Monday, 23 November 2020

Jólaundirbúningurinn hefst snemma í ár: Þrjár tegundir af síld með öllu tilheyrandi


Mér finnst ákaflega jólalegt að gera mína eigin síld fyrir jólin. Og þegar ég segi gera mína eigin síld - þá meina ég auðvitað að bragðbæta síldina sjálfur. Ég hef aldrei farið og verkað síldina frá grunni - enda er það óþarfi þegar unnt er að kaupa hana tilbúna, þ.e.a.s. verkaða, og klára svo með því að kynna hana fyrir ýmis konar sósum og kryddi. Maður hefur, jú, ekki endalausan tíma. 

Í þessari færslu ætla ég að leika mér mest með sýrðan rjóma og majónesi - persónulega eru það síldarréttirnir sem ég leita helst í þegar ég sæki hlaðborð heim. Ætli ég geri ekki aðra fljótlega - með aðeins öðrum áherslum. Á þessum síðustu og verstu tímum er nauðsynlegt að teygja vel og rækilega á aðventunni. 

Jólaundirbúningurinn hefst snemma í ár: Þrjár tegundir af síld með öllu tilheyrandi

Ég kynntist þessari síldartegund, Klädesholmen, þegar ég bjó í Svíþjóð. Ég bloggaði meira að segja um þær uppskriftir. Eins og þá - var faðir minn, Ingvar, mér innan handar en foreldrar mínir eru miklir síldarunnendur og bera ábyrgð á því að hafa komið mér á bragðið. 

Ég var svo á kynningu í sænska sendiráðinu fyrir tveimur árum og sá að hún er komin á markað á Íslandi. Jón, sem flytur síldina inn, var svo almennilegur að gefa mér nokkra pakka af síldinni og reyna að gera henni góð skil. Þ


Þetta eru ekki flóknar uppskriftir og það góða við þær er að það má gæða sér á þeim strax. En ætli þær verði ekki enn ljúffengari við að fá að standa í ísskáp í sólarhring. Þá fá allar bragðtegundirnar að kynnast betur. 

Ég geri mér grein fyrir því að ekki skilja allir þetta hrafnaspark og ætli það sé ekki best að skrifa þetta upp aftur. 

Jólasinnepssíld 

Hráefni

1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
1 dós sýrður rjómi 
3 msk majónes 
handfylli hakkað dill
1 msk hlynsíróp 
1 1/2 msk Edmont Fallot dijon sinnep 
salt og pipar eftir smekk. 


Aðferðafræðin er ekki flókin. Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Færa yfir í fallega krukku. Setja í ísskáp á meðan unnið er í næstu síldarréttum. 


Västerbottensíld 

Þessi uppskrift sló í gegn. Ég stal þessari uppskrift af netinu þar sem ég hafði aldrei gert þetta áður. 

Hráefni

1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
1 dós sýrður rjómi 
2 harðsoðin egg
1/2 dl majónes 
handfylli hökkuð steinselja
hnífsoddur af chilidufti
1 1/2 dl rifinn Västerbottenostur 
salt og pipar eftir smekkÞessi uppskrift er líka ofureinföld - en kannski sú eina sem krafðist einhverrar eldamennsku, ef eldamennsku skyldi kalla. Það þurfti að sjóða eggin! 


Og rífa ostinn. 

Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Færa yfir í fallega krukku. Setja í ísskáp á meðan unnið er í næstu síldarréttum. 


Hvítlaukssíld

Hráefni

1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
1 dós sýrður rjómi 
2 harðsoðin egg
3 msk majónes 
handfylli hökkuð steinselja
1/2 tsk Bera chilisósa
3-4 stór hvítlauksrif
1 tsk hlynsíróp
salt og pipar eftir smekk. 

Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Færa yfir í fallega krukku. Setja í ísskáp á meðan gengið er frá og máltíðin undirbúin.


Einfalt og meira að segja fljótlegt. 


Mamma mín, Lilja María, tók að sér að smyrja rúgbrauðið. Allir fengu einhver verkefni. Það var dálítið sænsk slagsíða á þessu hjá okkur. Bárum fram soðnar kartöflur sem við veltum upp úr góðri jómfrúarolíu, soðin egg, hrökkbrauð og meiri Västerbottenost. Og smá jólabjór. 

Þetta reyndist sannkölluð síldarveisla. 

Verði ykkur að góðu. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 15 November 2020

Þunnt skorinn, vel marineraður og snögg-grillaður lambahryggur með kryddjurtasósu og grísku salati

 

Það var svo ljúft veður liðna helgi að ég fékk þá flugu í höfuðið að grilla. Sumir vetrardagar bara kalla á að maður kyndi upp í grillinu - og eldi kvöldverð undir berum himni. En þegar á hólminn var svo komið sendi ég karl föður minn út með kjötið. En hann þurfti ekki að standa lengi við grillið þar sem ég hafði látið skera lambahrygginn í mjög þunnar sneiðar - svo þær væru eldsnöggt á grillinu.  

Ég hef ætlað að gera þetta um nokkuð skeið - en ekki látið verða af því fyrr en nú. Íslenskar kótilettur, lambakonfekt, er gjarnan skorið aðeins þykkara. Ég fékk svona þunnt skornar lambakótilettur þegar ég var í heimsókn hjá Ramon Bilbao í Rioja haustið 2018. Hugmyndin á bak við þessar þunnt skornu kótilettur er að maður nái lambafitunni stökkri og ljúffengri án þess að ofelda sjálft kjötið.  

Þunnt skorinn, vel marineraður og snögg-grillaður lambahryggur með kryddjurtasósu og grísku salati


Þetta er ekki flókin matseld en það er skynsamlegt að leyfa kjötinu að meyrna í ísskáp í nokkra daga og svo marinerast í nokkrar klukkustundir. Ég fékk Geira í Kjötbúðinni á Grensásveginum til að saga hrygginn niður með þessum hætti. 

1 lambahryggur - skorinn þunnt
3-4 msk góð jómfrúarolía (ég notaði bragðbætta olíu frá Olio principe)
2 msk Yfir holt og heiðar 
handfylli ferskt timjan, steinselja og mynta 
salt og pipar

Fyrir kryddsósuna

1 dós sýrður rjómi
2-3 msk majónes
1/2 dós af bragðbættum rjómaosti
2 hvítlauksgeirar
handfylli ferskt timjan, steinselja og mynta 
salt og pipar

Grískt salat 

græn lauf
kjarnhreinsuð agúrka
rauðlaukur
kalamata ólífur 
fetaostur
fersk mynta 

Kartöflusalat

700 g soðnar og flysjaðar kartöflur (láta kólna) 
4-5 msk pæklaður rauðlaukur
2-3 msk sýrður rjómi
2-3 msk majónes
1 msk hlynsíróp
salt og pipar


Ég byrjaði eldamennskuna um hádegisbil. Kjötið hafði þá fengið að meyrna í ísskáp í þrjá til fjóra daga og svo á frammi á borði yfir nótt. Skolaði af því og þerraði og setti í ílát. Bætti olíunni, öllu kryddinu - bæði því þurrkaða og því ferska og salti og pipar saman við og lét marinerast í nokkrar klukkustundir. 


Ilmurinn af þessu kjöti var himneskur. 


Sósan var ofureinföld. Blandaði saman sýrðum rjóma, majónesi og rjómaosti. Hakkaði svo heilmikið af kryddjurtum (þeim sömu og ég hafði notað í marinerínguna) og hrærði saman við. Smá hlynsíróp og smakkaði svo til með salti og pipar. 


Salatið var líka einfalt. Bara að skola grænu laufin og leggja á disk, sneiða gúrkuna og kjarnhreinsa, sneiða rauðlaukinn, sáldra yfir svörtum kalamata ólívum, ásamt fetaosti. Skreytt með myntu. Saltað og piprað. 


Pabbi sá um að grilla. Hann er með ferlega heitann brennara á grillinu sínu. Kjötið þurfti ekki nema 90 sekúndur á hvorri hlið. 


Kartöflusalatið var líka fljótlegt að matreiða. Kartöflurnar voru flysjaðar, soðnar í söltu vatni og settar í skál til að kólna. Sýrðum rjóma og mæjónesi blandað saman, ásamt hökkuðum pækluðum rauðlauk (heimagerðum að sjálfsögðu - sjá hérna). 


Þetta var ljómandi gott rauðvín. Trapiche Medalla Cabernet Sauvignion frá 2017. Þetta er kraftmikið vín, gott að leyfa því að anda svolítið, þurrt á tungu, ríkur ávöxtur og ágætlega eikað með ljúfu eftirbragði. 


Sannkölluð veislumáltíð. 

Verði ykkur að góðu! 


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 8 November 2020

Blóðmör (blóðbúðingur) með sænsku, jafnvel ensku, sniði með tvennskonar mús


Blóðmör eða blóðbúðingur verður seint kallaður fallegasti matur sem um getur. Og fólk skiptist gjarnan í tvo hópa - þeir sem borða blóðmör, og svo hinir sem gera það alls ekki. Það tók mig nokkuð langan tíma að læra að kunna meta blóðmör. Mér þótti til dæmis ekki blóðmör góður fyrr en ég fór að steikja hann og bera hann fram með rifsberjasultu eða sætu sinnepi. Svo kynntist ég bæði sænskri og enskri útgáfu og þær geta verið mjög ljúffengar. Sérstaklega bresku blóðpylsurnar sem fylgja með "Full english breakfast

Blóðmör (blóðbúðingur) með sænsku, jafnvel ensku, sniði með tvennskonar mús

Hráefnalisti

1 líter lambablóð 
1 laukur
1 epli
250 ml pilsner
175 g rúgmjöl
175 g perlubygg
250 g lambafita
50 ml birkisíróp
2 tsk salt
1 tsk allrahanda
1/4 múskathneta
10 piparkorn
8 negulnaglar
2 einiber
1 msk þurrkað majoram
50 g smjör

1 rófa
1 sæt kartafla
100 g smjör
100 ml mjólk 
1 tsk sykur
salt og pipar

500 g kartöflur
50 g smjör
50 ml mjólk
1 tsk sykur
salt og pipar


Skerið laukinn smátt niður og steikið í smjörinu. Saltið og piprið. Hakkið lambafitina gróflega. Setjið í skál ásamt rúgmjöli og byggi. Bætið lambafitunni saman við. 


Bætið svo við blóðinu ásamt sírópinu. Steytið negulnaglana, einiberin og piparinn í mortéli og bætið saman við. Hrærið vandlega.


Raspið hnetuna og bætið allrahanda og majoram saman við. 

Hrærið vandlega með sleif eða sleikju. 

Setjið í vel smurt bökunarform, hyljið með álpappír og bakið í 180 g heitum forhituðum ofni í 60-90 mínútur. 


Búðingurinn er tilbúinn þegar unnt er að stinga hnífi í hann án þess að hann litist af blóði þegar hann er dreginn út. 

Látið kólna í ísskáp í nokkrar klukkustundir. 


Ég gerði tvennskonar kartöflumús með blóðmörnum. Notaði nýja íslenska rófu og sæta kartöflu sem ég flysjaði og skar í bita. Sauð í söltuðu vatni. Þegar þær voru mjúkar hellti ég vatninu frá og stappaði saman með smjöri, mjólk, sykri, salti og pipar. 

Kartöflurnar fengu sömu meðferð. 


Skar svo búðinginn í sneiðar og steikti upp úr smjöri við lágan hita, eina mínútu á hvorri hlið. Bar fram með kartöflumúsinni, heimagerðri bláberjasultu og sætu sinnepi. 

Bar fram með ísskaldi nýmjólk. 

Þessi búðingur var frábær tilraun. Ég hef aldrei reynt að gera minn eigin blóðmör. Eftir á að hyggja hefði ég átt að nota aðeins meiri fitu og aðeins færri negulnagla. Líklega hefði ég átt að sjóða byggið áður. En maður lifir og lærir. 


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum HagkaupaSunday, 11 October 2020

Ljúfir hausttónar - dásamlegt íslenskt grænmeti lagt í pækil - litadýrð í krukku

 

Ég elska haustin. Sumir segja, vonandi í gríni, að þeir sem elska haustin ættu að leita sér einhverskonar meðferðar. 

Ætli þessa færsla skýri ekki að einhverju leyti hvers vegna mér þykir svo vænt um þennan árstíma. Öll uppskeran. Sjáið alla þessa dásamlegu liti. Auðvitað er best að njóta allra þessara ávaxta sumarsins meðan það er sem ferskast - en það má líka leggja það í pækil og þannig varðveita bragð þess og áferðar yfir myrkustu mánuðina. 

Ljúfir hausttónar - dásamlegt íslenskt grænmeti lagt í pækil - litadýrð í krukku

Það eru til óteljandi blöndur af vökva sem ætti að nota í pækil. 3-2-1 blandan frá Svíþjóð og svo óteljandi aðrar blöndur. 

Ég útbjó þessa eftir að hafa skimað fjölda ólíkra uppskrifta. 

