Monday 27 May 2019

Beisik eldamennska - Hakk og Spaghetti 2.0 - einfaldur og ljúffengur hversdagsmatur



Ætli hakk og speghetti sé ekki það fyrsta sem við eldum þegar við spreytum okkur í eldhúsinu fyrstu skiptin. Og svo er þetta líka algerlega "go to" réttur þegar krakkarnir eru svangir og maður er að brenna út á tíma. Svo má líka nefna að þetta getur verið einkar ljúffeng máltíð - eldi maður rétt, eins og ég tel mig hafa gert og skrifa um í þessari færslu. Það eru nokkrar leiðir til að "djassa" upp þessa máltíð og gera hana að veislumáltíð fyrir unga sem aldna; svo góða að enginn í eldhúsinu er að biðja um að fá tómatsósu til að skerpa á kjötinu og lita spaghettíið. 

Beisik eldamennska - Hakk og Spaghetti 2.0 - einfaldur og ljúffengur hversdagsmatur

Fyrir fimm

500 g spaghetti
500 nautahakk
1/2 hvítur laukur (átti afgangs frá því um helgina)
1/2 rauður laukur (átti afgangs frá því um helgina)
1 pakki af parmaskinku
200 ml nautasoð
150 ml rjómi
75 g smjör
salt og pipar (ekki svo mikið af salti þar sem parmaskinkan er heldur sölt)


Allar góðar uppskriftir byrja á því að bræða smjör á pönnu. Það er ekkert að því að bæta smá jómfrúarolíu saman við. Það drepur engan.


Rífið parmaskinkuna í bita.


Skerið laukinn smátt.


Steikið öll herlegheitin á stórri pönnu.



Steikið nautahakkið vandlega að utan, saltið og piprið. Bætið nautasoðinu saman við og sjóðið niður um helming. Því næst rjómanum og sjóðið aftur niður. 

Sé einhver afgangur af rauðvíni helgarinnar er kjörið að það fái að mæta örlögum sínum í þessari kjötsósu. Ef þið eruð að nota rauðvín gætið þess að að setja það bara á undan nautasoðinu og látið það sjóða rækilega niður. Eins mætti vandræðalaust bragðbæta þetta með tómatmauki en ég lét það vera þar sem mig langaði til að gera þessa kjötsósu alveg án tómata. 


Sjóðið svo sósuna niður þannig að hún verði þétt og falleg.


Á meðan sósan kraumar er spaghetti soðið í vel söltuðu vatni. Bætið nokkum matskeiðum af pastavatninu saman við kjötsósuna.


Ég notaði þessa bragðbættu jómfrúarolíu til að krydda það sem ég hafði sett á diskinn minn. Þessi er það bragðmikil að ég var ekkert að bæta henni út í alla sósuna. 


Með matnum fengum við okkur svo smá tár af þessu ljúffenga víni frá Andesfjöllunum. Þetta er vín frá síleanska framleiðendanum Concha y toro og kallast Terrunyo Carmenére. Þetta vín er einstaklega bragðmikið, með miklum sultuðum ávexti og kryddað á tungu. Hefði passað með góðri steik en það stóð sig svo sannarlega vel með þessum rétti!



Verði ykkur einstaklega að góðu! 


Endilega kíkið á þáttinn minn á Sjónvarpi Símans á fimmtudögum klukkan 20:10 eða í Sjónvarpi Símans Premium þar sem öll serían af Lambið og miðin er fáanleg.

------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment