Tuesday 7 May 2019

Nýr og ljúffengur jamískur "jerk" kjúklingur með kókos hrísgrjónum, grænum baunum og mangósalsa


Ég hef áður eldað "jerk" kjúkling og sagt frá því á síðunni minni. Það var síðla árs 2009 - fyrir næstum tíu árum. Þá var ég fullur af innblæstri frá heimasíðu sem ekki lengur lifir, dayrobber.com, og fylgdist þar með sænsk-jamíska kokkinum John Bull og eldamennsku hans á veitingastaðnum John Bull's Reggae Kitchen sem var í Stokkhólmi. Hann heimsótti ég einu sinni þegar ég var á námskeiði meðan ég var í framhaldsnámi í gigtlækningum. Hægt er að lesa um þá heimsókn hérna.  Núna rekur hann "foodtruck" í Stokkhólmi - ef þið eruð á ferðinni þá er vel þess virði að hafa upp á honum - hann er skemmtilegur kokkur.

Ég gerði uppskriftina fyrst nokkurn veginn eftir hans höfði. Hér fyrir neðan er hægt að dást að töktunum hans! 



Herra Bull er af jamísku bergi brotinn og kenndi áhorfendum handtökin í jamískri matargerð á téðri heimasíðu. Á milli eldamennskunnar saup hann á landa úr krukku. Reggítónlist var undir og stemmingin á þeim nótum. Hann var með nokkur innslög á síðunnni og meðal annars innblástur þessarar kvöldmáltíðar. Þessi prýðis herramaður eldaði meðal annars jamíska karrígeit, saltfisk og ackee og síðast en ekki síst jamískan "jerk" kjúkling.

"Jerk" kjúklingur - heitir það vegna kryddblöndunar sem notaður er á hann. Orðið "jerk" virðist í fyrstu hálf kjánalegt en það á sér sínar skýringar og má rekja uppruna þess til orðsins charqai sem er indíánamál (Qhechua). Það varð síðar að "jerk" kjúklingi (eða grísasteik, jafnvel maríneraður fiskur sem síðan var grillaður og reyktur) og einnig að amerísku jerky (þurrkað kjöt). Og það er ekkert lítið sem fer í réttinn af mismunandi kryddi. Undirstaðan er án efa pimento, á ensku allspice, og síðan scotch bonnet chili pipar - sem er einn sá sterkasti sem finnst. Þetta er afbrigði af habanero chili pipar og finnst á eyjum í Karibíahafinu. Á Scoville skalanum þá nær hann upp í 100-350 þúsund einingar. Scoville skalinn er til þess að meta hita í kryddpipar. Papríka fær til dæmis núll einingar og jalapenó 2500-8000 einingar.

En nóg um það, enda meira og minna endurtekning úr fyrri færslu.

Nýr jamískur "jerk" kjúklingur með kókos hrísgrjónum, grænum baunum og mangósalsa

Hráefnalisti fyrir 6

1,4 kg af kjúkling (úrbeinuð læri, leggir á beini)
4 msk góð jómfrúarolía
1 msk hvítlauksduft
2 msk allrahanda
2 tsk cayenne pipar (eða þurrkaður scotch bonnet pipar) 
2 tsk laukduft
2 tsk þurrkað timjan
1 tsk þurrkuð steinselja
2 tsk brún muscuvadósykur
1 tsk papríka
1 tsk svartur pipar 
1 tsk chili pipar
1/2 tsk nýmulið múskat
1/2 tsk kanill

Fyrir hrísgrjónin 

200 g basmati
vatn
1/2 dós kókósmjólk
salt og pipar 
handfylli af frosnum baunum

Fyrir mangósalsa

1 mangó
1/2 rauður laukur
1 stór tómatur
3 msk jómfrúarolía
handfylli steinselja og basil 
salt og pipar



Fyrst er að útbúa kryddblönduna - það er nógu einfalt - bara blanda þessu öllu saman. Til að flýta fyrir sér mætti auðvitað kaupa tilbúna kryddblöndu, það eru nokkrar déskoti góðar á markaðnum. 


Byrjið á því að skera í leggina, alveg niður að beini. Þannig kemst kryddblandan alveg inn í kjötið. 


Tveir skurðir í hvern legg ætti að vera nóg. 


Ég marineraði kjúklinginn í sólarhring, sem er yfirdrifið nóg. Það var bara vegna vinnu sem ég hagræddi þessu svona. Hálftími ætti að duga en yfir nótt er auðvitað frábært.


Mangó er æðislega ljúffengur ávöxtur, en það er listgrein að skera aldinkjötið frá kjarnanum. Þegar þið náið aldinkjötinu af, skerið það smátt niður og setjið í skál.


Hellið jómfrúarolíu saman við ásamt niðurskornum tómat, rauðlauk og svo ferskum kryddjurtum. Væri konan mín ekki með óþol fyrir kóríander hefði ég að sjálfsögðu notað hann. En svona er lífið. 


Mér fannst þetta einstaklega vel heppnað salsa. Bragðbætið með salti og pipar.


Svo eru það hrísgrjónin. Setjið þau í pott og sjóðið í vatni og kókósmjólk. Þegar fimm mínútur eru eftir af suðu bætið þið frosnum grænum baunum saman við. Þegar þau eru tilbúin smakkið til með salti og pipar.


Ég bakaði kjúklinginn í gegn í ofni og kláraði hann svo á grillinu.


Við nutum Masi Campofiorin 2015 með matnum. Þetta er vín sem hefur verið í sérstöku uppáhaldi síðastliðin tvö ár eftir að ég heimsótti framleiðandann á Ítalíu á vordögum árið 2017. Árið 2015 var sérstakt hátíðarár hjá Masi - þar sem vínið átti 50 ára afmælið það árið!! Þetta vín er ljúffengt, með góðum ávexti á tungu og kryddað með ljúfu eftirbragði.


Þetta var dásamlega ljúffengur réttur.


Ég hvet ykkur eindregið til að prófa. 

Þetta var algert sælgæti!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment