og bakið í 180 gráðu heitum forhituðum ofni.


Ég bar sveppabrauð aldarinnar fram með bjór frá Borg Brugghúsi - Öskrar á Svepp. Fannst það viðeigandi. Hann er ávaxtaríkur, aðeins humlaður IPA og passaði vel með sveppabrauðinu. Annað hefði nú verið vonbrigði. 

Núna mega Helgi, Vilborg og Reiðmenn vindanna hefja upp raust sína. 

Megum við sigra þessa COVID vá saman. 

Verði ykkur að góðu. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Saturday, 18 April 2020

Ástaróður til Helga Björns 2: Aspassouffle með ferskum aspas og Västerbottenosti


Það mun vera tákn um ranghugmyndir að maður haldi að fólkið í sjónvarpinu sé að tala við mann. En þannig leið mér síðastliðinn föstudag þegar ég, ásamt restinni af fjölskyldunni sátum og nutum þáttarins Heima hjá Helga.

Ég beið spenntur eftir aspasbrauðinu - en Helgi nefndi að þessu sinni aspassoufflé. Og það hafði ég bara aldrei gert. Þannig að ég leit svo á að um áskorun væri að ræða. Liðna viku hef ég verið að skoða uppskriftir og fann eina sem ég aðlagaði til að geta kallað hana mína.

Hægt er að sjá atganginn á Instragram reikningi mínum, sjá instagram story.Ástaróður til Helga Björns 2: Aspassouffle með ferskum aspas og Västerbottenosti

Fyrir sex

1/2 búnt af ferskum aspas
4 egg
35 g smjör
35 hveiti
300 ml mjólk
4 msk rifinn Västerbotten ostur
1/2 hvítlauksgeiri
smjör
brauðmylsna

Aðferð

Skerið aspasinn í bita og sjóðið í söltuðu vatni í tvær mínútur. Kælið í ísvatni og leggið svo aspasinn til hliðar.

Útbúið bechamél sósu með því að bræða 35 g af smjöri í potti og hræra vel saman og mynda smjörbollu. Bæta kaldri mjólk saman við og hita varlega. Sósan þykknar þegar hún hitnar. Bætið svo ostinum saman við og bræðið hann í heitum jafningum.

Aðskiljið eggjahvíturnar frá eggjarauðunum.

Setjið bechamélsósuna í blandara og bætið við aspasnum, hálfum hvítlauksgeira, eggjarauðum, salti og pipar. Blandið vel saman. Færið blönduna yfir í skál.

Þeytið eggjahvíturnar þangað til að þær eru dúnmjúkar - eins og fallegt ský á himni. Ekki stífþeyta. Bætið þeim saman við aspasbætta bechamélblönduna, varlega þannig að þið sláið ekki loftið úr eggjahvítunum.

Smyrjið lítil eldföst mót með mjúku smjöri og setjið brauðmylsnu innan á mótin. Hellið því næst souffleblöndunni yfir í mótin.


Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 20-25 mínútur. Souffle-ið rís upp úr mótunum. Látið standa í nokkrar mínútur. Við það falla þau aftur.


Berið fram með góðu kampavíni og njótið.

Áfram Helgi Björns og Reiðmenn vindanna.

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Saturday, 11 April 2020

Ástaróður til Helga Björns: Þrennskonar aspasbrauð. Klassískur Helgi, Lúxus Helgi og svo Helgi kóngur með camembert og kampavíni


Heitir réttir - eins og Aspasbrauð - hafa verið vinsælir á mínu heimili frá því að ég man eftir mér. Ég held að í öllum fjölskylduveislum sem foreldrar mínir stóðu fyrir hafi aspasbrauð verið á boðstólunum. Og þennan rétt tók ég svo sannarlega upp á mína arma. Heitir rétt eins og aspasbrauð eru dásamlega ljúffengir.

Og nú ætti auðvitað að vera alger uppskeruhátíð fyrir aspasbrauðs elskendur - þar sem fermingaveislur er líklega stærsti vettvangur þar sem aspasbrauð ætti upp á pallborðið. En nú eru engar fermingaveislur. Þeim hefur verið frestað í bili þangað til um hægist í samfélaginu.

En svo birtist Helgi Björns - sem virðist kunna að taka púlsinn á þjóðinni. Ekki bara með söng - heldur líka með því að lyfta upp þessum gómsæta rétti.

Aspasbrauð!

Ástaróður til Helga Björns: Þrennskonar aspasbrauð; Klassískur Helgi, Lúxus Helgi og svo Helgi konungur með camembert og kampavíni

Og aspasbrauð eru makalaust fljótleg að undirbúa - það tók miklu lengri tíma að setja þetta inn á instastory heldur en að matbúa :) - hægt er að sjá færsluna hérna.


Klassískur Helgi Björns - aspasbrauð

Fyrir sex

Fyrir botninn

5 brauðsneiðar

3 msk jómfrúarolía
salt, pipar og krydd af eigin vali (t.d hvítlaukssalt eða sítrónupipar)

4 egg
1 peli af rjóma
100 ml vökvi af niðursoðnum aspas
1 dós af aspas
6 skinskusneiðar
salt og pipar
handfylli af osti - td. rifnum gratínosti

Aðferðin er ofureinföld. Smyrjið eldfast mót með olíu og saltið og piprið. Kryddið að vild. Ég notaði sítrónupipar. Skerið skorpuna af brauðinu og raðið í mótið.

Hrærið saman egg, rjóma og aspasvökvann. Skerið skinkuna í bita og raðið ofan á brauðið ásamt aspasnum.

Hellið eggjablöndunni yfir og drekkið svo í osti. Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 30-45 mínútur þangað til að osturinn er gullinbrúnn.Dásamlegt!


Smá jómfrúarolía - sælgæti!


Lúxus Helgi Björns - aspasbrauð

Fyrir sex

Fyrir botninn

5 brauðsneiðar

3 msk jómfrúarolía
salt, pipar og krydd af eigin vali (t.d hvítlaukssalt eða sítrónupipar)

4 egg
1 peli af rjóma
100 ml vökvi af niðursoðnum aspas
1 dós af aspas
3 skinkusneiðar
15 sneiðar af salami
1/2 rauð papríka
1/2 rauður chili
salt og pipar
handfylli af ljúffegum Västerbottenosti

Aðferðin er ofureinföld. Smyrjið eldfast mót með olíu og saltið og piprið. Kryddið að vild. Ég notaði sítrónupipar. Skerið skorpuna af brauðinu og raðið í mótið.

Hrærið saman egg, rjóma og aspasvökvann. Skerið skinkuna og salami í bita og raðið ofan á brauðið ásamt aspasnum, niðurskorinni papríku og chili.

Hellið eggjablöndunni yfir og drekkið í osti. Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 30-45 mínútur þangað til að osturinn er gullinbrúnn.


Ljúffengt!


Bestu bitarnir eru þar sem osturinn hefur karmelliserast aðeins.


Konunglegur Helgi Björns - aspasbrauð

Fyrir sex

Fyrir botninn

5 brauðsneiðar

3 msk jómfrúarolía
salt, pipar og krydd af eiginvali (t.d hvítlaukssalt eða sítrónupipar)

4 egg
1 peli af rjóma
100 ml kampavín
5 aspasspjót
1 camembert
2-3 msk rifinn ostur
1 tsk ferskt timian
salt og pipar

Aðferðin er ofureinföld. Smyrjið eldfast mót með olíu og saltið og piprið. Kryddið að vild. Ég notaði sítrónupipar. Skerið skorpuna af brauðinu og raðið í mótið.

Brjótið eggin í skál og setjið rauðurnar til hliðar. Þeytið upp hvíturnar. Hrærið svo saman eggjarauðum, rjóma og kampavíni. Bætið hvítunum saman við og blandið varlega saman. Skerið aspasinn í þunnar sneiðar og setjið ofan á brauðið.

Hellið eggja og kampavínsblöndunni yfir og raðið svo niðursnseiddum camembert yfir. Bætið upp með rifnum osti. Skreytið með timjan.

Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 30-45 mínútur þangað til að osturinn er gullinbrúnn.


Ef þetta er ekki falleg sjón þá veit ég ekki hvað. 


Og með réttunum gæddi ég mér á Moillard Cote Nuits-Villages frá Beune í Búrgúndarhéraði. Dásamlegt Pinot Noir - berjakeimur og flauelismjúkt! 


Konunugur aspasbrauðanna hefur verið krýndur! 

Takk Helgi - skál fyrir....

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

LinkWithin

Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...