Friday, 11 September 2020

Kraftmikill kjúklingur með rjómaosti, bragðbættur með papríkum og chili - með meira af papríkum og chili borið fram með saffran hrísgrjónum

 


Þessi réttur var reyndist einfaldur og afskaplega góður. Hér er notaður rjómaostur sem er bragðbættur með grillaðri papríku og chili. Hann eins og kallaði á meira af litríkum papríkum og chili og svo fannst mér passa mjög vel að hafa saffranhrísgrjón með - en það þarf ekki nema smáræði til fá bæði bragð og lit.
Kraftmikill kjúklingur með rjómaosti, bragðbættum með papríkum og chili - með meira af papríkum og chili borið fram með saffran hrísgrjónum

Hráefnalisti handa 4-5

1 kg úrbeinuð kjúklingalæri
1,5 dós af rjómaosti bragðbættum með grilluðum papríkum og chili
2 msk jómfrúarolía
1 msk ras el hanout frá Kryddhúsinu
1 msk sæt papríka
1 tsk marókósk harissa
salt og pipar

1 rauð papríka
1 gul papríka
1 appelsínugul papríka
2 hvítlauksrif
1 rauður chili
2 msk hvítlauksolía
150 ml hvítvín
salt og pipar
1 msk steinselja og basil

1 bolli hrísgrjón
2 msk jómfrúarolía
0,25 g saffran
salt og pipar

græn lauf
pikkólótómatar
Dala fetaostur


Byrjaði á því að setja kjúklinginn í skál og bætti jómfrúarolíunni og kryddinu saman við, saltaði og pipraði og leyfði að marinerast í um klukkustund. 

Þvoði allar papríkurnar og skar þær í strimla og steikti í hvítlauksolíu. Saltaði og pipraði og bætti svo smátt skornum hvítlauk og chili saman við. Þegar grænmetið var orðið mjúkt hellti ég hvítvíninu saman við og sauð nær alveg niður. 

Lagði svo papríkurnar í botninn á eldföstu móti og svo rjómaost, u.þ.b. hálfa dós. Lagði svo kjúklinginn ofan á papríkurnar og svo afganginn af rjómaostinum ofan á. 


Bakaði í ofni í 45 mínútur þangað til að rjómaosturinn var bráðinn. Skreytti svo kjúklinginn með smátt skornum kryddjurtum, basil og steinselju. 


Á meðan kjúklingurinn var í ofninum suðum við hrísgrjón. Þegar þau voru næstum því tilbúin bætti ég jómfrúarolíu og saffrani saman við og lét svitna saman í nokkrar mínútur. 


Með matnum nutum við Ramon Bilbao Reserva 2015 frá Spáni. Þetta vín hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Alveg frá því að ég heimsótti þennan framleiðenda haustið 2018 þegar við tókum upp þáttinn Læknirinn á Spáni sem ennþá er hægt að sjá á Sjónvarpi Símans Premium. Þetta vín er unnið úr 100% Tempranillo þrúgum. Þetta er bragðmikið vín - fullt af frísklegum berjatónum. Kryddaðir bragðtónar með ljúffengu eikuðu eftirbragði.


Svo var bara að raða á disk. Og njóta. 

Þetta var alveg stórkostleg máltíð. 

Verði ykkur að góðu.


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Saturday, 29 August 2020

Ljúfir síðsumartónar II - Sælgæti frá Friðheimum - ristað súrdegisbrauð með ættartómötum og burrata osti


Í liðinni viku heimsóttum við Knút og Helenu í Friðheimum. Þau tengjast okkur núna fjölskylduböndum - ætli ég geti ekki kallað Knút, stjúpmág minn - þar sem tengdafaðir minn og móðir hans eru par. Knútur og Helena eiga stóra fjölskyldu og reka Friðheima - framleiða bragðgóða tómata og framreiða ljúffengar veitingar í gróðurhúsinu sínu í Reykholti.  

Við fengum góðar gjafir frá húsráðendum - heirloom tómata - sem ég ætla að þýða yfir á okkar ylhýra mál sem ættartómata - og einnig burrata - sem er eins ungur mozzarella ostur og hægt er að hugsa sér með kjarna sem minnir einna helst á rjómaost sem lekur út þegar osturinn er opnaður. Þessi ostur er ekki kominn í almenna sölu, heldur er hann einvörðungi framleiddur fyrir veitingahús um þessar mundir. En kannski er hægt að telja framleiðendum hughvarf. En þangað til að svo verður njótum við þess bara að heimsækja Friðheima - það er svo sannarlega vel þess virði. 

Dagarnir í Reykholti voru einkar ljúfir. Veðrið lék við okkur og undum okkur vel - ég leitaði að sveppum (eins og kom fram í síðustu færslu) og fór með börnin mín í berjamó (næsta færsla).

Ljúfir síðsumartónar II - Sælgæti frá Friðheimum - ristað súrdegisbrauð með ættartómötum og burrata osti


Ég gerði smá snúning á framsetningunni en reyndi að halda þessu þannig að tómaturinn og osturinn fái að njóta sín eins og framast væri kostur. 

Byrjaði á því að skola tómatana og skar þá síðan í þykkar sneiðar og svo til helminga. Lagði á disk. 


Svo var það burrata osturinn. Ég vildi óska að hann væri fáanlegur í verslunum. Hann er ljúffengur á bragðið. Gerði ekkert nema að hella mysunni frá og láta hann á miðju disksins svo að hann fengi að njóta sín. 

Raðaði svo blöðum af ferskri basilíku á milli tómatanna. 


Fékk þessa jómfrúarolíu að gjöf frá innflytjenda. Marques de Grinon - frá Spáni. Hann fullyrðir að þetta sé besta jómfrúarolía sem völ er á. Og hún er sannarlega ljúffeng. Sérstaklega bragðrík og með góðu jafnvægi. Tómatar verða bragðbetri og bragðmeiri þegar þeir komast í snertingu við jómfrúarolíu. Sáldraði henni ríkulega yfir tómatana. Salt og pipar - ég notaði rauðan Kampot pipar.  


Skar súrdeigsbrauð í sneiðar og penslaði með hvítlauksolíu og ristaði á blússheitu grilli. 


Ég veit ekki um ykkur, en mér finnst þetta einstaklega girnilegt. Litirnir og ilmurinn af nýskornum tómötum, rifnu basil, frísklegri olíu. 


Svo var bara að raða þessu ofan á brauðið. 

Og njóta. Það er, jú, aðalatriðið. 

Verði ykkur að góðu!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Saturday, 22 August 2020

Ljúfir síðsumarstónar I - Dásamleg villisveppasúpa með rósmarínolíu og brauðbita - eftir sveppamó í Reykholti

Það líður á sumarfríið og fljótlega sný ég aftur til vinnu. Við vörðum nokkrum dögum í Reykholtinu hjá mágkonu minni og fjölskyldunni hennar í sumarbústað og veðrið lék við okkur. Við brugðum okkur í göngu síðla kvöld og þar gekk ég fram á hina ýmsustu sveppi - lerkisvepp, kúalubba, furusvepp og einstaka kóngssvepp. Mér leið eins og ég hefði verið að detta í lukkupottinn. 

Það er eitthvað töfrandi við að ganga um skóginn í leit að sveppum. Það er eitthvað svo magnað við það að ganga um og finna eitthvað sem gæti mögulega væri ætt. Og svo eru verðlaunin svo ríkuleg. Það er fátt sem er jafn ljúffengt og villisveppir. 


Eftir stutta göngu! 


Ljúfir síðsumarstónar I - Dásamleg villisveppasúpa með rósmarínolíu og brauðbita - eftir sveppamó í Reykholti

Hráefnalisti fyrir fjóra

500 g blandaðir villisveppir
1/2 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
50 g smjör
150 ml hvítvín
500 ml kjúklingasoð
400 ml rjómi
salt og pipar

Þetta er í raun ótrúlega einföld uppskrift þar sem sveppirnir fá sérstaklega að njóta sín. Og tekur ekki langan tíma. Nema að sveppaleitin sé talin með - það tók um klukktíma í frjórri jörð í Reykholtinu. Meira segi ég ekki. 


Fyrst er að sneiða laukinn smátt og brúna í smjörinu. Bætið svo sveppunum saman við sem þeir hafa verið hreinsaðir vandlega. Saltið og piprið. Steikið þá vandlega niður - þetta tekur tíma. Þeir eiga eftir að láta frá sér mikin vökva sem sjóða þarf burt. Þá þarf að halda steikingunni áfram þar til sveppirnir brúnast og fylla eldhúsið af dásamlegum sveppakeim. 


Ég notaði smáræði af víninu sem var hugsað með súpunni í sjálfa súpuna. Það er mikilvægt að nota gott vín í matinn. Það þarf ekki að vera dýrt en það þarf að vera vel drykkjarhæft. Ég notaði Domaine de La Baume les Maues Sauvignion Blanc frá 2019 sem er frá Frakklandi. Ljúffengur hvítvínssopi. 


Sveppirnir fengu svo að krauma í víninu í 10 mínútur við hóflegan hita. 


Þá bætti ég soðinu saman við og notaði töfrasprota til að mauka súpuna vel og rækilega. Þá bætti ég við nóg af rjóma og sauð upp og lét krauma við lágan hita í um 30 mínútur. 


Súpan varð afar ljúffeng. 


Til að mæta skóginum þar sem sveppirnir voru tíndir notaði ég nokkra dropa af jómfrúarolíu bragðbættri með rósmarín frá Olio Principe. 


Þetta var afar ljúffengur og seðjandi kvöldverður. 

Hvet ykkur til að prófa að rölta um íslenska skóga og týna matsveppi. Sjálfur tíni ég bara rörsveppi þar sem ég þekki aðra sveppi ekki nógu vel. 

Verði ykkur að góðu!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 19 July 2020

Kominn í fríið - eldsnögg nautasteik með gullostasósu, bökuðum kartöflum og salati ala Villi Bjarki
"Ég fer í fríið, ég fer í fríið, ég fer í fríið" - Loksins er komið að því! Langþráð sumarleyfi hefst eftir nokkuð annasaman vetur. Ég held að ég hafi aldrei þurft á fríi að halda eins og nákvæmlega núna. Og mikið hlakka ég til. Ætla að nota leyfið til að leika við fjölskylduna mína, ditta að garðinum og eins og margir aðrir - ferðast um fallega landið okkar.  

Þessa uppskrift gerði ég í gærkvöldi, tja, ef uppskrift má kalla. Það verður ekki öllu einfaldari eldamennska en þetta. Grilla kjöt, baka kartöflur, bræða ost! Þetta er eiginlega öll uppskriftin, svona næstum. 

En aðalástæðan fyrir þessu bloggi er eiginlega þessi sósa - hún er ljúffengur einfaldleikinn uppmálaður. 

Kominn í fríið - eldsnögg nautasteik með gullostasósu, bökuðum kartöflum og salati ala Villi Bjarki

Þegar eldamennskan er svona einföld, skipta hráefnin ennþá meira máli. 

Fyrir 8

1,2 kg nautasteikur - ég var með þunnt skorna sirloin
1,5 gullostur
8 bökunarkartöflur
góð jómfrúarolía
salt og pipar
graslaukur til skreytingar

Sósa fyrir bökuðu kartöflurnar

2 msk grísk jógúrt
2 msk sýrður rjómi
2 tsk hlynsíróp
1 hvítlaukrif
handfylli graslaukur
salt og pipar

Salat ala Villi

Fullt af grænum laufum
haloumi ostur
íslenskir tómatar
rauð papríka
góð jómfrúarolía
salt og piparÆtli það að hræra saman í þessa sósu myndi ekki geta kallast eldamennska?


Setja jógúrt og 18% sýrðan rjóma í skál og hræra saman með hökkuðu hvítlauksrifi, graslauk, sírópi og salti og pipar. Láta standa í 30 mínútur eða svo. 


Ég hvet ykkur til að prófa þetta. Það má líka alveg bæta við smá rjóma til að auka við magnið án þess að það komi niður á bragðinu að neinu ráði. 


Takið ostinn úr pakkningunum. Setjið í pott eða á litla pönnu.


Bakið við 180 gráðu hita. 
 

Hrærið. 


Ég notaði góða jómfrúarolíu á kjötið. Örlitla áður en var grillað og aðeins á eftir líka. Salt og pipar. Grillað á blússheitu grilli þangað til að viðeigandi kjarnhita var náð. 


Skreytt með smá graslauk.


Kartöflurnar voru bakaðar í 180 gráðum heitum ofni á beði af salti í rúmlega klukkustund. Bornar fram með sýrðrjómasósunni. 


Vilhjálmur sá um salatið. Græn lauf, steiktur haloumi, næfurþunnir tómatar og papríkusneiðar. Góð jómfrúarolía og skvetta af rauðvínsediki. Salt og pipar.


Með matnum drukkum við þetta ljúffenga vín - Masi Corbec er framleitt í Argentínu. Þetta vín er gert úr blöndu af corvína þrúgum sem eru upprunalega frá Norður Ítalíu - en eru núnar ræktaðar í Argentínu og Malbec sem er ráðandi í þarlenskri framleiðsli. Mér finnst þetta vín einstaklega ljúffengt. Ég tel mig líka aðeins ábyrgan fyrir því að þetta vín er flutt inn til Íslands en ég smakkaði það fyrst þegar ég var í heimsókn hjá framleiðandanum í Veróna og óskaði sérstaklega eftir því að það væri í boði á Íslandi. Þetta vín er dökkrúbinrautt í glasi. Ljúfir tónar af ávexti, smá súkkulaði, vanillu og svo eru eikartónar og á tungu. Vínið hefur góða fyllingu og er þægilega mjúkt og með löngu eftirbragði. 


Einstaklega ljúffeng og auðveld máltíð.

Bon appetit!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Thursday, 9 July 2020

Leiftursnöggt lambalæri með kaldri jógúrtsósu, kartöflusalati með pækluðum lauk og grilluðu rauðkáli.


Fátt er betra á grillið en lambakjöt. Mér finnst mjög gaman að grilla lambalæri - en það er stundum erfitt að grilla, tekur drykklanga stund (sem þarf auðvitað ekki að vera slæmt) - en stundum hefur maður ekki marga klukkustundir - og þá er þessi aðferð alveg pottþétt. Bara að úrbeina lærið. 

Auðveldast er að fá kjötkaupmann til að úrbeina það fyrir sig - bara að hringja á undan sér og óska eftir því, svo einfalt er það. Það er heldur ekki svo flókið að gera það sjálfur. Krefst bara smá æfingar - góð núvitundaræfing að reyna að ná beininu frá. Í raun eru bara tvær reglur sem þarf að fylgja - vera með beittan hníf (helst úrbeiningarhníf) og svo fylgja beininu. 


Leiftursnöggt lambalæri með kaldri jógúrtsósu, kartöflusalati með pækluðum lauk og grilluðu rauðkáli. 

1 lambalæri
4 msk jómfrúarolía
2 msk kryddblanda að eigin vali (ég valdi mína eigin - Yfir holt og heiðar)
1 grein rósmarín
1 msk þurrkað blóðberg
salt og pipar

Fyrir sósuna

5 msk grísk jógúrt
2 msk majónes
2 msk hvítlauksolía (heimagerð, auðvitað)
2 msk ferskt tímjan
2 msk ferskur graslaukur
2 msk ferskt basil
1 msk kryddblanda
safi úr einni sítrónu
1 msk hlynsíróp
salt og pipar

Fyrir kartöflusalatið

1 kg soðnar kartöflur
4 msk grísk jógúrt
1 msk timjan
1 msk steinselja
1 msk basil
1 msk graslaukur
1/2 hraðpæklaður laukur (pæklað í 3-2-1 blöndu í eina klukkustund, sjá hérna
salt og pipar

Fyrir rauðkálið

rauðkálshaus (helst lítill)
jómfrúarolía
salt og pipar
skvetta af rauðvínsedikiEftir að lambið var úrbeinað, var það nuddað vandlega með jómfrúarolíu, þurrkaða kryddinu, því ferska og svo salti og pipar. Látið standa út á borði á meðan grillið hitnaði.


Ég notaði þessa kryddblöndu - sem var að komast í nýjar og mun fallegri umbúðir og er geggjað á lambakjöt, þó að ég segi sjálfur frá! :)


Lambið var svo brúnað yfir háum hita á báðum hliðum í nokkrar mínútur og svo sett til hliðar, frá hitanum. Þetta kallast óbein eldunaraðferð. Stakk hitamæli í þykkasta bita kjötsins til að geta fylgst með.


Á meðan kjötið grillaðist gerði ég sósuna. Ofureinföld. Setti jógúrt, majónes, hlynsíróp og hvítlauksolíu í skál og hrærði vandlega saman. Hakkaði svo allar kryddjurtirnar og hrærði saman við ásamt salti og pipar. Látið standa á borði svo að öll brögðin nái að kynnast. Ef þið gerið sósuna nokkrum stundum áður - geymið hana í kæli en takið út 30 mínútum áður.


Sósan reyndist ótrúlega ljúffeng (kom mér reyndar ekkert á óvart þar sem ég hef gert hana nokkrum sinnum áður, stundum með ólíkum jurtum - en hún heppnast alltaf rosalega vel og passar eiginlega með öllum grilluðum mat).


Skar rauðkálið í rúmlega sentimeters þykkar sneiðar og hellti jómfrúarolíu yfir og saltaði og pipraði.


Ég ætlaði að reyna að grilla rauðkálið í sneiðum en það datt í sundur hjá mér. Setti á disk og saltaði aðeins meira og skvetti smá ediki yfir.


Kartöflusalatið var líka mjög einfalt. Sauð kartöflurnar þangað til að þær voru mjúkar í gegn. Síðan fengu þær að kólna, þá skornar í tvennt og settar í skál. Blandaði saman jógúrtinni, kryddjurtunum, salt og pipar. Skar því næst pæklaða laukinn niður og blandaði vandlega.


Með matnum opnaði ég flösku af Machoman Monastrell - sem er frá Spáni - ekki svo langt frá Alicante. Ég hef meira að segja týnt þessar þrúgur af ekrum framleiðandans - Casa Rojo. Þetta vín er ljúffengt, kröftugt með gott jafnvægi sem passar vel með bragðmiklum mat eins og grilluðu kjöti!

Svo er bara veisla.

Grillveisla!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

LinkWithin

Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...