Sunday, 20 October 2019

Tvennskonar spaghetti di nero - með hvítlauk, chili og skalottulauk - toppað með risarækjum eða heimaunnum laxahrognum


Ég snéri heim úr ævintýraferð til Las Vegas liðna helgi þar sem ég og bróðir minn voru fengnir til að elda fyrir veislu á vegum Kerecis. Kerecis er frábært íslenskt fyrirtæki sem er í stórtækri útrás á bandaríska markaði um þessar mundir. Þau framleiða sáraumbúðir úr íslensku þorskroði við mjög góðan orðstýr. Og það var virkilega gaman að fá að styðja við útrás þeirra með þessu verkefni. Við gerðum níu rétti sem áttu að gefa gestum möguleika á því að kynnast fjölbreyttu íslensku hráefni, sjá hérna

Helgina áður var ég með veislu fyrir sérnámslækna í lyflækningum þar sem við heilgrilluðum lamb með mexíkósku ívafi, sjá hérna,  - svo var sungið og dansað fram eftir nóttu. Þetta unga fólk kann svo sannarlega að skemmta sér. 

Það er þess vegna ekkert skrítið að ég hafi ekki haft tíma til að blogga sem skyldi. En það stendur til bóta. 

Tvennskonar spaghetti di nero - með hvítlauk, chili og skalottulauk og rjóma - toppað með risarækjum eða heimaunnum laxahrognum

Eins og lesendur kannski muna þá gerði ég heimaunnin hrogn fyrir skemmstu, sjá hérna - og úr varð þessi veislumáltíð í miðri viku, sjá hér

Þessar tvær uppskriftir voru ofur einfaldar og urðu eiginlega tilbúnar á meðan pastað sauð í pottinum. Ég hef verið aðdáandi Rustichella d'abruzzo í áraraðir og það minnkaði ekkert þegar ég fékk tækifæri til að heimsækja fyrirtækið á heimavelli nú í sumar í Abruzzohéraði austan við Toskana. Abruzzo er dásamlega fallegt sveitahérað þar sem hveitið í þetta gómsæta pasta er ræktað og það er sérstaklega skemmtilegt að sjá hvaða metnaður liggur í framleiðslunni. 

Ég vona að ég sýni þeim sóma með þessum tveimur snögggerðu uppskriftum. 

Fyrir fjóra til fimm svanga gesti 

1 pakki af spaghetti di nero
1 chili pipar
2 hvítlauksrif
börkur af einni sítrónu
2 skalottulaukar
100 g smjör 
250 ml rjómi 
10 risarækjur (auðvitað má hafa fleiri)
2-3 matskeiðar af heimaunnum laxahrognum


Þetta gat eiginlega ekki verið öllu einfaldara. Eldamennskan tók ekki lengri tíma en að skera niður skalottulauk, chili og hvítlauk.


Kavíarinn var ennþá í toppformi og bragðaðist stórvel en hann útbjó ég fyrir að verða þremur vikum. Sjá hérna.


Ég heimsótti Rustichella í sumar í heimahérað þeirra í Abruzzo. Það var ógleymanlegt ferð full af upplifunum, mat og ljúffengu ítölsku víni. 

Þetta pasta er litað með bleki úr kolkrabba.Ég hef alltaf verið dálítið smeykur við svart pasta - en þessar tvær uppskriftir læknuðu þá hræðslu. Smjör og rjómi róa mann niður. 


Galdurinn við að sjóða pasta - er að sjóða það í miklu vatni - einn lítra fyrir hver 100 g af pasta. Þá ráðleggja sérfræðingar hjá Rustichella að salta vatnið - 2 g af salti fyrir hvern lítra - þau hljóta nú að vita hvað þau eru að tala um. Þá skiptir einnig höfuðmáli að sjóða pastað þangað til að það er "al dente" aðeins undir tönn. Þannig dregur það betur í sig sósuna og gerir réttinn mun áhrifaríkari.


Á meðan pastað sýður er smjörið brætt á pönnu og laukur, chili og hvítlaukur steikt á pönnu.


Bætið rækjunum á pönnuna.


Skellið dash af hvítvíni á pönnuna og sjóðið upp áfengið.


