Sunday 12 May 2019

Rifin "pulled" lambaframpartur með mangó-jalapenö aoili, steiktum svartbaunum og fersku kóríander


Þó það hljómi kannski pínu kjánalega þá er þessi máltíð raunverulega skyndibiti. Það tók ótrúlega lítin "virkan" tíma í eldhúsinu frá því að þessi réttur var undirbúinn og síðan borinn fram - tæpar 30 mínútur. Það verður þó að játast að biðtími var nokkur - en framparturinn var eldaður í rúmar fjórar klukkustundir. En þetta er líka einföld eldamennska. 

Þetta gladdi líka fjölskylduna - taco er alltaf í uppáhaldi. Og það er gaman að prófa ólík hráefni, prófa annarskonar grænmeti, baunir og mismunandi kjöt. Mér finnst eiginlega ekki hægt að bera fram tacó án þess að vera með einhverskonar baunir með - þær geta líka komið í staðinn fyrir kjötið óski maður þess. 

Rifin "pulled" lambaframpartur með mangó-jalapenö aoili, steiktum svartbaunum, tómatsósu og fersku kóríander

Það væri auðvitað hægt að nota tilbúna kryddblöndu en það er leikur einn að gera þetta sjálfur frá grunni. Mér finnst taco-krydd alltaf einkennast af broddkúmeni og því fær það auðvitað stórt hlutverk í minni blöndu. 

Hráefnalisti fyri 6 

1 lambaframpartur
6 msk jómfrúarolía
1 msk broddkúmen
1 msk papríkuduft
1 msk piparkorn
1 tsk cheyenne pipar
1 msk salt
1/2 msk kóríander 
1/2 msk laukduft
1/2 msk hvítlauksduft

1 dós svartar baunir
1 rauður laukur
2 hvítlauksrif 
2 msk jómfrúarolía
salt og pipar 
fersk steinselja

4 msk majónes
1/2 mangó
2 msk jalapenö
1 hvítlauksrifByrjaði á því að útbúa kryddblönduna. Kom kryddinu öllu fyrir í mortéli og steytti vandlega niður.


Svo var bara að nudda lambinu upp úr olíu og svo nóg af kryddblöndunni. 


Svo setti ég 250 ml af vatni í ofnpottinn, lokið á og inn í 170 gráðu heitan ofn í rúma fjóra tíma. 


Svo bjó ég til þetta geggjaða aioli. Skar mangó, hvítlauk og jalapenö smátt og blandaði saman við majónesið. Smakkaði til með salti og pipar.


Svo voru það baunirnar. Skar niður laukinn og hvítlaukinn og steikti við lágan hita í nokkrar mínútur. Skolaði baunirnar upp úr köldu vatni og bætti saman við. Saltaði og pipraði og bætti svo við smáræði af ferskri steinselju. 


Framparturinn var svo vel eldaður að kjötið var að detta af beinunum.


Kjötið var svo rifið gróflega með gaffli og blandað saman við vökvann sem hafði safnast fyrir í ofnskúffunni.


Kjötið var eins meyrt og hægt var að ímynda sér.


Ég prófaði að smakka þessa búkollu - Trapiche Malbec frá Mendóza héraði í Argentínu. Malbec er lang algengasta þrúgan sem ræktuð er til rauðvínsgerðar þar í landi. Þetta er ljómandi góður rauðvínssopi - ávaxtaríkt vín og með mildu  og ljúfu eftirbragði. Þetta var, sko, sannarlega veislumáltíð!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


No comments:

Post a Comment