Thursday 2 May 2019

Ofur-Osta samloka, hver sigrar - Óðals Búri eða Cheddar?


Að elda ostasamloku er einfalt. Ofur einfalt. Og ef það er gert rétt er það alveg einstaklega ljúffengt. Það eru nokkur skref sem þarf að fylgja. Almennt er það nú þannig að einfaldur matur byggir á því að maður noti góð hráefni. Og þar leikur osturinn auðvitað lykilhlutverk. 

Það verður eiginlega að biðjast afsökunar á þessu brauði, þar sem ég er að nota hvítt samlokubrauð. En ég hef nú sagt það áður að það er eiginlega alveg gagnlaust - nema þegar kemur að því að útbúa rosalega ljúffenga ostasamloku. Það má auðvitað nota aðrar tegundir af brauði - og niðurstaðan er alltaf ljúffeng. Aðalkosturinn við brauðið er að það tekur á sig svo fallegan lit þegar það er steikt á pönnu að það er eiginlega erfitt að toppa það. Maður borðar, jú, líka með augunum. Jafnframt verður það ögn sætara á bragðið við steikinguna og það rímar ákaflega vel við bráðinn ostinn. 

Ofur-Osta samloka, hver sigrar - Óðals Búri eða Cheddar?

Fyrir tvær ofur-ostasamlokur

4 brauðsneiðar
2 msk djionsinnep (sætt með smá hlynsírópi)
1/2 tsk ferskt timjan
Nóg af rifnum Óðals Búra
Nóg af rifnum Óðals Cheddar 
75 g smjör (til að smyrja og til steikingar) 



Það er auðvelt að elda þegar maður er með gott hráefni. 


Fyrst var að smyrja brauðið með sinnepinu.


Svo var að raspa yfir nóg af búra. Sáldraði nokkrum timjan greinum með.


Gerði eins við Cheddar ostinn.


Smurði brauðið að utan með smjöri. Ansi ríkulega.


Galdurinn er svo að steikja á heldur lágum hita. Það liggur ekkert á.


Maður er síðan verðlaunaður fyrir þolinmæðina.


Og verðlaunaður aftur!

Við vorum fjögur í heimilinu og staðan var hnífjöfn. Ég og Ragga vorum hrifnust af Cheddar ostinum en Snædís og Villi kusu Óðals Búra.

Svona getur þetta verið. Spurningin er hvaða ost ætti ég að prófa næst?

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment