Showing posts with label spínat. Show all posts
Showing posts with label spínat. Show all posts

Thursday, 23 May 2019

Mývatn og Tungulending, Lambið og miðin - Uppskriftir úr þætti eitt: Hverasoðin bleikja með stúfuðu spínati og snöggpæklaðri agúrku, mývetnsk snitta og bryggjubollur með kartöflu- og rófumús



Ég vona að þið hafið haft gaman af því að horfa á sjónvarpsþáttinn okkar. Við erum sannarlega stoltir af honum.

Þessar uppskriftir eru til viðmiðunar. Þeir sem fylgdust með þættinum tóku líklega eftir því að nákvæm mál voru aldrei notuð – heldur var farið meira eftir tilfinningu – og svo giskað á hversu mikið var notað.



Ég er þó nokkuð sannfærður um að ef farið verður eftir þessum uppskriftum sem hér fylgja verði úr einstaklega ljúffengar máltíðir.

Lambið og miðin - Uppskriftir úr þætti eitt: Hverasoðin bleikja með stúfuðu spínati og snöggpæklaðri agúrku, mývetnsk snitta og bryggjubollur með kartöflu- og rófumús

Hérna koma svo uppskriftirnar;

Gufusoðinn silungur á beði af stúfuðu spínati með snöggpæklaðri agúrku

Að elda í hver er auðvitað ekki á hvers manns færi. En fyrir þá sem eiga gufuofn er auðvitað leikur einn að herma eftir uppskriftinni. En íslensk bleikja verður ekkert síðri við að vera bökuð í heitum bakarofni. Sannið bara til.

Hráefni fyrir 4

Tvö silungsflök
1 sítróna
handfylli blandaðar kryddjurtir
50 g smjör
salt og pipar

150 g spínat
½ laukur
100 ml hvítvín
2 hvítlauksrif
skvetta af hvítvíni
50 g smjör
150 ml rjómi
handfylli ferskar kryddjurtir
skvetta sítrónusafi
salt og pipar

½ agúrka
100 ml hvítvínsedik
safi úr einni sítrónu
1 msk salt
1 msk sykur
pipar

500 g kartöflur
100 g smjör
salt og pipar
handfylli steinselja

Aðferð

1. Skerið agúrkuna í helminga og kjarnhreinsið. Skerið hana því næst í þunna strimla og leggið í skál.
2. Hellið edikinu yfir ásamt sítrónusafanum.
3. Blandið sykrinum, saltinu og piparnum saman við og látið standa í klukkustund til að mýkast.
4. Skerið sítrónu í sneiðar og leggið í ofnskúffu og leggið silungsflakið ofan á. Setjið handfylli af kryddjurtum undir flakið. Saltið og piprið, sáldrið afgangnum af kryddjurtunum ofan á.
5. Bakið í 200 gráður heitum ofni í 15 mínútur.
6. Til að útbúa spínatið byrjið þið á því að skera laukinn og hvítlaukinn og steikið upp úr heitu smjöri. Bætið víninu á pönnuna og látið sjóða upp og svo niður um helming.
7. Bætið næst við spínatinu og látið það visna á pönnunni um rúman helming áður en þið hellið rjómanum saman við.
8. Bætið kryddjurtum á pönnuna, salti og pipar og smá sítrónusafa og látið sjóða niður um helming.
9. Kartöflurnar eru soðnar á hefðbundinn hátt, velt upp úr bráðnu smjöri og kryddjurtum. Saltið og piprið.



Mývetnsk snitta

Kannski er rangt að kalla þetta snittu. Stærðin bendir heldur til þess að þetta sé opin samloka. Mér fannst þessi snitta einstaklega ljúffeng. Steinunn, móðir hans Antons, ráðlagði mér að skynsamlegra væri að skera brauðið aðeins þynnra. Næst held ég að ég geri það – hún veit, jú, hvað hún er að tala um. Svo er varla hægt að vera að tala um eldamennsku þegar maður þegar um það eitt er að ræða að raða áleggi ofan á brauð. En eggin voru, jú, elduð, þannig að það telst kannski með.

2 þykkar sneiðar gufusoðið rúgbrauð frá Mývatni
10 sneiðar af þunnt skorinni Mývatnsbleikju
3 andaregg
¼ rauðlaukur
2 msk sýrður rjómi
ferskt steinselja til skreytingar
ný ætihvönn (val)
salt og pipar

1. Brjótið eggin í skál, saltið og piprið, og þeytið saman með gaffli.
2. Steikið eggjakökuna upp úr smjöri, veltið henni á pönnunni þannig að hún verði um centimetri að þykkt. Setjið til hliðar og látið kólna.
3. Smyrjið rúgbrauðið með smjöri.
4. Leggið eggjakökuna ofan á og raðið því næst þunnt skornum silungi ofan á eggjakökuna.
5. Setjið sýrðan rjóma, smátt skorin rauðlauk, steinselju og ætihvönn (sé hún fyrir hendi).



Bryggjubollur úr kindahakki með kartöflu- og rófumús

Ég hef lengi velt vöngum yfir því af hverju þjóð sem hefur dregið fram lífið með því að ala upp sauðfé eigi ekki hafsjó af uppskriftum úr hökkuðu lambakjöti. En það er þá í okkar valdi að búa til nýjar “klassískar” uppskriftir. Eins og þessa.

Fyrir 6-8

Fyrir bollurnar

1 kg kindahakk
5-6 hafrakex
100 ml rjómi
1 msk kryddblanda að eigin vali
handfylli ferskar kryddjurtir – timjan, rósmarín, steinselja
1 tsk þurrkað blóðberg
1 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
2 andareggjarauður
salt og pipar
smjör til steikingar

Fyrir sósuna

250 g portobello sveppir
3 hvítlauksrif
½ hvítur laukur
1 glas rauðvín (eftir smekk)
1 msk tómatmauk
1 msk djion
salt og pipar

Fyrir kartöflu- og rófumúsina

1 kg kartöflur
1 rófa
200 g smjör
4 msk rjómaostur
salt og pipar

1. Brjótið kexið niður og bleytið upp í því með rjómanum.
2. Setjið allt hráefnið í kindabolluuppskriftinni saman í skál og blandið vel saman.
3. Hnoðið í bollur á stærð við golfbolta. Það er gott að olíubera hendurnar til að deigið klístrist ekki við mann.
4. Steikið bollurnar þangað til að þær eru brúnar að utan og takið svo til hliðar.
5. Skerið hvítlaukinn, laukinn og sveppina niður og steikið á sömu pönnu.
6. Fyrir þá sem vilja kraftmeiri sósu er um að gera að bæta rauðvíni á pönnuna. Og sjóða það niður um helming.
7. Bætið svo sýrða rjómanum á pönnuna, ásamt tómatmauki, djionsinnepi, salti og pipar. Tyllið svo bollunum ofan í sósuna til að elda þær í gegn.

Fyrir músina

1. Flysjið og sjóðið kartöflur og rófu.
2. Hellið vatninu frá og stappið svo smjör, rjómaost saman við vandlega.
3. Blandið rjómanum saman við og saltið og piprið eftir smekk.


Sérstakar þakkir við gerð þessara þátta fá eftirfarandi:

Anton Birgisson
Steinunn Ósk Stefánsdótti
Birgir V Hauksson
Sveitahótelið á Skútustöðum
Egill Sigurðsson
Kokka
Land Rover á Íslandi
Sölufélag Garðyrkjubænda
Sláturfélag Suðurlands

Einlægar þakkir, 
Ragnar

Friday, 19 April 2019

Geggjað kjúklingasnitzel með krydd- og skalottulaukssmjöri með bökuðum sætum kartöflum og spínati


Auðvitað ætti ég að vera elda ekta vínarsnitzel eftir þeirri aðferð sem ég lærði af Harald, yfirkokkinum á Das Seekarhaus skíðahótelinu í Obertauern. Hægt er að sjá hvernig við elduðum þá uppskrift á sjónvarpi Símans - nýju þættirnir mínir - Ferðalag bragðlaukanna - Alparnir -  voru að fara í loftið á Premium núna um páskana. Þeir verða sýndir fljótlega í línulegri dagskrá. 