Bætið rjómanum á pönnuna og sjóðið hann upp. Bætið pastanu saman við og bragðbætið með kryddjurtum og sítrónuberki. 


Þetta var afar ljúffengt.


Byrjið eins á næsta rétti - takið lauk, hvítlauk, chilli og steikið upp úr bráðnu smjöri. Bætið matskeið af hrognum á pönnuna. 


Næsta skref er skvetta af hvítvíni, sjóða upp áfengið, bæta svo rjóma og pasta á pönnuna.


Ekki bara er þetta fallegt - þetta var líka ótrúlega ljúffengt.


Til að espa aðeins upp sítrónubragðið - sem mér finnst passa svo vel með sjávarfangi - þá bragðbætti ég pastað með ögn af sítrónuolíu. 


Svo er bara að bjóða fjölskyldunni að setjast til borðs. Við drukkum Masi Masianco með réttinum - en ég hafði einmitt notað smá skvettu af því í báða pastaréttina. Það skiptir máli að nota gott vín í mat - og þetta ítalska hvítvín er ferskt og ljúffengt, örlítil sýra sem passaði vel með ríku pastanu. 


Verði ykkur að góðu. 

------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 29 September 2019

Þrenns konar blinis með heimaunnum laxakavíar með sýrðum rjóma - lauk og graslauk, radísum og dilli og svo kóríander og mandarínuolíu


Það tók mig mörg ár að læra að njóta kavíars. Eins og flestum fannst mér þetta skrítinn matur, oft alltof saltur og stundum smá slepjulegur. En af einhverri ástæðu er þetta hráefni hátt skrifað í heimi matargerðar og sér í lagi í heimi nautnaseggja. Styrjukavíar er sá kavíar sem er hvað mest eftirsóttur og er geysilega dýr. Ég las á netinu að verðið á dýrasta kavíarnum hlypi á hundruðum þúsunda fyrir kílóið - jafnvel meira. 

En þessi færsla er ekki saga um dýrasta kavíar í heimi. Hún er smásaga um hvernig má búa til úrvals mat - hreinan lúxus úr laxahrognum sem oftar en ekki eru ekki nýtt. 


Á mínu heimili er það eiginkonan mín, Snædís, sem sér um alla stangveiði - ALLA stangveiði. Ég er alræmd fiskifæla og arfaslakur á flugustöng. Óviðbjargandi. En sem betur fer er ég einkar vel giftur maður. Þennan myndarlega lax sótti konan mín í Affallið um liðna helgi. 


Og þegar heim var komið og ég var að verka fiskinn blöstu við þessa boldungsstóru hrogn. Og það kom eiginlega alveg flatt upp á mig, ég hafði ekki séð svona stæðileg laxahrogn áður. Myndin er af lélegum gæðum - en það er hægt að sjá að þarna eru þúsundir stórra laxahrogna. Og það kom ekki til álita að henda þessu í ruslið - ónei! 

Þannig að úr varð þessi máltið! Og kannski nokkrar fleiri! 

Þrenns konar blinis með heimaunnum laxakavíar með sýrðum rjóma - lauk og graslauk, radísum og dilli og svo kóríander og mandarínuolíu.

Fyrir blinis (ca 25 stk)

200 g bókhveiti
200 g hveiti
2 egg
200 ml mjólk
200 ml rjómi 
150 ml vatn
1 poki þurrger
2 tsk sykur
1 tsk salt

Heimaunnin laxahrogn

700 g laxahrogn
1,5 l vatn
200 g salt

Ég ætla ekki að skrökva - þetta var smá fyrirhöfn. Sérstaklega vegna þess að ég hafði aldrei gert þetta áður - en maður er fljótur að læra. Ég notaði leiðbeiningar frá Frosta - skvassfélaga mínum.

Hrognin eru lögð í volgan saltpækil í 30 mínútur. Hann er gerður með því að leysa saltið upp í u.þ.b. 35-38 gráðu heitu vatni. 

Þá er saltpæklinum hellt frá í aðra skál og hann geymdur um stund. 

Hrognin eru svo nudduð undir rennandi volgu vatni (helst undir skál og sigti) þangað til að þau losna úr himnum sínum. Best er að taka smá bita í senn og rúlla þeim varlega, en þó með ákveðnum hætti á milli fingranna. Þannig losnar himnan sem umlykur eggin - eggin sökkva til botns en himnan flýtur ofan á. 


Þetta tekur dágóða stund en þegar maður áttar sig á því að eggin sjálf eru déskoti harðgerð - tekur þetta skemmri tíma. Biðst aftur afsökunar á lélegum myndgæðum. 

Næsta skref er að skola hrognin og svo leggja þau aftur í saltpækilinn í um 10 mínútur. 

Þau eru svo að lokum færð yfir í sótthreinsaðar krukkur og geymdar í kæli. Frosti segir að þau ættu að geymast í nokkrar vikur.  


Þá er best að vinda sér í að útbúa blinis - pönnukökurnar. Þessar pönnukökur eru frábrugðnar venjulegum pönnukökum að því leyti að notast er bókmjölhveiti - sem er í raun ekki hveiti heldur skyldara tegundum - eins og kerfli og rabbabara. Það er ögn biturt á bragðið sem ég held að sé hugsað til að veita mótvægi við seltuna og ferskan sjávarkeiminn sem kemur  af hrognunum. 

Fyrst er að vekja gerið í mjólkinni og sykrinum. Þegar það hefur vaknað er rjómanum blandað saman við. Þurrefnin eru svo sett skál og tveimur eggjarauðum bætt saman við. Hrært saman ásamt rjómamjólkinni í þykkt deig. Vatninu er svo bætt varlega saman við þangað til að komið er deig sem minnir á vöffludeig - eða heldur þykka málningu. Látið hefast í tvær klukkustundir. 


Þegar deigið er tilbúið eru eggjahvíturnar næstum stífþeyttar og svo blandað varlega saman við. Það er mikilvægt að slá ekki loftið úr eggjahvítunum. 


Næsta skref er að hita pönnuna, bletta með smjöri og byrja að baka. 


Þær hefast fallega á pönnunni. 


Svo er bara að baka þangað til að það er komið nóg fyrir alla. 


Ég hrærði sýrða rjómann aðeins upp. 


Svo var bara að útbúa áleggið - við vorum með ýmis konar valmöguleika; rauðlauk, radísur, tómat, sýrða gúrku, dill, steinselju, graslauk og þar fram eftir götunum. 


Ég veit ekki um ykkur, en mér finnst hrognin heillandi. 


Hefð er fyrir því að drekka kampavín með blínis en við áttum það ekki til þannig að við drukkum þetta ljúffenga hvítvín með. Mér fannst það passa vel - þar sem Casa Rojo El Cordo del Circo er frískandi og bragðgott vín í góðu jafnvægi. 


Við byrjuðum á því sem myndi teljast klassík: sýrður rjómi, rauðlaukur, laxahrogn og svo graslaukur. 


Næst var það svo sýrður rjómi, radísur, laxahrogn og dill. 


Við fengum þessa olíu gefins nýverið - þetta er jómfrúarolía - Olio Principe frá Sikiley og er bragðbætt með mandarínum. Ég hef aldrei bragðað hana áður og hún kom mér verulega á óvart. 


Svo var það þessi - mér fannst hún vera sigurvegari kvöldsins; sýrður rjómi, laxahrogn, mandarínuolía og svo kóríanderlauf. 

Þetta var alger veisla! 

Þið verðið að prófa! Það er algerlega þess virði að varðveita laxahrogn og búa til veislumat úr þeim! 


------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Friday, 20 September 2019

Svipmyndir úr hörkuveislu í tilefni 42 ára afmælis Snædísar. Tilgangi lífsins náð og fagnað með vinum - Heilgrillað lamb, steikt grænmeti, ljúffengt salat, heimagert brauð og taiziki sósa!


Þessi draumadís varð fjörutíuogtveggja ára í liðinni viku. Hún er mitt algera uppáhalds í lífinu! Mér fannst það frábært tilefni og til að halda ærlegt teiti og bjóða vinum og vandamönnum í veislu á heimilinu. Einhverjum kann að finnast það skrítið að halda upp á þennan afmælisdag frekar en einhvern annan. Hugmyndin er fengin úr bókinni og seinna bíómyndinni A Hitchhiker's guide to the galaxy þar sem framandi geimverur spyrja ofurtölvu eina um hver sé tilgangur lífsins. Svarið kom nokkrum milljón árum síðar - fjörutíuogtveir. Og ef þetta er ekki ástæða til að fagna þá veit ég ekki hvað! 

Svipmyndir úr hörkuveislu í tilefni 42 ára afmælis Snædísar. Tilgangi lífsins náð og fagnað með vinum - Heilgrillað lamb, steikt grænmeti, ljúffengt salat, heimagert brauð og taiziki sósa!

Fyrir 37 gesti

1 lamb
500 ml jómfrúarolía
kryddblanda að eigin vali - ég fór í grískar áttir með fullt af oregano, timjan, papríkudufti, laukdufti, hvítlauksdufti, salti og pipar
fullt af kolum og eitt stykki stórt grill

Fyrir brauðin 

Vilji maður gera bara eina uppskrift er hægt að fylgja leiðbeiningum hérna.

4 kg hveiti
2 l vatn
4 pakkar ger
120 g salt
120 g sykur

Fyrir foccacia brauðin notaði ég handfylli af íslenskum kirsuberjatómötum og svo tvær tegundir af grískum ólíum í hitt brauðið. 

Valdís tók að sér að gera veislubrauð sem hún hafði lært í heimilisfræði í MH. 

250 g af fetaosti og svo handfylli af ólívum. 

Villi gerði svo annað brauð með sömu aðferð, fyllt með osti og kraftmikilli heimagerðri hvítlauksolíu.


Öllum hráefnum var blandað saman og skipt niður í fjóra hleifa sem fengu að hefast í klukkustund eða svo.


Veislubrauðinu var aftur skipt í tvo hluta. Deigið var svo flatt út, hráefnum dreift yfir og svo var annað útflatt deig lagt ofaná.


Deigið var svo klippt í grófa þríhyrninga.


Og svo var snúið upp á brauðið.


Það kom út úr ofninum alveg dásamlega gullið og ilmaði stórkostlega. Villi endurtók leikinn með hvítlauksostaveislubrauðið.


Foccacian var gerð með hefðbundnu sniði - sjá þennan hlekk.Næsta skref var að undirbúa lambið. Ég byrjaði á því að þræða skrokkinn upp á spjótið. Ég á mótorknúið spjót sem hafði verið með smá vesen - og þurfti viðgerð,  en það gaf sig aftur svo það þurfti að redda nýju mannknúnu spjóti.


Faðir minn, Ingvar, var kallaður út og sá til þess að sitja úti í rigningu og roki og elda lambið. 


En það þarf alvöru mannskap ef maður vill grilla heilt lamb - þetta tekur um tvo til þrjá tíma við kjöraðstæður en þegar íslenskt haustveður lætur á sér kræla þá er betra að hafa auka mannafla því haustvindarnir krefjast lengri eldunar. 


Hér sést svo faðir minn aðeins betur, Ingvar Sigurgeirsson, greiðviknari mann er erfitt að finna.


Svo verður auðvitað að bjóða upp á einhverja brjóstbirtu eigi mannskapurinn ekki að verða þurrbrjósta.

Við buðum gesti velkomna með Piccini Prosecco extra dry sem og VES.


Þá vorum við með ljúffengt hvítvín Mar de Frades Albarino frá Spáni. Rann einkar vel niður enda er það ferskt og upplífgandi. 


Svo skárum við niður gulrætur, papríkur, sveppi, vorlauk, hnúðkál, lauk og hvílauk og steiktum í hvítlauksolíu og smjöri. Bragðbætt með döðlum og auðviað salti og pipar.


Bróðir minn hjálpaði mér að gera þessa geggjuðu Taiziki sósu - gerða úr grískri jógúrt, majónesi, sítrónusafa, hvítlauk, kjarnhreinsaðri agúrku, ferskum kruddjurtum, salti og pipar.


Þegar lambið var tilbúið, var bara að brýna hnífinn og byrja að skera. 

Sá ekki betur en að gestirnir voru sáttir - bæði með mat og drykk!

Og auðvitað var sungið - allir tóku lagið! Langt fram eftir nóttu!

Til hamingju með afmælið - tilgangi lífsins hefur verið náð - nú er að halda áfram að njóta þess.

------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

LinkWithin

Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...