Tuesday 6 March 2012

Ofnbökuð rauðspretta með púrrulauks og rækjuhjúp ásamt hrísgrjónum og einföldu salati



Þá er maður kominn heim til Lundar. Við lögðum af stað úr Ölpunum á föstudagseftirmiðdaginn síðastliðinn eftir dásamlegan skíðadag í glampandi sól! Þetta hefur verið alveg frábært vetrarfrí - það er svo gott að geta slúttað vetrinum á þennan hátt. Við lögðum af stað frá Skáni í vetrarhjúpnum og vorum rúmar tvær vikur í burtu. Þegar heim var komið getur maður vænst þess að sjá fyrstu teikn vorsins. Snjórinn var horfinn og fuglarnir eru farnir að tísta. Það var þó ennþá kalt þegar ég hljólaði á lestarstöðina í morgun en leiðin lá til Helsingborgar þar sem ég er í verknámi í stjórnun einu sinni í viku samhliða öðru námi.

Næstu vikurnar verður reynt að elda hollan, jafnvel mjög hollan mat - til að venda kvæði okkar í kross eftir tveggja vikna dvöl í Ölpunum. Það er auðvitað góð útivist að vera á skíðum frá morgni til kvölds en matarræðið - það verður seint hægt að kenna það við hollustu - eða hvað þá með allan þá bjórinn!

Þannig að nú er búin að leggja upp með smávegis plan næstu vikurnar. Hollusta verður lykil hráefnið í uppskriftum næstu vikna. Auðvitað þarf að lauma með syndinni af og til, en það verður þá bara á laugardagskvöldum. Svona eins og laugardagsnammið!

Ofnbökuð rauðspretta með púrrulauks og rækjuhjúp ásamt hrísgrjónum og einföldu salati
Rauðspretta er ein af þeim fisktegundum sem maður getur fengið hérna á Skáni og nokkurn veginn treyst því að fiskurinn er af góðum gæðum. Fiskurinn er mikið veiddur hérna í kringum Skán sem tryggir að maður fær nokkuð góðan fisk. Annars er engin fiskur eins góður og sá íslenski. Ég var núna að prófa að panta hjá fyrirtæki í Malmö sem selur íslenskan fisk. Jóhanna var með verslun í Malmö sem því miður hefur verið lokað. Ég náði að versla hjá henni einu sinni áður en hún lokaði og keypti þessi fyrirtaks þorskshnakkastykki. Hún er þó ekki af baki dottin - núna er hún með fisk í heimkeyrslu. Ég var að panta hjá henni - gallerifisk.se - og fæ það sent um næstu helgi. Hlakka til að borða meira af góðum íslenskum fiski. Kannski að mér detti í hug einhverjar góðar nýjar uppskriftir sem ég get skellt hérna inn á vefinn. Í versta falli stel ég þeim frá einhverjum öðrum!






Ég var með þrjár tegundir af laukum. Einn heilan stóran púrrulauk, einn rauðlauk og 3 hvítlauksrif ásamt einni stöng af selleríi. Allt þetta var skorið niður í sneiðar og steikt við lágan hita í smávegis smjöri/jómfrúarolíu í 15 mínútur þar til grænmetið var vel mjúkt.






Ég náði meira að segja að "tossa" grænmetinu á pönnunni með vinstri og taka mynd! Síðan bætti ég við einni lítilli dós (180 ml) af léttum creme fraiche, 100 ml af vatni, smá fljótandi fiskkrafti, nóg af salt og pipar og svo smáræði af agave sírópi.



Lagði fjögur rauðsprettuflök í ofnskúffu sem ég hafði penslað með smáræði af hvítlauksolíu. Saltað og piprað eins og lög gera ráð fyrir. Mín skoðun er sú að það þarf að salta/pipra rækilega til að draga fram það góða bragð sem er af matnum, lyfta því aðeins upp - en ég er auðvitað ekkert einn um þá skoðun!



Þegar sósan hafði soðið niður í 3-4 mínútur og var orðin þykk skóf ég hana upp með stórri skeið og lagði ofan á hvert rauðsprettuflak. Setti síðan rúmlega 40-50 gr af rækjum ofan á hvert flak.







Með matnum fékk ég mér smá lítilræði af hvítvíni. Þegar maður er að elda góðan mat þá virðist það bara kalla á að fá sér að minnsta kosti eitt glas af ágætu víni. Rétt svona til að væta kverkarnar - svo er líka ágætt að trappa sig rólega niður frá brjóstbirtunni úr Ölpunum! Þetta er ágætis búkolla. Þetta vín er frá Chile - uppskeran frá því í fyrra, 2011. Þetta er ljómandi sopi, mjúkt og fínt. Kraftmikill ávöxtur og sítruskeimur sem er í góðu jafnvægi. Fínt vín!



Maturinn var borinn fram með jasmín hrísgrjónum og mjög svo einföldu salati sem var bara hent saman á síðustu stundu, nokkur blönduð græn lauf og niðurskorin tómatur. Það þurfti ekkert meira þar sem það var talsvert af grænmeti í réttinum sjálfum.

Tími til að njóta!

2 comments:

  1. Páll Magnússon7 March 2012 at 14:25

    Takk fyrir þetta - og fleira gott. En hvað hafðirðu flökin lengi inni í ofninum og við hvaða hitastig?

    ReplyDelete
  2. Ragnar Freyr Ingvarsson7 March 2012 at 14:34

    Saell Pall.

    Takk fyrir spurninguna. Baeti thessu inn i a eftir. 200 gradur i 15 min.

    mbk, Ragnar

    ReplyDelete