Thursday, 23 May 2019

Lambið og miðin - Uppskriftir úr þætti eitt: Hverasoðin bleikja með stúfuðu spínati og snöggpæklaðri agúrku, mývetnsk snitta og bryggjubollur með kartöflu- og rófumúsÉg vona að þið hafið haft gaman af því að horfa á sjónvarpsþáttinn okkar. Við erum sannarlega stoltir af honum.

Þessar uppskriftir eru til viðmiðunar. Þeir sem fylgdust með þættinum tóku líklega eftir því að nákvæm mál voru aldrei notuð – heldur var farið meira eftir tilfinningu – og svo giskað á hversu mikið var notað.Ég er þó nokkuð sannfærður um að ef farið verður eftir þessum uppskriftum sem hér fylgja verði úr einstaklega ljúffengar máltíðir.

Lambið og miðin - Uppskriftir úr þætti eitt: Hverasoðin bleikja með stúfuðu spínati og snöggpæklaðri agúrku, mývetnsk snitta og bryggjubollur með kartöflu- og rófumús

Hérna koma svo uppskriftirnar;

Gufusoðinn silungur á beði af stúfuðu spínati með snöggpæklaðri agúrku

Að elda í hver er auðvitað ekki á hvers manns færi. En fyrir þá sem eiga gufuofn er auðvitað leikur einn að herma eftir uppskriftinni. En íslensk bleikja verður ekkert síðri við að vera bökuð í heitum bakarofni. Sannið bara til.

Hráefni fyrir 4

Tvö silungsflök
1 sítróna
handfylli blandaðar kryddjurtir
50 g smjör
salt og pipar

150 g spínat
½ laukur
100 ml hvítvín
2 hvítlauksrif
skvetta af hvítvíni
50 g smjör
150 ml rjómi
handfylli ferskar kryddjurtir
skvetta sítrónusafi
salt og pipar

½ agúrka
100 ml hvítvínsedik
safi úr einni sítrónu
1 msk salt
1 msk sykur
pipar

500 g kartöflur
100 g smjör
salt og pipar
handfylli steinselja

Aðferð

1. Skerið agúrkuna í helminga og kjarnhreinsið. Skerið hana því næst í þunna strimla og leggið í skál.
2. Hellið edikinu yfir ásamt sítrónusafanum.
3. Blandið sykrinum, saltinu og piparnum saman við og látið standa í klukkustund til að mýkast.
4. Skerið sítrónu í sneiðar og leggið í ofnskúffu og leggið silungsflakið ofan á. Setjið handfylli af kryddjurtum undir flakið. Saltið og piprið, sáldrið afgangnum af kryddjurtunum ofan á.
5. Bakið í 200 gráður heitum ofni í 15 mínútur.
6. Til að útbúa spínatið byrjið þið á því að skera laukinn og hvítlaukinn og steikið upp úr heitu smjöri. Bætið víninu á pönnuna og látið sjóða upp og svo niður um helming.
7. Bætið næst við spínatinu og látið það visna á pönnunni um rúman helming áður en þið hellið rjómanum saman við.
8. Bætið kryddjurtum á pönnuna, salti og pipar og smá sítrónusafa og látið sjóða niður um helming.
9. Kartöflurnar eru soðnar á hefðbundinn hátt, velt upp úr bráðnu smjöri og kryddjurtum. Saltið og piprið.Mývetnsk snitta

Kannski er rangt að kalla þetta snittu. Stærðin bendir heldur til þess að þetta sé opin samloka. Mér fannst þessi snitta einstaklega ljúffeng. Steinunn, móðir hans Antons, ráðlagði mér að skynsamlegra væri að skera brauðið aðeins þynnra. Næst held ég að ég geri það – hún veit, jú, hvað hún er að tala um. Svo er varla hægt að vera að tala um eldamennsku þegar maður þegar um það eitt er að ræða að raða áleggi ofan á brauð. En eggin voru, jú, elduð, þannig að það telst kannski með.

2 þykkar sneiðar gufusoðið rúgbrauð frá Mývatni
10 sneiðar af þunnt skorinni Mývatnsbleikju
3 andaregg
¼ rauðlaukur
2 msk sýrður rjómi
ferskt steinselja til skreytingar
ný ætihvönn (val)
salt og pipar

1. Brjótið eggin í skál, saltið og piprið, og þeytið saman með gaffli.
2. Steikið eggjakökuna upp úr smjöri, veltið henni á pönnunni þannig að hún verði um centimetri að þykkt. Setjið til hliðar og látið kólna.
3. Smyrjið rúgbrauðið með smjöri.
4. Leggið eggjakökuna ofan á og raðið því næst þunnt skornum silungi ofan á eggjakökuna.
5. Setjið sýrðan rjóma, smátt skorin rauðlauk, steinselju og ætihvönn (sé hún fyrir hendi).Bryggjubollur úr kindahakki með kartöflu- og rófumús

Ég hef lengi velt vöngum yfir því af hverju þjóð sem hefur dregið fram lífið með því að ala upp sauðfé eigi ekki hafsjó af uppskriftum úr hökkuðu lambakjöti. En það er þá í okkar valdi að búa til nýjar “klassískar” uppskriftir. Eins og þessa.

Fyrir 6-8

Fyrir bollurnar

1 kg kindahakk
5-6 hafrakex
100 ml rjómi
1 msk kryddblanda að eigin vali
handfylli ferskar kryddjurtir – timjan, rósmarín, steinselja
1 tsk þurrkað blóðberg
1 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
2 andareggjarauður
salt og pipar
smjör til steikingar

Fyrir sósuna

250 g portobello sveppir
3 hvítlauksrif
½ hvítur laukur
1 glas rauðvín (eftir smekk)
1 msk tómatmauk
1 msk djion
salt og pipar

Fyrir kartöflu- og rófumúsina

1 kg kartöflur
1 rófa
200 g smjör
4 msk rjómaostur
salt og pipar

1. Brjótið kexið niður og bleytið upp í því með rjómanum.
2. Setjið allt hráefnið í kindabolluuppskriftinni saman í skál og blandið vel saman.
3. Hnoðið í bollur á stærð við golfbolta. Það er gott að olíubera hendurnar til að deigið klístrist ekki við mann.
4. Steikið bollurnar þangað til að þær eru brúnar að utan og takið svo til hliðar.
5. Skerið hvítlaukinn, laukinn og sveppina niður og steikið á sömu pönnu.
6. Fyrir þá sem vilja kraftmeiri sósu er um að gera að bæta rauðvíni á pönnuna. Og sjóða það niður um helming.
7. Bætið svo sýrða rjómanum á pönnuna, ásamt tómatmauki, djionsinnepi, salti og pipar. Tyllið svo bollunum ofan í sósuna til að elda þær í gegn.

Fyrir músina

1. Flysjið og sjóðið kartöflur og rófu.
2. Hellið vatninu frá og stappið svo smjör, rjómaost saman við vandlega.
3. Blandið rjómanum saman við og saltið og piprið eftir smekk.Sunday, 12 May 2019

Rifin "pulled" lambaframpartur með mangó-jalapenö aoili, steiktum svartbaunum og fersku kóríander


Þó það hljómi kannski pínu kjánalega þá er þessi máltíð raunverulega skyndibiti. Það tók ótrúlega lítin "virkan" tíma í eldhúsinu frá því að þessi réttur var undirbúinn og síðan borinn fram - tæpar 30 mínútur. Það verður þó að játast að biðtími var nokkur - en framparturinn var eldaður í rúmar fjórar klukkustundir. En þetta er líka einföld eldamennska. 

Þetta gladdi líka fjölskylduna - taco er alltaf í uppáhaldi. Og það er gaman að prófa ólík hráefni, prófa annarskonar grænmeti, baunir og mismunandi kjöt. Mér finnst eiginlega ekki hægt að bera fram tacó án þess að vera með einhverskonar baunir með - þær geta líka komið í staðinn fyrir kjötið óski maður þess. 

Rifin "pulled" lambaframpartur með mangó-jalapenö aoili, steiktum svartbaunum, tómatsósu og fersku kóríander

Það væri auðvitað hægt að nota tilbúna kryddblöndu en það er leikur einn að gera þetta sjálfur frá grunni. Mér finnst taco-krydd alltaf einkennast af broddkúmeni og því fær það auðvitað stórt hlutverk í minni blöndu. 

Hráefnalisti fyri 6 

1 lambaframpartur
6 msk jómfrúarolía
1 msk broddkúmen
1 msk papríkuduft
1 msk piparkorn
1 tsk cheyenne pipar
1 msk salt
1/2 msk kóríander 
1/2 msk laukduft
1/2 msk hvítlauksduft

1 dós svartar baunir
1 rauður laukur
2 hvítlauksrif 
2 msk jómfrúarolía
salt og pipar 
fersk steinselja

4 msk majónes
1/2 mangó
2 msk jalapenö
1 hvítlauksrifByrjaði á því að útbúa kryddblönduna. Kom kryddinu öllu fyrir í mortéli og steytti vandlega niður.


Svo var bara að nudda lambinu upp úr olíu og svo nóg af kryddblöndunni. 


Svo setti ég 250 ml af vatni í ofnpottinn, lokið á og inn í 170 gráðu heitan ofn í rúma fjóra tíma. 


Svo bjó ég til þetta geggjaða aioli. Skar mangó, hvítlauk og jalapenö smátt og blandaði saman við majónesið. Smakkaði til með salti og pipar.


Svo voru það baunirnar. Skar niður laukinn og hvítlaukinn og steikti við lágan hita í nokkrar mínútur. Skolaði baunirnar upp úr köldu vatni og bætti saman við. Saltaði og pipraði og bætti svo við smáræði af ferskri steinselju. 


Framparturinn var svo vel eldaður að kjötið var að detta af beinunum.


Kjötið var svo rifið gróflega með gaffli og blandað saman við vökvann sem hafði safnast fyrir í ofnskúffunni.


Kjötið var eins meyrt og hægt var að ímynda sér.


Ég prófaði að smakka þessa búkollu - Trapiche Malbec frá Mendóza héraði í Argentínu. Malbec er lang algengasta þrúgan sem ræktuð er til rauðvínsgerðar þar í landi. Þetta er ljómandi góður rauðvínssopi - ávaxtaríkt vín og með mildu  og ljúfu eftirbragði. Þetta var, sko, sannarlega veislumáltíð!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Tuesday, 7 May 2019

Nýr og ljúffengur jamískur "jerk" kjúklingur með kókos hrísgrjónum, grænum baunum og mangósalsa


Ég hef áður eldað "jerk" kjúkling og sagt frá því á síðunni minni. Það var síðla árs 2009 - fyrir næstum tíu árum. Þá var ég fullur af innblæstri frá heimasíðu sem ekki lengur lifir, dayrobber.com, og fylgdist þar með sænsk-jamíska kokkinum John Bull og eldamennsku hans á veitingastaðnum John Bull's Reggae Kitchen sem var í Stokkhólmi. Hann heimsótti ég einu sinni þegar ég var á námskeiði meðan ég var í framhaldsnámi í gigtlækningum. Hægt er að lesa um þá heimsókn hérna.  Núna rekur hann "foodtruck" í Stokkhólmi - ef þið eruð á ferðinni þá er vel þess virði að hafa upp á honum - hann er skemmtilegur kokkur.

Ég gerði uppskriftina fyrst nokkurn veginn eftir hans höfði. Hér fyrir neðan er hægt að dást að töktunum hans! Herra Bull er af jamísku bergi brotinn og kenndi áhorfendum handtökin í jamískri matargerð á téðri heimasíðu. Á milli eldamennskunnar saup hann á landa úr krukku. Reggítónlist var undir og stemmingin á þeim nótum. Hann var með nokkur innslög á síðunnni og meðal annars innblástur þessarar kvöldmáltíðar. Þessi prýðis herramaður eldaði meðal annars jamíska karrígeit, saltfisk og ackee og síðast en ekki síst jamískan "jerk" kjúkling.

"Jerk" kjúklingur - heitir það vegna kryddblöndunar sem notaður er á hann. Orðið "jerk" virðist í fyrstu hálf kjánalegt en það á sér sínar skýringar og má rekja uppruna þess til orðsins charqai sem er indíánamál (Qhechua). Það varð síðar að "jerk" kjúklingi (eða grísasteik, jafnvel maríneraður fiskur sem síðan var grillaður og reyktur) og einnig að amerísku jerky (þurrkað kjöt). Og það er ekkert lítið sem fer í réttinn af mismunandi kryddi. Undirstaðan er án efa pimento, á ensku allspice, og síðan scotch bonnet chili pipar - sem er einn sá sterkasti sem finnst. Þetta er afbrigði af habanero chili pipar og finnst á eyjum í Karibíahafinu. Á Scoville skalanum þá nær hann upp í 100-350 þúsund einingar. Scoville skalinn er til þess að meta hita í kryddpipar. Papríka fær til dæmis núll einingar og jalapenó 2500-8000 einingar.

En nóg um það, enda meira og minna endurtekning úr fyrri færslu.

Nýr jamískur "jerk" kjúklingur með kókos hrísgrjónum, grænum baunum og mangósalsa

Hráefnalisti fyrir 6

1,4 kg af kjúkling (úrbeinuð læri, leggir á beini)
4 msk góð jómfrúarolía
1 msk hvítlauksduft
2 msk allrahanda
2 tsk cayenne pipar (eða þurrkaður scotch bonnet pipar) 
2 tsk laukduft
2 tsk þurrkað timjan
1 tsk þurrkuð steinselja
2 tsk brún muscuvadósykur
1 tsk papríka
1 tsk svartur pipar 
1 tsk chili pipar
1/2 tsk nýmulið múskat
1/2 tsk kanill

Fyrir hrísgrjónin 

200 g basmati
vatn
1/2 dós kókósmjólk
salt og pipar 
handfylli af frosnum baunum

Fyrir mangósalsa

1 mangó
1/2 rauður laukur
1 stór tómatur
3 msk jómfrúarolía
handfylli steinselja og basil 
salt og piparFyrst er að útbúa kryddblönduna - það er nógu einfalt - bara blanda þessu öllu saman. Til að flýta fyrir sér mætti auðvitað kaupa tilbúna kryddblöndu, það eru nokkrar déskoti góðar á markaðnum. 


Byrjið á því að skera í leggina, alveg niður að beini. Þannig kemst kryddblandan alveg inn í kjötið. 


Tveir skurðir í hvern legg ætti að vera nóg. 


Ég marineraði kjúklinginn í sólarhring, sem er yfirdrifið nóg. Það var bara vegna vinnu sem ég hagræddi þessu svona. Hálftími ætti að duga en yfir nótt er auðvitað frábært.


Mangó er æðislega ljúffengur ávöxtur, en það er listgrein að skera aldinkjötið frá kjarnanum. Þegar þið náið aldinkjötinu af, skerið það smátt niður og setjið í skál.


Hellið jómfrúarolíu saman við ásamt niðurskornum tómat, rauðlauk og svo ferskum kryddjurtum. Væri konan mín ekki með óþol fyrir kóríander hefði ég að sjálfsögðu notað hann. En svona er lífið. 


Mér fannst þetta einstaklega vel heppnað salsa. Bragðbætið með salti og pipar.


Svo eru það hrísgrjónin. Setjið þau í pott og sjóðið í vatni og kókósmjólk. Þegar fimm mínútur eru eftir af suðu bætið þið frosnum grænum baunum saman við. Þegar þau eru tilbúin smakkið til með salti og pipar.


Ég bakaði kjúklinginn í gegn í ofni og kláraði hann svo á grillinu.


Við nutum Masi Campofiorin 2015 með matnum. Þetta er vín sem hefur verið í sérstöku uppáhaldi síðastliðin tvö ár eftir að ég heimsótti framleiðandann á Ítalíu á vordögum árið 2017. Árið 2015 var sérstakt hátíðarár hjá Masi - þar sem vínið átti 50 ára afmælið það árið!! Þetta vín er ljúffengt, með góðum ávexti á tungu og kryddað með ljúfu eftirbragði.


Þetta var dásamlega ljúffengur réttur.


Ég hvet ykkur eindregið til að prófa. 

Þetta var algert sælgæti!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Thursday, 2 May 2019

Ofur-Osta samloka, hver sigrar - Óðals Búri eða Cheddar?


Að elda ostasamloku er einfalt. Ofur einfalt. Og ef það er gert rétt er það alveg einstaklega ljúffengt. Það eru nokkur skref sem þarf að fylgja. Almennt er það nú þannig að einfaldur matur byggir á því að maður noti góð hráefni. Og þar leikur osturinn auðvitað lykilhlutverk. 

Það verður eiginlega að biðjast afsökunar á þessu brauði, þar sem ég er að nota hvítt samlokubrauð. En ég hef nú sagt það áður að það er eiginlega alveg gagnlaust - nema þegar kemur að því að útbúa rosalega ljúffenga ostasamloku. Það má auðvitað nota aðrar tegundir af brauði - og niðurstaðan er alltaf ljúffeng. Aðalkosturinn við brauðið er að það tekur á sig svo fallegan lit þegar það er steikt á pönnu að það er eiginlega erfitt að toppa það. Maður borðar, jú, líka með augunum. Jafnframt verður það ögn sætara á bragðið við steikinguna og það rímar ákaflega vel við bráðinn ostinn. 

Ofur-Osta samloka, hver sigrar - Óðals Búri eða Cheddar?

Fyrir tvær ofur-ostasamlokur

4 brauðsneiðar
2 msk djionsinnep (sætt með smá hlynsírópi)
1/2 tsk ferskt timjan
Nóg af rifnum Óðals Búra
Nóg af rifnum Óðals Cheddar 
75 g smjör (til að smyrja og til steikingar) Það er auðvelt að elda þegar maður er með gott hráefni. 


Fyrst var að smyrja brauðið með sinnepinu.


Svo var að raspa yfir nóg af búra. Sáldraði nokkrum timjan greinum með.


Gerði eins við Cheddar ostinn.


Smurði brauðið að utan með smjöri. Ansi ríkulega.


Galdurinn er svo að steikja á heldur lágum hita. Það liggur ekkert á.


Maður er síðan verðlaunaður fyrir þolinmæðina.


Og verðlaunaður aftur!

Við vorum fjögur í heimilinu og staðan var hnífjöfn. Ég og Ragga vorum hrifnust af Cheddar ostinum en Snædís og Villi kusu Óðals Búra.

Svona getur þetta verið. Spurningin er hvaða ost ætti ég að prófa næst?

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

LinkWithin

Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...