En svona er það svo oft með matarupplifun. Ein uppskrift vekur manni innblástur og kveikir nýjar hugmyndir til að prófa að gera hana aðeins öðruvísi. Og þessi var talsvert öðruvísi að því leyti að ég notaði kjúkling í stað kálfakjötsins og djúpsteikti það frekar en að elda það í skírðu smjöri (sem er auðvitað besta leiðin). Og ég stoppaði ekki þar - þetta er gerólík uppskrift. 

Geggjað kjúklingasnitzel með krydd- og skalottulaukssmjöri með bökuðum sætum kartöflum og spínati

Fyrir fimm 

5 kjúklingabringur
hveiti
4 egg 
brauðmylsna 
hvítlauksduft
sítrónupipar
salt 

200 g smjör
2 hvítlauksrif
basil, steinselja
1 skalottulaukur
sítrónusafi 

2 sætar kartöflur
200 g spínat
1/2 dós fetaostur
4 msk hvítlauksolía
rósmarín
salt og pipar 


Það er gott að byrja að gera kryddsmjörið. Ég mýkti smjörið í örbylgjuofni í nokkrar sekúndur og blandaði svo við smáttskornum skalottulauk, hvítlauk og kryddjurtum saman við. Bætti sítrónusafa við og pipraði lítillega. Setti á bökunarpappír og vafði upp í karmellu og setti aftur inn í kælinn.


Næst voru það kartöflurnar. Þær voru flysjaðar og skornar í netta tenginga. Velt upp úr hvítlauksolíu, fersku rósmaríni og salti og pipar. Bakað í 180 gráðu heitum ofni í 45 mínútur. Þá var spínatinu bætt saman við, blandað varlega saman (svo að kartöflurnar yrðu ekki að mauki) og leyft að koðna niður með heitum kartöflunum. 


Það er mikilvægt að bragðbæta hveitið. Ég setti fullt af salti og sítrónupipar. 


Sama gildir um eggin, þau þarf að hræra saman með  örlitlu af vatni, salta og pipra. 


Kjúklingurinn er flattur út með kjöthamri (best er að setja hann í þykkan plastpoka og lemja hann varlega). Svo er settur í hveitið, svo eggið, því næst brauðmylsnuna ...


...og þaðan út í heita olínuna. Steikt í nokkrar mínútur.


Setti að lokum alla steiktu bitana í 180 gráðu heitan ofn í 10 mínútur.


Svo var að huga aftur að kartöflunum. Ég tók þennan fetaost og braut hann niður aðeins með gaffli. 


Svo muldi ég ostinn yfir kartöflurnar og spínatið. Skreytti með smáttskornum ferskum kryddjurtum, basil og steinselju.


Með matnum drukkum við Valiano 6.38 Chianti Classico frá því 2010. Þetta vín er gert að mestu úr Sangiovese þrúgu eins og einkennir flest vín frá Toskana en þetta er blandað með 10% Merlot. Þetta rauðvín er einkar bragðmikið - með ríkulegum ávexti, smá vanillu og piparkeim - ljúffengt og langt eftirbragð. 


Þetta var alveg einstaklega vel heppnaður réttur - lungamjúkur kjúklingur með fullt af kryddsmjöri.

Svo má líka prófa sig áfram með kalkúnn - það er líka einstaklega ljúffengt.


Verði ykkur að góðu. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Thursday, 24 October 2013

Smjörsteiktur lax með heitri balsamvinagrettu, hnetumulningi og þeyttu spínati.



Nú fer að líða að því að bókin mín verði aðgengileg í verslunum. Ég vona að þið, lesendur góðir, eigið eftir að kunna að meta hana. Nóg hafði ég gaman af því að búa hana til. Í bókinni eru margar af vinsælustu og bestu réttunum af blogginu mínu (allt í nýjum búning) og svo fjöldi nýrra uppskrifta. Það er ekkert betra en að elda mat - jú, kannski að borða ljúfengan mat. Fátt er meira verðlaunandi en að setjast niður með fjölskyldu og vinum við matarborðið og njóta þess sem maður hefur verið að sýsla í eldhúsinu og vonandi, já vonandi, verða allir saddir og sælir af því sem matreitt var. Fátt gleður mitt kokkahjarta meira!

Þessi réttur var einn af fyrstu réttunum á blogginu mínu, hann birtist 17. janúar 2008. Þá var ég að vinna sem deildarlæknir á blóðmeinafræðideildinni með frábærum kollegum og öðru samstarfsfólki. Mér er það afar minnistætt þegar Brynjar Viðarsson læknir sagði við mig að loknum stofugangi að hann og konan hans hefðu prófað réttinn og höfðu verið yfir sig sæl með niðurstöðuna. Þeir sem blogga, vita hvað svona athugasemdir vekja hjá manni mikinn eldmóð. Og það þarf ekki mjög margar jákvæðar athugasemdir til að gleðja mann.

Á næstu vikum mun ég verða með smá upprifjun á gömlum réttum af blogginu, að sjálfsögðu ú uppfærðum búningi. Sumir þeirra komust í bókina mína - en aðrir ekki. Þannig að nóg er í pípunum! Og auðvitað taka allir réttir einhverjum breytingum og þróast lítillega - nokkur skref áfram og fáein til hliðar, þannig er það nú bara. Þessi réttur varð, að ég held, aðeins betri við smávægilegar breytingar.

Smjörsteiktur lax með heitri balsamvinagrettu, hnetumulningi og þeyttu spínati.



Lax
1/2 skarlottulaukur
3 hvítlauksrif
1/2 rauðlaukur
1 msk cashew-, furu- og heslihnetur
6 msk jómfrúarolía
3 msk edik
2 msk smjör
Börkur of safi af hálfri sítrónu
300 gr spínat
Salt og pipar


Keypti lax frá Noregi - sem mun hafa verið sjóalinn. Ég er vanur að velja fremur sjóalinn eldislax. Hann hefur þó allavega fengið að synda á móti straumnum.



Skar laxinn í fjóra bita - hver biti sérsniðinn að óskum hvers fjölskyldumeðlims.



Svo var bara að undirbúa hráefnin. Byrjaði á því að skera hálfan skarlottulauk smátt.



Svo hálfan rauðan chilipipar sem ég hafði kjarnhreinsað. Og loks þrjú hvítlauksrif - smátt söxuð.



Tók rúma matskeið af cashew-, furu- og heslihnetum sem ég þurrristaði á heitri pönnu. Færði svo yfir í mortél og svo fékk Villi Bjarki að mylja þær gróft niður.



Næst var að steikja skarlottulaukinn, hvítlaukinn og chilipiparinn í þrem matskeiðum af góðri jómrúarolíu og einni matskeið af smjöri. Steikti í 3-4 mínútur og bætti svo við tveimur matskeiðum af olíu, tveimur af ódýrari tegund af balsamediki og svo einni af því góða (sem hafði fengið átta ár til að þroskast í tunnu - mun sætara) og leyfði að krauma á lágum hita. Vitaskuld var saltað og piprað. Bætti líka við söxuðum berki af hálfri sítrónu.



Setti matskeið af smjöri og olíu á heita pönnu og steikti laxinn fyrst í 5-6 mínútur með roðið niður og snéri síðan laxinum við og steikti í 3-4 mínútur til viðbótar, til að elda í gegn.



Bræddi smá smjör á pönnu og setti 300 gr af spínati á pönnuna sem verður fljótt að mauki. Hellti ríflegri matskeið af sherríi á pönnuna og sauð upp. Saltaði og pipraði.



Það er mikilvægt að hella smjörinu yfir laxinn á meðan hann er að steikjast. Þannig tryggir maður að roðið verði stökkt. Saltaði og pipraði og dreifði að lokum safa úr hálfri sítrónu yfir hjúpinn.



Villi sá um að skera tómatana. Keypti blöndu af rauðum, gulum og svo grænum tómötum til að setja í salat með nokkrum söxuðum grænum laufum.


Skvetti jómfrúarolíu yfir salatið, saltaði og pipraði og að lokum var smá sítrónusafa dreift yfir.



Svo var ekkert annað að gera en að raða á diska. Fyrst spínatið. Svo laxinn. Og svo rausnarlega af heitri vinagrettunni. Að lokum sáldraði ég hnetumylsnunni yfir réttinn. 


Með matnum drukkum við smáræði af hvítvíni. Ekki er annað hægt þegar um svona veislumat er að ræða. Ég átti flösku af Cloudy Bay Chardonnay sem er hreint afbragð og við höfum drukkið nokkrum sinnum áður. Þetta vín er fallega sítrónugult í glasi, ávaxtaríkt á tungu með keim af eplum, sítrónum - smjörkennt með góðu og mildu eftirbragði. Hvítvín getur verið það eina rétta á vissum stundum.



Skreytt með myntulaufi.

Tími til að njóta!



Það held ég nú!

Friday, 29 March 2013

Ljómandi ítalskt canneloni með heimagerðum ríkotta osti, spínati og tómatsósu

Við fengum góða gesti í heimsókn í Púkagrandann í Lundi. Tengdafaðir minn, Eddi, kom í hádeginu frá Íslandi ásamt uppáhalds frænku dóttur minnar, Petru. Valdís er mikið búin að hlakka til að fá frænku sína í heimsókn. Við ætlum að reyna að hafa gaman um páskanna. Á föstudaginn stefnum við yfir sundið og munum reyna að heimsækja nýja sædýrasafnið - Bláu plánetuna - sem nýlega opnaði dyr sínar. Á laugardaginn verður svo skotist í sundlaugina í Eslöv sem er afar vönduð og svo verður auðvitað almennt sælgætisát á sunnudaginn.

Ég trúi því að eitthvað verði á hlóðunum um hátíðirnar! Tengdafaðir minn stendur vaktina í kvöld og er með danskan "husmannskost" - ofnbakaða grísasíðu með karmelliseruðu hvítkáli. Á morgun verður svo sennilega heimagerðar flatbökur, á laugardaginn andaleggir á linsubaunabeði og á sunnudaginn, að sjálfsögðu, lambakjöt (hugmyndavinna ennþá í gangi). Við munum seint svelta!

Þennan rétt hef ég lengi ætlað að gera. Venjulega gerir maður þennan rétt með Bechamél sósu en rétturinn verður talsvert léttari við að gera bara tómatsósu í staðinn. Og verður sennilega ekki verri fyrir vikið. Það var engin ríkotta ostur til í búðinni þannig að ég tók bara á það ráð að búa hann til. Það er miklu einfaldara en margan grunar. Ekki þarf neinn ostahleypi (rennet) heldur einvörðungu sítrónusýru og svo salt eftir smekk - og svo tekur þetta ekki nema rétt rúman hálftíma!

Ljómandi ítalskt canneloni með heimagerðum ríkotta osti, spínati og tómatsósu

Það þarf að byrja að útbúa ríkotta ostinn. Þetta er ferskur ostur og tekur undravert stuttan tíma að gera.




Fjórir lítrar af nýmjólk settir í pott. Einni tsk af sítrónu sýru og einni tsk af salti bætt útí og hrært vel saman við.




Hitað að 90 gráðum. Tekið af hitanum og látið standa í fimm mínútur þangað til að osturinn skilur sig frá mysunni.



Hellt í gegnum gasbleyju og hengt upp í hálftíma til að þorna.



Það má láta ostinn hanga lengur til að þorna enn frekar.



Til að útbúa fyllingu þarf 250 gr af spínati. Setjið í skál.



Bætið við ostinum og svo handfylli af steinselju, tveimur til þremur msk af basil, nóg af salti og pipar. Blandið vel saman.




Næst er að útbúa tómatsósuna. Byrjið á því að taka einn stóran rauðan lauk -  smátt skorinn, fjögur stór hvítlauksrif hökkuð niður, steikt upp úr jómfrúarolíu þangað til mjúk. Bætti síðan við tveimur dósum af niðurskornum tómötum, þremur msk af tómatsósu, tveimur msk af balsamik ediki, salti og pipar. Soðið niður um 1/3 - tekur um 20 mínútur.


Penslið eldfast mót með olíu og setjið helminginn af tómatsósunni í botninn á mótinu. Fyllið síðan canneloni pastað með fyllingunni og raðið í mótið.


Lítur vel út, ekki satt?



Hellið síðan restinni af tómatsósunni yfir.




Sáldrið 150 gr af osti yfir tómatsósuna.



Bakið í forhituðum ofni, 180 gráður, í 30 mínútur þangað til að osturinn er gullinnbrúnn og girnilegur.


Borið fram með einföldu salati, heitum brauðhleif. Dreifið smá rifnum parmaosti yfir. 

Með matnum drukkum við tár af ítölsku víni sem ég hafði aldrei smakkað áður, Marchese Chianto Classico Riserva frá því 2008. Þetta var algerlega ljúffeng flaska - ætli ég hafi ekki fengið hana í gjöf frá einhverjum - þakka þeim! Þetta er berjaríkt og djúpt vín - í þurrari kantinum með ágætum tannínum. Þegar maður skoðar þetta vín á netinu fær það gjarnan yfir 90 punkta. 

Maturinn var einstaklega ljúffengur. Hvet alla til að prófa þennan rétt og endilega reynið að gera eigin ost.  Þið verðið ekki svikin!

Bon appetit!

Tuesday, 27 March 2012

Holy crepes: Dásamlegar fylltar pönnukökur með heimagerðum ríkottaostiog spínati

Síðustu dagar hafa verið ljúfir hérna í Lundi. Vorið hefur aldeilis látið á sér kræla og í dag hefur verið glampandi sól. Við sváfum frameftir morgni og eyddum drjúgum hluta dagsins að snurfusa í garðinum. Næstu helgi ætla ég að gera mér ferð til Flyinge þar sem er fallegt gróðurhús og kaupa inn kryddjurtir, kartöfluútsæði og fleira í garðinn minn. Það er ekki seinna vænna en að fara að búa í haginn fyrir sumarið. Það verður komið áður en við vitum af!

Ég hef lengi verið aðdáandi alls þess sem á rætur að rekja í Frakklandi. Núna eins og oft áður er ég að hlusta á tónlistina úr bíómyndinni Amelie en þar semur og flytur Yann Tiersen stærsta hlutann. Hann er í miklu uppáhaldi hjá mér. Talandi um Frakkland þá eiga crepes rætur að rekja þangað - og þær eru vissulega ljúffengar - ætli íslensku pönnsurnar séu ekki úr franska eldhúsinu. Ég hef margoft eldað crepes - oftast á laugardagsmorgnum þegar ég hræri í þunnt deig og steiki eina pönnuköku sem ég ber fram smurða með dijonsinnepi, skinkusneið, osti og svo einu steiktu eggi. Fullkomnun á diski.

Innblásturinn að þessum rétt er fenginn frá nýjum vini mínum handan Atlantsála - kvikmyndagerðarmanninum Þorkeli Harðarsyni. Við kynntust í tengslum við heimasíðu mína og höfum meira að segja spjallað saman á skype í kjölfarið um ýmsar hugmyndir okkar um matargerð, ást okkar á mat og hvernig best væri að miðla áhugamálum sínum. Hann býr í Brooklyn í New Yor þar sem hann eldar - á milli þess sem hann gerir ýmsar kvikmyndir (og hefur unnið Edduna fyrir mynd sína - Featered Cocaine). Hann eldar gómsæta rétti, og jafnvel selur þá, í gegnum heimasíðuna sína - cookinggoodinthehood.com. Fyrir tveimur vikum var hann að elda fylltar pönnukökur með ricottaosti, spínati og sveppum - og það var svo girnilegt að ég varð hreinlega að stela hugmynd hans og prófa sjálfur. Þorkell... takk fyrir mig!

Holy crepes: Dásamlegar fylltar pönnukökur með heimagerðum ríkottaosti og spínati
Kvöldið áður gerði ég ricottaost. Sem er einfaldara en margan grunar. Ég hafði í fyrra keypt hráefni frá sjálftitlaðri drottningu ostagerðar, Ricki Carroll - the cheesemaking Queen of New England.



Fyrsta sem ég gerði var að hella 4 lítrum af nýmjólk í hreinan stálpott. Bætti útí 1 tsk af sítrónusýru og 1 tsk af salti (cheese salt - sem ég held að sé bara venjulegt salt!). Hitaði upp að 90 gráðum og hrærði vel í á meðan. Mjólkin fer að skilja sig um þetta leyti og þá slekkur maður undir pottinum og lætur standa í 5-10 mínútur. Þá setur maður "butter muslin" í sigti (hugsa að maður gæti bara notað hreina bómullarbleyju - að sjálfsögðu hreina!!!) og hellir vökvanum í gegn. Eftir situr osturinn sem ég lét síðan hanga í 30-40 mínútur í vaskinum. Og úr varð þessi frábæri ríkottaostur - sem tók innan við klukkustund að útbúa! Settur í kæli þangað til daginn eftir.

Næsta skref var að útbúa pönnukökurnar - hvaða íslenska pönnukökuuppskrift myndi ganga vel hérna, nema hvað að ég myndi sleppa því að bæta sykri saman við!



Ég setti alltént einn bolla af hveiti, 1/2 tsk salt, 1/2 tsk lyftiduft, 1 msk olíu, 1 egg og einn bolla af mjólk og hrærði vel saman. Steikt á pönnu eins og lög gera ráð fyrir og lagði á disk.



Skar niður 20 skógarsveppi sem ég steikti í 2 msk af kraftmikilli hvítlauksolíu ásamt einum smátt skornum rauðlauk. Þegar sveppirnir voru eldaðir og laukurinn var mjúkur bætti ég saman við 300 gr af fersku þvegnu spínati sem fékk að sjóða niður þannig að það koðnar niður í pönnuna - og rýrnar um hartnært 80 prósent.



Þá setti ég sveppa- og spínatblönduna í skál og muldi heimagerða ríkottaostinn samanvið. Bætti við nóg af salti og pipar og kannski 3 msk af góðri jómfrúarolíu. Hrærði vel saman við. Smakkaði til!



Þá var ekkert annað eftir en að fylla pönnukökurnar. Setti væna matskeið af fyllingu í miðjuna á hverri köku og braut þær svo saman.



Næst var að setja kökurnar í ofnskúffu og baka í ofni í 20 mínútur við 180 gráður til að bræða ostinn. Á meðan gerðum við þessa ótrúlega einföldu tómatsósu. Skar niður hálfan hvítan lauk, 1 hvítlauksrif og steikti í 5 mínútur. Bætti síðan við einni dós af niðursoðnum tómötum. Salt, pipar, balsamedik og síðan smáræði af sykri (en bara ef tómatarnir eru í súrari kantinum...breytilegt eftir tegund).



Með matnum fengum við okkur smá tár af þessari ágætu búkollu sem ég sótti nýverið þegar ég skaust yfir brúna yfir til Danmerkur. Ég fann þessa í einni af búðunum í grenndinni við Kastrup. Þetta er ljómandi góð búkolla. Er framleidd á Sikiley á Ítalíu. Þetta er fremur létt Chardonnay vín. Ilmar af ávöxtum, melónu. Létt á tungu - ávaxtakennt og þurrt. Prýðisvín! Og var svo sannarlega ekki dragbýtur á máltíðina!



Bárum fram með ákaflega litríku salati. Græn lauf, niðurskornir tómatar og mislitar papríkur.

Einfalt...ekki satt!

Tími til að njóta!