Grænmeti af ýmsu tagi;

Smágúrkur
papríkur
gulrætur
rauðkál
hvítkál
blómkál 
laukur

Pækill

1 hlutur edik
1 hlutur vatn
1/2 hlutur sykur
1/8 hlutur salt 

Krydd

Sinnepsfræ
svört piparkorn
græn piparkorn
rauð piparkorn
eldpipar
lárviðarlauf


Hægt er að hafa gúrkurnar - heilar, í sneiðum eða í ílöngum fjórðungum eins og þessum.


Sama má segja um gulræturnar. 


Svo er að fylla krukkurnar með grænmetinu. 

Í sumar krukkurnar fóru nokkrar tegundir af grænmeti - svona tilraun til að skapa einhver mynstur. 

Krukkurnar fengu að fara ferð á háum hita inn í uppþvottavélina, fengu að þorna og svo eina ferð inn í 110 gráðu heitan ofn í 10-15 mínútur. Við það ættu þær að vera sótthreinsaðar.


Svo er bara að loka krukkunum og koma þeim fyrir inn í ísskáp. 

Þetta er frábært meðlæti með ýmiskonar réttum og lyftir og lífgar við nánast hvaða disk sem lagður er á borðið. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Saturday, 3 October 2020

Gúllasið hennar Snædísar heimsótt aftur - 13 árum síðar


Ég deildi þessari mynd á Instagram í liðinni viku og hef fengið nokkrar óskir um að birta uppskriftina. Þetta er í raun endurbirting; hún birtist í fyrsta sinn á síðunni minni 8. febrúar 2007. Síðan eru liðin mörg ár - heil þrettán ár. 

Og þessi uppskrift er ekki frá mér komin. Konan mín, Snædís, á allan heiðurinn af þessari eldamennsku og hefur eldað hana margoft. Þetta er svona "go-to" uppskrift  sem hún er löngu búin að fullkomna. 

Gúllasið hennar Snædísar heimsótt aftur - 13 árum síðar

Hráefnalisti fyrir 4-6

500 g nautagúllas
4 gulrætur
1 rauðlaukur
1sellerístöng
2 hvítlauksrif
250 g sveppir
2 lárviðarlauf
1 dós tómatmauk (lítil)
1 msk papríkuduft
300 ml rauðvín
500 ml nautakraftur
150 ml rjómi
jómfrúarolía/smjör til steikingar
salt og pipar

2 bollar basmati hrísgrjón

Einfalt salat með pommengranat eplum


Saltið og piprið kjötið og brúnið að utan og setjið það svo til hliðar. Næst er að steikja grænmetið, niðurskornar gulrætur, saxaðan rauð- og hvítlauk, smátt skorið sellerí og niðursneidda sveppi þangað til að það er mjúkt. Losið kjötkraftinn af botninum með sleif. 

Bætið svo tómatmauki saman við og látið steikjast áfram í nokkrar mínútur til að brúna tómatmaukið. Bætið papríkuduftinu, lárviðarlaufi og saltið og piprið vandlega. 

Hellið svo rauðvíni saman við og sjóðið upp og síðan niður um helming. Þá bætið þið nautakraftinum við og látið krauma í 90 mínútur á hellu eða inni í 160 gráðu heitum ofni. Að lokum er rjóma bætt saman við og látið sjóða áfram í 20 mínútur. Það þarf stundum að smakka sósuna til með krafti, salti, pipar og soya - svona til að fá rétta bragðið. 


Berið fram með soðnum hrísgrjónum og einföldu salati. Það sakar ekki að fá sér ljúffengt rauðvín með matnum. Við bárum fram Marques de casa Concha Etuiqueta frá 2017. Þetta er kraftmikið rauðvín, mikið berjabragð, tannínríkt, frekar þurrt með gott eikað eftirbragð. Gaf matnum ekkert eftir. 

Verði ykkur að góðu! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 27 September 2020

Einn dásamlegasti kjúklingaréttur allra tíma - Kjúklingur sextíuogfimm (Chicken Sixty-five)


Ég hafði ekki heyrt um þennan rétt fyrr en að Snædís, eiginkona mín, kom heim með hann frá veitingahúsinu Bombay Bazar í Ármúlanum. Ég varð hreinlega orðlaus - þetta var sennilega besti kjúklingaréttur sem ég hafði bragðað. Og ég hef pantað hann nokkrum sinnum síðan - ótrúlega seðjandi og bragðmikill réttur.

Og ég var eiginlega undrandi á að hafa ekki kynnst honum áður. Svo góður er hann! Þessi réttur á sér ekki langa sögu. Hann varð til á Buhari Hótelinu í Chennai á Indlandi. Kokkurinn - herra Buhari, bjó til þennan rétt fyrir gesti hótelsins. Nafnið á réttinum hefur vakið nokkra athygli - og verið innblástur í ýmsar sögusagnir um tilurð réttsins - að hann innihaldi 65 mismunandi krydd, að hann hafi verið búinn til fyrir indverska herdeild. En svo er ekki raunin. Herra Buhari bar þennan rétt fyrst fram árið 1965. Og þannig fékk hann nafn sitt - eftir fæðingarárinu! 

Einn dásamlegasti kjúklingaréttur allra tíma - Kjúklingur sextíuogfimm (Chicken Sixty-five)

Þetta er ekki flókin eldamennska - en hún er nokkuð tímafrek og er í allavega þremur stigum. Fyrst marinering, svo djúpsteiking og svo er kjúklingurinn steiktur aftur í sósunni. 

Hráefnalisti fyrir 6 

1,4 kg úrbeinuð kjúklingalæri 
1/2 dós grísk jógúrt
safi úr tveimur sítrónum
2 egg
3 msk túrmerik
3 msk garam masala
3 msk papríkuduft
2 msk chiliduft
1 msk chiliflögur
2 msk svartur pipar
1 bolli maísmjöl
6 msk hvítlauks- og engifermauk
50  ml rauðsófusafi (ég fékk hann með því að stappa vökvann úr nokkrum forsoðnum rauðrófum)
salt 
2 l sólblómaolía til að djúpsteikja

Fyrir sósuna 

1/2 dós grísk jógúrt
50 ml rauðrófusafi
5 msk tómatsósa
2 msk sæt chilisósa
2 msk siracha sósa
salt og pipar
1 græn chili
10-15 karrílauf
1 msk hvítlauks- og engifermauk

Meðlæti

Basmati hrísgrjón 
Einfalt mangósalat (gleymdi að taka mynd af því) Byrjaði á því að skera kjúklingalærin í sex nokkuð álíka stóra bita. Setti í skál og bætti svo jógúrt, eggjum, maísmjöli, engifer- og hvítlauksmauki, rauðrófusafa og öllu kryddinu saman í skálina. Saltaði.
.

Þá er að blanda öllum þessum hráefnum vandlega saman og leyfa að marinerast í að minnsta kosti 30 mínútur - meiri tími er auðvitað betri - sumar uppskriftir sem ég rakst vildu stungu upp á að hafa þetta yfir nótt, þannig að ég ákvað að fara milliveginn, tæplega þrjár klukkustundir. 


Þá var ekkert annað að gera en að hita olíu upp í 160 gráður og djúpsteikja nokkra bita í senn og leggja þá svo til hliðar þegar þeir voru orðnir fallegir á litinn og eldaðir í gegn. Það tók ekki nema nokkrar mínútur að steikja kjúklingin í gegn. 


Er það bara ég sem, eða eruð þið fleiri, sem elskið djúpsteiktan kjúkling? 


Það er mikilvægt að gera nóg af kjúklingi - þar sem fólk á eftir að borða yfir sig af þessu ljúfmeti. 


Þegar kjúklingurinn var tilbúinn fór ég að huga að sósunni. Blandaði saman jógúrtinni, tómatsósunni, siracha og sætri chilisósu saman í skál. 

Saxaði svo niður einn grænan chili. Hitaði olíu á pönnu og steikti eldpiparinn með hvítlauks- og engifermauki og karrílaufunum.


Hitaði sósuna upp á pönnunni og blandaði vel saman við hráefnin. 


Lokaskrefið var að færa kjúklinginn í sósuna og blanda varlega þannig að hann varð alveg hjúpaður. Steikja svo saman í nokkrar mínútur. Skreytti með kóríander. 


Margir kannast við 1000 Stories Zinfandel - þetta er eiginlega stóra systir hans. Þetta er bandarískt Capernet Sauvignion frá Kalíforníu sem fær að þroskast á vískitunnum. Vivino gefur þessu víni  4.0 í einkunn og vínótek fjórar stjörnur. Það er skiljanlegt þar sem um ljúffengan rauðvínssopa er að ræða. Hefur kraftmikinn tón, er þurrt og rúllar vel á tungu. Allir voru sammála um að það gaf matnum ekkert eftir. 


Borið fram með hrísgrjónum og einföldu mangósalati. 

Hvet ykkur til að prófa Kjúkling sextíu- og fimm! 

Þetta er sælgæti! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

LinkWithin

Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...