Tuesday 27 March 2012

Holy crepes: Dásamlegar fylltar pönnukökur með heimagerðum ríkottaostiog spínati

Síðustu dagar hafa verið ljúfir hérna í Lundi. Vorið hefur aldeilis látið á sér kræla og í dag hefur verið glampandi sól. Við sváfum frameftir morgni og eyddum drjúgum hluta dagsins að snurfusa í garðinum. Næstu helgi ætla ég að gera mér ferð til Flyinge þar sem er fallegt gróðurhús og kaupa inn kryddjurtir, kartöfluútsæði og fleira í garðinn minn. Það er ekki seinna vænna en að fara að búa í haginn fyrir sumarið. Það verður komið áður en við vitum af!

Ég hef lengi verið aðdáandi alls þess sem á rætur að rekja í Frakklandi. Núna eins og oft áður er ég að hlusta á tónlistina úr bíómyndinni Amelie en þar semur og flytur Yann Tiersen stærsta hlutann. Hann er í miklu uppáhaldi hjá mér. Talandi um Frakkland þá eiga crepes rætur að rekja þangað - og þær eru vissulega ljúffengar - ætli íslensku pönnsurnar séu ekki úr franska eldhúsinu. Ég hef margoft eldað crepes - oftast á laugardagsmorgnum þegar ég hræri í þunnt deig og steiki eina pönnuköku sem ég ber fram smurða með dijonsinnepi, skinkusneið, osti og svo einu steiktu eggi. Fullkomnun á diski.

Innblásturinn að þessum rétt er fenginn frá nýjum vini mínum handan Atlantsála - kvikmyndagerðarmanninum Þorkeli Harðarsyni. Við kynntust í tengslum við heimasíðu mína og höfum meira að segja spjallað saman á skype í kjölfarið um ýmsar hugmyndir okkar um matargerð, ást okkar á mat og hvernig best væri að miðla áhugamálum sínum. Hann býr í Brooklyn í New Yor þar sem hann eldar - á milli þess sem hann gerir ýmsar kvikmyndir (og hefur unnið Edduna fyrir mynd sína - Featered Cocaine). Hann eldar gómsæta rétti, og jafnvel selur þá, í gegnum heimasíðuna sína - cookinggoodinthehood.com. Fyrir tveimur vikum var hann að elda fylltar pönnukökur með ricottaosti, spínati og sveppum - og það var svo girnilegt að ég varð hreinlega að stela hugmynd hans og prófa sjálfur. Þorkell... takk fyrir mig!

Holy crepes: Dásamlegar fylltar pönnukökur með heimagerðum ríkottaosti og spínati
Kvöldið áður gerði ég ricottaost. Sem er einfaldara en margan grunar. Ég hafði í fyrra keypt hráefni frá sjálftitlaðri drottningu ostagerðar, Ricki Carroll - the cheesemaking Queen of New England.Fyrsta sem ég gerði var að hella 4 lítrum af nýmjólk í hreinan stálpott. Bætti útí 1 tsk af sítrónusýru og 1 tsk af salti (cheese salt - sem ég held að sé bara venjulegt salt!). Hitaði upp að 90 gráðum og hrærði vel í á meðan. Mjólkin fer að skilja sig um þetta leyti og þá slekkur maður undir pottinum og lætur standa í 5-10 mínútur. Þá setur maður "butter muslin" í sigti (hugsa að maður gæti bara notað hreina bómullarbleyju - að sjálfsögðu hreina!!!) og hellir vökvanum í gegn. Eftir situr osturinn sem ég lét síðan hanga í 30-40 mínútur í vaskinum. Og úr varð þessi frábæri ríkottaostur - sem tók innan við klukkustund að útbúa! Settur í kæli þangað til daginn eftir.

Næsta skref var að útbúa pönnukökurnar - hvaða íslenska pönnukökuuppskrift myndi ganga vel hérna, nema hvað að ég myndi sleppa því að bæta sykri saman við!Ég setti alltént einn bolla af hveiti, 1/2 tsk salt, 1/2 tsk lyftiduft, 1 msk olíu, 1 egg og einn bolla af mjólk og hrærði vel saman. Steikt á pönnu eins og lög gera ráð fyrir og lagði á disk.Skar niður 20 skógarsveppi sem ég steikti í 2 msk af kraftmikilli hvítlauksolíu ásamt einum smátt skornum rauðlauk. Þegar sveppirnir voru eldaðir og laukurinn var mjúkur bætti ég saman við 300 gr af fersku þvegnu spínati sem fékk að sjóða niður þannig að það koðnar niður í pönnuna - og rýrnar um hartnært 80 prósent.Þá setti ég sveppa- og spínatblönduna í skál og muldi heimagerða ríkottaostinn samanvið. Bætti við nóg af salti og pipar og kannski 3 msk af góðri jómfrúarolíu. Hrærði vel saman við. Smakkaði til!Þá var ekkert annað eftir en að fylla pönnukökurnar. Setti væna matskeið af fyllingu í miðjuna á hverri köku og braut þær svo saman.Næst var að setja kökurnar í ofnskúffu og baka í ofni í 20 mínútur við 180 gráður til að bræða ostinn. Á meðan gerðum við þessa ótrúlega einföldu tómatsósu. Skar niður hálfan hvítan lauk, 1 hvítlauksrif og steikti í 5 mínútur. Bætti síðan við einni dós af niðursoðnum tómötum. Salt, pipar, balsamedik og síðan smáræði af sykri (en bara ef tómatarnir eru í súrari kantinum...breytilegt eftir tegund).Með matnum fengum við okkur smá tár af þessari ágætu búkollu sem ég sótti nýverið þegar ég skaust yfir brúna yfir til Danmerkur. Ég fann þessa í einni af búðunum í grenndinni við Kastrup. Þetta er ljómandi góð búkolla. Er framleidd á Sikiley á Ítalíu. Þetta er fremur létt Chardonnay vín. Ilmar af ávöxtum, melónu. Létt á tungu - ávaxtakennt og þurrt. Prýðisvín! Og var svo sannarlega ekki dragbýtur á máltíðina!Bárum fram með ákaflega litríku salati. Græn lauf, niðurskornir tómatar og mislitar papríkur.

Einfalt...ekki satt!

Tími til að njóta!

1 comment:

  1. Raggi,.. það er allt girnilegt sem þú gerir. Ég veit að það yrði ábyggilega missir fyrir læknastéttina en persónulega finnst mér þú á rangri hillu í lífinu....

    ReplyDelete